Beint í efni

Sólarsaga

Sólarsaga
Höfundur
Andrés Indriðason
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1989
Flokkur
Barnabækur

um bókina

Fjórtán - og kominn í sumarfrí á sólarströndina með pabba og mömmu!
   Steini á að passa litlu systkini sín en það er margt annað sem togar í hann og ruglar hann í ríminu, ekki síst þessi ljóshærða sem finnst hann vera algert öngvit. Svo skýtur Skarpi, íslenskukennari óvænt upp kollinum og þarf endilega að lenda í ótrúlegu klandri - og þá verður heldur betur líf í tuskunum.
   Sólarsaga er sjálfstætt framhald bókarinnar Alveg milljón!

úr bókinni

Hann settist aftur. Skildi þetta ekki.
 Hún var búin að festa augun við hjartaknúsarabreiðuna hjá dansgólfinu. Gaf honum engan gaum. Ekki fyrr en eftir óratíma. Þá leit hún til hans. Allt í einu mikið niðri fyrir.
 - O, ég vona bara að hann komi!
 Hann horfði á hana. Sallarólegur og hissa.
 - Hann hver?
 - Hann Juanito.
 - Juan...?
 - Það er strákur, já, sem ég var að kjafta við í gærkvöldi. Hjá englinum í afgreiðslusalnum, þú veist. Það er víst aðalstefnumótastaðurinn. Ég kalla hann bara Jóa. Hann er algert öngvit!
 Hann hrökk illilega úr sambandi.
 - Ertu að meina... að þið eigið stefnumót núna... þú og þessi Jói?
 - Nei, nei. Við töluðum ekkert um að hittast. Það var ekkert þannig. Hann sagði heldur ekki mikið. Ég tók alveg glás af myndum af honum. Hann kemur stundum á diskótekið hérna á hótelinu. Finnst það svo æðislegt.
 - Varstu þá búin að hugsa þér að vera með okkur báðum, hvernig er það?
 - Nei, nei. Bara honum. Auðvitað.
 Hann teygði skankana fram á gólfið og tísti ofan í hálsmálið. Ruglið! Hún var þá bara að viðra sig þetta upp við hann til þess að geta komist út á næturlífið! Mamma hennar sleppti henni lausri af því að hún vissi að hún var undir hans verndarvæng. Og hún komst hingað inn af því að hún var með honum. Í fylgd með fullorðnum! Hann hafði sagt við hana úti í garði, meira í gamni en alvöru auðvitað, að það væri aldrei neitt vandamál hjá honum að komast inn á böll, hann bæri yfirleitt höfuð og herðar yfir dyraverðina.
 Já, já, hún var bara að nota hann. Það var alveg á hreinu!

(s. 71-2)

Fleira eftir sama höfund

Fitubolla

Lesa meira

Greta Garbo fær hlutverk

Lesa meira

Fjórtán ... bráðum fimmtán

Lesa meira

Glámur og Skrámur í sjöunda himni

Lesa meira

Draugaspaug

Lesa meira

Draumaströndin

Lesa meira

Tröll eru bestu skinn

Lesa meira

Töff týpa á föstu

Lesa meira

Fimmtudagskvöld

Lesa meira