Beint í efni

Kristín Helga Gunnarsdóttir

Æviágrip

Kristín Helga Gunnarsdóttir fæddist 24. nóvember 1963 í Reykjavík. Eftir stúdentspróf stundaði hún nám við Háskólann í Barcelona og lauk síðan B.A. prófi í spænsku og fjölmiðlafræði frá University of Utah í Salt Lake City 1987. Hún tók próf frá Leiðsögumannaskóla Íslands árið 1994. Kristín Helga hefur starfað sem leiðsögumaður og fararstjóri, verið flugfreyja hjá Flugleiðum og hún var fréttamaður hjá Stöð 2 og Bylgjunni 1987-1998. Frá 1998 hefur hún einbeitt sér að skrifum og blaðamennsku.

Fyrsta bók Kristínar Helgu, Elsku besta Binna mín, kom út árið 1997 og síðan hefur hún gefið út fjölmargar bækur fyrir börn. Hún hlaut Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur árið 2001 fyrir bókina Mói hrekkjusvín og hefur síðan hlotið fleiri viðurkenningar fyrir verk sín, m.a. Bókaverðlaun barnanna ítrekað, síðast árið 2018 fyrir Vertu ósýnilegur. Hún hefur jafnframt hlotið Vestnorrænu barnabókaverðlaunin og Sögustein, barnabókaverðlaun IBBY á Íslandi.

Kristín Helga er gift og á þrjú börn. Hún býr í Garðabæ.

Forlag: Mál og menning.

Mynd af höfundi: Ljósmyndasafn Reykjavíkur.