Um bókina:
Bókin segir frá Sigga, sem fer með mömmu og pabba að velja jólatré fyrir jólin og kynnist þá tröllastráknum Dusa, sem er búinn að týna mömmu sinni.
Úr Tröll eru bestu skinn:
Siggi horfði agndofa upp eftir tröllinu sem kom út úr Ævintýralandinu fram á búðargólfið.
Hvílíkt furðuverk!
Nefið stóð eins og meðalstór agúrka út úr groddalegu andlitinu og á því miðju sat gerðarleg bóla. Tennurnar voru skakkar og skældar. Hörundið var eins og úfið hraun. Augun voru skringilega sundlaugargræn. Eldrautt hárið minnti á slitrur úr vírbursta.
Og fötin!
Rytjulegt gæruvesti, buxur niður á miðja kálfa og röndóttir sokkar.
Hann ætlaði að taka til fótanna en þessi mikli risi bað hann að bíða.
- Ekki vera hræddur við mig! sagði hann mjóróma. Ég er bara venjulegur tröllastrákur. Tröll eru bestu skinn.
Og eins og til að sýna að ekkert væri að óttast brosti hann út að eyrum. Og sagðist heita Dusi.
- Hvað heitir þú, angaskinnið?
- Siggi.
- Hvað ertu gamall?
- Níu ára.
- Ekki er það nú hár aldur. Veistu hvað ég er gamall?
- Nei.
- Hundrað fimmtíu og sex ára.
Siggi gat ekki annað en brosað.
- Það getur enginn orðið hundrað fimmtíu og sex ára!
- Ójú, sagði Dusi. Við tröllin! Mamma mín til dæmis, hún Grýla ... hún er fimm- eða sexhundruð og eitthvað.
(s. 12-14)