Æviágrip
Steinar Bragi Guðmundsson fæddist 15. ágúst 1975 í Reykjavík. Hann er stúdent frá Menntaskólanum við Sund og stundaði síðan nám í almennri bókmenntafræði og heimspeki við Háskóla Íslands en lauk ekki prófi. Fyrsta útgefna bók hans var ljóðabókin Svarthol sem kom út 1998. Síðan hefur hann sent frá sér fleiri ljóðabækur og skáldsögur, sú fyrsta var Turninn (2000) og fleiri hafa svo fylgt í kjölfarið. Hann er eitt þeirra skálda sem eiga bók í ritröðinni Norrænar bókmenntir sem Nýhil gaf út 2005 og 2006. Skáldsagan Konur (2008) hlaut mikið lof gagnrýnenda og kom hún út bæði hjá Nýhil og Máli og menningu (kiljuútgáfa). Hún hefur einnig verið útgefin á frönsku, sænsku, dönsku, pólsku og þýsku. Þá hefur skáldsagan Hálendið (2011) komið út í franskri og sænskri þýðingu.
Steinar Bragi hefur fengið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín. Hann hlaut Blóðdropann, íslensku glæpasagnaverðlaunin, fyrir Hið stórfenglega leyndarmál Heimsins (2007). Árið 2008 hlaut hann Menningarverðlaun DV og tilnefningu til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir skáldsöguna Konur og svo var hann tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir smásagnasafn sitt Allt fer árið 2016.
Forlag: Nýhil og Mál og menning / Forlagið.
Frá höfundi
Manifestó um upphaf nýs árþúsunds
I
Ein af þverstæðum Zenóns hljóðar, í stuttu máli, svona: ef helminguð er vegalengdin milli A og B verður B aldrei náð – helmingunin stefnir á óendanlegt – eilífðina og hver hefur tíma fyrir hana? Þetta bil milli A og B er í myndinni IQ – ástarsaga frænku Einsteins – yfirstigið með ástinni: Meg Ryan, fulltrúi hinnar vísindalegu nálgunar, nálgast Tim Robbins, snjalla bifvélavirkjan, skref fyrir skref vitnandi í ofangreinda þversögn; þegar Meg er komin þétt upp að Tim staðnæmist hún, það glampar á lifandi framvindu í augum þeirra, þau setja stút á varirnar sem mætast í kossi. Þetta er della.
Úti kveikir tunglið bleika sigð.
II
Veröldin stjórnast af líkum. Með þessu orði, „líkum“, er ég ekki að hnýta í auðmenn – miðaldra, hvíta karlmenn sem nota eiturlyf, hlutgera kvenmannslíkamann og dvelja í efstu lögum vestrænna samfélaga með „sálina“ dauða innra með sér – eða valdasjúk og undirförul handbendi þeirra – stjórnmálamenn vestrænna „lýðræðisríkja“ – nei, því ef „líkum“ er skilið sem „nár“ eða „hræ“ í stað þeirrar merkingar sem ég ætla að setja fram hér á eftir og felur í sér skilning sem liggur nær sviði tölfræðinnar, er ég að segja brandara.
Þótt það kunni að vera frekar banalt, nú í upphafi 21. aldar, að tala um hugmyndafræðilegar afleiðingar skammtakenningarinnar, er ég ekki viss um að það standist, ég segi:
Í heimi skammtafræðinnar er heimur hversdagslegrar skynjunar víðs fjarri. Allt sem gerist í heimi skammtastærða er undirorpið líkindum – tölfræði. Geislavirkt atóm, til dæmis, gæti hrörnað og gefið frá sér rafeind, eða, á hinn bóginn, ekki.
Þá komum við að eftirfarandi vandamáli: Gefum okkur að Einar Már Guðmundsson, rithöfundur, sitji við skrifborð inni í aflokuðu málm-hylki. Á aðra hönd er penni með geislavirku bleki en á hina er hvítur pappír. Hlutunum er þannig háttað að nákvæmlega helmingslíkur eru á að geislavirka blekið hrörni, sendi frá sér rafeind og valdi því að rafeindaskynjari í pappírnum sendi boð til króks uppi yfir pappírnum sem sleppir kápu og gerir Einari þarmeð kleift að gefa út bók um næstu jól.
Í heimi hins hversdagslega myndum við segja að það væru helmings líkur á að bókin yrði til og án þess að kíkja inn í hylkið gætum við sagt, glaðhlakkanlega, að annað hvort kæmi bókin út eða að hún kæmi ekki út. Samkvæmt skammta-kenningunni, hins vegar, er hvorugur möguleikinn raunverulegur fyrr en hann er séður: Einar er hvorki með ritstíflu né heldur er bókin innbundin og tilbúin til útgáfu fyrr en við höfum kíkt inn í hylkið og séð hvað gerðist.
