Æviágrip
Auður Ava Ólafsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1958. Hún var lektor í listfræði við Háskóla Íslands 2003-2018. Hún hefur einnig kennt listfræði og listasögu við Leiklistarskóla Íslands og var um tíma forstöðumaður Listasafns Háskóla Íslands. Auður hefur sett upp myndlistarsýningar og fjallað um myndlist og listasögulegt efni í ýmsum fjölmiðlum.
Fyrsta skáldverk Auðar var skáldsagan Upphækkuð jörð sem kom út hjá Máli og menningu árið 1998. Síðan hefur hún skrifað bæði skáldsögur, leikrit og ljóð.
Auður hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir bækur sínar. Rigning í nóvember hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2004. Skáldsagan Afleggjarinn er margverðlaunuð bók, meðal annars hlaut hún Menningarverðlaun DV í bókmenntum 2008, Fjöruverðlaunin sama ár og tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2009. Sagan vakti mikla athygli í Frakklandi þegar hún kom þar út í þýðingu Catherine Eyjólfsson sem Rosa Candida árið 2010, og einnig var franska þýðingin verðlaunuð í Quebec í Kanada vorið 2011. Auður hlaut bæði Íslensku bókmenntaverðlaunin og Bókmenntaverðlaun starfsfólk bókaverslana fyrir skáldsöguna Ör 2016 sem og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2018. Hún hefur jafnframt tvívegis verið tilnefnd til þeirra; fyrst fyrir skáldsöguna Undantekningin: (de arte poetica) og svo Ungfrú Ísland 2018 en fyrir þá bók hlaut hún Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana í flokki skáldsagna.
Haustið 2019 hlaut Auður frönsku Médici-verðlaunin fyrir Ungfrú Ísland í flokki erlendra bóka. Bókin kom út í Frakklandi það haust í þýðingu Erics Boury, sem Miss Islande. Verðlaunin eru veitt bæði frönskum og þýddum skáldsögum.
Um höfund
Hér á Bókmenntavefnum má lesa tvær greinar um höfundarverk Auðar Övu. Þá fyrri skrifaði Úlfhildur Dagsdóttir árið 2011, hún nefnist Gróður jarðar og birtist hér strax fyrir neðan.
Seinni greinina ritaði Þórunn Hrefna árið 2024, hún nefnist Höfundur um texta, texti um höfund, og birtist hér fyrir neðan í framhaldi af fyrri greininni. Smelltu hér til að fara beint í greinina Höfundur um texta, texti um höfund.
Gróður jarðar
Í Afleggjara (2007) Auðar Övu Ólafsdóttur er barn getið í gróðurhúsi. Þetta er þriðja skáldsaga Auðar, en í þeirri fyrstu, Upphækkaðri jörð (1998), er barn getið í rabbarbarabeði. Í Afleggjaranum er greinilegt að barnið er tákn gróður jarðar, eða gróður jarðar tákn barnsins, en allar þrjár skáldsögur Auðar fjalla um börn og samskipti þeirra við forráðamenn sína, sem eru þó ekki endilega foreldrar þeirra. Samskipti við gróður jarðar og börn er því eitt af leiðarstefjum sagnanna, og reyndar fjalla þær allar um samskipti og tjáningu yfirleitt. Í Upphækkaðri jörð á stúlkan Ágústína nokkuð erfitt með að tjá sig á þann hátt sem hentar kennurum hennar, í Rigningu í nóvember (2004), annarri skáldsögu Auðar, ferðast kona um með heyrnarlaust barn og í Afleggjaranum sest söguhetjan Arnljótur að í litlu þorpi og þarf að læra að tala næstum útdautt tungumál. Í þorpinu kynnist hann svo munki sem er tungumálaséní.
Það þarf kannski ekki að koma á óvart að Auður Ava Ólafsdóttir fjalli um samskipti og tjáningu í skáldverkum sínum, en hún er starfandi listfræðingur. Þó er myndlist ekki endilega áberandi stef í skáldsögunum, heldur birtist bakgrunnur Auðar frekar í því hvernig hún nálgast viðfangsefni sín og fjallar um sameiginlegar spurningar sem liggja að baki allri listsköpun, spurningar sem lúta einmitt að því hvað tjáning getur verið fjölbreytt - og erfið - og hvernig samskipti við annað fólk og umhverfi lúta iðulega sínum eigin reglum, en fara ekki endilega einhverjar fyrirfram ruddar brautir.
Fyrir utan skáldsögurnar þrjár hefur Auður sent frá sér eina ljóðabók, Sálminn um glimmer (2010). Bókin inniheldur í raun eitt langt ljóð sem lýsir einskonar ferðalagi eða eiginlega því að leggjast út að hætti útilegumanna, en ljóðmælandi er í síðari hluta bókarinnar stödd í helli með félaga sínum:
góðir íslendingar nær og fjær
ég og elskhugi minn njótum hælis í helli
þetta er tveggja herbergja hellir
með frostrósaþili
skammt frá dánu
hamratrölli
Ljóðmálið einkennist af einhverskonar þulustíl, með tilheyrandi tilvísunum til allra átta, reyndar svo að það er stundum dálítið erfitt að átta sig á hvert skáldkonan er að fara. Að einhverju leyti er hér verið að takast á við menningararfinn, þjóðsögurnar og bókmenntirnar eins og birtist vel í þessum kafla:
ég ber það kannski ekki utan á mér
með sanseraðan himin á augnlokum
til hátíðabrigða
hversu djúpt rætur mínar liggja
í beinfrosnum kirkjugarði
norðan heiða
kemur upp úr moldarkófinu
að formóðir mín
var annáluð gleðikona
(islendingabok.is)
sem sigldi til eyjunnar
yfir hyldýpishaf
á síðustu duggu brimarkaupmanna
um brimhvíta sogöldu tímans
og giftist berdreymum presti
sem greip um
fálmandi hönd uppúr
gruggugri straumkviku
madelaine stóð löngum stundum í fjöruborðinu og
talaði erlenda tungu við fiska sem rak andaða á land því
mikill var máttur orða hennar
saman áttu þau úlfhéðinn hagmæltan son sem
þýddi nokkrar sonnettur eftir lousie labé
Hraðinn er mikill og minnir að einhverju leyti á hugarflæði módernismans, þar sem hugurinn rásar frjáls um og ýmis og ólíkleg hugrenningatengsl myndast.
Innan listfræðinnar (og reyndar sjónmenningarfræða einnig) er mikið fjallað um þá mótsögn sem felst í því að fjalla um myndir eða sjónræna upplifun í orðum. (Hér verður ekki farið út í flókna umræðu um að myndlist takmarkast alls ekki við myndrænt eða sjónrænt form). Það að skapa verk í myndrænu formi felur í sér, allavega að hluta til, að þar sé á ferðinni tjáning, tilfinning eða upplifun sem ekki er hægt að fanga með orðum. Hvernig á þá að vera hægt að leggja mat á verkið, lýsa því og greina það í rituðu eða töluðu máli? Að hluta til hefur þessi umræða síðan farið út í ýmiskonar kenningar og leiki með tengsl orða og mynda sem hafa verið ákaflega frjósamar og mikilvægar innan bæði fræðanna og myndlistarinnar sjálfrar (sbr. að myndlist er ekki takmörkuð við myndir). Sjálf hefur Auður skrifað um þetta í grein sem nefnist „Ef ég væri mynd hvernig myndirðu þá orða mig? Samband myndmáls og tungumáls í ljósi túlkunaraðferða listfræðinnar“, í Ritinu 1/2005. Í þessari umræðu er áhersla lögð á hvernig áhrif orð hafa á myndir - og hvort þau hafa áhrif. Þetta hefur síðan verið tengt lengra í greiningu á því hvernig allt umhverfi, sjálft safnið eða galleríið, merkingar (‘án titils’ er t.d. titill verks og segir sitt um það, alveg eins og hvert annað formlegra heiti) og sýningarskrár móta upplifun sýningargesta. Allt felur þetta í sér einskonar hæfni í því sem hefur verið kallað myndlæsi, en þjálfun í slíku hefur lengst af ekki fengið álíka vægi og læsi og skilningur á rit- eða talmáli.
Það sem gerir skáldsögur Auðar sérlega áhugaverðar er að í þeim má sjá nálgun á viðfangsefni þessarar umræðu úr annarri átt. Úr þeim má lesa einskonar könnun á því hvernig myndlistin - og listfræðin - hefur áhrif á og grípur inní hið ritaða mál, skáldlegt mál. Hér kemur augljóslega aftur inn fyrrnefnd áhersla á samskipti og tjáningu, auk þess sem myndauðgi texta Auðar ýtir enn undir tilfinninguna fyrir samspili þessara tveggja listgreina. Það er auðvelt að sjá bækur Auðar fyrir sér sem myndlýst verk, sérstaklega kallar Afleggjarinn næstum á að vera endurútgefin sem myndabók. Þannig skapa verk Auðar tilfinningu fyrir frjálsu flæði milli myndlistar, listfræða og ritmáls og bjóða uppá öflugt mótvægi við það viðhorf innan myndlistar að umritun myndlistar í ritmál feli í sér átök og afmarkanir.
