Úr Regnbogi í póstinum:
Um leið og ég kom til Kaupmannahafnar hringdi ég heim. Pabbi svaraði. Eftir að ég flutti að heiman hætti hann að spyrja mig hvort mér liði vel. Þess í stað spyr hann: “Er ekki í lagi með eldavélina?” eða “Virkar sjónvarpið ekki? Hvað með vídeóið?”
Þar sem ég hafði ekki tekið neitt af þessu með mér í ferðina átti ég allt eins von á því að hann spyrði hvort ladyshaverinn virkaði ekki vel eða hárblásarinn eða litla víbrandi hjartað sem Dísa, vinkona mín, manaði mig upp í að kaupa í dónalegri búð í Amsterdam í fyrrasumar. Hann lét það blessunarlega eiga sig og því gat ég sagt honum formálalaust að dálítil breyting hefði orðið á högum mínum. Ég sagðist ætla að taka lest til Madridar. Ég veit ekki af hverju ég sagði Madrid. Það bara hljómaði betur en að fara til Kaupmannahafnar. Þá hefði pabbi líklega haldið að ég væri að fara að gera það sama og hann gerði á mínum aldri og það gæti reynst honum ofraun. Ég er líka viss um að það myndi hnussa í mömmu ef hún vissi hvar ég væri. Arnar, bróðir hennar, býr í Kaupmannahöfn og þeim hefur aldrei komið neitt sérstaklega vel saman. Ég hef því aldrei hitt hann og það eina sem ég veit um hann er það litla sem amma Stína hefur sagt mér. Arnar var gítarleikari í frægri hljómsveit. Hann var fyrstur íslenskra tónlistarmanna til að fleygja sér af sviðinu ofan á áhorfendur og komst svo langt að gera það að sérstöku listformi. Enn þann dag í dag sést til tónlistarmanna reyna að ná sviffluginu sem felst í því að svífa með beinan likama og útrétta handleggi ofan í áhorfendaskarann.
(s. 13-14)