Æviágrip
Andrés Indriðason er fæddur í Reykjavík 7. ágúst 1941. Hann hefur starfað sem blaðamaður, kennari, dagskrárgerðarmaður í sjónvarpi, við kvikmyndagerð og ritstörf. Hann hefur einnig þýtt fjölda bóka og þætti fyrir Sjónvarpið. Andrés varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1963 og stundaði enskunám við Háskóla Íslands 1963 – 1964. Hann nam kvikmyndagerð og dagskrárgerð fyrir sjónvarp í Árósum og Kaupmannahöfn 1965 og 1966. Hann starfaði sem dagskrárgerðarmaður hjá Sjónvarpinu 1965 – 1985. Frá 1985 hefur hann starfað sem rithöfundur, lausamaður í dagskrárgerð og að kvikmyndagerð sem leikstjóri og handritshöfundur.
Andrés hefur skrifað 30 skáldsögur og tugi leikverka fyrir útvarp, sjónvarp og leiksvið (Þjóðleikhúsið og Kópavogsleikhúsið). Fyrsta bók hans, Lyklabarn, hlaut fyrstu verðlaun í barnabókasamkeppni Máls og menningar árið 1979. Önnur bók hans Polli er ekkert blávatn hlaut verðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur sem besta frumsamda bókin árið 1981. Fyrir bókina Það var skræpa hlaut Andrés verðlaun Námsgagnastofnunar í samkeppni um létt lesefni fyrir börn árið 1984. Bækur hans hafa verið gefnar út í Þýskalandi, Sviss, Austurríki og Danmörku. Útvarpsleikrit hans hafa verið flutt á öllum Norðurlöndunum og leiknar sjónvarpsmyndir hans fyrir börn hafa verið sýndar víða um heim. Þá hefur Andrés gert leiknar kvikmyndir fyrir börn á vegum Námsgagnastofnunar, skrifað handrit og leikstýrt, og eru myndirnar notaðar sem kennsluefni, hérlendis og erlendis.
Andrés Indriðason lést 10. júlí 2020.
Frá höfundi
Tengsl mín við skáldskapinn – eða það að skrifa
Allt í einu fæðist þessi hugmynd. Í rauninni alveg upp úr þurru. Ekki af því að ég hafi heyrt eitthvað eða séð eitthvað. Hún bara kemur og vill ekki fara. Ég sit í hálfmyrkvuðum bíósal og horfi á hvítan bíódúk sem bíður eftir að fá yfir sig ljósgeisla með lifandi myndum en nú er einhver ósýnilegur ljósgeisli kominn inn í mig. Það eru komnar myndir inn í mig sem vilja ekki fara þó að ég reyni að ýta þeim í burtu. Þetta eru ótrúlega góðar myndir og áður en ég veit af er ég búinn að fiska krumpaðan miða upp úr vasa og farinn að skrifa. Miðinn leyfir ekki mörg orð en það gerir ekkert til. Ég er ekki að byrja að skrifa þessa sögu. Þetta er bara hugmyndin. Tvær setningar duga. Þær eru neistinn sem á eftir að kveikja bálið.
Myrkur sígur á og bíótjaldið kviknar til lífsins. Ég reyni að komast í samband við fólk sem kemur fyrir augun, reyni eins og ég get en allt kemur fyrir ekki. Samt eru þetta frægir leikarar og sagan virðist lofa góðu. Mín eigin söguhugmynd lætur mig ekki í friði. Hún vill að ég sinni sér. Vill að ég taki sig fram yfir allt annað. Og fær sínu framgengt. Ég halla mér aftur í sætinu, horfi á bíótjaldið en sé ekki hvað gerist. Sé bara móta fyrir einhverju sem hreyfist. Sé aftur á móti skýrt og greinilega mínar eigin myndir. Mína eigin sögu. Óska mér þess að ég gæti skrifað meira, miklu meira á miðann í vasanum, en verð að sætta mig við það að ég er ekki við skrifborðið heima heldur í bíó.