„að breyta myndum í orð“
Upphækkuð jörð minnir dálítið á ævintýri, en þótt sviðsetning sögunnar sé vissulega kunnugleg, íslenskt sjávarþorp undir fjalli, þá er hún jafnframt dálítið fantastísk, því eyjan sem þorpið er á virðist öllu minni en eyjan Ísland. Ennfremur er tíminn næsta framandlegur, þrátt fyrir að margt sé nútímalegt þá er yfir allri sögunni einhverskonar tilfinning tímaleysis sem minnir á þá óljósu fortíð sem finna má í ævintýrum. Í þessu þorpi býr unglingsstúlkan Ágústína sem hefur alist upp hjá móðursystur sinni Nínu, því mamma hennar er vísindakona og ferðast víða um heiminn að eltast við farfugla. Hún sendir dótturinni þó reglulega bréf frá framandi slóðum sem auka enn á ævintýrablæ sögunnar. Ágústína er fötluð, fætur hennar eru gagnlitlir og hún ferðast um á hækjum. Handleggirnir eru þó öflugir og hendurnar sömuleiðis, með þeim gróðursetur hún matjurtir, blóm og tré í garðinum sínum, spilar á óbó, skýtur fugla, syndir og rær. Draumur hennar er að klífa fjallið sem gnæfir yfir þorpinu og bókinni lýkur á þeirri ferð.
Hvort sem um er að kenna hennar fjarlæga og erlenda föður eða einhverju öðru, er Ágústína nokkuð ólík samferðafólki sínu í bænum. Skynjun hennar er sérstæð og þetta kemur henni í vandræði hjá kennaranum sem segir við fósturmóðurina Nínu: „Það verður að segjast eins og er að Ágústína nálgast þau verkefni sem skólinn leggur fyrir hana oft og tíðum á afar undarlegan hátt. Byrjar á jöðrunum, ef svo má segja og fer þaðan út í óskylda útúrdúra og gleymir sér. Guð má vita hvernig hún hugsar og ályktar. Hugsun hennar virðist liggja í margar áttir samtímis.“ Nína svarar: „Hún er kannski svolítið draumlynd stundum, hún Ágústína mín“ (78). Fyrr í sögunni er lýsing á því hvernig stúlkan upplifir umhverfi sitt:
Hún fékk snemma tilfinningu fyrir sérstöðu sinni í veröldinni. Ekki bara vegna fótanna heldur vegna myndanna sem hrúgast stjórnlaust upp í huganum, eða gerðu það þar til hún fór að aga þær og læra að breyta myndum í orð og byggja úr heilu turnana. Þannig breytast myndafjöll í orðafjöll í mörgum lögum. Neðsta lagið hefur flest orð, annars hrynur turninn. Það er eins með neðsta lagið í orðafjöllunum og neðri lögin á tertunum hjá Nínu, það þarf að hlaða meira í þau, fylla af niðursoðnum ávöxtum og súkkulaðibitum og setja mestan rjóma. (22)
Hér kemur greinilega fram hvernig orð ummyndast í myndir og öfugt, auk þess sem fjallað er um ólíkar leiðir til upplifunar. En það eru ekki bara orðin heldur einnig tölur sem fá sérstæða meðferð hjá Ágústínu:
Samband hennar við tölur er ekki normalt. [...] Ef hún setur tölur á blað þá staflar hún þeim og snýr á ýmsa kanta og býr til alls kyns fléttumynstur. Nokkurs konar þrívíddartalnamynstur með bakhliðum og skuggum, líkt og reikistjörnur úti í geimnum sem hún síðan nálgast úr ýmsum áttum. Hún virðist ekki skilja að tölur og útreikningar eiga sér aðeins framhlið. (79-80)
Enn lætur Nína sér athugasemdir kennarans í léttu rúmi liggja og yfirhöfuð er lítið gert úr praktískum erfiðleikum í sögunni, þrátt fyrir að ljóst sé að þær frænkur búa við fremur þröngan kost í hripleku húsi. Ævintýrið bægir burt slíkum raunsæisbitum sem þó fljóta um í nákvæmum lýsingum á heimilishaldi, sultugerð og sláturtöku.
Uppskriftir
Lítil uppskriftabók fylgir með Rigningu í nóvember, en þar kemur matargerð nokkuð við sögu. Bókin fjallar um konu sem er nýskilin við mann sinn. Hún ákveður að stokka upp líf sitt, setur elskhugann í bið og ákveður að fara í ferð. Óvæntir vinningar í happadrætti og lottó hjálpa þar til og eftir skrautlega fléttu atburða sem hefjast með því að kasólétt vinkona hennar dettur í hálku er söguhetja vor skyndilega lögð af stað út á land, um hávetur, með heyrnarlausan son vinkonunnar í aftursæti bílsins. Saman lenda þau í ýmsum ævintýrum á leiðinni, en veigamesti hluti sögunnar er ferðasaga. Sú ferð er farin í rigningu, einsog titill sögunnar gefur til kynna og Ísland birtist því hulið grárri rigningarþoku sem gerir lítið til að ýta undir þá ímynd glæsilegrar náttúru sem lengst af tengist sögum af ferðum um landið, ekki síst í íslenskum kvikmyndum: „Um leið og rignir dofna útlínur heimsins, í stað sjóndeildarhrings loðin kennileiti. Í rauninni er allt landið meira og minna auðn þegar komið er út fyrir gatnakerfi borgarinnar, svartar sandbreiður, svört hraun, svart haf ekki langt undan og svartur himinninn yfir.“ (102) Viðsnúningur af þessu tagi er dæmi um það hvernig Auður nálgast kunnugleg viðfangsefni íslensks skáldskapar á ferskan hátt. Í Afleggjaranum er síðan að finna erlent stef við þessa nálgun, en þar keyrir Arnljótur um Suður-Evrópu og gegnum skóga sem virðast endalausir: „litrófið frá grænu til græns“ (71).
Auður notar grámann til að spila á stef íslenskrar þjóðtrúar eins og þegar drengurinn þarf að pissa á miðri heiði og ökukonan ákveður að létta á sér líka en vill leita uppi skjól í þokunni. Hún leiðir drenginn í átt að vörðu sem nálgast þó lítið og skyndilega eru þau stödd í miðri refaveiði: „Menn í grænum skæruliðasamfestingum spretta upp úr mosanum með haglabyssur á lofti, eina skepnan sem drepur sína líka, standa og miða á okkur byssunum, umkringja mig og drenginn.“ (107) Svo leggja þeir niður vopn og reynast hinir vinalegustu og skipta um sprungið dekk á bílnum. Seinna fær hún aðstoð frá öðrum manni sem einnig sprettur skyndilega fram úr þokunni, sá segist í fyrstu vera álfur, en reynist mennskur, auk þess sem hann kann táknmál og getur því átt samskipti við drenginn.
Samskipti við karlmenn eru fyrirferðamikil í sögunni en þó er aðaláherslan á samband konunnar við heyrnarlausan son vinkonunnar, Tuma. Hann talar táknmál en reynist einnig bæði læs og skrifandi, fjögurra ára gamall. Í fyrstu reynist auðvelt að skilja barnið, til dæmis í búðum, en þar bendir hann á það sem hann langar í og konan hlýðir. Tjáskiptin inni í bílnum eru hinsvegar flóknari:
Það er ekki til neins að brýna raustina fram í, hann heyrir ekki í mér, í hvert sinn sem við þurfum að tala saman gef ég stefnuljós út í vegakantinn, stöðva bílinn og sný mér við í sætinu til að hann geti horft á hljóðar varir mínar hreyfast og mynda orð, munninn opnast og lokast. (104)
Þannig er lýst samskiptum og misskilningi í stuttum áhrifaríkum innskotum:
Hann ætlar að tala lágt þegar hann er kominn ofan í pokann, langar til að hvísla í trúnaði, en röddin er hol og hljómmikil, þótt hann leggi sig allan fram. Lófi hans er líka of lítill til að bera öll heimsins skilaboð í orðum. Hins vegar er ég með þrjár bækur í bílnum til að læra að skilja heyrnarlaust barn. Ég þarf bara að finna mér hentugan tíma til að lesa þær. (118)
Það er eðlilegt að konan líti á samskiptavanda þeirra sem eitthvað sem hægt er að lesa sér til um og læra, því hún er tungumálaséní og starfar sem yfirlesari og þýðandi á ellefu tungumál. Í þessu tilfelli er þó ljóst að bækur bjarga litlu og tjáningin er eitthvað sem þarf að læra smátt og smátt um leið og hún tengist drengnum betur.
