Úr Turninum:
Einu sinni var turn og efst á turninum var turnhús sem var í laginu eins og dropi af vatni sem er við það að falla til jarðar. Turnhúsið var gegnsætt og ef vel var að gáð mátti sjá glitta í tvö lítil börn, strák og stelpu, sem stóðu hvort við sitt kringlótt opið á turnhúsinu og horfðu út, brosandi. Í samanburði við turninn voru börnin agnarsmá, þau voru svo smá að ef þau hefðu sjálf verið fær um að skynja smæð sína hefðu þau líklega aldrei brosað framar.
Turninn teygði sig hátt yfir jörðina og uppyfir hæstu trjátoppa frumskógarins sem breiddi úr sér eins og skýjaþykkni allt í kringum hann. Að ytra borði var turninn rennisléttur og silfraður og leit út fyrir að vera svo sterkbyggður að ekkert fengi nokkurn tímann grandað honum.
Börnin vissu ekki hvernig þau höfðu komist inn í turninn. En það skipti þau heldur ekki máli. Í turninum voru þau hamingjusöm, þau létu sig dreyma og alltaf var eitthvað nýtt til að skoða og velta vöngum yfir. Á morgnana teyguðu þau ilminn frá skóginum og stundum blandaðist hann lyktinni af þessu torkennilega sem glampaði blátt og hvítt í fjarskanum þar sem skógurinn endaði. Börnin létu sig oft dreyma um hvað þetta gæti verið. Stundum barst frá því lágur kliður og stundum var líkt og það væri á hreyfingu, upp og niður, fram og aftur. Þegar fuglarnir komu fljúgandi með ávexti eða hnetur til að færa þeim var fyrsta spurning barnanna alltaf hvort einhver hefði komist að því hvað þetta bláa og hvíta væri. Fuglarnir svöruðu þá jafnan á þá leið að enginn úr þeirra hópi hefði nokkurn tímann flogið svo langt, skógurinn og himinninn yfir skóginum væri þeirra heimili; það sem líktist hvoru tveggja, bylgjandi laufi í vindi og bláma himinsins, var eitthvað sem fuglarnir gátu ekki skilið og þeir óttuðust það.
(s. 21-23)