Af bókarkápu:
Á sjötta og sjöunda áratugnum kom fram á sjónarsviðið kynslóð skálda sem sett hefur sterkan svip á íslenska ljóðagerð tuttugustu aldar. Í hópi þeirra er Baldur Óskarsson, en fyrsta ljóðabók hans kom út árið 1966. Ljóð þessara skálda eru flest óháttbundin, knöpp og myndrík og á það ekki síst við um ljóð Baldurs. Í þeim skyggnist skáldið yfir vítt sjónarsvið í tíma og rúmi. Stundum er horfið aftur til bernskunnar í leit að skilningi. Náttúran, litir hennar og hljómar, verður að skuggsjá sem birtir þessa íhugun í skýrum myndum, oft furðulegum, stundum óræðum. Afstæði og vægðarleysi tímans er skáldinu óþrjótandi uppspretta hugleiðinga. Hvergi er bjargast við einfaldar skýringar og aldrei er prédikað, þótt deilt sé á stríðsrekstur og græðgi. Það er engin lífsangist í þessum ljóðum, miklu fremur æðruleysi gagnvart róstum tilverunnar og nauð tímans og stundum hógvær gamansemi.