„mállaus í moldinni“
Samskipti barns og fullorðins eru enn viðfangsefni í Afleggjaranum, en þar þarf ungur faðir skyndilega að kynnast dóttur sinni, sem hann hafði getið alveg óvart í gróðurhúsi. Arnljótur hefur erft áhuga á gróðri og ræktun frá móður sinni og þarsem hann veit ekki vel hvað hann vill gera með líf sitt ákveður hann að bjóða sig fram til að vinna í frægum rósagarði frá miðöldum. Til að komast þangað leggur hann í langa ferð yfir Suður-Evrópu sem hefst á því að hann fær botnlangakast og er skorinn upp. Með í ferð eru afleggjarar af sérstöku rósaafbrigði, áttblaðarós í óvenjulegum fjólurauðum lit. Rósagarðurinn er staðsettur í munkaklaustri í litlu þorpi og þar kynnist Arnljótur munkinum Tómasi sem talar nítján tungumál vel og þónokkur önnur ver. En svo fær ungi maðurinn óvænt símtal, barnsmóðir hans er í vandræðum vegna ritgerðaskrifa og þarf að fá að koma barninu fyrir hjá föður sínum. Síðasti hluti sögunnar lýsir því svo hvernig hann kynnist dótturinni, Flóru Sól, og móður hennar, Önnu. Þessi óvenjulega fjölskyldusamsetning endurspeglar þær óvenjulegu fjölskyldur sem einkenna allar sögurnar. Í Upphækkaðri jörð þekkir Ágústína ekki föður sinn, ekki frekar en móðir hennar, og elst upp hjá móðursystur. Í lokin fær hún frétt um að móðir hennar hafi eignast son með öðrum manni í fjarlægu landi. Í Rigningu í nóvember kemur drengurinn Tumi að einhverju leyti í staðinn fyrir dreng sem sögukonan eignast á unglingsaldri og gefur í fóstur, í lok sögunnar ákveður hún að taka Tuma með sér í enn frekari ferðalög. Tumi þekkir ekki föður sinn og móðir hans er enda búin að eignast tvíbura með nýjum manni og þarf að sinna þeim - en þó ekki manninum. Í Afleggjaranum hefur móðir Arnljóts farist í bílslysi og hann býr með föður sínum. Tvíburabróðir hans er þroskaheftur og býr á sambýli, þeir bræður eru eins ólíkir og hægt er. Þannig teiknast upp litríkt mynstur óvenjulegra vensla, ekki ólíkt og ýmiskonar plöntur þrífast saman í vel hirtum garði.
Afleggjarinn er þéttasta skáldsaga Auðar Ólafsdóttur. Fyrri bækurnar tvær einkennast nokkuð af því að vilja teygja sig í of margar áttir, en í Afleggjaranum er öllu haldið til haga. Það er freistandi að taka líkingu úr sögunni af garðrækt en „fyrsta vikan fer í að hreinsa illgresið og klippa mér leið í gegnum þéttriðin rósalimgerði“ (140). Seinna er sögumaður „stöðugt að uppgötva nýjar tegundir faldar í óræktinni, rósatré, runnarósir, klifur- og vafningsrósir, dvergrósir og villirósir, stór stök blóm á löngum greinum eða blómaklasa, mismunandi sköpulag, ilmur og litur“ (141). Á sama hátt sogast lesandi inn í þetta gróskumikla verk sem einnig þjónar því hlutverki að tengja hinar sögurnar saman. Eins og fyrr segir er sameiginlegur þráður í umfjöllun um samskipti, almennt og milli fullorðins og barns, en þessi samskipti tengjast meðal annars hugmyndum um fötlun og sérstöðu, sem einnig kemur fram í hinum óvenjulegu fjölskyldusamsetningum sem teiknast upp í verkunum. Í Afleggjaranum þéttist einnig sá ‘yfirnáttúrulegi’ þráður sem finna má í hinum verkunum. Ágústína er trúuð og vonast til að guð geri á henni kraftaverk og þrátt fyrir að trúin sé ekki eins nálæg í Rigningu í nóvember þá kaupir sögukonan litla kirkju sem hún límir á mælaborðið. Hinsvegar er þar að finna annarskonar hugmynd um æðri öfl, í upphafi sögunnar fer konan til spákonu sem spáir fyrir um helstu atburði sögunnar, að hætti drauma í Íslendingasögum. Draumur kemur einnig fyrir í Afleggjaranum, en þar er trúin augljóslega mikilvægur þáttur, þó ekki væri nema vegna þess að rósagarðurinn er hluti af klaustri. Að auki koma myndskreytingar í einni kirkju þorpsins mjög við sögu, en á málverki af Maríu með Jésúbarnið finnur Arnljótur sláandi líkindi með dóttur sinni.
Hér kemur myndlistin einnig inn og tengist trúnni náið. Myndlistin er ekki, frekar en gróðurinn, hlutlaus aðili, hún er virk og lifandi eins og kemur í ljós þegar líður á söguna. Myndlist er líka tengd minningum og ímyndunarafli, eins og í lýsingunni á slysstaðnum þarsem móðir Arnljóts fórst:
Ég tek mér tíma áður en ég nálgast mömmu inni í bílnum á hvolfi í hraunbollanum. Ég gef mér virkilega tíma til að gaumgæfa náttúruna, hringsóla lengi yfir staðnum, eins og kvikmyndatökumaður að taka loftmynd úr krana, áður en ég kem að mömmu sjálfri, aðalleikonunni sem allt snýst um. Það er sjöundi ágúst og ég ákveð að það hafi haustað snemma. Þess vegna sé ég mikið rautt og logagyllt í náttúrunni, ég sé fyrir mér eintóm tilbrigði við rautt á vettvangi slyssins: rústrautt berjalyngið, blóðrauðan himininn, fjólurauð laufin á nokkrum hríslum í nágrenninu, gylltan mosann. Sjálf var mamma í vínrauðri hnepptri peysu og storkið blóðið sást ekki fyrr en pabbi skolaði peysuna í baðkarinu heima. Með því að dvelja við aukaatriðin í sviðsmyndinni, eins og maður grandskoðar fyrst bakgrunn málverksins, áður en maður kemur að sjálfu myndefninu, þá slæ ég dauðastund mömmu á frest [...]. (21)
Sjálfur var Arnljótur alls ekki á staðnum og því er myndin sem hann dregur upp hans eigið sköpunarverk eins og kemur fram í því hvernig hann ‘ákveður’ að það hafi haustað snemma. Hér birtist einnig vel hvernig Auður notar gróður og gróðurlíkingar markvisst í gegnum alla söguna, allt frá þessari sviðsetningu dauðans í upphafi ferðarinnar til hins græna litrófs leiðarinnar í gegnum Suður-Evrópu sem endar í rósagarðinum fræga, en þar þarf að huga að litasamsetningum. Gróðurinn er tjáning sem vex og grær þvert á mál og málleysi, en gróður og ræktun eru einnig þau meðöl sem Ágústína notar til að tjá sig og ná taki á lífi sínu. Þessar hugmyndir um ræktun skapa sögunum jarðtengingu jafnframt því að taka á sig ýmiskonar myndir upphafningar, sviðsetningar, tilfinninga og, síðast en ekki síst, uppvaxtar.
© Úlfhildur Dagsdóttir, 2011
Höfundur um texta, texti um höfund
Hér á Bókmenntavefnum má finna yfirlitsgreinina „Gróður jarðar“ um verk Auðar Övu Ólafsdóttir sem Úlfhildur Dagsdóttir skrifaði árið 2011. Síðan þá hefur Auður Ava skrifað sex skáldsögur sem ég mun fjalla um hér að neðan. Þetta eru Undantekningin (2012), Ör (2016), Ungfrú Ísland (2018), Dýralíf (2020), Eden (2022) og DJ Bambi (2023). Á þessum árum hefur Auður Ava líka samið texta við dansverk og skrifað og þýtt leikrit.
Auður Ava hlaut bæði Íslensku bókmenntaverðlaunin og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir Ör. Kvikmyndin Hotel Silence í leikstjórn Léa Pool, sem gerð er eftir bókinni, var frumsýnd fyrr á þessu ári. Fyrir allar bækurnar sex sem hér eru til umfjöllunar hlaut Auður Ava tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og hún hefur ennfremur hlotið fjölda erlendra viðurkenninga.
Í þessum verkum Auðar Övu má ítrekað sjá ákveðin stef eða þemu, sem birtast aftur og aftur. Pælingar um texta, tungumál og frásögn eru miðlægar í þeim öllum. Mörkin á milli höfundar og sögupersóna hans eru á tíðum óljós – og höfundurinn Auður Ava fer stundum í felur, þykist einungis milligöngumaður, í raun sé verkið skrifað af einni af persónum hennar.
Það sem liggur sem glóandi þráður um verkin er ógnin sem mannkyninu stafar af rányrkjunni sem það hefur sjálft stundað á jörðinni; loftslagsbreytingar af mannavöldum, hamfarahlýnun. Heimsendir er í nánd, ef ekki bókstaflegur, þá persónulegur heimsendir fólks sem glímir við þjáninguna í of stórum skömmtum.
Hin eilífa kvenmynd
Í Undantekningunni verður alger kúvending á lífi aðalsöguhetjunnar Maríu strax á fyrstu síðu þegar Flóki, eiginmaður hennar til ellefu ára tilkynnir að hann sé að yfirgefa hana fyrir karlmann.
Í sögunni fylgjum við Maríu fyrstu vikurnar í þessu nýja lífi, þar sem hún reynir að koma reiðu á óreiðuna, auk þess að hugsa um börnin þeirra Flóka, tvíbura á þriðja ári. Eins og líf Maríu sé ekki nægilega flókið fyrir, þá skýtur blóðfaðir hennar upp kollinum og vill fá að hitta hana í fyrsta sinn, auk þess sem barn sem þau Flóki hafa ákveðið að ættleiða bíður þess að vera sótt.
Maríu er skiljanlega nokkuð brugðið yfir þessu öllu, en hún hefur verið með harðlokuð augu í hjónabandinu, þar sem smám saman kemur í ljós að Flóki hefur margsinnis haldið framhjá henni og kynhneigð hans hefur nánast blasað við öllum öðrum.
Lífið í sínum ófyrirsjáanleik er einn af gildustu þráðum verksins, þótt það komi í ljós að María hefði nú eiginlega átt að sjá þetta fyrir. Mörgu áttar hún sig á þegar hún lítur til baka og sumu þurfa aðrar persónur að mata hana á með teskeið. María er ekki sérlega athugul kona, ef marka má allt sem maðurinn hennar hefur verið að dunda við – og móðir hennar virðist líka hafa lifað tvöföldu lífi án þess að hún taki eftir nokkru.
