Um bókina
Þegar hjólið hennar Iðunnar hverfur kemur bara eitt til greina – systurnar í Súluhöfða hljóta að hafa tekið það. Þá er verst að mamma og pabbi eru farin í ferðalag og barnapían afi pönk hugsar meira um lúsmý og eldgamlar hljómsveitir en tapað hjól.
Iðunn og afi pönk er saga um flókna ráðgátu og öll vandræðin sem gamlir pönkarar geta þvælt sér í.
Myndir eftir Halldór Baldursson.
Úr bókinni
Heima ríkti dauðaþögn. Ég kallaði á afa en hann hafði farið út. Í eldhúsvaskinum lágu diskar og glös frá því í hádeginu og afi hafði skilið bomsurnar eftir inni í miðri stofu. Þær stóðu upp við einn vegginn eins og hann hefði farið úr þeim til þess að stíga inn í innrammaða ljósmynd af kindum og fjalli sem hékk fyrir ofan þær. Kannski hafði hann einfaldlega gert það og kæmi ekki aftur fyrr en hann hefði rekið þessar kindur þangað sem maður rekur kindur.
Skyndilega barst rödd Ármanns inn um opinn glugga og hún var ekki glaðleg: „Ætlarðu ekki að færa bílinn maður! Við erum að reyna að koma skikki á garðinn hjá okkur.“
Ég leit út um eldhúsgluggann og sá Ármann og afa minn standa upp við bílskúrana. Ármann hvessti augun á afa. Hann var með klippurnar í hendinni. Það var eins og þær yxu beint úr jakkaerminni og væru orðnar hluti af honum. Það var örugglega hægt að sneiða mann í tvennt með þessu verkfæri. Mér fannst vissara að fela mig bakvið gluggatjöldin.
„Við erum að reyna að halda öllu fínu hérna en svo kemur þú á þessu skrapatóli og leggur því bara hér upp við húsið okkar!“ sagði Ármann reiðilega.
„Hvar á bíllinn annars að vera?“ spurði afi.
„Leggðu honum að minnsta kosti í stæðið hjá ykkur,“ sagði Ármann og skók klippunum að afa svo afi hörfaði. Þetta átti ekki eftir að fara vel.
Ég gat séð hann tala við sjálfan sig á meðan hann færði bílinn enn og aftur burt frá húsinu. Líklega var hann að róa Subba sem hafði heyrt allt bölsótið í Ármanni. Fyrst eðlilegt var að tala við rósir hlaut að vera í lagi að spjalla við bílinn sinn.
Þegar afi hafði fært Subba drap hann á honum og stökk út. „Jæja, Ármann minn,“ sagði hann léttur í bragði. „Ég hef alltaf verið maður sátta og þar sem ég er vanur að taka til hendinni vil ég endilega aðstoða ykkur Betu við garðvinnuna.“
Áður en við var litið var afi kominn með garðklippurnar í hendurnar og mundaði þær að rósarunnanum. „Þarf ekki aðeins að snyrta þennan hér?“ spurði hann og svaraði sjálfum sér með því að klippa leiftursnöggt af runnanum. Tvær bleikar og bústnar rósir lágu í valnum.
„Nei!“ kveinaði Ármann eins og tá hefði verið klippt af honum um leið.
Beta kom þjótandi út. „Hvað gerðist?“ Um leið og hún sá hvað afi hafði gert féll hún á hnén í stéttina.
„Geir! Hvað hefurðu gert!“ sagði hún með grátstafinn í kverkunum.
„Ég er ú-nú bara að reyna að hjálpa til. Það má auðvitað alltaf laga þetta,“ sagði afi brattur. Hann hóf klippurnar aftur á loft, sveiflaði þeim yfir rósunum sem fengu enn og aftur að finna til tevatnsins. Þar með féll sú þriðja í grasið.
„Láttu rósirnar mínar í friði!“ veinaði Beta klökkri röddu.
Ármann reif garðklippurnar af afa sem var kolringlaður á svipinn. Hann horfði til skiptis á rósirnar og nágrannana eins og hann áttaði sig ekkert á því hvers vegna þeim hefði orðið svona mikið um.
„Hún Beta hefur lagt mikið á sig til að rækta þessar rósir, sungið fyrir þær og farið með ljóð!“ sagði Ármann. Hann greip um axlir konu sinnar og reisti hana á fætur. Betra skjögraði eins og hún væri nýstigin út úr hroðalegu tívolítæki.
„Ég hélt að við vilduð kannski setja þær í vasa. Ég biðst innilega afsökunar,“ sagði afi. „Á ég að hjálpa þér með Betu? Við getum tekið hana í gullstól.“
„Í gullstól?“ endurtók Beta. „Nei, nei, ég get gengið sjálf.“
Það gat hún líka því hún hristi eiginmanninn af sér og rigsaði inn.
Afi ætlaði að segja eitthvað meira en Ármann hélt inn á eftir Betu og skellti hurðinni svo duglega á eftir þeim að ljónsstyttan við bílskúrinn steyptist um koll. Hausinn brotnaði af og valt út á bílastæði.
„Voðalega urðu þau pirruð,“ var það fyrsta sem afi sagði þegar hann komi inn og sá mig við eldhúsgluggann. „Varstu að fylgjast með?“
Ég kinkaði kolli.
„Runninn er miklu flottari núna. Það er miklu meira pönk í honum,“ sagði afi.
Og það var alveg rétt. Runninn sem afi hafði klippt skar sig svo sannarlega frá hinum. Það var eins og hann baðaði út dansandi örmum. Fyrr eða síðar hlytu Ármann og Beta að átta sig á því að afi hafði bara gert þeim greiða.
(s. 60-64)