Um bókina
Máney á heima í sveitinni hjá ömmu og afa, og hún vill hvergi annars staðar vera. Þegar Sólmundur flytur á næsta bæ er hann eins og geimvera og gargar á alla. En þegar þau bjarga álftaregginu frá tófunni breytist allt. Það besta er þó að Sólmundur á litla systur sem getur kannski orðið systir Máneyjar líka.
Úr bókinni
Strákurinn sat á gangstéttinni og horfði á símann sinn. Skrýtið hvað hann gat skoðað hann lengi. Kannski var hann splunkunýr. Ég gægðist upp fyrir steypukantinn, vandaði mig og skutlaði, og flautaði síðan hátt, eins og ég væri að flauta á Djúsíboj, og faldi mig svo. Auðvitað gelti Djúsíboj af því ég var horfin og hann búinn með kleinuna. Ég veit ekki hvort strákurinn heyrði flautið og ég veit ekki hvort skutlan náið alla leið.
Ég beið oggustund og gægðist svo upp fyrir kantinn. Skutlan dreif ekki hálfa leið og strákurinn horfði ennþá á símann. Ég skutlaði annarri og flautaði og aftur gelti Djúsíboj en strákurinn hreyfði sig ekki. Allar skutlurnar drifu stutt og hann lét ekki plata sig af gangstéttinni. Hann var ekki einu sinni forvitinn en kannski sá hann enga skutlu flúga.
Þegar hann fór loksins inn tíndi ég skutlurnar upp og setti þær í plastpokann. Ég var örg, næstum því reið, og hugsaði andskotans og ætlaði að segja það en leit um leið í áttina að kirkjunni. Ég sá afa hvergi og hvíslaði þá „andskotans“ en heyrði það varla sjálf. Sem var gott.
Djúsíboj var glaður að hitta mig og dillaði skottinu endalaust. Samt týndi hann mér bara í nokkrar mínútur. Mig langaði að hringja dyrabjöllunni og henda skutlunum í hausinn á stráknum en var hrædd um að hann myndi sparka í mig. Þess vegna sótti ég frekar stigann og lagði hann upp við vegginn og klifraði að glugganum sem strákurinn var oftast í. Það hlaut að vera herbergið hans. Þegar ég hafði troðið síðustu skutlunni inn um mjóu rifuna birtist hann í gluggakistunni. Ég hrapaði næstum á gangstéttina af því mér brá svo.
„Hvað ertu að gera?“ spurði hann hranalega en mér fannst hann frekar hissa en reiður, kannski bæði.
„É... é... ég ... vildi bara segja fyrirgefðu við þig ... út af þessu áðan. Viltu koma að veiða fisk eða skoða lömb eða leika í hlöðunni?“
Strákurinn starði á mig í smástund, hristi svo hausinn og fór úr glugganum en þegar ég fikraði mig niður tók hann hníf úr vasanum og opnaði hann. Ég fékk gæsahúðarsting um allan líkamann og þegar hann leit grimmur á mig flaug ég næstum því niður. Kannski var hann stórhættulegur og kannski vorum við öll í lífshættu. Ég brjálast ef hann stingur Djúsíbój eða hænurnar.
(s.58-59)