Um bókina
Gerður Kristný hefur hlotið margs konar viðurkenningar fyrir skrif sín og við ljóð hennar hafa innlendir og erlendir listamenn samið tón- og leikverk. Jarðljós er tíunda ljóðabók hennar en sú fyrsta, Ísfrétt, kom út fyrir réttum þrjátíu árum.
Úr bókinni
Hiroshima
Sonur minn
föndrar fugla
undir vökulu auga
ókunnrar konu
Hún veit hvernig
bretta skal væng
og vinda gogg
Fuglarnir
boða farsæld
en bara ef við
vöndum okkur
Ungur drengur
eldri kona
lúta höfði
saman
brjóta þau blað
Hafmeyja Nínu Sæm
Hún situr
í Tjörninni miðri
og bíður systra sinna
þær syndi hjá
í gljáandi torfu
ekki að sjá
að henni sé kalt
alein
og engri lík
nema ef vera skyldi
konunni sem skóp hana
Jarðljós
Vorið heilsar
með stillum
snjór í bolla
og laut
Þegar gimbur fæðist
með glóandi hnýfla
stingast geislar
ofan í fjörðinn
Óðar stígur upp
flöktandi birta
sem líf leiki
um loftin