Um þýðinguna
Skáldsagan Bratja Karamazovy eftir Fjodor Dostojevskíj í þýðingu Ingibjargar.
Gefin út í tveimur bindum árin 1990-1.
Úr Karamazovbræðrunum
Alexei Fjodorovítsj Karamazov var þriðji sonur Fjodors Pavlovítsj Karamazovs, landeiganda hér í sveit, sem frægur varð og enn er í minnum hafður fyrir hörmulegan og dularfullan dauðdaga sinn sem bar að fyrir nákvæmlega þrettán árum og síðar verður vikið að. Að svo stöddu ætla ég hinsvegar ekki að hafa önnur orð um þennan óðalsbónda (sem svo var nefndur þótt hann hefðist varla nokkru sinni við á óðali sínu meðan hann lifði) en þau, að hann var undarlegur maður. Og þó eru slíkir menn ekki tiltakanlega sjaldgæfir. Hann var semsé ekki bara ómerkilegur og spilltur maður heldur einnig ruglaður og tilheyrði þeim hópi rugludalla sem kunna ágætlega að fara með fjármál sín en virðast ekki ráða við neitt annað. Fjodor Pavlovítsj byrjaði til dæmis með tvær hendur nánast tómar, jörðin hans var lítil, hann flæktist um sveitina og sníkti sér mat á öðrum bæjum einsog þurfalingur, en þegar hann dó kom í ljós að hann átti hundrað þúsund rúblur í beinhörðum peningum. Þrátt fyrir það var hann alla ævi einhver sá vitlausasti galgopi sem um gat í allri sýslunni okkar. Ég vil ítreka að þarna var ekki beinlínis um greindarskort að ræða - flestir þessara galgopa eru býsna séðir og út undan sér - hann var fyrst og fremst ruglaður og það á einhvern sérstakan, þjóðlegan máta.
(I s. 15)
III. Eldraunir sálarinnar. Fyrsta eldraun
Mitja sat semsé og virti viðstadda fyrir sér trylltu augnaráði án þess að skilja það sem við hann var sagt. Skyndilega reis hann á fætur, fórnaði höndum og hrópaði hástöfum:
- Ég er saklaus! Ég er saklaus af þessu morði! Saklaus af morðinu á föður mínum . . . Ég ætlaði að drepa hann, en ég er saklaus! Það var ekki ég!
Ekki hafði hann fyrr lokið við að hrópa þetta en Grúshenka skaust fram fyrir tjaldið og fleygði sér á gólfið við fætur lögreglustjórans.
- Það er ég, ég, bölvuð veri ég, ég á alla sökina! veinaði hún hjartanlega nístandi röddu, flóandi í tárum og teygði fram hendurnar til allra viðstaddra. - Það var mín vegna, sem hann drap! Það var ég sem kvaldi hann og leiddi hann til þess! Ég kvaldi líka vesalings gamla manninn sáluga, af illsku minni, og leiddi til þess arna! Ég á sökina, fyrst og fremst ég, ég er sek!
- Já, þú ert sek! Þú ert aðalglæpakvendið! Þú ert hamslaus, þú ert spillt, þetta er fyrst og fremst þér að kenna! öskraði lögreglustjórinn og skók hnefann að henni, en nú var gripið rösklega í taumana. Saksóknarinn tók meira að segja utan um hann.
- Þetta er algjör lögleysa, Mikhaíl Makarovítsj, þér beinlínis tefjið rannsókn málsins . . . og eyðileggið . . . æpti hann með andköfum.
- Það verður að gera ráðstafanir, ráðstafanir, gera ráðstafanir! æpti Nikolaj Parfenovítsj og var einnig fokreiður. - Öðruvísi gengur þetta alls ekki!
- Dæmið okkur bæði! hélt Grúshenka áfram, viti sínu fjær, og lá enn á hnjánum. - Refsið okkur báðum, ég fer með honum upp á aftökupallinn, ef því er að skipta!
- Grúshenka, hjartað mitt, ástin mín, dýrlingurinn minn! æpti Mitja, fleygði sér á hnén við hlið hennar og faðmaði hana fast að sér. - Trúið henni ekki! hrópaði hann. Hún á enga sök á neinu, hvorki morði né öðru!
(II s. 151-152)