Um bókina
Gunnar Kampen er ungur Reykvíkingur, verslunarskólagenginn og vel settur í lífinu, áhugasamur um menn og málefni innan lands sem utan. Hann á ástríka móður og tvær systur sem hafa hampað honum frá barnsaldri og sjálfur er hann umhyggjusamur bróðir og sonur. Vorið 1958 stofnar hann andgyðinglegan stjórnmálaflokk þjóðernissinna í Vesturbænum og tekur af kappi að leggja sitt af mörkum til ört stækkandi heimssamtaka nýnasista.
Í texta sem sveiflast frá ljóðrænum bernskumyndum til skuggalegra hugrenninga skoðar Sjón lífshlaup sögupersónu sinnar eins og honum einum er lagið. Um leið er þeirri spurningu velt upp hvort Gunnar Kampen sé eins einstakur og virðist við fyrstu sýn.
Úr bókinni
Kirsten Sigrid Kampen kom til þeirra réttum tveimur mánuðum eftir friðardaginn og uppgjöf Þjóðverja og kvislinga í Noregi. Þau tóku á móti henni niðri á höfn og samstundis og hún birtist á þilfarinu þekkti Gunnar föðursystur sína af systkinamyndinni í útvarpskompunni. Hann hnippti í Sólveigu og benti á granna konu sem tók nú að feta sig niður landganginn óstyrkum fótum. Hún greip fast um handrið landgöngubrúarinnar, fór fetið, dróst skref fyrir skref í átt að hafnarbakkanum. Á höfðinu bar hún slæðu og yfir henni hatt sem varpaði skugga á fölt andlit sem þó var að hálfu hulið af kringlóttum sólgleraugum, hún var klædd aðskorinni brúnni ullarkápu, svörtu pilsi og hafði litla ferðatösku í hendi.
Sólveig hristi höfuðið, nei, þessi hikandi mannvera sem klæddi sig líkt og á nöpru októberkvöldi en ekki skínandi björtum júnídegi gat ekki verið sú káta norska frænka sem faðir hennar hafði svo oft sagt þeim frá.
"Án hennar hefðum við dáið úr sorg þegar krabbinn tók hana mömmu okkar. Kirsten kunni ekki bara að spila á puntstrá, hún kunni líka að dansa eftir laginu sem hún lék á puntstráið. Það var fallegur dans."
Þegar Páll minntist þannig á systur sína fór um hann snögg hreyfing, kippur sem færðist frá hægri öxl til þeirrar vinstri. Og þar sem börnin sáu hann aldrei dansa annan dans en þennan kipp, sem hafði verið settur í hann við undirleik titrandi stráblaðs þegar hann var lítill eins og þau, voru þau viss um að frænka þeirra væri skemmtilegust allra á jarðríki. Ekki dró það úr eftirvæntingunni að bréfin og póstkortin sem hún skrifaði bróður sínum voru undirrituð KiKi. Það þótti systrunum Astrid og Sólveigu vera heimskonulegt.
Fast á hæla óstyrku konunnar sem Gunnar var viss um að væri frænka sín gekk ungur karlmaður. Hann skimaði óþolinmóður framhjá henni og þótt honum dytti ekki í hug að aðstoða hana, ekki frekar en þeim mörgu sem fóru á undan henni, þá tókst honum að halda aftur af löngun sinni til að troðast fram úr henni þar til komið var á enda landgangsins. Þar ýtti hann henni til hliðar af svo miklu afli að sólgleraugun féllu af andliti Kirstenar Kampen, hún hrasaði fram fyrir sig og missti frá sér töskuna svo hún skall á hafnarbakkann og opnaðist. Ungi maðurinn arkaði til fundar við fjölskyldu sína og leit ekki einu sinni um öxl.
Konan leit ósjálfrátt upp eftir aðstoð en svo var eins og hún áttaði sig og byrjaði sjálf að tína saman það litla af fötum, nærklæðnaði og persónulegum munum sem lá þarna fyrir allra augum ásamt svörtum jakkafötum. Þau viðstaddra sem veittu henni athygli komu henni ekki til hjálpar og hraðar hreyfingar hennar bentu til þess að hún byggist ekki við því.
(24-26)