Þórðarbókin samanstendur af fimm ljóðabókum Þórðar. Fjórar eldri ljóðabækur hans, sem flestar hafa verið ófáanlegar um árabil, birtast hér allar í heild sinni: Þar var ég (1989), Ljós ár (1991), Aftur að vori (1993) og Meðan augun lokast (1995). Einnig er í bókinni áður óbirt bók, Einn.
Sigurlín Bjarney Gísladóttir bjó til prentunar.
Úr Þórðarbókinni:
EINN
Þegar ég ók inn í nóttina
milli svartra þverhníptra hamra
datt útvarpið út
um leið og þulurinn tilkynnti
í fréttum er þetta helst
Skyndilega áttaði ég mig á
að ég hafði misst samband við umheiminn
og hann við mig
og ekkert í fréttum
og ég ók inn í svarta nóttina
milli þverhníptra hamra
og mér var rótt.