Um bókina
Jólin eru ónýt hjá Snjólaugu. Barnsfaðir hennar ætlar að vera á Tenerife með dóttur þeirra allar hátíðarnar og Snjólaug sér fyrir sér ömurlega einmanalegt aðfangadagskvöld. En svo fær hún snilldarhugmynd: Hún ætlar að vera búin að finna sér kærasta þegar klukkurnar hringja jólin inn.
Það er þó allt annað en auðvelt fyrir konu á miðjum aldri að rata um frumskóg stefnumótaappa og misgæfulegra einhleypra karla (og misdauðra laxa). Hún er við það að gefast upp þegar hún fær spennandi tilboð um að prófa glænýja og rómantíska stefnumótaferð á landsbyggðinni.
Úr bókinni
Hann mætir á réttum tíma, skálar við mig og er jafn sjarmerandi og um morguninn. Við smellum saman undireins, hann er klár og svo fyndinn að malt leitar upp í nefgöngin þannig að mér svelgist á.
„Málið er...“ segir hann og hallar sér að mér og ég halla mér að honum og sendi honum daðurslegt augnaráð „... að ég og konan mín erum að leita að þriðja aðilanum.“
Daðursneistinn í augnaráði mínu slokknar og skýjaborgirnar sem ég hef byggt upp hrynja til grunna.
„Og fannst þér ekki rétt að láta mig vita aðeins fyrr að þú ættir konu?“
„Þá hefðir þú kannski ekki viljað koma. Þú getur ekki ímyndað þér hvað ég hef hitt margar konur sem vita hvað við erum að hugsa og þær eiga það allar sameiginlegt að vera meira og minna skrýtnar.“
„Þannig að í stað þess að hitta viðundur þá viltu frekar sjálfur vera viðundrið?“ spyr ég og þoli það ekki hvað mér finnst ég vera lokuð og púkaleg.
„Við erum í alvöru engin viðundur, okkur langar bara í smá krydd í samband okkar,“ segir hann og strýkur fingri sínum niður öxlina á mér um leið og hann bætir við: „Þú getur verið það krydd og hver veit, kannski verður þetta aðfangadagskvöld sem þú gleymir seint.“
Alls kyns myndir poppa upp í huga minn og mig hryllir virkilega við tilhugsuninni um að taka þátt í þeim jólatrekanti. Hversu öræntingarfull lít ég út fyrir að vera fyrst hann heldur að ég sé til í þetta?
„Takk fyrir boðið,“ segi ég og tygja mig til að fara en bæti svo við: „En þetta hentar mér ekki því ég kæri mig ekki um að vera staki sokkurinn í sokkaskúffunni, þú veist sá sem ruglar skipulagið. Því að á endanum er það honum sem er fargað.“
Hann horfir dálítið undrandi á mig og ég er ekki alveg viss um að hann hafi skilið þetta hyldjúpa líkingamál en mér er alveg sama. Þó svo að hann haldi að ég sé svo örvingluð af ástleysi að ég þiggi þá mylsnu sem eftir liggur á gólfinu þá veit ég hvers virði ég er og leggst ekki svo lágt. Ég geng út í kuldann og á leiðinni í bílinn reyni ég að gera reykhringi með andgufunni eins og ég hef reynt að gera frá því að ég var krakki, en án árangurs. Valería hefur kannski eitthvað til síns máls, það er eitthvað bogið við menn sem gefa sig á tal við mann í raunheiminum.
(s. 68-70)