Beint í efni

Leitin að svarta víkingnum

Leitin að svarta víkingnum
Höfundur
Bergsveinn Birgisson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Fræðibækur

Ný og aukin útgáfa byggð á Den svarte vikingen eftir Bergsvein Birgisson, í íslenskri þýðingu Bergsveins og Evu Hauksdóttur.
 

Um Leitina að svarta víkingnum
 

Einn leyndardómur íslenskra fornsagna eru örstutt brot um „svartleitan“ mann sem þar bregður fyrir – Geirmund heljarskinn. Hann er sagður dökkur og ljótur, með mongólska andlitsdrætti af konunglegum uppruna, sagður „göfgastur landnámsmanna“ og ríður um sveitir Íslands með áttatíu vígamenn, og á mörg stórbú þar sem hann heldur mörg hundruð þræla.

En hver var Geirmundur heljarskinn? Af hverju er engin saga varðveitt af honum og af hverju hefur hann nánast fallið í gleymsku?
 

Úr Leitinni að svarta víkingnum
 

Snemma á níunda áratugnum var gamall maður tíður gestur á æskuheimili mínu í einu af úthverfum Reykjavíkur. Hann hét Snorri Jónsson og var vinur foreldra minna. Snorri hafði alist upp á Hornströndum, harðbýlli strandlengju á nyrsta hluta landsins. Eins og margir aðrir hafði Snorri flust frá Ströndum á sjötta áratugnum, en hugur hans var þar enn og hann talaði jafnan hlýlega um heimahagana. Hann var grannvaxinn karl en kraftmikill rómur hans gat skorið í gegnum fuglagarg og drynjandi brimrót. Hann var þekktur „sigmaður“ eins og þeir voru kallaðir sem sigu í fuglabjörg, héngu þar í taug og sprönguðu frá hreiðri til hreiðurs í eggjaleit.

Stóra hetjan í hugarheimi Snorra var Geirmundur heljarskinn. Hann talaði ekki um neinn með sömu virðingu, ekki einu sinni hinn nýkjörna forseta landsins, Vigdísi Finnbogadóttur. Ég var 10 eða 12 ára og skildi ekki til fulls allar sögurnar sem hann sagði af Geirmundi og hans fólki. Flestar þeirra eru mér gleymdar en ein þeirra hafði svo sterk áhrif á mig að ég man hana enn þann dag í dag. Hún var nokkurn veginn á þessa leið:

Geirmundur hélt fjölda írskra þræla á Hornströndum. Þeir bjuggu við bág kjör, vinnuhörku og matarskort. Dag nokkurn ákváðu þeir að flýja. Þeir stálu litum árabáti og réru frá landi. Þeir höfðu litla þekkingu á siglingum, vildu bara komast sem lengst í burtu. Þeir réru út, allt þar til þeir komu að stórum hólma í hafinu, lengra komust þeir ekki. Sá hólmi heitir enn í dag hólmi Íranna – Íraboði. Hefðu þeir haldið lengra út á hafið hefðu þeir eflaust endað á Norðurpólnum, vesalings mennirnir.

Sagan stóð mér lifandi fyrir hugskotssjónum. Af einhverjum ástæðum sá ég þrælana fyrir mér sem munka, hálfsköllótta og klædda gráum vaðmálskuflum. Andlit þeirra óhrein, augun alvarleg og starandi. Augnaráð þeirra lýsir ótta. Sumir þeirra hafa árar en aðrir bara fjalir sem þeir reyna að nota við róðurinn. Augun hvít í sótugum andlitum. Þeir róa lífróður. Burt, burt frá þessu öllu. Öll lönd hlutu að vera skárri en þetta. Þeir koma að hólmanum í víðáttu hafsins. Ef til vill hafa þeir hugsað: Hvar endum við ef við höldum áfram? Siglum við út af jarðkringlunni? Ég sé þá fyrir mér úti í hólmanum, skjálfandi af kulda í ymjandi norðanbriminu. Þegar drykkjarföng þeirra og matarbirgðir eru uppurnar, vokir helkuldinn yfir. Smámsaman dofna útlimir þeirra. Kannski syngja þeir dapurleg írsk þjóðlög eða sálma (þeir voru víst kristnir) og liggja þétt saman til þess að reyna að halda á sér hita? Maður getur einungis gert sér í hugarlund þann óhugnað sem felst í svo hægum dauðdaga. Hjálpuðu þeir hver öðrum í dauðann?

Í millitíðinni hefur Geirmundur heljarskinn komist að því að þrælarnir eru á bak og burt og leggur á haf út til að leita þeirra. Voru þeir lífs eða liðnir þegar hann fann þá úti á skerinu? Sáu þeir seglið á skipi húsbóndans nálgast?

Það eitt er víst að þeir dóu, hver einasti þeirra. Og öldurnar skoluðu burt jarðneskum leifum þeirra, tættu í sundur vaðmálstötrana sem eitt sinn höfðu haldið á þeim hita. Bylgjurnar hreinsuðu holdið af beinunum sem síðar molnuðu í duft í einhverju stórbriminu frá Norður-íshafinu þar til síðustu ummerki þeirra hurfu með öllu. Þeir dóu. Allir. En þeir dóu þó að minnsta kosti sem virðingarverðir menn á sínum eigin hólma, þar sem enginn gat ráðskast með þá eða niðurlægt þá.

Hólminn varð að landi Íranna og hlaut nafn sem gerir að verkum að þeir munu aldrei gleymast alveg: Íraboði.

(13-4)

Fleira eftir sama höfund

Drauganet

Lesa meira

Paarungszeit

Lesa meira

Svar við bréfi Helgu (hljóðbók)

Lesa meira
kolbeinsey

Kolbeinsey

Flóttin frá siðmenningunni verður sífellt flóknari og að lokum er stefnan tekin mót nyrstu eyju Íslands - Kolbeinsey
Lesa meira

Geirmundar saga heljarskinns: íslenzkt fornrit

Lesa meira

Lifandilífslækur

Lesa meira

Et landskab er aldrig tåbelig

Lesa meira

Risposta a una lettera di Helga

Lesa meira

Die Landschaft hat immer recht

Lesa meira