Beint í efni

Englaryk

Englaryk
Höfundur
Guðrún Eva Mínervudóttir
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Skáldsögur

Um Englaryk:

Boulanger-fjölskyldan í Stykkishólmi er til meðferðar hjá geðlækninum Snæfríði Björnsdóttur. Eftir að dóttirin Alma hitti Jesú í sumarfríi fjölskyldunnar á Spáni fór hversdagslífið úr skorðum. Þegar Alma einsetur sér að fylgja fordæmi frelsarans — bjóða hinn vangann og hjálpa sínum minnsta bróður — hrindir hún af stað atburðarás sem hneykslar bæjarbúa. Foreldrarnir taka í taumana og er ráðgjöfinni ætlað að koma Ölmu aftur niður á jörðina. Hjá Snæfríði verða hins vegar allir í fjölskyldunni að horfast í augu við eigin breyskleika og uppgjör er óumflýjanlegt.

Úr Englaryki:

Þú segir það, sagði Snæfríður og beindi orðum sínum til Antons. En hvað er tilgerð? Spurði hún og svaraði sér sjálf: Tilgerð er það að draga ekki aðeins að sér áhrif úr eigin menningu og tíðaranda heldur líka úr óvæntum áttum.

Hún lagði frá sér pennann og blokkina og stóð á fætur, tók sér stöðu fyrir aftan stólinn, spennti greipar og lét þær nema við hökuna. Sérkennileg líkamstjáning sem Pétri varð starsýnt á. Hann dró af henni þá ályktun að Snæfríður tilbæði vitsmunalegt tal af þessu tagi, líkt og faðir hans hafði gert, heilaga skilgreiningu hugtaka og nákvæmnislegar málalengingar.

Frumlegir og forvitnir unglingar eru einmitt oft sakaðir um tilgerð því um leið og söguvitund þeirra eykst og vitneskja um heiminn verða þeir fyrir áhrifum og nota kannski orðalag sem þeim þykir flott en hljómar óeðlilega í nútímanum, sagði hún. Þeir klæða sig þá öðruvísi en aðrir eða finna sér áhugamál sem koma öðrum spánskt fyrir sjónir.

Heh! heyrðist í Pétri.

Ég var sjálf óskaplega tilgerðarleg, hélt Snæfríður áfram og tyllti höndunum á stólbakið. Ég gekk með vasaúr í keðju öll menntaskólaárin. Og nóbelskáldið okkar, Laxness, var tilgerðarlegasta ungmenni sem sögur fara af. Ég myndi segja að tilgerð hafi á sér óþarflega slæmt orð, ólíkt sérviskunni, en samt eru þær hér um bil það sama. Það má kannski segja að tilgerð sé verðandi sérviska. Bernsk sérviska.

Anton kinkaði ringlaður kolli og fann dálítið til sín. Hann var ekki vanur því að vera tekinn svona alvarlega, að eitthvað sem hann sagði væri haft sem grundvöllur að umræðu sem þó snerist ekki um að betra hann sjálfan.

Ég skil þig ekki alveg, sagði Sigurbjartur. Hver er þá munurinn á tilgerð og sérvisku?

Snæfríður sleppti stólbakinu og gekk út að glugganum. Þetta var ávani sem þau áttu oft eftir að verða vitni að á komandi vikum og mánuðum. Hún sneri sér við og sagði: Ég myndi segja að tilgerð væri eitthvað sem við mátum við okkur en sérviska væri samofin persónu okkar.

(24-5)

Fleira eftir sama höfund

Allt með kossi vekur

Lesa meira

Rencontres

Lesa meira

Les pieds de la libraire

Lesa meira

Il circo dell arte e del dolore

Lesa meira

The Creator

Lesa meira
útsýni

Útsýni

Sigurlilja er ung kona „sem passar ekki inn í normið“, eins og móðir hennar segir, og gædd óvenjulegri gáfu sem einfaldar ekki líf hennar.
Lesa meira

Essay on Happiness (brot)

Lesa meira

Skaparinn

Lesa meira