Ég er með bíó í kollinum. Sögu sem ég sé í myndum eins og í bíó. Fæ ekki við neitt ráðið. Hugmyndin er orðin að drögum með upphafi, miðju og endi samkvæmt lögmáli skáldskaparins. Hún skiptir sér meira að segja í kafla alveg sjálf án nokkurrar fyrirhafnar og sendir sögupersónurnar til mín. Ég sé þær ljóslifandi fyrir mér. Allar vilja komast í söguna en aðeins þær sem hæfa efninu komast að. Það gefur augaleið. Þær eru fjórar. Ég þakka öllum hinum fyrir komuna. Velti því fyrir mér hvað sagan eigi að heita en læt þær hugsanir lönd og leið eftir stutta stund. Ætti að vera farinn að vita að oftar en ekki er út í bláinn að gefa skáldverki heiti á fyrstu stigum.
Það kemur mér þægilega á óvart hvað þetta er góð saga. Það er engu líkara en ég hafi unnið að henni áður, brotið hvert smáatriði til mergjar, því að allt fellur svo auðveldlega í réttar skorður. Samt er loku fyrir það skotið að ég hafi hugsað um þetta söguefni áður. Fundum mínum og þessara persóna hefur aldrei áður borið saman. Ég stend mig að því að brosa með sjálfum mér því að þetta er svo mikil sæla. Þetta er góð saga. Saga sem á erindi við lesendur. Saga um alvörumál. Ljóðræn og fyndin. Ég hlakka til að koma heim og setjast við tölvuna.
Ég dett ofan í þanka um frásagnaraðferð og stíl en hrekk upp úr þeim þegar ljósin kvikna allt í einu í salnum. Af hverju þarf alltaf að vera hlé í bíómyndum? Af hverju þarf að stugga við fólki þegar það er að láta fara vel um sig? Hvað á svona áreiti að þýða? Ekki var ég að biðja um popp og kók.
Ég tala við fólk sem verður á vegi mínum í hléinu en heyri ekki í sjálfum mér. Veit ekki einu sinni hvort ég þekki það. Sé það bara sem skuggamyndir. Nú eru tvær útgáfur af mér. Önnur er að tala um daginn og veginn við skuggamyndirnar. Hin er uppi í skýjunum og heyrir ekkert nema klið og hlátrasköll og brak í pokum með poppkorni. Sögupersónurnar mínar vilja ekki hlé. Þær vilja bara halda áfram að vera til. Þær þola heldur ekki poppkorn.
Allt í einu verða breytingar í lífi einnar persónunnar. Ég er á leiðinni inn í salinn aftur þegar það gerist. Þetta er stúlka um þrítugt sem nýtur þess að fljúga á línuskautum á göngustígum meðfram sjónum í vesturbænum. Hún verður fyrir hundi sem stekkur allt í einu í veg fyrir hana. Hún dettur og um leið tekur líf hennar nýja stefnu. Og sagan.
Ég er feginn þegar myrkrið sígur á og seinni hluti myndarinnar hefst á ný, feginn að hafa hrist af mér aukaútgáfuna af sjálfum mér, feginn að geta einbeitt mér að mínu fólki. Horfi á svartan kött sem er að læðupokast í tunglskini á tjaldinu og lygni aftur augunum þegar nýr dagur rís í myndinni. Skiptir ekki máli þó að ég týni þessum þræði. Það er minn þráður sem skiptir máli. Mitt fólk. Mín saga.
Ég hugsa um stúlkuna sem datt á línuskautunum. Hef örlög hennar í hendi mér. Ég segi til um það hvernig henni reiðir af þegar hundurinn stekkur í veg fyrir hana og stangar hana. Rithöfundurinn hefur algert vald yfir persónum sínum. Þær verða að sitja og standa eins og hann vill. Ég ákveð að þetta sé alvarlegt slys, svo alvarlegt að um leið er fótunum kippt undan lífi þessarar stúlku. Það hefur auðvitað sín áhrif. Sagan fær meiri dýpt. Sögulokin breytast til hins betra. Þau verða miklu áhrifameiri. Nokkrar aukapersónur þurfa að vísu að fjúka en það er engin eftirsjá að þeim.
