Af bókarkápu:
Hún fékk það verkefni að gera kirkjuglugga, Maríu með soninn, sögðu þeir sem pöntuðu, en eftir nokkrar tilraunir liggur henni við örvæntingu. Ekki svo að skilja, hún getur svo sem dregið upp myndina gamalkunnu sem ætla má að pöntunarmennirnir sjái fyrir sér. Því allar tilraunir Hildar eru eftirlíkingar, bara vel unnið handverk. Þá er það sem elskhuginn Páll missir út úr sér nafn Unu, hún gæti kannski orðið fyrirmynd. En hvað varðar Hildi um hans fyrrverandi eða hvað þær nú heita? Samt fær hún ekki varist þráhyggjunni - hún verður að finna Unu.
Úr Maríuglugganum:
Það var Sara sem kom með hana heim.
Ég var búinn að bíða klukkutímum saman eftir að hún kæmi. Hafði gengið í gegnum heilt helvíti að venju, ímyndunaraflið á fullu í nasískum pyntingarleik, kvaldi mig stanslaust með egnandi myndum sínum af Söru á sóðalegasta kynlífsbrokki með alls konar fólki þar til mér fannst ég mundu brjálast. Og man að ég hugsaði: Ég þoli þetta ekki, ég get þetta ekki, allt er betra en þetta. En hafði svo oft hugsað þetta áður í sömu kringumstæðum, þegar Sara hvarf, þegar hún skildi mig eftir, vissi að þetta voru bara orð, innantóm, gagnslaus, vissi að ég var fastur, og fann blóðbragð í munninum, búinn að bíta í sundur neðrivör. Og meðan ég kyngdi blóðinu, bölvaði ég þeirri stund þegar ég hitti hana, bölvaði sjálfum mér, henni, þessu öllu, gott ef ég var ekki orðinn hálfskælandi af heift og vanmætti þegar hún allt í einu reif upp hurðina.
Ég sá því ekki Unu. Man aðeins óljóst eftir brúnleitri klessu aftan við gneistandi strókinn sem var Sara.
Einhvern veginn tókst mér að þröngva brennandi spurningunni fram yfir sundurtuggnar varir: Hvar hefurðu verið?
En hún hrópaði um leið, heyrði ekki, lét sem hún heyrði ekki: Palli, sjáðu, þetta er Una! Ég fékk hana til að koma með mér heim!
Aftur gnísti ég: Hvar hefurðu verið?
En hún hélt áfram að tala, hafði verið á leið heim, nennti ekki að hanga lengur í þessu leiðindapartíi, sagðist ekki hafa fundið mig - sem var lygi, ég þekkti Söru, hún hafði ekkert leitað, hún hafði bara farið - en fann þig hvergi nokkurs staðar og var einhvern veginn svo leið, svo algjörlega dán, ráfandi þarna ein í rigningunni eftir blautum götunum, en sá þá ljós hjá mömmu þinni og datt í hug að banka upp á: Og þú veist ekki Palli, allt sem hefur gerst - Og varð að þagna til að ná andanum, leit nú loks á mig, sá mig, horfði á mig nokkur andartök, fór svo að hlæja, hnykkti til höfðinu svo svart hárið sveiflaðist og sneri sér aftur að brúnleita flekknum, sagði: Una, ferlegur dóni get ég verið, fyrigefðu. Þetta er Páll. Ekki postuli. Og þó. Biddu hann endilega að lesa fyrir þig ljóðið um ferðina til Damaskus.
Ég trúði þessu ekki. Ég trúði því ekki að hún hefði sagt þetta. Ég fann hvernig hnefarnir krepptust, allt hvarf í móðu, þessi háðslegi hlátur, svart hárið í fyrirlitningarsveiflu, og svo orðin, högg undir belti. Ég hafði einu sinni sýnt henni þetta ljóð, misheppnað barnalegt ljóð, hjartakvein, minning um löngu liðna skíðaferð í brekku. Aftur fann ég blóðbragð í munni. En þá komu út úr móðunni augu, voru allt í einu þarna á milli okkar, stór grá augu, allt að því gagnsæ, glær. líktust fiskaugum, man að ég hugsaði það, í þeim keimur af ótta, en samt eins og þau lýstu, mitt á milli okkar, tveir sindrandi ljósblossar, og stoppuðu mig af, og líkt og úr löngum fjarska heyrði ég barnslega rödd segja...
(s. 77-79)