Ljósmynd á kápu: Sólveig Aðalsteinsdóttir.
Úr bókinni:
draumur
ég vakna ekki, en man í svefninum að til er öruggur staður
uppsprettulind hugsana minna og drauma, en ekki er það
olnboginn það veit guð og ekki köld hnén eða iljarnar
í draumnum hef ég bæði týnt björtu belti Órions og
uppsprettustaðnum, ekki er hann augnkrókarnir
varla er hann næfurþunn gagnaugun, og þó?
eitthvað hringlar inni í myrku höfðinu
ég halla mér á hliðina og viti menn!
það rennur, beint úr höfðinu
niður í hjartað, á réttan stað
beltið skín nú óhemju skært
og nú man ég allt í einu
hvernig við fjósakonur
förum að því að villa
á okkur heimildir
skína sem sólir
siðprúðar sólir
á leið okkar
yfir lönd
og álfur
ó já
ó
(43)