Beint í efni

Systu megin

Systu megin
Höfundur
Steinunn Sigurðardóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur

um bókina:

Systa býr ein í kjallarakompu við bágar aðstæður en hún ræður sér sjálf. Hún hefur losað sig að mestu undan ægivaldi Mömmu eins og Brósi, bróðir hennar og bandamaður í tilverunni. Saman hafa þau tekist á við harðan heim frá barnæsku en valið hvort sína leið, Brósi innan samfélagsins, Systa utan þess. Dagsdaglega dregur Systa fram lífið með dósasöfnun en þegar henni býðst aukið öryggi í skiptum fyrir frelsi er úr vöndu að ráða.

úr bókinni:

Það hefur ugglaust verið að undirlagi Emblu sálugu móðursystur með dyggum stuðningi Föður mís sem við Brósi bróðir vorum send í sveit sumurin þrjú áður en hann Faðir minn sálugi lést. Eftir það hélt mamma okkur föngnum í Reykjavík á sumrin, af óskiljanlegum ástæðum, nema þá meðfæddri drottnunargirni, þar sem við þvældumst raunverulega fyrir manneskjunni, ekki sístí mat og drygg, og var þetta stórfell klámhögg í garð okkar barnanna hennar.

Guðríður föðuramma okkar Brósa bró var valkvendi og drengur góður. Tók hún okkur kalstráunum opnum örmum á Efri-Mörk í Fljótshlíð og býsnaðist yfir holdafari okkar sem ekki var furða. Hún beinlínis vakti yfir því að við borðuðum, sem ekki hefði þurft, svo langsoltin sem við vorum.

Yfirgengileg náttúrufegurð blasir við á Efri-Mörk eins og dæmin sanna, útsýni á Eyjafjallajökul, Vestmannaeyjakubbana jafnvel, enda stendur blessaður bærinn hátt í hlíðinni eins og nafnið bendir til. Þarna í Hlíðinni fríðu vorum við Brósi nú aldeilis sæl og vildum ekki til baka til borgarinnar í September frekar en nágranninn Gunnar á Hlíðarenda forðum.

Alveg var það punkturinn yfir i-ið í sumrinu þegar hann Faðir okkar sálugi kom keyrandi á Efri-Mörk með pakka, jafnvel í þrígang þegar hann var í landi. Giska ég á að hann hafi verið í landi oftar en þessi þrjú skipti, en ekki fengið leyfi Mömmu til þess að heimsækja okkur, því það þurfti náttúrulega að fræsa, hreingera og olíubera hálfa heimsbyggðina þá sjaldan hann steig fæti á þurrt land.

Athyglisvert er að Mamma kom aldrei í heimsóknir á Efri-Mörk með honum Föður mínum sáluga til svokallaðra barnanna sinna.  Segir það sína sögu um hvert horn Mamma hafði í síðu þessa dásamlega sveitabæjar og jafnvel tengdamóður sinnar. (En Guðríður amma var þeirrar gerðar að hún mundi hafa haft orð á holdafari barnabarna sinna við svokallaða tengdadóttur og hefði það verið einkar óvinsælt umræðuefni hjá Mömmu - en helsta viðkvæðið hennar vara að bregðast ókvæða við öllu sem hefði getað talist ljóður á hennar óráði.)

Hygg ég að Faðir minn sálugi hafi notið þess að vera í friði í stífbónaða Mitsubishi-bílnum á þjóðveginum austur til okkar, frjáls að sínum gjörðum og hugsunum. Hef ég hann grunaðan um að hafa jafnvel fengið sér á leiðinni pulsu með einhverju til hátíðabrigða, á Selfossi eða Hvolsvelli, því ég fann stundum af honum daufa lauklykt á Efri-Mörk. En pulsur með öllu voru fullkomin bannvara hjá Mömmu. Var viðbára hennar sú að þær væru ekki mannamatur, en hér var nískan uppmáluð raunverulega að verki. Eitthvert mannfjandsamlegasta fyrirbæri sum um getur, NÍSKAN, hvort sem það er andleg eða líkamleg, eða samansúrruð úr báðum þeim áttum.

(s. 51-52)

Fleira eftir sama höfund

Ljóð í Moord liederen

Lesa meira

Liebe auf den ersten Blick

Lesa meira

Poesia 136

Lesa meira

Amour de l'Islande

Lesa meira

Ljóð í Poésie islandaise contemporaine

Lesa meira

The Thief of Time

Lesa meira

Ástarljóð af landi

Lesa meira