Þegar ég er kominn heim og sestur við skrifborðið, þegar ég er kominn út úr hálfmyrkrinu í bíóinu, búinn að kveikja á tölvunni og skrifa Saga í desember – fyrsta hugmynd, þegar skjárinn er að bíða eftir að fá yfir sig allt hugmyndaflóðið svo að tölvuheilinn geti fest þær í minni og auðveldað mér eftirleikinn, þegar þessi stund sem ég er búinn að bíða eftir í ofvæni er runnin upp finn ég allt í einu ekki lengur þessa strauma sem ég var altekinn af í bíóinu. Ég horfi á miðann sem ég skrifaði á, krumpaða afrifu af farmiða með Flugfélagi Íslands til Akureyrar, sæti 9A, og finn að neistinn er slokknaður. Neistinn sem átti að kveikja bálið. Andinn sem kom yfir mig hlýtur að hafa verið að stríða mér. Nei. Hann hefur séð þessa sögu í nýju ljósi, séð að hún var hvorki fugl né fiskur, séð sitt óvænna og tekið til fótanna. Það er skýringin.
Ég er kominn niður úr skýjunum. Gæti ekki snert tölvuna þó að ég vildi. Fingurnir drífa ekki upp á lyklaborðið. Ég er eins og sprungin blaðra. Botna ekkert í sjálfum mér. Af hverju var ég að láta þessa líka endemis þvælu toga svona í mig?
Ég slekk á tölvunni og heyri þá útundan mér að bíómyndin hafi verið sérlega góð. Að leikararnir hafi verið frábærir og sagan frábær. Að það hafi verið gaman að hitta Jónsa og þau í hléinu. Að það sé alltaf svo gaman að fara í bíó. Ég jánka og get ekki varist brosi þó að frábær mynd hafi farið forgörðum í þetta sinn. Já, það er gaman að fara í bíó, segi ég og spyr sjálfan mig um leið af hverju ég sé alltaf að fá þessar hugmyndir. Þessar biluðu hugmyndir. Af hverju er ég alltaf að skrifa? Er í lagi með mig? Eru allir rithöfundar svona eða bara ég?
En fæ auðvitað ekkert svar.
Andrés Indriðason, 2001
Um höfund
Um verk Andrésar Indriðasonar
Andrés Indriðason hefur frá því að hann gaf út fyrstu barnabókina sína Lyklabarn (1979) verið afkastamikill barna- og unglingabókahöfundur. Hann hefur skrifað fjöldann allan af bókum fyrir krakka á aldrinum sjö ára og upp úr, ásamt því að þýða bækur, skrifa handrit að sjónvarpsþáttum og kvikmyndum, semja leikrit, útvarpsleikrit og söngtexta. Bækur hans hafa unnið til ýmissa verðlauna og hafa löngum verið mjög vinsælar meðal lesenda. Bækur Andrésar fjalla flestar um svipaða hluti, sem tengjast því að verða fullorðinn, axla ábyrgð og standa á eigin fótum. Bækurnar eru flestar skrifaðar í raunsæislegum stíl, vandamálin sem krakkarnir glíma við eru hversdagsleg, gerast í hversdagslegu umhverfi og geta komið fyrir hvern sem er.
