Beint í efni

Höfuðskepnur : ástarbréfaþjónusta

Höfuðskepnur : ástarbréfaþjónusta
Höfundur
Þórunn Jarla Valdimarsdóttir
Útgefandi
Forlagið
Staður
Reykjavík
Ár
1994
Flokkur
Skáldsögur


Úr Höfuðskepnum : ástarbréfaþjónustu:

Ég teygi mig í heita kranann og er að skrúfa fyrir þegar síminn hringir. Litli hangir í hægri fæti, ég stend eins og styttan af Leifi. Sprauta hratt úr pelanum upp í mig, finn hann er mátulegur, ákaflega þurr og vísindaleg ungleg karlmannsrödd kynnir sig ...
- Nei nei, ekki að selja bækur, ég er háskólanemi í félagsfræði í aukavinnu að vinna að könnun, hvort ég vilji leggja þessu vísindalega málefni lið með því að svara nokkrum spurningum?
Maður virðir þessar skoðanakannanir, þær eru virðulegar, æskilegar og fínar, í þeim viska sem fer í fréttir og togar þjóðina fram og til baka.
- Ég hef aldrei áður lent í úrtaki, já, já, sjálfsagt að leggja lið, nema það sé pólitík, þá fer hausgormurinn með mig upp úr allri lógík, flokkarnir eru orðnir svo ruglaðir.
- Nei, ekki pólitík, a, kynlífskönnun.
Ó, óvart verð ég skrýtin þegar hann segir þetta og vil burt, en minn harði framfaravilji heldur tólinu réttu, festi símtólið við eyrað. Rykki litla upp í fang, set pelann í gatið, sest, rugga, hann er dottinn í sælu. Ég sest við eldhúsborðið, og mér finnst augnablik eðlilegasti hlutur í heimi að tala um kynlíf með barn í fanginu, þótt það sé hvorki manns eigið né í þjóðskrá.
- Er allt í lagi?
Og ég verð svona létt eins og sumir miðaldra sem flissa alltaf þegar talið berst niður fyrir þind, og svei mér þá sný þessu upp í fliss.
- Ertu að gera símaat? Þú ert að gera at! Kynlífskönnun á Íslandi!
Og hann segir með hneyskluðum þunga, létt pirraður yfir enn einni flissandi.
- Þetta er könnun sem búið er að framkvæma í flestum Evrópulöndum og ríður mikið á upp á evrópska heildarsýn að sem flestir taki þátt, þú veist, ef þrjátíu prósent vilja ekki svara þá verður útkoman ekki eins vísindalega gefandi.
- Allt í lagi, allt í lagi, segi ég hratt.
Aldur, börn? Gott ég var ekki búin að segja að ég væri að gefa pela, nei, engin börn, gift? hef verið í þriggja ára sambúð, veit ekki hvort sambandið er búið ...
Þá koma spurningar um fyrrverandi samlíf hvar og hvernig?
Ég get ekki sagt allt, hugsa ég, en smám saman í þegnskap og fyrir frelsið sem ég trúi á svara ég, ja, jú, er þetta ekki sjálfsagt mál og útskýri stellingar og staði og sé í anda samfarastellingar gjörvallrar Evrópu, eurokönnun, nú er ljósgeislinn á öllu þessu evrópska fólki, sjúga lim? Æ, hjálp, verður sífellt dónalegra, samfarir í þarmsop? Svaraði ég þessu öllu? Og hve oft gerið þið það? Stundar þú sjálfsfróun?
Ég svo siðprúð ætla ekki að þora að segja satt, er að hugsa um að beygja af sums staðar, en sit bara og hlusta á mig svara og svara, líður dáldið undarlega, en nú eru nýir tímar og fyrir þá tala ég gegnum þykkildið innvortis sem vill að ég þegi já, jú sem unglingur, skoða í spegli? stinga í penna? vatnsfróun í baði? Freud er eins og barn miðað við þessar nýju raunsæju evrópsku spurningar. Það kom fyrir að maður var illa haldinn af sætmettaðri spennu, betra en að fá í sig skapvonsku og sjúkdóm. Æ, fyrirgefðu, það er víst ekki pláss fyrir afsakanir og útskýringar í skoðanakönnunum.
- Þetta er allt í lagi.
- Mjög gott að fara í leikfimi í einn og hálfan tíma, miklu betra að borða og drekka á eftir. Ég er snillingur að svara út í hött. Hann hlýtur að svitna yfir eyðublaðinu sínu.
- Aha.
Það klæmist á mér hver tuska, er svona langt síðan ég hef talað við einhvern? Enda er eins og hann færist upp á skaftið.
- Hvað notuðuð þið af hjálpartækjum?

(s. 67-68)

Fleira eftir sama höfund

Horfinn heimur : Árið 1900 í nærmynd

Lesa meira

Alveg nóg

Lesa meira

Júlía

Lesa meira

Loftnet klóra himin

Lesa meira

Síðari aldir

Lesa meira

20. öld

Lesa meira

Stúlka í turni

Lesa meira

Leikfélag Reykjavíkur: Aldarsaga

Lesa meira

Miðaldir

Lesa meira