Beint í efni

Tættir þættir

Tættir þættir
Höfundur
Þórarinn Eldjárn
Útgefandi
Gullbringa
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Smásögur

Um bókina

Þrjátíu og sjö áður óbirtir þættir sem fara úr einu í annað um hitt og þetta. Þar á meðal reynslusögur, minningar, athuganir, viðhorf, áhorf, sagnir og smælki. Auk þess nokkrar ferilskrár. Meðal efnis: Nytjadraumar, Snorralaug í Helgadal, Nokkrar Bessastaðasögur, Þrír Halldórar, Skakkur ansats, Hirðskáldið, Hirðfíflið, Kristmann og Ursus, Guðlast í húsi biskups, Köttur frá Steini, Að vega nema og muna, Í safninu.

Úr bókinni

Bókhlaðan á Bessastöðum

Uppistaðan í Bókasafninu á Bessastöðum eru bækur Boga Ólafssonar sem var frægur enskukennari forðum daga í Menntaskólanum í Reykjavík. Stundum heyrist eða sést því haldið fram í ræðu og riti að þetta ágæta safn Boga hafi verið keypt að Bessastöðum í forsetatíð Ásgeirs Ásgeirssonar, um það leyti sem bókhlaðan var byggð og tekin í brúk 1964. Það er ekki rétt.
   Þegar fjölskylda Kristjáns Eldjárns kom að Bessastöðum haustið 1968 stóð bókhlaðan þar galtóm að öðru leyti en því að í svo sem einni hillu einingu voru bækur af bandarískri bókasýningu sem þangað höfðu verið gefnar. Að auki gat þar að líta Encyclopediu Britannicu og kannski eina og eina bók annars eðlis sem ratað hafði í hillurnar fyrir slysni.
   Meðal bandarísku bókanna sá ég fyrsta skipti og las bók eftir Philip Roth. Það var skáldsagan Letting Go. Einnig var þar heildarsafn ljóða Walts Whitmans, Leaves of Grass, í útgáfu Everyman's Library. Hana tók ég mér strax til handargagns og hef um ævina átt við hana nokkurt samneyti. Hyggst skila henni fljótlega.
   Það orð lagðist brátt á meðal hins góðgjarna almennings að Ásgeir hefði haft á brott með sér ófrjálsri hendi allar þær verðmætu bækur þjóðarinnar sem þar hefðu verið áður. Þetta var altalað. Ég man að ég spurði pabba hvort þetta gæti verið rétt. Hann sagði það af og frá. Ásgeir væri bókamaður og hefði átt sjálfur allar þær bækur sem þar hefðu áður verið í hillum.
   Reyndar stemmir þetta ágætlega við blaðaviðtal við Ásgeir frá 1964. Þar talar hann um að í bókasafni staðarins eú 100 amerískar bækur og svo að auki þrjár aðrar.
   En auðvitað varð ljóst eftir að bókhlaðan hafði verið tæmd af bókum Ásgeirs að svona gæti þetta ekki gengið. Til hvers hefði verið að reisa veglega bókhlöðu utan um galtómar hillur? Jafnvel þó Sveinn Kjarval hefði hannað innvolsið og Jón Gunnar Árnason smíðað skúffuhandföngin? Nokkrir bankar, held ég, tóku sig því til, meðal annars Seðlabankinn fyrir atbeina Jóhannesar Nordal og lögðu fram fé til bókakaupa. Það mun hafa verið 1970 og fljótlega eftir það var bókasafn Boga keypt. Þar var og er margt góðra bóka. Einkum þótti hann hafa lagt sig vel eftir íslenskum leikritum. Mig minnir að Sigurður Líndal hafi verið ráðinn bókavörður staðarins.

(s. 53-55)

Fleira eftir sama höfund

Flügelrauschen

Lesa meira

Le sens pris aux mots

Lesa meira

Les visiteurs du passé

Lesa meira

Rester interdit

Lesa meira

Barnasögur úr ýmsum áttum

Lesa meira

Vaknaðu, Sölvi

Lesa meira

Ása og Erla

Lesa meira

Hér liggur skáld

Lesa meira

Im Blauturm

Lesa meira