Þær bókanna sem höfða til yngri lesenda eins og Lyklabarn, Polli er ekkert blávatn (1981), Elsku barn (1985), Tröll eru bestu skinn (1985) og Það var skræpa (1993) fjalla um börn sem enginn hefur tíma til að sinna, börn sem eiga foreldra sem eru skilin eða að skilja, hvernig það er að flytja á nýjan stað og þekkja engan og hvernig það er að vera skilinn útundan. Í þessum bókum deilir Andrés á samfélagið en Lyklabarn er skýrasta dæmið um það. Foreldrarnir í bókinni hafa engan tíma til að sinna börnunum sínum. Dísa og bróðir hennar eru ein alla daga, og verða að sjá um sig sjálf en Dísa er allt of ung til að axla þá ábyrgð sem foreldrar hennar ætlast til af henni. Lyklabarn er líka ein af fáum bókum Andrésar sem endar ekki á hefðbundinn hátt með lausn allra mála, þar sem foreldrar Dísu sjá ekki villu vegar síns. Í þeim bókum sem fjalla um yngri unglinga velur Andrés oftast að fjalla um eina aðalpersónu, oftast strák á fermingaraldri. Andrés fylgir gjarnan sömu persónunni í gegnum nokkrar bækur og segir þá á gamansaman hátt frá því hvernig hún þroskast og tekst á við lífið. Þrátt fyrir léttan tón bókanna eru oft alvarlegri mál undir yfirborðinu en þá má sérstaklega nefna þríleikinn um Elías, Viltu byrja með mér (1982), Fjórtán bráðum fimmtán (1983) og Töff týpa á föstu (1984), en bækurnar nutu mikilla vinsælda þegar þær komu út.
Í þessum bókum þroskast Elías frá því að vera krakki sem enginn hlustar á, yfir í að verða unglingur. Eftir að pabbi hans deyr sannar hann fyrir mömmu sinni að honum er treystandi fyrir ýmsum hlutum og tekst einnig að sanna fyrir stóra bróður sínum að hann er ekki krakki lengur. Elías þarf einnig að takast á við heiminn fyrir utan heimilið, taka ákvörðun um það hvort hann vilji reykja og drekka eins og krakkarnir í nýja skólanum sem hann fer í og hvaða stelpu hann sé í raun mest skotinn í. Bækurnar Bara stælar (1985), Enga stæla (1986) og Stjörnustælar (1987) fjalla um Jón Agnar sem flytur til Reykjavíkur frá Eyjum og á í fyrstu í mestu vandræðum með að aðlaga sig að nýja bekknum sínum og nýju lífi í Reykjavík. Stíllinn í bókunum um Jón Agnar er mun léttari en í bókunum um Elías enda Jón Agnar mun meiri sprelligosi og húmoristi. Hann lendir í hverri vitleysunni á fætur annarri og virðist skemmta sér prýðilega. Þó býr alltaf undir óttinn við að verða útskúfaður, að standast ekki kröfur hinna krakkanna og að vera strítt. Eins og í fleiri bókum Andrésar virðist lausnin á vandamálum hans í mestu fólgin í auknu sjálfstrausti sem margar persónur hafa af skornum skammti í upphafi bókanna. Þegar þeim tekst að verða sáttar við sjálfar sig, standa á eigin fótum og standast hópþrýstinginn skánar í flestum tilvikum líf þeirra til muna. Í þessum bókum kynnast aðalpersónurnar oft fyrstu ástinni, sem þarf þó ekkert endilega að vera sú síðasta, enda bækurnar algerlega lausar við alla rómantík. Þær kynnast því einnig að vera einar og útskúfaðar eftir að hafa flutt í nýtt hverfi eða nýjan landshluta og takast á við togstreitu sem verður á heimili þeirra þegar þær fara að gera tilkall til þess fullorðinslífs sem þeim var lofað þegar þær fermdust.
