Beint í efni

Herra Bóbó, Amelía og Ættbrókin

Herra Bóbó, Amelía og Ættbrókin
Höfundur
Yrsa Sigurðardóttir
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Barnabækur

Myndir eftir Kristínu Sól Ólafsdóttur

Um bókina

Hefðarkötturinn Alexander Sesar Loðvík Ramses Karlamagnús fimmtugasti og þriðji má búa við það að fólkið hans kallar hann Herra Bóbó. Og vill þvinga hann í megrun! Þegar hreinræktuð angóralæða að nafni Bella flytur svo í næsta hús þarf hann að sanna að hann sé líka af göfugum ættum.

Hann kynnist músinni Amelíu sem telur sig geta útvegað honum það sem hann vantar: ættbók. Og saman leggja þau upp í langferð. Við sögu koma meðal annars bolabíturinn Urriði, systkinin María og Jónatan, hjónin í næsta húsi sem eru alltaf að rífast og rækjuvinnsla sem ætlar aldrei að springa í loft upp.

Herra Bóbó, Amelía og ættbrókin er fyrsta barnabók Yrsu Sigurðardóttur frá því að hún hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin árið 2003. 

Úr bókinni

3. kafli – Innantóm áætlun

Planið er ekki ennþá orðið að neinu plani. Mér tókst ekki að skipuleggja neitt undir runnanum. Svo þetta er galtóm áætlun – nema hvað það er alveg skýrt hvaða árangri ég vil ná. Þannig að líklega er þetta bara markmið. Enn sem komið er.

Ástæðan fyrir því að mér tókst ekki að skipuleggja neitt er sú að ég var truflaður.

Undan runnanum er gott útsýni yfir götuna og húsið á móti. Þar búa Eva og Georg. Þau eru gömul, alltaf  í vondu skapi og sífellt að rífast. En það voru ekki rifrildi eða köll sem trufluðu mig. Ég var sem sagt að horfa á Georg rembast við að losa flugdreka úr trénu fyrir framan húsið. Flugdrekinn er búinn að vera þarna frá því ég man eftir mér og er allur sundurtættur. Hann er örugglega búinn að vera þarna árum saman. Jafnvel allt frá því að Eva og Georg fluttu í húsið þegar þau voru ung.

Öll þessi ár hefur Eva af og til öskrað á Georg að fjarlægja „þetta flugdrekadrasl“. Ég var því aldeilis hissa að nú skyldi hann loksins verða við bóninni. Eða öskrinu.

Flugdrekinn er frekar hátt uppi og ég er viss um að Georg sér eftir að hafa ekki fjarlægt hann fyrr. Áður en tréð varð svona hátt.

Kettir eru bestu klifrararnir. Betri en mörg, mörg, mörg dýr, eins og hestar og kindur og fiskar. Og þar sem ég er sérfræðingur í klifri tókst mér ekki að hafa augun af Georg þegar hann reyndi að príla upp í tréð. Það gekk svo illa hjá honum að það gekk vel. Sem skemmtiatriði fyrir áhorfandann. Ekki fyrir Georg. Honum var ekki skemmt.

Sérstaklega ekki þegar hann missti takið við að beltið kræktist í grein. Í staðinn fyrir að detta hékk hann á beltinu í lausu lofti. Þá gat ég hreinlega ekki litið undan. Það var engu líkara en einhver hefði búið til Georgs-búning og hengt hann til þerris upp í tré.

Georg æpti á Evu að hjálpa sér en hún lét það sem vind um eyrun þjóta.

Sjáiði til, ef það er stanslaust hrópað þá tekur enginn eftir hrópunum sem raunverulega skipta máli. Þau bætast bara í hrópasúpuna. Það er miklu betra að tala sem oftast með venjulegri rödd og hrópa bara í tíunda hvert skipti sem mann langar til að hrópa.