Perla, dvergvaxin nágrannakona Maríu tekur hins vegar eftir öllu. Hún fylgist vel með Maríu og hennar lífi og skýrir hnýsnina með því að hún sé alltaf á varðbergi, sem rithöfundur, sálgreinir, aðstoðarkona glæpasagnahöfundar og hjónabandsráðgjafi. Margar af athugasemdum Perlu hefjast á orðunum: „Ég komist ekki hjá því að taka eftir...“ og tíðar eru setningar eins og: „Ég sá að þú fórst út í uppnámi og börnin ekki í úlpu“ (110). Perla þarf að sögn afspyrnu lítinn svefn og skiptir sólarhringnum milli ráðgjafarstarfa á daginn og ritstarfa á nóttunni. Að vísu er ýmislegt á huldu varðandi fortíð hennar og margt skrítið í kringum störfin, en hún reynist Maríu afar vel.
Perla hefur verið leigupenni fyrir glæpasagnahöfund, en eftir því sem sögu Maríu vindur fram verður hún æ staðráðnari í að fara að skrifa eigin skáldskap:
Hún segist gera sér grein fyrir því að það kunni að hljóma undarlega en þriðja kafla skáldsögunnar sem hún sé að vinna að og verði fyrsta bókin sem hún skrifi í eigin nafni, svipi skuggalega mikið til þess sem nágrannakona hennar á efri hæðinni sé að ganga í gegnum um þessar mundir. (22)
Perla virðist hafa fylgst betur með lífi Maríu en hún sjálf, enda er sterklega gefið í skyn að María sé sköpunarverk hennar. Perla er þá höfundurinn, sem staddur er í miðju verksins. „Meta-þemað“ er endurtekið í verkum Auðar Övu, en metatextanum hefur stundum verið líkt við grískan kór, sem er að hluta til utanaðkomandi og kallast á við það sem er að gerast í sögunni, en er samt hluti af henni.
Perla lifir raunar nokkurs konar sníkjulífi á Maríu og kemur margsinnis á dag til þess að fá eitthvað lánað og María heldur henni nánast uppi í mat og drykk. Væri ekki hægt að segja að rithöfundar lifi nokkurs konar sníkjulífi á persónum sínum? Ef menn vilja forðast að vera of neikvæðir mætti segja að þeir láti persónur sínar „næra sig“.
Perla segist varla þora að stinga niður penna af ótta við að það sem hún skrifi rætist á efri hæðinni. Hún lætur þess þó getið að dramað í sögu Maríu sé aðeins of mikið: „Ef líf þitt væri skáldsaga, þá þætti slíkt ofhlæði dramatískra atburða ekki sannfærandi“ (172).
Stöðugt er brugðið upp myndum af „höfundinum“ Perlu og „sögupersónunni“ Maríu. Perla þrástagast t.a.m. á því hvað María sé falleg:
Það eru ekki allar mæður sem sitja og moka sandi í fötu og líta um leið út eins og kvikmyndastjarna. Með þessi grænu augu og kvenleg form á form ofan og allt þetta flæði kvenlegra lína, dreift á rétta staði, detta manni í hug ýmis glæsikvendi hvíta tjaldsins. (56)
Og María er ekki bara falleg. Hún er góð móðir, hún stekkur nánast hæð sína á pinnahælum, fer út í gaddgrimmdarfrost á ermalausum silkikjól, hún eldar flókna rétti eins og ekkert sé, hún stundar mikilvæg hjálparstörf meðal stríðshrjáðra og talar erlend tungumál hreimlaust. Hún nýtur aðdáunar hvar sem hún kemur. Getur þessi kona verið raunveruleg? Nei, það er hún ekki. Höfundurinn Perla talar af sér þegar hún segir: „Ég sé ekki betur en að þú sért fagurfræðileg persóna, María“ (173).
Er skrítið þótt Perla leyfi sér að dást að sköpunarverki sínu? Henni hefur tekist að búa til persónu sem er kvenleikinn uppmálaður, kvenímyndin sjálf: „Das Ewige Weibliche“ eins og Perla kemst hróðug að orði.
Höfundurinn Auður Ava skapar oft slíkar upphafnar kvenmyndir sem eru ofurfagrar, klárar og njóta virðingar og aðdáunar, allra nema kannski þeirra sem þær elska. Hin ósnertanlega mynd konunnar, nánast ævintýrapersóna eða guðleg vera. Aðstæðurnar við getnað tvíburanna gefa enn fremur til kynna að nafnið María sé langt frá því að vera tilviljun.
Í lok Undantekningarinnar er Perla að velta fyrir sér endinum á sögu sinni. Söguhetjan hennar og barnið eru á leið heim – barnið sem hún ættleiðir frá stríðshrjáðu landi og kveikir nýja von. Lokaorð Perlu eru þau að handritið sé á leið í prentsmiðju.
Þjáning mannsins og heimsins
Jónas Ebeneser, aðalpersóna Ör á það sameiginlegt með Maríu í Undantekningunni að tilveru hans er kollvarpað í upphafi sögu. Ekki einungis er hjónaband hans á enda, heldur tilkynnir eiginkona hans honum að hann sé ekki faðir Guðrúnar Vatnalilju, einkadóttur þeirra. Jónasi finnst enginn tilgangur vera með lífinu lengur og ákveður að stytta sér aldur. Sjálfur verknaðurinn vefst þó fyrir honum, þótt verklaginn sé, hann festist í hugsunum um aðferðir við sjálfsvígið:
Á ég að skjóta mig í stofunni eða hengja mig í svefnherberginu, eldhúskróknum eða á baðherberginu? Sömuleiðis þarf að velja föt til að vera í. Hvað er viðeigandi, náttföt, spariföt, hversdagsföt, á sokkunum eða í skóm? (43)
Hann kemst ekki að niðurstöðu, óttast að Vatnalilja komi að honum og ákveður að fara til útlanda, þar sem enginn þekkir hann, og fyrirfara sér þar. Jónas hefur haft það hlutverk í lífinu að gera við það sem er bilað og því tekur hann með sér verkfæratösku. Hann er hinn þögli, handlagni maður sem við mætum oft í verkum Auðar Övu.
Ör fjallar öðru fremur um þjáninguna. María í Undantekningunni vinnur við hjálparstörf og áttar sig á því að samanborið við þá kvöl sem hún hefur horft upp á í stríðshrjáðum löndum sé eiginmaður sem kemur út úr skápnum léttvægur hégómi og þjáning hennar vart marktæk. Jónas fer til „sundurskotins smábæjar“ í landi sem ekki hefur nafn í sögunni, en er eitt af þúsundum stríðshrjáðra landa allra alda, þar sem þjáningin liggur yfir öllu líkt og langdregin martröð. Þjáning Jónasar, eins og Maríu, virkar smá í samanburði. „Óhamingja mín er í besta falli kjánaleg þegar við blasa rústir og ryk út um gluggann.“ (109)
Þessi samanburður á persónulegri þjáningu og hörmungum heimsins kemur þrásinnis fyrir í bókinni. Örin sem við berum öll, mismörg og stór getum við borið saman, en er hægt að bera saman þjáningu?
Ef við myndum setjast niður, ég og þessi unga kona í bleiku strigaskónum, og bærum saman örin okkar, lemstraða líkama og teldum hve mörg spor hafa verið saumuð frá hálsi og niður úr og settum svo strik undir reikningsskilin, þá hefði hún vinninginn. Mínar rispur eru smávægilegar, hlægilegar. Jafnvel þótt ég væri með opið stungusár á síðunni, þá hefði stelpan vinninginn. (152)
Svanur nágranni Jónasar er ein mikilvægasta persóna sögunnar, en í fyrri hluta hennar sækir hann mikið í að ræða við Jónas þótt Jónas telji þá ekki nána og segi að Svanur stundi einræður, ekki samræður. Svanur heyrir ekki hróp Jónasar á hjálp (og samþykkir t.a.m. að lána honum skotvopn þegar hann er í sjálfsvígshugleiðingum). Svanur reynir líka að biðja um hjálp, en Jónas heyrir heldur ekki í honum. Þeir félagarnir spegla hvor annan, eru í raun í sömu stöðu en tala í kross.
Svanur segir ýmislegt, sem Jónas leggur enga sérstaka merkingu í:
Maður er svo smár, segir hann og klappar hundinum. Síðan leiðréttir hann sig: -Maðurinn er svo smár. (54)
Jónas finnur að Svani liggur eitthvað á hjarta, en gefur ekki gaum að því hvað það er, ber ekki kennsl á „hina persónulegu þjáningu“. Í lok sögunnar fær Jónas þær fréttir að Svanur hafi fyrirfarið sér – gengið í sjóinn.
Jafnar maður sig nokkurn tíma á því að hafa fæðst? hafði Svanur spurt. Ef maður hefði verið spurður álits, bætti hann við, hefði maður kannski tekið þá ákvörðun að fæðast ekki. (204)
Allir bera ör eftir fæðingu sína. Naflinn minnir okkur á að þjáningin er samofin lífinu sjálfu. Samanburður óhamingju Jónasar við fólkið sem hefur lifað af skelfilega martröð stríðs verður ekki hlálegur þegar allt kemur til alls, enda þjáningin sameiginleg öllu mannkyni og erfitt að bregða mælistiku á hana. Jónas vitnar í móður sína: „Öll þjáning er einstök og ólík, sagði hún einu sinni, og þess vegna er ekki hægt að bera hana saman. Hins vegar svipar hamingjunni saman“ (153).
