Beint í efni

Vetrareldur

Vetrareldur
Höfundur
Friðrik Erlingsson
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
1995
Flokkur
Skáldsögur

Úr Vetrareldi:

 Lilja olli henni áhyggjum. Það var einsog samruni hins stríðandi blóðs úr foreldrunum hefði skapað furðuveru úr sólarljósi og mánaskini. Guðrún gat aldrei áttað sig á þessu barni. Frameftir öllum aldri hélt hún engum mat niðri nema helst vökva, leit ekki við kjöti, nartaði í fiskinn. Henni varð óglatt af kartöflum. Hún þoldi ekki ullarföt eða vaðmál, reif það allt utanaf sér en tók ástfóstri við þunnan bómullarkjól og vildi vera berfætt. Móðir hennar mátti aldrei greiða henni. Lilja sagði að hún væri harðhent og greiddi sér sjálf frá því hún fyrst gat haldið á greiðu. Þegar Guðrún heyrði dag einn ómennskt öskur fyrir utan húsið og hljóp út, vissum að barnið hefði dottið og brotið í sér hvert bein, þá hafði ekki annað gerst en það að tveir mávar höfðu flogið gaggandi yfir himininn, hátt uppi yfir stúlkunni og hrætt úr henni líftóruna. Hún lék sér ekki einsog önnur börn, eða réttara sagt; hún lék sér ekki. Hún talaði við blómin, elskaði flugur og fiðrildi og fléttaði körfur úr stráum, klæddi þær með fífum úr mýrinni og sagði að þetta væru rúm fyrir litla fólkið sem ætti heima í hvamminum fyrir ofan húsið. Guðrún hafði aldrei heyrt um álfa í hvamminum, sagði henni að hætta þessari vitleysu og vildi kenna henni að prjóna. En Lilja gat ekki setið við að prjóna. Það var ekki fyrr en móðir hennar gaf henni útsaumsbút og marglita þræði að stúlkan sökkti sér ofaní handíðir. Reyndar var ekkert af því til neins brúks en hún hætti að minnsta kosti að tala um álfa á meðan. Hún var móður sinni ráðgáta og það var óvinnandi vegur að fá hana til að sinna húsverkum. Leynimýrarkynið fór sínu fram og tók lífsgleðina og frelsið fram yfir búksorgir og armæðu. Þær voru afar ólíkar mæðgurnar; önnur köld hin heit, önnur þung hin létt, önnur barðist við lífið á meðan hin lék sér í því. Það var aðeins í svartasta skammdeginu sem Lilja leitaði skjóls hjá móður sinni. Hún var hrædd við myrkrið og þoldi ekki kuldann. Hún grét þegar blómin fölnuðu á haustin og fyrsti snjórinn féll. Þá gat mamma ein veitt henni huggun og skjól og aumkað sig yfir þessa undarlegu veru, sem hafði villst í heiminn á röngum tíma og á röngum stað, gaf henni kandísmola og leyfði henni að sofa undir sænginni hjá sér.

(s. 18-20)

Fleira eftir sama höfund

Benjamín dúfa

Lesa meira

Bróðir Lúsifer

Lesa meira

Litla lirfan ljóta

Lesa meira

Litla lirfan ljóta

Lesa meira

Vetrareldur

Lesa meira

Afi minn í sveitinni

Lesa meira

Benjamin due

Lesa meira

Benjamín dúfa

Lesa meira

Benjamín dúfa

Lesa meira