Það sama gerðist þegar kjóllinn hennar Evu klemmdist á milli þegar hún steig út úr bílnum þeirra og skellti á eftir sér. Georg hafði læst bílnum, strunsað inn og skilið Evu eftir. Og hún gat ekki opnað læstar dyrnar til að losa sig. Hún hrópaði og kallaði en aldrei birtist Georg. Eva reyndi að slíta kjólinn lausan en það gekk ekki. Á endanum varð hún að mjaka sér úr kjólnum og hlaupa inn á nærfötunum. Ég sá þetta allt saman undan runnanum. Pósturinn, sem kom í sömu mund og Eva hljóp inn, varð líka vitni að þessum ósköpum.

Eva varð að bjarga sér sjálf en það er Jónatan sem bjargar Georg að lokum. Hann birtist í gættinni til að kalla aftur á mig og heyrir þá ópin í Georg. En Jónatan er ekki mikið efni í björgunarsveitarmann. Hann hleypur yfir í garðinn við hliðina. Hann teygir sig upp á milli greinanna, losar um beltið og stígur svo frá. Og Georg fellur lóðbeint niður úr trénu. Það heyrist dynkur þegar hann skellur kylliflatur í jörðina. Af einhverjum undarlegum ástæðum þá hljóðar hann ekki við lendinguna. Hann gefur frá sér furðulegt „úff“-hljóð.

Þar sem Georg liggur á maganum í grasinu segist Jónatan því miður þurfa að fara því búið sé að leggja á borð. Hann spyr hvort allt sé í lagi með Georg sem svarar með öðru „úff“-hljóði. Líklega er erfitt að tala með andlitið í grasinu.

(s. 21-23)

 

Annað gott starf, ef ekki bara það allra besta, væri ef þau væru hundafangarar. En ég hef fyrir löngu gefið upp alla von um að þau muni nokkurn tíma sækja um það göfuga embætti. Ég bind samt vonir við Jónatan. Hann hlýtur bráðlega að fara að sækja um vinnu. Hann er nú einu sinni orðinn sjö ára. Varla vill hann enda eins og systir hans, atvinnulaus og enn í skóla – að verða tólf ára.

Í sjálfu sér er það líklega best að María verði atvinnulaus áfram. Það sem hana dreymir um að verða er alltaf glatað. Núna er hún til dæmis að hugsa um að opna flamingóaleigu. Henni datt það í hug í tengslum við afmælið sitt sem er á næsta leiti. Hana langaði til að vera með flamingóaþema og skreyta veisluna með lifandi flamingóum. Hún var svekkt (en ég ánægður) þegar í ljós kom að það eru engar flamingóaleigur í bænum. Þannig að María varð að hætta við þessa fáránlegu hugmynd.

En þar sem María heldur að hún sé ekki sú eina sem hefur áhuga á að leigja flamingóa, þá er hún að spá í að opna slíka leigu.

Því miður þá skilur mannfólk ekki kattamál. Ef svo væri gæti ég sagt henni að enginn – ENGINN – vilji hafa flamingóa í veislu hjá sér. Þeir eiga það til að rotta sig saman og vafra um sem einn flokkur, í stað þess að blanda geði við aðra. Vægast sagt vandræðalegt.

María er enn að reyna að finna nýtt þema. Allar hugmyndir hennar hafa verið slæmar og ég hef enn ekki heyrt hana minnast á það sem væri allra mest við hæfi. Og það fyrir öll tilefni. Kattaþema.

Kettir koma öllum í gott skap. Þeir eru ekki aðeins virðulegir heldur líka afar fallegir. Svo að ekki sé nú minnst á mig. Ég er ótrúlega glæsilegur og feldurinn ómótstæðilegur. Ég sé það í augum rappara ef ég mæti þeim á götu. Þeir virða mig vandlega fyrir sér og ég sé að þeir myndu vilja klæðast mér, eins og pels. Sem betur fer er ég ekki nógu stór til að duga í heilan pels og rappararnir átta sig á því. Ég myndi bara duga í aðra ermina. Og varla það.

(s. 9-11)

Fleira eftir sama höfund

Brakið

Lesa meira

Ég man þig

Lesa meira

Ultimes rituels

Lesa meira

Brakið

Lesa meira

Ég man þig

Lesa meira

Þar lágu Danir í því

Lesa meira

Kolmas Märk

Lesa meira

Cinza e Poeira

Lesa meira