Þá má nefna tvær bækur sem fjalla um svipaða hluti en eru samt mjög ólíkar hinum en það eru smásagnasafnið Mundu mig, ég man þig (1990) sem er safn sagna fyrir börn og unglinga á alvarlegri nótunum og Ævintýralegt samband (1997) sem fjallar um unglingsstrákinn Álf, sem er álfur en býr í mannheimum en veit ekki af því sjálfur. Sú saga er ævintýralegri en aðrar sögur Andrésar þrátt fyrir að vera sögð í raunsæislegum stíl. Þær bækur sem fjalla um eldri unglinga eru mun alvarlegri en hinar. Aðalpersónurnar eru um átján ára aldurinn og oftar er stelpa í aðalhlutverkinu en strákur, þó að sjónarhornið flakki í nokkrum tilfellum milli stelpu og stráks. Að vissu leyti eru það sömu vandamál sem eru til umfjöllunar hér eins og í þeim bókum sem fjalla um yngri unglinga en þau eru þó orðin mun alvarlegri. Fyrsta ástin er ekki eins saklaus í þessum bókum og til dæmis hjá Jóni Agnari og partíin eru öðruvísi. Þá er einnig fjallað um glæpi, bæði sem unglingarnir fremja og sem eru framdir gagnvart þeim. Bækurnar Með stjörnur í augum (1986) og Ég veit hvað ég vil (1988) fjalla um Sif sem er 17 ára og kolfellur fyrir Arnari, aðalgæjanum í skólanum. Eftir stutt samband sem endar með því að Arnar þröngvar henni til að sofa hjá sér verður Sif ólétt en Arnar lætur sig hverfa. Seinni bókin fjallar um þau bæði og hvernig þau takast á við breyttar aðstæður í lífi sínu en bókin fjallar að miklu leyti um val og það að velja rétt fyrir framtíðina. Arnar áttar sig á þessu undir lok bókar og þau ákveða að reyna aftur við samband sitt, mun eldri og þroskaðri bæði tvö en í upphafi fyrri bókarinnar. Sá létti tónn sem ríkti í bókunum um yngri unglinga er í þessum bókum algerlega horfinn og alvara lífsins hefur tekið við. Stíllinn er enn raunsæislegri en í hinum bókunum, því engin leið er til að klóra sig út úr málunum með fyndni eða heppni. Það verður að takast á við lífið eins og það er og taka ábyrgð á hegðun sinni.
Unglingabækur Andrésar eru í flestum tilvikum samtímabækur. Þær eru kyrfilega staðsettar í samtíma sínum, með tilvísunum í lagatexta og bíómyndir, skemmtistaði og lýsingar á hárgreiðslum og fötum krakkanna. Tungumálið sem er notað er kryddað slangri en þessi atriði gera það því miður að verkum að bækurnar eldast frekar illa því fæstir unglingar í dag kannast við þær bíómyndir og þá tísku sem var ríkjandi á níunda áratugnum og lýsingarnar á persónum ásamt tungumáli þeirra verður eiginlega bara fyndið. Í Sólarsögu (1989) er til dæmis talað um strák sem er algert „öngvit“ (bls. 87) og það kemur lesandanum ansi undarlega fyrir sjónir að persóna í unglingabók skuli vera „árgerð sextíu og átta“ (Ég veit hvað ég vil bls. 124) þó að það hafi auðvitað hljómað vel þegar bókin kom út. Þær bækur sem eru á léttari nótunum eins og bækurnar um Jón Agnar sleppa þó betur en þær alvarlegri þar sem húmorinn vegur upp á móti því sem kann að virðast undarlegt í augum lesanda. Sennilega er það þó einmitt þessi tenging við samtímann sem hefur stuðlað að miklum vinsældum Andrésar. Bækurnar höfða vel til krakka og unglinga síns tíma, og Andrés sýnir að hann veit hvað er að gerast í samfélaginu frá sjónarhóli unglinga, hvaða myndir á að sjá, hvaða tónlist á að hlusta á og hvernig á að klæða sig. Þar að auki eru bækurnar að mestu lausar við predikunartón og unglingum er oftast leyft að vera unglingar í friði. Fulltrúar skynseminnar og fullorðinsheimsins eru samt til staðar, feðurnir eru reyndar oft fjarverandi en mæðurnar veita góð ráð þegar þær hafa tíma til. Þegar allt annað bregst er það yfirleitt skólastjórinn í skóla aðalpersónunnar sem verður mikilvægasti hlustandinn og ráðgjafinn.
