Úr Hanna María og leyndarmálið:
,,Jæja, þá ætla ég að segja þér leyndarmál. Bráðum eignast þú lítinn bróður eða litla systur.”
,,Er það satt,” sagði Hanna og augun í henni ljómuðu.
,,Já, en það er nú leyndarmál enn, ég vildi að þú fengir fyrst af öllum að vita það.”
,,En pabbi?” spurði Hanna.
“Auðvitað veit pabbi þinn það, flónið mitt,” sagði Ninna brosandi, “pabbarnir fá alltaf að vita það fyrstir á eftir mömmunni.”
“Ekki vissi pabbi um mig,” sagði Hanna.
Ninna stóð á fætur, gekk til telpunnar og faðmaði hana að sér. “Það lágu sérstakar ástæður til þess, elsku Hanna mín, það kemur því miður of oft fyrir að pabbarnir vita ekki um börnin sín, en við skulum ekki hugsa um það núna. Nú er pabbi þinn búinn að finna þig og þú veist að hann vill ekkert frekar, en fá að hafa þig hjá sér, en afi og amma eiga svo mikið í þér, að það er ekki hægt að taka þig frá þeim, hvorki þeirra, né þín vegna, vina mín.”
“Nei, ég vil heldur ekki fara frá þeim, fyrr en ég má til, en ég verð víst að fara í burtu á skóla seinna meir,” sagði Hanna.
“Hugsum ekki um það núna,” sagði Ninna hress í bragði. “En hvort langar þig nú meir í litla systur eða bróður?” spurði hún.
(s. 25)