Beint í efni

Þórður Helgason

Æviágrip

Þórður Helgason er fæddur í Reykjavík 5. nóvember 1947. Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1967 og stúdentsprófi frá sama skóla ári síðar. Hann útskrifaðist með B.A.-próf í íslensku og sagnfræði frá Háskóla Íslands 1972 og lauk síðan Cand. mag.-prófi í íslenskum bókmenntum í kjölfarið (1977) við sama skóla.

Þórður kenndi við Verslunarskóla Íslands um árabil en er nú dósent í íslensku við Kennaraháskóla Íslands. Áður hafði hann verið stundakennari við sama skóla í nokkur ár. Einnig sinnti hann stundakennslu í Háskóla Íslands um langt skeið og var auk þess lektor þar einn vetur.

Þórður hefur sent frá sér ljóðabækur, barna- og unglingabækur auk þess að hafa samið fjölda námsbóka og séð um útgáfu verka, s.s. eftir Þorgils gjallanda. Smásögur hans hafa einnig birst í bókum og tímaritum. Hann er félagi í Ritlistarhópi Kópavogs og hefur haldið fjölmörg námskeið um ljóðagerð um árabil og séð um útgáfu bóka í kjölfar þeirra.

Þórður býr í Kópavogi.

Mynd af höfundi: Ljósmyndasafn Reykjavíkur.