Tvær af unglingabókum Andrésar skilja sig töluvert frá hinum en það eru sögulegu skáldsögurnar Allt í besta lagi (1992) og Manndómur (1990). Allt í besta lagi fjallar um Kela sem býr í Reykjavík eftirstríðsáranna. Hann býr ásamt fjölskyldu sinni í bragga og líf hans litast mjög af lífinu í hverfinu. Það er sumarfrí í skólanum en á meðan hann bíður eftir að skólinn byrji aftur vinnur hann sem sendill í búð og í einni sendiferðinni kynnist hann Ingu Dóru sem verður síðar kærastan hans. Frásögnin er í léttum dúr en þó blandast hér sem endranær alvarleiki lífsins við þegar Keli finnur peningaveski á gólfinu í búðinni og tekst ekki að koma því til búðareigandans þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Um sama leyti snýr systir hans Lína aftur heim eftir mislukkað hjónaband og maðurinn hennar sem er hinn mesti durgur eltir hana og setur allt á annan endann á heimilinu. Eins og margir aðrir unglingar í sögum Andrésar mætir Keli ekki miklum skilningi frá foreldrum sínum, pabbinn er fjarrænn og mamman skilur hann ekki, en þetta verður greinilegra fyrir það hve fjölskyldan býr þröngt, það getur enginn verið í friði í lengri tíma og þeir sem ætla að vera heima verða að sætta sig við að þola alla hina. Þrátt fyrir að vera ólík öðrum bókum Andrésar hvað varðar sviðsetningu sver Allt í besta lagi sig þó í ætt við aðrar sögur hans á þann hátt að hér er verið að taka á hefðbundnum vandamálum unglinga en búið að krydda söguna með smá spennu í formi peningaveskisins týnda. Sagan endar einnig á hefðbundinn hátt með lausn allra mála en umhverfið og tíminn gerir hana áhugaverðari.
Enn ólíkari öðrum bókum Andrésar er Manndómur sem gerist á stríðsárunum í Reykjavík. Sagan segir frá Kalla sem býr ásamt foreldrum sínum og bróður í blokk og fjölskyldan hefur það ágætt miðað við marga aðra á þessum tíma. Allt fer þó í upplausn á heimilinu þegar pabbi Kalla missir vinnuna, og leggst í drykkju. Kalli verður að fara að vinna og þrátt fyrir óbeit pabba hans á setuliðinu fer hann í Bretavinnuna. Á sama tíma hefur hann kynnst Dagnýju sem verður kærastan hans en hún býr ásamt systur sinni í lítilli kjallaraíbúð vestur í bæ. Þau vandamál sem fjallað er um í Manndómi eru ólík þeim sem áður hafa sést hjá Andrési, að vísu eru mörg þeirra hin dæmigerðu unglingavandamál sem allir verða að glíma við en einnig gerast hlutir sem eru átakanlegri en í öðrum bókum Andrésar. Umhverfið og tíðarandinn sem lýst er í bókinni gerir þar að auki flest vandamál Kalla framandi fyrir nútímalesanda og er atvinnuleysi föður Kalla eitt slíkt. Umræðan sem kemur fram um „ástandið“ svokallaða þegar íslenskar konur (og karlar) voru í hvers kyns samskiptum við hermenn setuliðsins við mismikla hrifningu annarra borgarbúa verður einnig mikilvæg og er litið á það bæði með neikvæðum augum föður Kalla og jákvæðum augum vinnufélaga hans.
