Beint í efni

Skegg Raspútíns

Skegg Raspútíns
Höfundur
Guðrún Eva Mínervudóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Skáldsögur

Um Skegg Raspútíns

Athafnamaðurinn Benedikt Valkoff vaknar um miðja nótt á heimili sínu við Sjafnargötu í Reykjavík og fer að brjóta saman þvott. Hann á afmæli, en dagurinn markar önnur tímamót. Þrjátíu og þremur árum fyrr hvarf litla systir hans meðan foreldrar þeirra voru að heiman. Enginn veit hvað af henni varð – eða hvað?

Það er komið að uppgjöri. Barnið sem hvarf er enn ljóslifandi; steinn í brjósti foreldra sinna og bróður, ráðgáta þeim sem síðar bættust við fjölskylduna. Að kvöldi þessa kyrra dags, eftir ferðalög í tíma og rúmi, rennur stund sannleikans upp.

Úr Skeggi Raspútíns

Í skáphorni átti ég hálfa flösku af tælensku heimabruggi og sótti hana, settist við eldhúsborðið og þrælaði í mig nokkrum sopum af bleik-glærum vökvanum, krydduðum með einiberjum og einhverju sem minnti á tónik. Við áttum engin svefnlyf, enda var mér illa við þau og Matti snerti þau ekki.

Innilokunarkenndin færðist í aukana ef ég lokaði augunum svo ég leit í kringum mig; á matreiðslubækurnar úr dánarbúi föður Matta, handknúnu appelsínupressuna sem mamma hafði gefið mér tíu árum fyrr, potta og pönnur sem héngu á stálsnögum fyrir eldhúsglugganum, hnífana og söxin á hnífaseglinum, ofhlaðna kryddhilluna og póstkortin og teikningarnar sem þöktu ísskápinn. Ég leit aftur á kryddið og staðnæmdist við bauk með lífrænt ræktuðum múskathnetum.

Við rifum stundum múskat út á grjónagrautinn en ekki of mikið því í óhófi gátu hugvíkkandi áhrif hnetunnar valdið ofskynjunum. Þessu komumst við að fyrir tilviljun eftir að hafa orðið vör við að grjónagrautur með góðum skammti af múskati örvar ímyndunaraflið þannig að vökudraumar verða mjög skýrir og dagdreymarinn utan við sig. Það var undarlegt, bæði að reyna það á sjálfum sér og verða vitni að því í fari annars. Matti fann ekki mikið fyrir því, kannski af því að hann hafði ýmsa fjöruna sopið, eða af því að hann var harðgerður og þolgóður, en ég sagði Mínervu óvenjulanga kvöldsögu og varð leið yfir að hún skyldi sofna í miðri frásögn. Þegar ég kom fram aftur vildi ég frekar horfa út í loftið en á Mad Men - sem vakti grunsemdir Matta. Hann fór á netið og fann frásagnir ungmenna sem höfðu innbyrt hrúgu af nýrifnu múskati.

Hér stendur að það taki nokkrar klukkustundir fyrir efnið að virka almennilega, sagði Matti. En þessi hrærði duftið út í heitt kaffi til að flýta fyrir og var orðinn ruglaður á innan við klukkutíma.

Við hlógum að unga fólkinu sem hafði svona mikið fyrir því að koma sér í martraðarkennt ástand sem varað gat dögum saman en aðallega vorum við undrandi á því að eiga ofskynjunarlyf inni í eldhúsi.

Ertu viss um að þetta sé ekki lygi? spurði ég.

Nokkuð viss, svaraði Matti og opnaði myndband þar sem drengur með hring í vörinni, ekki deginum eldri en sextán, sat einn fyrir framan skjáinn með óumbúið rúm í bakgrunni. Hann hló og grét í samræðum við fólk sem var ekki þar. Þegar hann sagði: Rosalega eru margir hér í þessari verslunarmiðstöð, hnussaðist úr okkur hláturinn en þegar hann bætti við, aumur og umkomulaus: Mér líður ekki vel akkúrat núna. Ég væri til í að fara heim, setti okkur hljóð og Matti slökkti á myndbandinu.

Baukurinn var grænn með gylltu laufamynstri og hneturnar skröltu heimilislega innan í álinu. Léttar. Léttvægar í samanburði við heimabruggið sem hvíldi þungt í maga. Meinlausar.

Vonandi dytti engri fullorðinni manneskju í hug að leggja þetta á sig, hugsaði ég um leið og ég tók rifjárnið upp úr hnífaparaskúffunni. Þetta fíngerða sem við notuðum til að rífa múskat. Ég náði líka í undirskál, settist aftur við eldhúsborðið, opnaði baukinn og tók hnetu. Hún var á stærð við kirsuber. Yfirborðið hart og slétt.

Klukkustund síðar var ég búin að kasta svo ákaft upp að ég fann fyrir þindinni og rifjunum líkt og aukahlutum. Ég staulaðist út af baðherberginu, úrvinda en að öðru leyti allsgáð, lét vatn renna í glas og skammaðist mín.

Þessu var lokið. Ég fór ekki á neitt flug. Líkaminn hafnaði annars konar veruleika þar sem lögmál hans giltu ekki. Vonbrigðin komu mér á óvart þegar þau stigu upp gegnum klemmt brjóstholið og sprungu út í höfðinu. Ég fann hnén mýkjast og heyrði glasið detta í vaskinn án þess að brotna.

(20-3)

Fleira eftir sama höfund

Yosoy: Af líkamslistum og hugarvíli í hryllingsleikhúsinu við Álafoss

Lesa meira

Ljúlí ljúlí

Lesa meira

Essay on Happiness (brot)

Lesa meira

Skaparinn

Lesa meira

Pendant qu’il te regarde tu es la Vierge Marie

Lesa meira

Smásaga í Wortlaut Island

Lesa meira

Allt með kossi vekur

Lesa meira

Il circo dell arte e del dolore

Lesa meira