Úr Sumarblús:
Hann situr þarna á móti mér með þetta heilsute sitt sem hann virðist hafa gleymt.
Einhvern veginn tengi ég hann draumum. Svartleitur, í dauflitum Armanijakka og rúllukragapeysu í stíl, hár klippt samkvæmt nýjustu tísku, nákvæm ímynd manns á sprettharðri framabraut, svo nákvæm að hann virðist allt að því óraunverulegur.
“Einkennilegt,” sagði hann og nísti fingrunum í handlegginn á mér þegar við höfðum rétt okkur af eftir áreksturinn, “ég var einmitt að hugsa til þín um daginn og svo rekst ég svona á þig.”
Ég sá ekki margt einkennilegt við það. Þannig gerast hlutirnir. Maður fer allt í einu að hugsa til einhvers og sá hinn sami hringir eða maður rekst óvænt á hann eða fréttir af honum, þannig er það bara, og reyndi með lempni að losa á mér handlegginn.
En hann sleppti ekki, dró mig í átt að kaffiteríunni, og áður en ég vissi af vorum við sest við borð, ég með kaffi, hann með þetta heilsute sem hann taldi svikið af því það kom úr poka, en lét sig hafa það þusandi af smásmygli um óhollustu poka. Samt hafði ég einhvern veginn á tilfinningunni að honum stæði nákvæmlega á sama.
Málmröddin enn að kalla upp óskiljanlegt nafn og annars hugar segi ég, ennþá með bændur og sveitir lands á heilanum, hvort hann haldi ekki að hetjukvæðin og sögurnar, já og rímurnar líka, hafi hér áður fyrr verið sýndarveruleiki þeirra tíma.
Hann lítur á mig eins og ég sé galin, trúir greinilega ekki á áhrif sagna og kvæða á veruleikaskynið, og kannski réttilega hugsa ég döpur með nútímann eins og glýju fyrir augunum. En herði mig svo upp, er í þann veginn að minna hann á sjálfsmorðsölduna sem æddi yfir unga menn í Evrópu í kjölfar Rauna Werthers unga, þegar hann grípur inn í herskár.
“Sumir segja að Persaflóastríðið hafi aldrei átt sér stað nema á skermunum hjá CNN,” segir hann og horfir ögrandi á mig.
“Jæja,” segi ég.
“Já,” segir hann.
“Það hefur komið þeim á óvart sem féllu,” hrekkur út úr mér án þess ég ætli það. Mig langar ekki í þras.
(s. 103-104)