Kærasta Kalla og systir hennar eru báðar í „ástandinu“ ásamt vinnufélaga hans, og Dagný svíkur Kalla fyrir hermann. Þessi heimur svika og baktjaldamakks er framandi Kalla sem er aðeins fimmtán ára í bókinni þó að flestir haldi að hann sé alla vega sautján. Svik kærustunnar og vinnufélagans sem gefur honum stolið hjól, ásamt kúvendingu föður hans frá því að vera róni niðri í bæ í að frelsast, reynast vera Kalla ofviða og hann fremur glæp í ölæði. Það er margt í sögunni Manndómur sem er gefið í skyn frekar en sagt berum orðum og á það meðal annars við um samskipti Dagnýjar og Dísu systur hennar við hermennina. Dagný sannfærir Kalla um að allt sé í mesta sakleysi á milli þeirra og hermannanna, en þó er einn þeirra hjá þeim öllum stundum, sami maður og Kalli rekst síðar á hjá vinnufélaganum sem útvegar hermönnunum áfengi og stelpur. Gefið er í skyn að allt sé ekki með felldu varðandi þær systur en grunur lesanda er í rauninni aldrei staðfestur að fullu, þrátt fyrir að Dagný taki saman við hermann í lokin. Þá er einnig gefið í skyn að Kalli sé hreinlega að missa vitið. Hann veltir þessu sjálfur fyrir sér og hegðun hans verður undir lokin ansi undarleg. Bókin skilur við Kalla í lögreglufylgd á leið í fangelsi þar sem hann hefur framið voðaverk, og komið þannig bæði lesendum, öðrum persónum bókarinnar og sjálfum sér í opna skjöldu.
Andrés Indriðason hefur sent frá sér eina bók sem ætluð er fullorðnum lesendum. Bókin heitir Maður dagsins (1982) og fjallar um Bárð sem er 22 ára, nýfluttur úr sveit og nýuppgötvaður snillingur í langstökki. Bárður er saklaus og óreyndur og þó það sé aldrei sagt berum orðum er hvað eftir annað gefið í skyn með hugsunum Bárðar og hegðun, sem og hegðun annarra gagnvart honum að hann hafi ekki andlegan þroska á við meðalmanninn. Bókin er að mestu leyti þriðju persónu frásögn, og eru nokkrir kaflar hér og þar sagðir í íþróttafréttastíl en þannig fær lesandinn að fylgjast með afrekum Bárðar. Frásögnin skiptir reglulega yfir í annarrar persónu frásögn, þar sem svo virðist sem annað sjálf Bárðar gefi honum ráð og segi honum hvernig hann á að haga sér. Bárður lendir hvað eftir annað í aðstæðum sem hann getur ekki eða kann ekki að takast á við, flestar þeirra tengdar nýunninni frægð hans en þá tekur annað sjálf hans við og skipar honum fyrir. Þessi hegðun gefur lesandanum þá tilfinningu að Bárður gangi ekki alveg heill til skógar og styrkist sá grunur við atburði sem virðast að miklu leyti eiga sér stað í höfðinu á honum. Þessi atvik tengjast honum sjálfum en gera hann í eigin huga að meiri hetju enn hann er í raun, þegar hann tekur konu með sér heim eða þegar hann tekur æðiskast í vinnunni, en mörkin milli raunveruleikans og þess sem aðeins gerist í huga Bárðar verða nokkuð óljós í þessum tilvikum. Í bókinni má greinilega sjá ádeilu á íþróttaheiminn og hvernig utanaðkomandi aðilar notfæra sér íþróttir til að koma sér og sínum á framfæri. Bárður verður bæði fyrir barðinu á skemmtikröftum, verslunareigendum og stjórnmálamönnum sem vilja allir nota hann til að auglýsa sig og sín málefni og Bárður, sem skilur þennan heim ekki að fullu, veit ekki hvernig hann á að takast á við þetta eða komast undan því.
