Úr Gullinu í höfðinu:
Það er hægt að vera miðlungsgeðveikur og fá að vera í friði með það, en allt fyrir ofan miðlung fær ekki að vera í friði og þarf þess helst ekki, margir verða sjálfum sér hættulegir og það er ekki rétt einhvern veginn að drepa sjálfan sig. Mér skilst að ættingjum leiðist þetta líka. Ég skil þá vel, ekki vildi ég þurfa að vera þetta fólk sem er að ganga frá og þrífa á þeim stöðum hérna þar sem fólk hefur verið að gera eitthvað við sig eða gera öðrum eitthvað.
Fyrsta vísbending var einföld, það þurfti mikið afl til þess að gera þetta, afl sem ég vissi að Vigga hefði ekki ein. Önnur vísbending var sú að ég fékk alltaf verk í mjóbakið þegar ég gekk fram hjá herberginu þar sem hún fannst með skærin í sér. Og enn ein vísbending voru skærin. Skæri voru ekki aðgengileg öllum en samt gátu allir náð í þau ef þá langaði til þess. Það er víst allt hægt ef maður bara vill sagði einn af gömlu læknunum alltaf, en ég held að hann hafi bara langað til þess að þetta væri satt. Mér fannst oft eins og hann væri hræddastur við að einvher myndi svara honum einn daginn og segja honum að það væri nú varla til lélegra mottó á geðdeild. En núna gat ég látið orð gamals læknis verða mér að leiðarljósi.
(s. 109-110)