Karlveldið markar konunni stað
Stríðshrjáða landið í Ör ber ekki nafn í sögunni og það gæti verið til á ótal stöðum í heiminum á öllum tímum. Maðurinn er alltaf að rústa heiminum og að stríða við það að rísa úr rústunum. Ungfrú Ísland er ólík hinum fimm bókunum í þessari umfjöllun að því leyti að sögusvið og sögutími er gefinn upp. Hún gerist árið 1963, að mestu í Reykjavík. Nafnkunnir listamenn þess tíma birtast í sögunni, raunverulegir atburðir á Íslandi sem og í heiminum fá pláss. Surtsey er að verða til, Kennedy er myrtur.
Hekla Gottskálksdóttir flytur úr Dölunum til Reykjavíkur, staðráðin í því að verða rithöfundur, þótt það sé ljóst strax í upphafi sögu að vegna kynferðis á hún við ramman reip að draga. Í rútunni á leið suður rifjast upp fyrir henni saga af konu á Breiðafirði, sem var „full af skáldagrillum“ og svo mikið óyndi í henni að hún endaði á því að drekkja sér. Það borgar sig alls ekki fyrir konur að skrifa, þær eiga ekki að hafa rödd og það er ekki liðið langt á söguna þegar lesandinn veit hvað er talið eftirsóknarvert konum utan móðurhlutverksins. Hekla er rétt stigin út úr rútunni í Reykjavík þegar hún hefur verið beðin að taka þátt í fegurðarsamkeppni, af manni sem leitar „að ólofuðum stúlkum sem hafa þá náðargjöf að vera bæði fagurlimaðar og andlitsfríðar“. (32)
Karlveldið þröngvar konum inn í ákveðin hlutverk og markar þeim stað – meðal annars með glápi, eins og Luce Irigaray hefur fjallað um. Maðurinn sem vill setja Heklu á pall í fegurðarsamkeppni eltir hana alla söguna, þótt hún neiti honum stöðugt. Glápt er á Heklu og káfað á henni þar sem hún er að vinna fyrir sér, hún fær lægri laun en karlarnir og á bágt með að leggja fyrir til þess að láta drauma sína rætast. Skáldið sem Hekla á vingott við reynir í sífellu að fá hana til þess að elda og ýta henni í mót húsmóðurinnar. Það er „kynvillingurinn“ Jón John, vinur Heklu, fyrirlitinn og smáður af karlveldinu, sem lyftir henni upp og hjálpar með því að veita henni rými til þess að skrifa og senda henni síðan farmiða til útlanda.
Auður Ava notar oft fyrirferðarmiklar aukapersónur til þess að styðja við aðalpersónur sínar. Nokkrum slíkum speglum er haldið á lofti í Ungfrú Ísland, til þess að spegla rithöfundinn Heklu og mögulegar „sviðsmyndir“ fyrir hana. Ísey besta vinkona hennar er talandi skáld og þrá hennar til þess að skrifa er ofsafengin. Hún er þó gift og á barn og leggur ekki í að útskýra ástríðu sína fyrir manni sínum: „Hann myndi heldur ekki skilja að stundum langar mig til að hætta því sem ég er að gera og skrifa um það í staðinn til að það verði raunverulegt“ (80-81). Ísey bergmálar hér orð Nóbelsverðlaunahafans Annie Ernaux, sem hefur sagt að henni nægi ekki að upplifa hlutina, heldur verði hún að skrifa um þá til þess að þeir öðlist merkingu.
Ísey nýtur myndlistar innilokuð á heimili sínu en er sífellt minnt á að eiginmaðurinn getur selt málverkin. Hún les og skrifar í laumi, en eiginmaðurinn vill eignast mörg börn og Ísey veit að með hverju barni mun henni gefast minni tími fyrir sjálfa sig.
Bæði Ísey og Hekla unna bókmenntum og listum og lifa ríku andlegu lífi þrátt fyrir að þeim sé þröngur stakkur sniðinn, en þar sem Hekla er ógift og barnlaus, þá hefur hún frelsið sem Ísey skortir.
Staða hommans í karlaheimi sjöunda áratugarins er enn verri en skáldkonunnar. Jón John neyðist til þess að stunda sjóinn í stað þess að hanna og sauma búninga eins og hugur hans stendur til. Hann verður fyrir líkamlegu ofbeldi vegna kynhneigðarinnar og á sjónum er hann beinlínis í lífshættu. Jón John er tvöfalt jaðraður – er líka ástandsbarn og hann er stútfullur af sjálfsfyrirlitningu.
Jón John og Hekla hafa stuðning hvort af öðru. Hann færir henni föt og bækur frá útlöndum, m.a. Hitt kynið eftir Simone De Beauvoir. Þegar Hekla spyr um hvað bókin sé svarar Jón John:
Konan í bókabúðinni sagði að hún væri um það að konur séu hitt kynið. Þú ert númer tvö, Hekla.
Hann hikar.
-Ég er miklu aftar í röðinni. Ég er ekki númer neitt. (108)
Þótt Hekla sé skrifandi kona, sem ekki fær handrit sitt gefið út, þá er hún sett skör hærra en homminn.
Starkaður Hvergerðingur, sem yfirleitt er bara kallaður „skáldið“ í sögunni hangir með hinum skáldunum á Mokka og Laugavegi 11 og talar um skáldskapinn, en minna fer fyrir andagiftinni sem nóg er af hjá Ísey eða vinnuseminni, sem er aðalsmerki Heklu. Á meðan Hekla vandar sig við að skipta sólarhringnum jafnt í þrjá parta, vinnu, svefn og skriftir, er skáldið önnum kafið við að slæpast og sefur alltaf til hádegis. Nöfn skáldbræðra hans eru líka til þess fallin að vekja kátínu: Ægir Skáldajökull, Daði Draumfjörð og Þórarinn Dragfjörð – skjallið á milli þeirra, tilgerðin og hégóminn. Starkaður er persóna sem sýnir Heklu það sem hún verður aldrei – og vill ekki vera. Hún dáist ekki að Mokkaskáldunum, heldur þráir hún miklu fremur rými til þess að geta bæði skrifað og unnið fyrir sér. Hana vantar bæði peninga og sérherbergi.
Í krafti kynferðis hefur Starkaður tungumálið á valdi sínu, jafnvel þótt honum liggi fátt á hjarta. Það er vel undirstrikað þegar þau Hekla heimsækja móður skáldsins. Móðirin þrælar við eldamennsku og tiltekt og nær aldrei að ljúka við setningu, þar sem sonurinn botnar þær allar fyrir hana. Í sömu heimsókn reynir Starkaður að marka Heklu stað og gefur henni matreiðslubók í jólagjöf. Frá föður sínum fær hún hins vegar nýútkomið smásagnasafn eftir Ástu Sigurðardóttur, sem minnir lesanda á að víst skrifuðu konur á Íslandi sjöunda áratugsins, og það líka konur sem skrifuðu öðruvísi en aðrir, þótt handriti Heklu sé hafnað vegna þess að það sé öðruvísi en það sem útgefandinn alla jafna gefur út.
Hekla neitar að beygja sig þótt ekki skorti sögur af konum sem hafa brotið gegn karlveldinu og farist, sbr. skáldkonuna sem gekk í sjóinn. Táknræn fyrir þetta er læðan Óðinn, sem Hekla gefur nafn þvert á kynferði og þverbrýtur þannig allar reglur karlveldis og tungumáls. Óðinn, guð skáldskapar og visku, nýtur frelsis á heimili og utan þess, eignast afkvæmi undir skrifpúlti Heklu og dafnar þar til Starkaður lætur Heklu skyndilega vita að Óðinn sé dauð. Keyrt hafi verið yfir hana og hún hafi þegar verið grafin. Fljótlega eftir það tekur Hekla ákvörðun um að yfirgefa Starkað og halda af landi brott.
Blóðeldar á himni
Skrifandi konur eru sjaldan fjarri sagnaheimi Auðar Övu Ólafsdóttur. Í Dýralífi er aðalsöguhetjan ljósmóðir og af fjórðu kynslóð kvenna sem því starfi hafa sinnt. Dómhildur ber nafn látinnar ömmusystur sinnar sem einnig var ljósmóðir, býr í íbúð hennar og speglar hana í flestu. Frænkan Fífa – Dómhildur eldri, hefur verið sískrifandi og það er m.a. verkefni Dýju - Dómhildar yngri, að fara í gegnum fjölmörg handrit hennar og bréf sem eru í bananakassa í íbúðinni.
Það er óveður í aðsigi og beygur í lofti. Systir Dýju er veðurfræðingur, m.a. sérfræðingur í hegðun loftmassa í háloftunum og henni líst ekki á blikuna. Það er eitthvað yfirvofandi, hver kröpp lægðin er væntanleg á eftir annarri:
Óvenjulegt, óeðlilegt og óútreiknanlegt eru þau orð sem hún notar til að tjá sig um veður án hliðstæðu. Nýlega hefur bæst við fordæmalaust. (50)
Dómhildur eldri hefur verið sannkallaður dómsdagsspámaður og gríðarlega langt á undan sinni samtíð í því að átta sig á því hvað maðurinn er að gera heiminum. Í bananakassanum eru m.a. textar sem Fífa hefur skrifað til þess að varpa ljósi á mannskepnuna sem dýrategund – tegund sem hefur valdið óafturkræfum spjöllum á heiminum. Efnismesta handritið heitir Dýralíf, rannsókn á því sem mannskepnan er fær um.
