Úr Góða ferð, Sveinn Ólafsson:
Ég sest við skrifborðið mitt og horfi á fálkann, tek báðum höndum um stöpulinn og sný honum rólega. Þandir vængirnir strjúkast við andlit mitt og goggurinn gapir við ennið á mér. Ég vildi óska þess að hann væri lifandi. Þá myndi ég sleppa honum. Og hann myndi kannski fljúga alla leið vestur til pabba, þar sem fjöllin eru svo há og firðirnir svo djúpir. Ég vildi óska. Ég óska.
Hvað hafði eiginlega komið fyrir hana Ölmu? Hvers vegna hafði hún lokað sig inni í dúfnakofanum? Var hún að skrópa í skólanum einsog ég og breytast í vandræðabarn og svartan sauð? Hvaða vandamál eru hugsanleg í hennar lífi, hjá hennar fjölskyldu? Ég get ekki ímyndað mér hvað það ætti að vera. Alma ætti bara að vita hvernig mér er búið að líða. Ekki fór ég að reykja og drekka mig fullan þó mér liði illa. Hún er bara krakki, bara barn. En kannski er það einmitt það sem er vandamálið.
Að hætta að vera barn, það er kannski mesta reynsla í lífinu. En hvað er að vera fullorðinn og hvenær hættir maður að vera barn? Kannski er lífið ekki ferðalag eftir beinum vegi, frá fæðingu til fullorðinsára, einsog ég hélt, heldur hringferð úr einni vöggu í aðra, frá einni barnæsku til hinnar næstu, þar til maður er lagður til hvílu í hinsta sinn í gröfina, einsog sofandi ungbarn. Ef til vill á maður ekki að hætta alveg að vera barn, heldur miklu frekar að verða betra barn, eftir því sem maður eldist. Og kannski er það fyrst þá, að maður telst fullorðinn, þegar maður hefur náð því marki að vera fullkomið barn.
(s. 170-171)