Af bókarkápu:
Í húsi Júlíu segir frá tveimur systrum og stormasömum samskiptum þeirra. Þegar Lena kemur heim öllum að óvörum eftir áratuga langa dvöl í útlöndum og sest að í húsi Júlíu fara þau hjól að snúast sem bjóða hættunni heim.
Viðfangsefnin í þessari skáldsögu Fríðu Á. Sigurðardóttur eru mörg og áleitin og á sinn einstaka hátt vefur Fríða saman alla þræði svo að úr verður áhrifamikil og mögnuð samtímasaga. Umfram allt er hér tekið á málum sem brenna á nútímakonunni: Hvers vegna fórna konur sér iðulega fyrir aðra?
Úr Í húsi Júlíu:
Hús sem ilma
Kampavín! Hvar er kampavínið?
Það fyrsta sem ég heyrði Lenu segja.
Á ekki að skála hér fyrir nýrri öld, eða hvað?
Hún sat þarna í eldhúskróknum, vel slompuð, klesstur maskari í rákum niður eftir andlitinu, rautt sítt hár í úfnum tjásum, konurúst, en engu að síður ákveðinn glæsileiki yfir þeirri rúst. Og hvítur kjóllinn allt að því ósæmilega flottur.
Hérna er heitt kaffi, Lena mín, sagði Júlía strekkt og setti bolla á borðið fyrir framan hana. Fáðu þér heldur kaffisopa.
Ungi maðurinn tvísteig vandræðalegur hjá.
Ég vil heldur kampavín, Júlía Sigurjónsdóttir, ekkert kaffisull! Kampavín! sagði konan Lena hávær og hefur líklega ætlað að slá í borð, en höndin slengdist í bollann svo að skvettist úr honum á velpressaðar buxur unga mannsins.
Hún veitti því enga athygli.
Ekki segja mér, hélt hún áfram glitrandi af illkvittni, ekki segja mér, Júlla, að hér sé enn verið að sötra súkkulaði á gamlárskvöld, og flissaði hátt.
Almáttugur, hrópaði Júlía og snerist um sjálfa sig, þreif viskustykki af eldhúsborði og fór í óðagoti að strjúka kaffiblettina á buxum mannsins.
Hann gaf frá sér sársaukahljóð.
Þú hefur brennt þig, sagði Júlía í örvæntingu.
Eldsnöggt ýtti Lena aftur við bollanum.
Það sem eftir var af kaffinu flaug yfir hendur Júlíu og stækkaði blettina á buxunum um leið og bollinn þeyttist í gólfið.
Ungi maðurinn hrökk undan.
Hvernig datt þér líka í hug, sagði Lena og leit ásökunaraugum á Júlíu, að setja bollann svona tæpt fullan af sjóðheitu kaffi?
Júlía svaraði engu, fátaði niðurlút með viskustykkinu upp eftir buxunum.
Þetta er allt í lagi, þetta er ókei, sagði ungi maðurinn hvellt og reyndi að losa sig.
Daufur klukknahljómur barst frá sjónvarpinu í gegnum sítrylltari sprengjudyn.
Verið var að hringja út árið.
Ég sá Júlíu líta upp, horfa ráðvillta í kringum sig eins og hún hefði skyndilega misst allra átta.
Lena glottandi aftur farin að kalla eftir kampavíni ...
s. 35-36