Fífa hefur áratugum fyrr skrifað blaðagreinar um útrýmingu dýrategunda, plastmengun í hafinu, súrnun og aldauða sjávar, eyðingu skóga og nauðsyn þess að vernda býfluguna. Síðast en ekki síst, aldarfjórðungsgamla greinin Jörð hitnar þar sem Fífa segir að þess sé ekki langt að bíða að manninum líði eins og hann sé lokaður inni í „sjóðandi tinboxi“ (72).
Fífa kemst semsagt að því upp á eigin spýtur að dýrin, plönturnar og heimurinn allur muni spjara sig mjög vel án mannsins og kannski aðeins án hans, enda bendi margt til þess að maðurinn verði skammlífasta dýrategund jarðar. Fífa er vitaskuld „móðir ljóssins“ og niðurstaða hennar er „Þegar maðurinn er farinn, stendur ljósið eftir“ (163).
Einhverjar greinanna hafa fengist birtar, en ekki allar og Dýja talar við blaðamann sem segir að undir lokin hafi Fífa verið farin að endurtaka sig og senda þeim sömu greinarnar aftur – sömu eða mjög svipaðar(!). Höfundur höfundarins – Auður Ava Ólafsdóttir – er aldeilis óhrædd við að endurtaka sig í þessum efnum, loftslagsbreytingar af mannavöldum birtast sem glóandi tinþráður í mörgum verkum hennar.
Fífa skrifar undir lok ævi sinnar að hún hafi „gefist upp á tungumálinu“ og að það vanti ekki fleiri orð í þennan heim. Síðan fara að koma fleiri eyður í texta hennar. Það verður sífellt lengra á milli setninga og orða og tengsl rofna á milli stafa. Dýja hefur ákveðið að falast ekki eftir útgáfu á verkum frænku sinnar, efnið sé það sérkennilegt og sundurleitt. Hún á líka erfitt með að finna út röð handritanna, þar til hún kemst að því að öll handritin séu síðasta handritið:
Nánar tiltekið að sannleikurinn byggi í sameiginlegu innihaldi Chiquita-kassans og að það þyrfti því að gefa út allt sem þar væri að finna. (188)
Dýja hættir að lesa, límir kassann aftur með málningarlímbandi og kemur honum fyrir í geymslu. En einhvern veginn hefur textinn þó ratað í hendur okkar lesenda – með mynd af bananakassa á kápu.
Á meðan Dýja gengur frá kassanum er sólin að lækka á lofti og „[Þ]að eru blóðeldar á himni. Eftir skamma stund er heimurinn blekpollur“ (189).
Heimurinn er að líða undir lok. Blekpollurinn verður eftir þegar allt sem skrifað hefur verið til þess að reyna að bjarga honum leysist upp. Í lok sögunnar gengur hamfaraveður yfir landið. Tungumálið lætur undan: lengra bil verður á milli orða og stafa og Dýralíf endar á sömu orðum og Sannleikurinn um ljósið, handrit Fífu. Orð um nýjan himin og nýja jörð þar sem heyrist í fugli.
Fífa hafði gefist upp á tungumálinu, Dýja gekk frá kassanum með handritunum og ákvað að láta ekki gefa þau út. Höfundurinn Auður Ava skrifar bókina Dýralíf, sem inniheldur m.a. handrit Fífu frænku og endar í upplausn tungumálsins, einhvers konar heimsendi, sem samt felur í sér endurnýjun. Spurningunni sem stendur eftir: Er til einhvers að nota tungumál og texta gegn ofureflinu? hefur Auður Ava með skrifum sínum svarað játandi.
„Tekur því að gera eitthvað?“
Þrjár nýjustu bækur Auðar Övu, Dýralíf, Eden og DJ Bambi hafa eins útlit, eru alhvítar, en framan á kápunni er lítil mynd sem vísar til innihaldsins. Á kápu Dýralífs er bananakassinn sem geymir texta Dómhildar, á kápu Eden er Paradísarleg mynd sem gæti verið tekin úr Varðturninum og á kápu DJ Bamba er það bolli úr máfastelli.
Í Eden bergmála ákveðnir mikilvægir þættir úr Dýralífi þegar litið er til pælinga um loftslagsmál, hamfarahlýnun, súrnun sjávar og fleiri áhyggjuefni samtímans. Málvísindakonan Alba festir kaup á hálfgerðu hreysi á örfokalandi utan höfuðborgarinnar og hefur þar umfangsmikla ræktun, þótt ýmsar blikur séu á lofti. Miklar öfgar eru í veðurfari eins og í Dýralífi. Nágranni Ölbu, bóndinn Álfur botnar ekki í veðrinu frekar en aðrir:
Ekkert kemur lengur á réttum tíma, segir hann. Í stað þess að snjói um hávetur, þá rignir og allt fer á flot og aurskriður falla úr fjöllum, síðan taka við þurrkar í þrjá mánuði þar sem ekki kemur dropi úr lofti, loks snjóar í maí í miðjum sauðburði. Um miðjan janúar mældist fimmtán stiga hiti og nú um miðjan maí sýnir mælirinn eina komma fimm gráður. (139)
Heimsendabragurinn á Dýralífi er líka til staðar í Eden og trúarleg stef áberandi. Leigubílstjórinn Lúther, sem otar að Ölbu Varðturninum, bæklingi Votta Jehóva, er læs á táknin og spyr hana hvort sérkennileg þoka, þurrkar og hamfararigningar með skriðuföllum hafi ekki vakið athygli hennar. Hún svarar því játandi og lesendur geta bætt alblóðugum himni og fjöldadauða farfugla við upptalninguna. Myndin á kápu Eden gæti verið úr Varðturninum – sem hefur fyrirsögnina ENDIRINN ER Í NÁND og undirtitilinn Svona lítur Guðs ríki út en Lúther bendir Ölbu á greinina „Tekur því að gera eitthvað?“ (179) Þetta er spurning sem hlýtur að vera afar mikilvæg þeim sem velta fyrir sér ófremdarástandinu í loftslagsmálum – og hér hamrar höfundurinn Auður Ava á því sem hún gekkst inn á í Dýralífi. Já, það tekur því að gera eitthvað og það skiptir máli að nota til þess tungumál og texta.
Alba er sérfræðingur í fámennistungumálum og tekur þátt í ráðstefnum um tungumál sem eru í útrýmingarhættu. Hún einbeitir sér líka að því að rækta upp landið, enda vex gróðurinn þvert á tungumál og gróðurinn var til staðar fyrir daga tungumálsins. Alba er spurð að því hvort hún ætli sér að rækta eplatré og tekur því ekki fjarri. Það eru jú að verða umfangsmiklar breytingar á loftslagi jarðarinnar.
Öll táknin benda til þess að heimurinn sé að líða undir lok, en Alba lætur það ekki trufla sig við að rækta upp auðnina og kenna flóttadrengnum Danyel íslensku. Tungumálið mun lifa eina kynslóð enn og það glittir í von. Í lok sögunnar tekur Alba utan um Danyel og segir honum að allt verði í lagi og allt fari vel. Undantekningunni lýkur á því að María sækir barn frá stríðshrjáðu landi og Jónas í Ör hjálpar piltinum Adam að teikna upp nýjan heim sem rís úr rústum. Vonin lifir í börnunum.
Bollinn úr máfastellinu
Það er heimsendastemmning í DJ Bamba líkt og í hinum hvítu bókunum. Aðalsöguhetjan Logn er í sjálfsvígshugleiðingum í upphafi sögu, skipuleggur sinn prívat heimsendi eins og Jónas í Ör, en kemst ekkert áfram með þær bollaleggingar, m.a. vegna þess að máfaplága herjar á borgina og sjósundkonur láta hana ekki í friði.
Vitaskuld hyggst Logn ganga í sjóinn, en sjógöngur eða hugsanlegar sjógöngur koma fyrir í fjölmörgum verkum Auðar Övu. Tvær konur drekkja sér í Ungfrú Ísland og einn karlmaður í Ör. Hér höfum við beina tengingu yfir hið bókmenntalega og sögulega, en ein frægasta skáldkona heims, Virginia Woolf, gekk í sjóinn þegar lífið varð henni óbærilegt og það sama gerði rithöfundurinn Vilhelm Moberg. Ófelía er einhver frægasta drukknaða sögupersónan, þótt einhver áhöld séu um hvort hún hafi drekkt sér af ásettu ráði. Þegar María, sem að sönnu er „fagurfræðileg persóna“ og í lífi hennar „ofhlæði dramatískra atburða“ (eins og í lífi Ófelíu) gengur niður í fjöru í Undantekningunni dregur Perla strax þá ályktun að hún hafi ætlað sér að ganga í sjóinn.
Hamfarahlýnun og áhrif mannskepnunnar á lífríki jarðar er líka einn af helstu þráðum DJ Bamba eins og í Dýralífi og Eden. Máfar eru vegna hlýnunar jarðar mestan part hættir að vera farfuglar og orðnir staðfuglar og máfaplágan í borginni gerir íbúum hennar lífið leitt. Logn býr í stórri blokk og þar eru haldnir tíðir húsfundir til þess að reyna að bregðast við plágunni, en máfarnir verða sífellt aðgangsharðari.
