Um bókina
Á köldum degi hverfur lítil stúlka úr barnavagni í Reykjavík, fædd af íslenskri staðgöngumóður. Ellefu árum síðar deyr telpa úr mislingum og faðirinn vill jafna sakir við þann sem smitaði dótturina. Og kona finnst látin í yfirgefinni bifreið.
Lögreglumaðurinn Huldar og Freyja sálfræðingur takast hér á við snúið mál þar sem ekkert er sem sýnist og yfir og allt um kring er þögn sem enginn vill rjúfa.
Yrsa Sigurðardóttir er einn fremsti glæpasagnahöfundur samtímans. Hún hefur hlotið fjölmörg verðlaun og bækur hennar eru tíðir gestir á listum erlendra fjölmiðla og bóksala yfir bestu glæpasögur sem skrifaðar hafa verið.
Úr Þögn
Hann lokaði dyrunum, tók í bíllykilinn og bjóst til að ræsa vélina.
En um leið og hann einangraðist frá hreinu vetrarloftinu fann hann daufan en kunnuglegan þef. Járnkennda blóðlykt. megnari en svo að um nokkra dropa úr blóðnösum eða smásári væri að ræða. Hann sleppti stýrinu og lyklinum undireins, stakk vinstri hendi inn í ermina, opnaði dyrnar og kom sér út. Áður en hann lokaði á eftir sér sótti hann latexhanska í úlpuvasann og ýtti síðan á takka undir mælaborðinu til að opna skottið. Undir árvökulum augum konunnar í glugganum hallaði hann sér niður að Erlu.
Svipur hennar harðnaði þegar hann tók að hvísla að henni og hún kinkaði kolli til marks um að hún hefði meðtekið skilaboðin. Þau gengu aftur fyrir bílinn og Huldar lyfti skottlokinu. Þung blóðlyktin gaus upp og staðfesti grun Huldars. En þarna blasti ekki við látin eða helsærð manneskja eins og Huldar óttaðist heldur nokkrir svartir ruslapokar. En það gat ekki verið manneskja í þeim, til þess var of lítið í hvrerjum poka. Þau drógu bæði andann léttar.
(33)