Beint í efni

Smartís

Smartís
Höfundur
Gerður Kristný
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Í Reykjavík er unglingsstúlka að reyna að átta sig á framtíðinni. Í heiminum geisar kalt stríð og heimsendir virðist jafn raunverulegur og ný peysa úr Ping Pong við Laugaveg. Til að verða gjaldgengur í veröldinni þarf að vera annaðhvort eða, velja á milli þess að krókna eða stikna. En það er ekki það sem hún hefur í huga …

Úr Smartís

Best var auðvitað að dragast almennilega aftur úr bekknum. Þannig voru alvöruunglingar.

Á mánudeginum angaði úlpan hennar Hildar af hlýlegri hestalykt. Hún þurfti ekkert að segja mér hvað helgin hafði verið skemmtileg hjá henni. Þegar hinir krakkarnir töluðu um hvað drifið hafði á daga þeirra, hvaða myndir þeir höfðu leigt eða hvern þeir höfðu heimsótt, átti ég erfitt með að hnoða því saman í orð sem helst hafði gerst hjá mér. Ég sagðist því bara hafa horft á sjónvarpið og sofið mikið. Unglingar vörðu jú miklum tíma í svefn.

Nýju eyrnalokkarnir vöktu enga sérstaka athygli hjá Hildi. „Þeir eru skrítnir,“ sagði hún og fitjaði aðeins upp á nefið. Sjálf var hún ekki með göt í eyrunum.

Í löngu frímínútunum bældi ég niður boðflennutilfinninguna og gerði mér ferð yfir til Steinu og Olgu þar sem þær stóðu úti undir vegg í skjóli fyrir rokinu.

„Ég var að kaupa þá,“ æpti ég í gegnum hviðurnar og reif af mér hettuna svo dýrðin blasti við.

„Hvar?“ vildi Olga vita og ég sagði henni að ég hefði farið ofan í bæ eftir skóla á föstudaginn.

„Bara ein?“ spurði hún.

Ég kinkaði kolli.

Olga og Steina horfðu athugular á mig undan alveg eins skíðahúfum. Þögnin var löng og djúp. Báðar voru þær með mánaðarsteinana sína í eyrunum, önnur rauða, hin túrkislita. Líklega hefði ég bara átt að fá mér þannig.

Skyndilega fór fram svo greinilegur hugsanaflutningur á milli vinkvennanna að það lá við að loftið gneistaði og það sem meira var, það opnaðist fyrir aðganginn að rásinni. Ég gat skilið það sem þeim fór á milli: Ég hafði gengið of langt. Ég hafði farið ein í bæinn. Ég hafði tapað. Síðan lokaðist aftur fyrir rásina.

Í stelpuheimum gerði engin neitt ein síns liðs. Stelpur áttu helst að eiga fullt af vinkonum og fara um í torfum.

„Ég man ekki eftir að þú hafir talað um að þú ætlaðir,“ sagði Olga og horfði svo fast í augun á mér að mér leið eins og ég væri í yfirheyrslu.

„Nei, mér datt bara allt í einu í hug að fara í bæinn,“ sagði ég. „Svo átti ég strætómiða."

Það var kalt. Ég keyrði herðarnar upp að eyrum. Líklega hefði verið gáfulegra að kaupa sér trefil.

Enn horfðu vinkonurnar svo einarðlega á mig að ég tók að þreifa eftir nýrri skýringu á áhugaleysi þeirra. Kannski fannst þeim hakakrossarnir bara ekki flottir. Í huganum byrjaði ég að fletta í stóru ljósmyndabókunum sem ég hafði hnotið um á bókasafninu og sýndu marserandi hermenn skreytta þessum táknum og horað fólk með sorgmædd augu á bak við gaddavírsgirðingar.

Til að reyna að komast að því sem fram fór í kollinum á Steinu og Olgu afréð ég að spyrja: „Finnst ykkur þeir ekki fínir?“ Ég skók hausinn til að eyrnalokkarnir dingluðu en mér fannst ég bara vera að svara eigin spurningu.

„Jú, jú, þannig,“ sagði Steina dræmt. „Hvaða stjörnumerki á þetta að vera?“

Nú varð ég að vera fljót að hugsa. Eftir að hafa rifjað upp stjörnumerkin svaraði ég loks: „Vogin.“ Ég var nefnilega ekki með á hreinu hvernig hún leit út.

„Mmm, ég hélt að hún væri öðruvísi,“ sagði Steina hugsi. Þær héldu áfram að mæla mig þegjandi út en mér tókst ekki að stilla aftur inn á rásina þeirra. Það gæti orðið bið á bíóferðinni.

„Hvort myndirðu vilja deyja úr hita eða kulda?“ spurði Olga.

Valið virtist auðvelt þarna í hríðinni. „Hita! Hefði ég samt ekki tíma til að fara fyrst í einhver töff föt?“ spurði ég. „Ég vil alls ekki að nokkur finni mig dauða í asnalegum stuttbuxum og bjánalegum bol.“

„Það skiptir engu máli,“ sagði Olga.

„Ég stend samt við hitann,“ svaraði ég.

„Kulda! Ekki spurning. Þá lognast maður bara út af skjálfandi,“ sagði Steina.

„Ég líka,“ samsinnti Olga.

Þetta hafði ekki farið vel.

„Við sjáumst,“ sagði ég loks, snerist á hæli og hljóp inn í skólaanddyrið. Þangað höfðu flestir krakkarnir leitað í skjól, þar á meðal Hildur.

„Hvar varstu? Ég var að leita að þér,“ sagði hún.

Ég varð svo glöð að heyra hana segja þetta að ég hefði getað faðmað hana að mér þarna í miðri þvögunni. Enskutíminn hjá Selmu fór fyrir ofan garð og neðan hjá mér því mig var farið að klæja undan nikkelinu í eyrnalokkunum. Að lokum varð ég að taka þá úr mér. Ég stakk þeim svo lítið bar á í pennaveskið mitt þar sem þeir grófust undir blýöntum.

Vindinn lægði. Þung snjókorn hrundu niður úr skýjunum svo himinninn minnti á doppótta skyrtu sölumannsins í 1001 nótt. Hann hafði ekki brugðið svip þegar hann tók lítinn lykil úr brjóstvasanum og leysti hakakrossana úr glerbúrinu. Þegar hann rétti mér bréfpokann hafði ég þó séð örla á einhverju í fasi hans sem hefði mátt túlka sem undrun.

(14-7)

 

Fleira eftir sama höfund

Ljóð í Moord liederen

Lesa meira

Forsetinn, prinsessan og höllin sem svaf

Lesa meira

Prinsessan á Bessastöðum

Lesa meira

Ballið á Bessastöðum

Lesa meira

Kirkegården

Lesa meira

Strandir

Lesa meira

Die letzte Nacht des Jahres

Lesa meira
urta

Urta

Urta segir í fáum orðum sögu af harðri lífsbaráttu á hjara veraldar.
Lesa meira