Logn (hér eftir fallbeygt í kvenkyni) er trans kona og hún hefur beðið árum saman eftir því að komast í kynleiðréttingu. Hún er orðin 61 árs og er alveg að gefast upp. Trausti tvíburabróðir hennar er einn af þöglu iðnaðarmönnum Auðar Övu, sá sem dyttar að og lagar en talar ekki mikið. Trausti ber nafn með rentu og er stoð Lognar og stytta í lífinu. Hann reynir sitt besta til þess að skilja systur sína og sýna henni stuðning, en stór hluti fjölskyldunnar hefur lokað á hana.
Nafnapælingar eru mikilvægar í öllum verkum Auðar Övu, en kannski aldrei eins mikilvægar og í DJ Bamba. Þannig er Logn hafnað af stórum hluta fjölskyldu sinnar sem neitar henni um að bera nafn Guðríðar ömmu sinnar. Amman er sú eina sem hún trúði fyrir því sem barn að sér liði illa og skipar því sérstakan sess í huga hennar. Logn hefur tekið upp nafn sitt til bráðabirgða og bíður samþykkis fjölskyldunnar fyrir því að fá að bera nafnið Guðríður Logn. Amman var líka sú sem byrjaði að kalla „drenginn“ Bamba, þar sem hún skrifaðist á við ítalska konu og Bambi er stytting á bambino (barn). Nafnið DJ Bambi notaði Logn þegar hún starfaði sem plötusnúður á námsárum sínum og tvíburabróðir hennar hélt síðan áfram að kalla hana því nafni eftir að amman dó.
Nafna- og sjálfsmyndarpælingar DJ Bamba tengjast Undantekningunni, en María reynir að hætta að kalla Björn son sinn Bamba (og lætur klippa af honum ljósa lokka) til þess að hann „verði að karlmanni“. Jón John í Ungfrú Ísland er tvöfalt jaðraður sem hommi og ástandsbarn og heitir í raun Davíð Jón John Johnsson. Erlendis kallar hann sig DJ Johnsson. Nöfn eru það sem fólk ber næst sér, eru samofin sjálfsmyndinni og trans fólki mjög mikilvæg. Logn segir að þau einu sem kalli hana V. (hún skrifar/segir aldrei nafnið Vilhjálmur) séu þau sem vilja særa hana og undirstrika útskúfun hennar.
Bollinn úr máfastellinu með kámi eftir varalit, sem mynd er af á kápu, er mikilvægt tákn – ekki bara um útskúfun Lognar úr stórfjölskyldunni, heldur það vald sem hún tekur sér þrátt fyrir hana. Henni er haldið utan við skiptingu dánarbúsins þegar móðir hennar deyr og hlutir sem jafnan hafa gildi fyrir fjölskyldur standa henni ekki til boða. Í erfidrykkjunni gerir Logn sér þó lítið fyrir og hefur á brott með sér bolla úr máfastellinu sem móðirin átti og amman á undan henni – og drekkur gjarnan úr honum. Máfastell koma fyrir í fleiri bókum Auðar Övu og þá tengjast þau iðulega mæðrum söguhetjanna. Bollinn er mikilvægur fyrir Logn sem finnur sterkt til tengsla í beinan kvenlegg.
Máfurinn á stellinu kallast vitaskuld líka á við máfapláguna sem glímt er við í sögunni og víst flögra fuglar um allar bækur Auðar Övu. Persónurnar eru mjög uppteknar af fuglum, fuglar eru notaðir sem tákn, dauði þeirra, breytt hegðun eða offjölgun boða endalok tímans – en líka endurnýjun. Sbr. orð Dómhildar í Dýralífi um að það heyrist í fugli eftir að maðurinn hefur eytt sjálfum sér.
Í tengslum við umbreytingu Lognar í sjálfa sig undir lokin er talað um upprisu og endurfæðingu. Það er von og hún rís úr rústunum.
Einar á báti en engin meðalmenni
Líkt og hefur komið fram í þessari grein, þá eru skýr höfundareinkenni á texta Auðar Övu Ólafsdóttur og í verkum hennar koma ítrekað fyrir sömu stef eða þemu, tákn, vísanir og málefni.
Aðalpersónur Auðar Övu eiga ýmislegt sameiginlegt, en kannski einna helst að þær eru á þann máta líkar fólkinu í Andabæ að engin þeirra er hluti af hamingjusamri kjarnafjölskyldu. Þær eru einar á báti þótt þær eigi sér oft aðdáendur og þær fá aldrei þann/þá sem þær kjósa. Þær hafa þó flestar sterk áhrif á hitt kynið og leggja alla (aðra) að fótum sér.
Í Undantekningunni er María yfirgefin af eiginmanni sínum, en hún nýtur mikilla vinsælda meðal annarra karla, enda hin fullkomna kvenmynd. Hekla í Ungfrú Ísland fær ekki Jón John allan, en er þráð af öðrum körlum vegna alltumlykjandi fegurðar sinnar. Hún er betri en aðrir rithöfundar, hefur margoft fengið birt í blöðum og tímaritum þegar hún notar karlmannsnafn, þótt henni sé hafnað þegar hún kemur fram undir sínu nafni. Hún er líka ákveðin og sterk og lætur ekki vaða ofan í sig. Í Ör er Jónas yfirgefinn af konu sinni, en aðrar konur vilja hann og leita á hann. Allt leikur í höndunum á honum og hann virðist vera eini maðurinn í landinu handan fjarskans sem kann að gera við, dytta að og laga.
Í Eden er stöðugt nálægur ungur maður sem hefur fengið Ölbu á heilann og í raun eru allar persónur sögunnar svolítið með hana á heilanum, eins og kemur fram hér að neðan. Þrátt fyrir margvíslega kvenkosti er Alba þó alls ekki heppin í ástum. Dýja ljósmóðir í Dýralífi hefur misst barn og á ekki mann lengur, en hún virðist afbragð annarra ljósmæðra, tekur sér aldrei frí og það er beðið um hana af fæðandi konum. Logn í DJ Bamba skildi þegar hún kom út sem trans og tilraunir hennar til þess að finna ástina eru á enda þegar hún lendir í netsvindlara sem spilar með tilfinningar hennar. Logn er lífeindafræðingur og sérsvið hennar eru frumu- og vefjarannsóknir, en hún hefur líka að áhugamáli lífríkið í hafinu og hefur m.a. kynnt sér flókið kerfi hafstrauma.
Persónur Auðar Övu eru því langt frá því að vera einhver meðalmenni, en þær fá ekki að njóta ástarinnar. Kannski vegna þess að þær eru fyrst og fremst skáldsagna- eða ævintýrapersónur? Leyfir „fagurfræðin“ ekki hamingjusömu kjarnafjölskylduna?
Hver er höfundurinn?
Auður Ava setur oft ramma utan um frásögn sína með því að staðsetja innan hennar persónu sem gæti allt eins verið að skrifa söguna. Þá er sú persóna bæði í sögunni og utan hennar, ef svo má segja – líkt og málarinn sem málar sjálfan sig í miðju málverksins. Í Undantekningunni er Perla í kjallaranum „höfundur“ Maríu eins og fram kom hér að ofan. Í Dýralífi les Dýja ýmiss konar texta látinnar frænku sinnar sem jafnframt er hluti af texta bókarinnar og fjallar um það sama. Endir bókarinnar er eins og endir eins handrits Fífu og bókin ber sama nafn og stærsta handrit hennar. Í lok Ungfrú Ísland er Hekla að ljúka við handritið sem hún hefur unnið að alla söguna og prentar það út. Það fjallar að hluta til um sama fólk og bókin sjálf og er 239 síður, eins og hún. Hekla grípur síðan til þess ráðs að láta karlmann „feðra“ bók sína, þegar henni verður lítið ágengt með að fá hana gefna út. Hver er þá höfundurinn? Auður Ava? Hekla? Skáldið Starkaður?
Alba í Eden er Sögupersónan með stóru s-i (enda heitir hún eftir aðalpersónu leikverksins Hús Bernhörðu Alba) og algerlega miðlæg í frásögninni, þótt hún segi fátt af sjálfri sér. Aukapersónurnar segja sögu hennar. Faðir Ölbu segir bæði Betty systur hennar og Hlyni vini sínum hvað er á seyði í lífi hennar: „Ég sagði Hlyni að þú hefðir lent í sjálfskipuðu mótlæti í vinnunni og værir að taka líf þitt í gegn“ (144) og orðar þar með það sem Alba sjálf hefur ekki trúað okkur lesendum fyrir. Fólkið á staðnum, með Håkon uppstoppunar- og innrömmunarmann úr Rauðakrossbúðinni í broddi fylkingar, segir líka látlaust af henni sögur og það gengur svo langt að málvísindi komast í tísku í smábænum. Málfræðibækur sem Alba losar sig við eru keyptar og lesnar upp til agna. „Við höfum verið að reyna að koma þér heim og saman“ (203) segir Håkon en þorpsbúar eru með lesklúbb þar sem þeir lesa bækurnar sem Alba hefur gefið til Rauða krossins og ekki síst það sem hún hefur skrifað á spássíurnar.
