Um bókina
Heimskaut er safn nýrra ljóða þar sem víða er leitað fanga – í heimskautaferðum, blíðri og óblíðri náttúrunni og sögulegum atburðum. Heimskaut er níunda ljóðabók Gerðar Kristnýjar. Fyrir síðustu bók sína, Sálumessu (2018), var hún tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í þriðja sinn en þau verðlaun hlaut hún fyrir Blóðhófni (2010), sem jafnframt var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Úr Heimskautum
Stytta
Snjórinn liggur
eins og sjal
á herðum
lotnu konunnar
við Landakotskirkju
Hún verður mín
ekki vör þegar
ég geng hjá
Ég sný mér við
en þá er hún horfin
Það rennur
upp fyrir mér að
það sem ég hélt
að væri sjal
var í raun vængur