Úr Hanna María og Viktor verða vinir:
12
Ráðagerð Viktors
Viktor var fljótur að hlaupa heim í Kot eftir að hafa synt að landi, svo fljótur, að enginn, sem hefði séð til hans, hefði trúað að þar væri fitukeppurinn Viktor á ferð.
Inni í eldhúsi náði hann í eldspýtustokk upp á hillu, nokkur dagblöð úr blaðaslíðri afa fyrir ofan rúmið hans og olíubrúsa bak við hurðina. Það kom sér vel að hver hlutur var á sínum stað í Koti. Svo þau hann af stað upp túnið fram hjá Fellsendabænum og áfram upp fyrir tún. Sprettinum linnti ekki fyrr en suður á hólum þar sem stóra heyið hans Jóns var. Þar kraup hann á kné við heyið lafmóður og másandi með hræðilegan hlaupasting, vöðlaði dagblöðunum saman, tróð þeim innundir heyið og hellti olíu í. Svo kveikti hann á eldspýtu og kveikti í. Blöðin fuðruðu upp, hann skvetti olíu á heyið aftur og aftur og brátt var komið mikið bál og reykurinn steig til himins í hárri súlu. Nú settist Viktor á þúfu og blés mæðinni.
(s. 46)