Máni Ýmir, ungur fyrrverandi nemandi Ölbu, sem hún hefur átt í ástarsambandi við er að skrifa ljóðabók um samband þeirra. Handritið er komið til forlags og það er verið að vinna í því á meðan sögunni vindur fram. Duttlungar höfundarins eru stef í sögunni. Máni Ýmir breytir margsinnis um titil, frestar útgáfu eða flýtir henni. Alba fær að fylgjast með því í gegnum forlagið sem er ötult við að láta hana vita, en hún hefur ekkert um þetta að segja þótt aðrir tali sífellt um það. Spurningar um texta, höfund og sögupersónu eru tíðar og systir Ölbu segir við hana að ungi elskhuginn hafi „stolið lífi hennar“ (152). Bók Mána Ýmis hefur tileinkunnina „Til A.J.“ á titilsíðu, eins og bókin Eden.
Blaðamaðurinn Auður T í DJ Bamba, sem kynnir sig sem bekkjarsystur Lognar úr grunnskóla, vill fá að taka viðtal við hana og ákveður síðar að viðtalið eigi að verða að bók. Hér er „höfundurinn“ kominn enn og aftur, manneskjan sem líklega „skrifar“ það sem við erum að lesa. Auður T talar t.a.m. fjálglega um það hvernig hún ætli að byggja sögu Lognar og það gengur nokkurn veginn eftir í DJ Bamba:
... sem myndi þá þýða að sagan hæfist á því að þú gengur í sjóinn ... sem yrði þá táknrænn dauðdagi þinn þar sem þú kveður líkama sem var ekki þinn og þitt gamla líf og að baki speglast skuggsjá liðinnar ævi. Og sem yrði síðan fylgt eftir af táknrænni upprisu þar sem þú stígur á land endurborin sem sú kona sem þú hefur ávallt verið ... (134)
Höfundurinn Auður T er ekki jafn aðlaðandi og Perla í Undantekningunni. Raunar þvert á móti. Allt sem Perla er á góðan hátt (pínu frek, forvitin, smá afæta en stórskemmtileg) er Auður T á neikvæðan máta. Hún virkar á lesandann sem hálfgerður eltihrellir sem hnýsnin rekur áfram. Hún telur sig þess umkomna að koma því í kring með sínum skrifum að fólk skilji Logn og þyki vænt um hana, en særir hana ítrekað með vanþekkingu sinni á málefnum trans fólks. Hún hefur mestan áhuga á sjálfri sér, skiptir um skoðun í sífellu og endar á því að hætta við verkið. Bæði vegna þess að líf Lognar er ekki nægilega spennandi og vegna þess að það er svo erfitt að „ná utan um“ heila ævi manneskju. „Höfundurinn“ Auður T gefst upp á verkinu sem höfundurinn Auður Ava lýkur.
Textinn sem breytir heiminum
Að hve miklu leyti eigum við sögu okkar sjálf? Auður Ava virðist hafa samúð með persónum sínum sem þurfa að láta sér lynda ýmiss konar „höfunda“, hnýsni þeirra og söguburð, stundum hreinar njósnir. Það er fylgst með persónunum, ekki bara af „höfundum“ eins og Perlu eða Mána Ými. Jónas í Ör er tildæmis sífellt spurður út úr af eiganda veitingahússins Limbó, sem virðist nánast njósna um hann. Viðkvæði hans er það sama og Håkons í Eden: „Hlutir spyrjast út“ eins og það eigi að fría sögusmettuna ábyrgð og sagan sé sífellt á hreyfingu, lifi sjálfstæðu lífi.
Allt þetta fólk hefur Auður Ava sér til halds og trausts, en það er einhvers konar speglun, jafnvel skrípamynd hennar sem höfundar. Höfundurinn getur verið hjálpsamur, hlýr og skemmtilegur eins og Perla, eða sjálfhverfur, hnýsinn og ábyrgðarlaus eins og Auður T, sem villir á sér heimildir og „stelur lífi“ persónu sinnar, líkt og ungi elskhuginn gerir í Eden.
Er höfundurinn ekki alltaf að stela? Að hlera fólk og nýta sér lífsreynslu þess, auk þess að vinna með frásagnir og texta annarra? Í það minnsta er leitun að höfundi sem nýtir sér eins fjölskrúðugt safn vísana og tilvitnana og Auður Ava, en tilvitnanir eru vitaskuld eitt einkenna póstmódernísks texta. Texta sem vísar út og suður og kannski umfram allt í sjálfan sig.
*
Auður Ava Ólafsdóttir hefur sagt það hreint út í viðtölum að hún skrifi til þess að breyta heiminum. Í verkum hennar er alltaf einhver háski, eitthvað uggvænlegt yfirvofandi, jafnvel heimsendir í nánd, en allar enda sögurnar á uppbyggingu og von, stundum upprisu og endurfæðingu.
Þórunn Hrefna, 2024
Greinar
Almenn umfjöllun
Auður Aðalsteinsdóttir: „Þögn og skriftir á Hótel Silence. Ör og hin endurtekna þjáning í verkum Auðar Övu“
Andvari, 2017, 142. árg., s. 157-165.
Jón Yngvi Jóhannsson: „Loðir heimurinn saman á táknum? Um Afleggjarann og Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur“
Tímarit Máls og menningar, 79. árg., 1. tbl. 2018, s. 20-33.
Mica Allen: „No Ordinary Journey“ Viðtal
Iceland Review, 2010; 48 (2), s. 36-38.
Kristín Ómarsdóttir: „Sjötíu þúsund hugsanir: viðtal við Auði Övu Ólafsdóttur“
Tímarit Máls og menningar, 76. árg., 4. tbl. 2015, s 4-17.
Um einstök verk
Afleggjarinn
Björn Þór Vilhjálmsson: „Líkamar, rósir, dauði“
Tímarit Máls og menningar, 69. árg., 4. tbl. 2008, s. 101-107
Kormákur Bragason: „Bókmenntaspjall“
Stína 4. árg., 2. tbl. 2009, s 170-178
Rigning í nóvember
Eiríkur Örn Norðdahl: „Eins og risastór brjóst“
Tímarit Máls og menningar, 66. árg., 4. tbl. 2005, s. 116-117
Kristín Viðarsdóttir: „Eins og þráður spunninn af konu“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Svartur hundur prestsins
Auður Aðalsteinsdóttir: „Sannleikanum er ekki treystandi“ (viðtal)
Spássían 2011, 2. árg., haust, bls. 4-5.
Þorgeir Tryggvason: „Arfur absúrdsins“ (leikdómur)
Spássían 2012, 3. árg., vor, bls. 36-7.
Undantekningin: (de arte poetica)
Ásta Gísladóttir: „Á mörkum merkingarleysu“ (ritdómur)
Spássían 2012, 3. árg., 4. tbl. bls. 16.
Vera Knútsdóttir: „Um skáldskaparlistina í Undantekningunni“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Þröstur Helgason: „Hvað binzt við nafn?“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2014, 75. árg., 1. tbl. bls. 138-42.
Ungfrú ísland
Már Másson Maack: „Skáld eru kvenkyns“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Upphækkuð jörð
Berglind Steinsdóttir: „Að eiga sér markmið“
Tímarit Máls og menningar, 60. árg., 2. tbl. 1999, s. 144-146
Ör
Már Másson Maack: „Að græða sár - Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Verðlaun
2019 - Médici-verðlaunin: Ungfrú Ísland (flokkur erlendra bóka)
2018 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Ör
2018 - Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana: Ungfrú Ísland fyrir bestu skáldsöguna
2016 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Ör
2016 - Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana: Ör. Sem besta skáldsagan
2011 - Prix des libraires du Québec: Rosa Candida (Afleggjarinn í franskri þýðingu Catherine Eyjólfsson). Í flokknum þýðingar (Roman hors Québec)
2010 - Prix de Page (Frakkland): Rosa Candida
2008 - Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Afleggjarinn
2008 - Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna: Afleggjarinn
2004 - Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar: Rigning í nóvember
Tilnefningar
2020 - Dýralíf
2019 - Fjöruverðlaunin: Ungfrú Ísland
2018 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Ungfrú Ísland
2018 – Premio Strega (Ítalía): Ör
2012 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Undantekningin (de arte poetica)
2012 - Grímuverðlaunin - Leikskáld ársins: Svartur hundur prestsins
2010 - Lire Magazine (Frakkland): Rosa Candida
2010 - Prix du Roman FNAC (Frakkland): Rosa Candida
2010 - Prix Fémina (Frakkland): Rosa Candida
2009 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Afleggjarinn
2005 - Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Rigning í nóvember
DJ Bambi
Lesa meiraÓlíkt mér hefur bróðir minn aldrei átt erfitt með að sofna, hann á ekki erfitt með að sleppa tökum á deginum, ólíkt mér hræðist bróðir minn, sem réð sig í brúarsmíði þegar hann útskrifaðist sem húsasmiður og vann í nokkur ár við að smíða brýr yfir beljandi jökulvötn, ekki að fara yfir í annan heim, að fara yfir mörk, ólíkt mér óttast brúarsmiðurinn ekki að geta ekki snúið til baka. Það nægir honum að loka augunum.Eden
Lesa meiraMálvísindakona, sérfræðingur í fámennistungumálum, ákveður að breyta landi þar sem ekkert grær í Edenslund.Dýralíf
Lesa meiraRandai
Lesa meiraFrøken Island
Lesa meiraFröken Island
Lesa meiraMiss Island
Lesa meiraAfleggjarinn á amharísku
Lesa meiraHotel Silencio
Lesa meira