Beint í efni

Mói hrekkjusvín: misskilinn snillingur

Mói hrekkjusvín: misskilinn snillingur
Höfundur
Kristín Helga Gunnarsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Barnabækur

Linda Ólafsdóttir myndskreytti.

Um bókina:

Mói hrekkjusvín er misskilinn snillingur. Stundum bjargar hann lífi fólks hinu megin á hnettinum en samt fara allir á taugum þegar hann skrúfar í sundur raftæki eða hristir nokkra gosflöskur. Byssu-Jói, risavaxinn leynikúreki og verndari Móa, er aldrei langt undan, nagar puntstrá, tyggur tóbak og segir: „Ó boj, MÓI!“

Úr bókinni:

Það voru greinilega stórkostleg skilyrði fyrir talsvöðvarsamband í flaggstönginni hjá ömmu og afa. Dálitla stund lá ég í grasinu og flakkaði á milli rása. Ég heyrði í tveimur flutningabílstjórum fyrir norðan sem ætluðu að hittast á Sigluvík. Svo heyrði ég í konu sem var að tala við manninn sinn úti á sjó en ég nennti ekki að hlusta á þau. Því næst talaði ég við leigubílstjóra í Reykjavík. Hann var í vandræðum með talstöðina sína og ég sagði honum bara að líta við heima hjá mér eftir helgi. Ég gæti áreiðanlega gert við hana. Það voru ekki margir í talstöðinni þennan dag en þegar ég flakkaði áfram á milli rása heyrði ég kallað: Meidei! Meidei! Meidei!

Ég vissi strax hvað það þýddi. Það vita allir talsvöðvakallar og líka sjómenn og björgunarforingjar eins og pabbi. Afi spæjó veit það líka því hann er lögga. Meidei er alþjóðlegt orð yfir hjálp. Þarna var einhver kall að hrópa á hjálp.

Ég greip hljóðnemann og kallaði á móti.

Halló, halló, mæ neim is Mói. Það þýðir að ég heiti Mói.

Helló Mói, var svarað en svo kom einhver romsa á eftir sem mér var alveg óskiljanleg.

Veit, mister, veit! hrópaði ég en það þýðir bíddu, manni, bíddu. Mæ afi help jú, sagði ég svo en það þýðir afi minn getur hjálpað þér. Ég er nefnilega orðinn ótrúlega sleipur í ensku.

Á meðan ég lék mér í talstöðinni bar afi spæjó töskurnar út í bíl. Hann varð ótrúlega hissa þegar hann reyndi að setja bílinn í gang og ekkert gerðist. Afi klóraði sér í hausnum og tók upp vélarhlífina. Þegar hann hafði skoðað vélarrúmið vel og lengi uppgötvaði hann að rafgeymirinn var horfinn. Hann leit í kringum sig, kom auga á loftnetið á flaggstönginni og kom gangandi til mín.

Þegar ég ætlaði að spretta á fætur til að sækja afa, fyrir þennan útlending sem kallaði á hjálp í talstöðinni minni, stóð afi yfir mér.

Hvað ertu nú búinn að gera, strákur? sagði hann ergilega.

Afi, ég er í ferlegum vandræðum, sagði ég óðamála.

(24-5)

Fleira eftir sama höfund

Ríólítreglan

Lesa meira

Fíasól á flandri

Lesa meira

Fíasól í fínum málum

Lesa meira

Kjallari og fyrsta hæð - hætta á hruni: bóklestur barna - alvara málsins

Lesa meira

Fíasól í hosiló

Lesa meira

Markaðsbörnin og ábyrgðin

Lesa meira

Sigurför himintunglanna: glerlist á sporbaug út í heim

Lesa meira

Vorvindar: viðurkenningar IBBY á Íslandi 2004.

Lesa meira

Bókmannsraunir: vangaveltur um staf og blað

Lesa meira