Beint í efni

Koparakur

Koparakur
Höfundur
Gyrðir Elíasson
Útgefandi
Dimma
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Smásögur

Úr Koparakri:

Á sólardögum sat afi í ruggustól á pallinum framan við húsið með nokkur ullarteppi yfir sér. Amma færði honum meðulin. Trén stóðu gegnt dyrapallinum og vörpuðu skugga á framhlið hússins. Það var aldrei almennilega hlýtt þetta sumar. Ég var ekki nema 7 ára, en ég vildi heldur sitja hjá afa en leika mér við krakkana í næstu húsum. Amma kom með lítinn stól handa mér og við afi sátum saman heilu dagana án þess að segja mikið. Hann var stundum með bók, ég man sérstaklega eftir einni bókinni sem hann las. Ég held það hafi verið af því hún var með svo rauðum spjöldum. Þetta var Ég kaus frelsið eftir Victor Kravchenko. Afi sat á dyrapallinum langtímum saman án þess að hreyfa sig og las þessa bók. Hún var þykk og það var einhvernveginn sérlega þunglamalegt í kringum þessa bók, því afi var svo miklu lengra í burtu fannst mér þegar hann var niðursokkinn í hana. Amma hélt áfram að færa honum meðul reglulega. Hann lét stólinn rugga meðan hann las og bruddi stórar og rauðleitar töflur. Einn daginn vorum við komnir snemma út á pallinn, og hann var sennilega búinn með rauðu bókina, því nú var hann með lítið grænt kver í höndunum. Hann fletti upp í því og las fyrir mig: Drottinn hló í dýrðarkró / dauðinn sló og marði / eina litla arfakló / í hans rófugarði. Hann endurtók að minnsta kosti tvisvar eftir á þetta sló og marði, meðan hann horfði á trén sem bærðust í morgungolunni. Hann ruggaði sér hægt, og svo endurtók hann líka síðustu orðin í vísunni: í hans rófugarði.

„Þú átt engan rófugarð, afi“ sagði ég þegar hann hafði farið með orðin.

„Nei, það er satt,“ sagði hann og hló. Morgunsólin smaug í gegnum laufþykknið inn á pallinn til okkar, og andlit afa var uppljómað til hálfs en í skugga hinumegin.

„Ertu hættur að lesa stóru rauðu bókina?“ spurði ég.

Afi leit á mig en svaraði þessu ekki beint.

„Hann kaus rétt,“ sagði hann lágt út í annað munnvikið og renndi augum til ömmu sem stóð í dyragættinni og horfði upp í trén. Ég skildi ekki hvað hann var að fara.

(56-7)

Fleira eftir sama höfund

Die Hunde

Lesa meira

Antennen

Lesa meira

Die Sommerferien

Lesa meira

Ein Holzfisch

Lesa meira

Ein Flügelmensch

Lesa meira

Poesia 136

Lesa meira

Inferno

Lesa meira

Gula húsið

Lesa meira