Um bókina:
Sálmurinn um glimmer er söguljóð þar sem tekist er á við ástríður, þjáningu, dauða, endurfæðingu, tungumálið eða skáldskapinn og fegurðina sem „bjargar heiminum á endanum“.
Úr Sálminum um glimmer:
hann leggur hönd sína á munn
minn og stingur uppá
að við þegjum einn vetur
þú þarft ekki orð svo
ég tek frá þér orðin og
loka í nágrannahelli
þar sem við geymum
sauðina beint frá bónda
neskaffið
gmjólkina og
döðlur í boxi
komdu við skulum kveikja
logandi bál
og verða ómótt
af reyk
hendum ekki
reiður
á hugmyndum
hugtökum
tölum
bara rúmfræði
ég sver að þér fannst það gott
einu sinni hef ég talað og
endurtek það ekki
tvisvar og geri það ekki oftar
veistu ekki segir hann
að hjarta karlmannsins er þyngdar
sinnar virði í orðum
ég segi ef þetta samband
gengur ekki þá
verður einhver annar
á eftir þér
(29-30)
félagi minn er
svartur
innflytjandi með gráar malartær
sem ávarpar lýðinn
á blásilfruðu svellinu
við ræðum
esb og erum ekki sammála um allt
en kjósum yfirleitt sama flokkinn
ég og krummi
af því þú ert svo mikið á ferðinni
geturðu kannski
farið fyrir mig tvær ferðir
aðra að skila bók á borgarbókasafnið og
hina með skattframtalið
(47)