Andrés Indriðason sýnir í bókum sínum á sér ýmsar hliðar en bækur hans geta verið bæði fyndnar og alvarlegar, hvoru tveggja í senn eða eftir því hvað bókin fjallar um. Hann fjallar opinskátt um vandamál svo sem drykkju, skilnaði og unga foreldra, stundum með aðalpersónurnar sem miðpunkt þessara vandamála en stundum með aðalpersónuna sem áhorfanda að þeim. Lesandi fær ekki þá tilfinningu að verið sé að vanda um fyrir honum heldur fremur að verið sé að vekja athygli á þessum málum. Skemmtanagildi bókanna er þó í hávegum haft og persónurnar til þess fallnar að lesandanum líki við þær. Þó að margar bóka Andrésar eldist illa eru margar sem halda enn gildi sínu, umfjöllunin um hópþrýsting og hræðslu við að vera ekki eins og hinir er alltaf mikilvæg og þá skiptir í raun engu hvort krakkarnir í bókinni sjái mynd í bíó sem enginn man lengur eftir.
© María Bjarkadóttir, 2003
Greinar
Almenn umfjöllun
Hildur Hermóðsdóttir: „Lyklabörn og töff týpur : söguhetjur Andrésar Indriðasonar“
Tímarit Máls og menningar, 47. árg., 3. tbl. 1986, s. 318-328.
Um einstök verk
Fjórtán – bráðum fimmtán
Guðbjörg Þórisdóttir: „Feluleikur“
Tímarit Máls og menningar, 45. árg., 2. tbl. 1984, s.222-5.
Lyklabarn
Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir: „Síðbúin umfjöllun um tvær verðlaunabækur frá barnaári : Lyklabarn : Undir regnboganum“
Tímarit Máls og menningar, 43. árg., 3. tbl. 1982, s. 365-8.
Með stjörnur í augum
Elín Garðarsdóttir: „Með stjörnur í augum“ (ritdómur)
Vera: tímarit um konur og kvenfrelsi, 6. árg., 1. tbl. 1987, s. 36.
Polli er ekkert blávatn
Þuríður Jóhannsdóttir: „Polli er ekkert blávatn“
Tímarit Máls og menningar, 43. árg., 3. tbl. 1982, s. 358-63.
Töff týpa á föstu
Gyða Gunnarsdóttir: „Andrés Indriðason. Töff týpa á föstu“ (ritdómur)
Vera: tímarit um konur og kvenfrelsi, 4. árg., 3. tbl. 1985, s. 36.
Það var skræpa
Guðrún Karlsdóttir: „Það var skræpa“
Tímarit Máls og menningar, 47. árg., 3. tbl. 1986, s. 395-7.
Verðlaun
1979 - Verðlaun í barnabókasamkeppni Máls og menningar í tilefni barnaárs Sameinuðu þjóðanna: Lyklabarn
1982 - Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur: Polli er ekkert blávatn
1984 - Verðlaun Námsgagnastofnunar í samkeppni um létt lesefni fyrir börn: Það var skræpa
1990 - Viðurkenning Barnabókaráðs Íslands, Íslandsdeildar IBBY: Manndómur
Lestrarlandið
Lesa meiraSól og blíða í Paradís
Lesa meiraSannleikurinn og lífið
Lesa meiraÍ Undralandi
Lesa meiraTX-10: Í fótbolta
Lesa meiraTX-10: Í skólanum
Lesa meiraLukkudýrið
Lesa meiraHúsið á Eyrarbakka
Lesa meiraTX-10: Það er ég
Lesa meira
Reiknibíllinn : Það er leikur að reikna
Lesa meiraBúrkína Fasó
Lesa meiraEva og Adam : Kvöl og pína á jólum
Lesa meiraEva og Adam : Með hjartað í buxunum
Lesa meiraEva og Adam : Bestu óvinir
Lesa meiraRasmus klumpur og Sóti lestarstjóri
Lesa meiraRasmus klumpur á pínukrílaveiðum
Lesa meiraRasmus klumpur í Kynjaskógi
Lesa meiraRasmus klumpur í undirdjúpunum
Lesa meira