Í myndinni IQ – ástarsögunni af frænku Einsteins – mótmælti Einstein þessum niðurstöðum skammtafræðinnar; hann sagði: „Guð kastar ekki teningum“. Nokkrum áratugum eftir að Einstein sagði þetta, það var sumarið 1982 – árið sem Meg Ryan lék í sinni fyrstu sjónvarpsauglýsingu – stóð Paul Dirac, franskur vísindasnillingur, fyrir tilraun sem staðfesti réttmæti skammtakenningarinnar. Ergo: Ekkert er raunverulegt nema það sem er séð.
Úti kastar tunglið bleikum teningum.
III
Í bók sinni „Hvernig á að ferðast með silung“, ég ímynda mér, einhverra hluta vegna, bleikju, vitnar Umberto Eco – í aðgangsorðum kaflans „Um ómöguleika þess að gera kort af konungsríkinu í hlutföllunum 1:1“ – í bókina Historia universal de la infamia „Etcetera“ eftir Jorge Luis Borges þar sem Borges vitnar í Viajesde Varonas Prudentes og bók hans Suárez Miranda, og í framhaldi afmarkar hann, Eco, það svið sem menn geta sagst hafa kortlagt með einhverri nákvæmni, eða réttara sagt, hann sýnir fram á mörk þeirrar veru sem verður með góðu móti raungerð: kort í hlutföllunum 1:1 sem lagt er yfir heiminn breytir með tilkomu sinni þeim sama heimi og því var ætlað að endurspegla og kallar þannig á annað kort til að draga upp mynd af sambandi þess við heiminn og þannig koll af kolli og er þannig undirorpið „þriðja manns rökum“ Aristótelesar, eins og Eco bendir á.
IV
Eins og lesandinn hefur eflaust tekið eftir hefur mér ekki ennþá tekist að vitna í Kundera – List skáldsögunnar er klassísk – en á móti kemur að Borges er hérna – talandi um að eiga erindi við heiminn, að liggja eitthvað á hjarta.
V
„ – Ekki tala um lýðræði við mig“, sagði kunningi minn, sem ég hitti á göngu minni við Ægisíðu, (ég var að tala um lýðræði),“ segðu frekar mammonskt fáveldi peningamanna imbunar skákandi í skjóli þingbundins fyllibyttulýðræðis, fulltrúar almennings eru ekki til í nútíma lýðræði, stjórnmálamenn eru bara strengjabrúður fasískra stórfyrirtækja þeirra sem eiga peninginn í nafni frelsisins og kjóstu með frjálsum vilja þínum það sem löngu er búið að ákveða fyrir þig, það skiptir ekki máli. Byltingin lifi! Upp með sterkan leiðtoga hinnar dásamlegu vinstri-húmanísku millistéttar. En þetta er auðvitað grín. Og, já, það var þetta með öryrkjann – er það ekki vegna þess að ég yrki svo hratt – og svo er það hin stóra hugmyndin: að SS – Sláturfélag Suðurlands, sem er pulsuframleiðsla, skiljiði – hafi eitthvað með nasista að gera! Þvílíkt – Svo hrærum við einum ólafi einum hallgrími einu tóri einu pósi í viðbót út í kokkteilboðið og bíðum bara spennt eftir öllum þessum tíðindum af Lyftingu glassins, Skvaldri hópsins, Stöngli tannanna, Laxi snittunnar, Kinki kollanna, Hellingu niðursins, Mjóum stönglum glasanna sem er framhald af stöngli tannanna sem svo aftur er sjálfstætt – að sjálfsögðu sjálfstætt framhald af áti snittunnar en hendum samt inn einu uppgjöri svona eða sonah undir lokin eða Höfundur hálfkáksins, tvístigsins og nákvæmlega ekki rassgatsins á neinu það er Gjör uppsins.
Hin bókmenntalega orðræða er dauð! Arkitektúr er framtíðin! Upp með hús!“
VI
Ef skoðuð er fjölgun manna á jörðinni og uppbygging samfélaga er ljóst að hagkvæmnin er grundvallarhugmynd – í byggingum, stjórnskipulagi, verslunarháttum, samgöngum og raunar öllu sem telst til vinnu – og af þessu leiðir, með árunum, samþjöppun valdsins í borgir sem verða heili samfélagsins en taugar þaðan og úteftir landinu til smærri bæja. Í kjölfarið á þessari hreyfingu til meiri samþjöppunar valdsins undir sjónarhorni hagkvæmninnar hefur tilhneigingin um leið verið til meiri fjarlægðar valdsins frá því sem það á að endurspegla – fjarlægð stjórnmálamanna frá kjósendum.
Því fleiri sem stjórnmálamanni er ætlað að endurspegla því fjarstæðukenndara og almennara verður val hans í embættið; því fleiri kjósendur sem ætlað er að sannfæra í kosningabaráttu því meiri peninga þarfnast frambjóðandinn. Fésterkum aðilum, fyrirtækjum eða einstaklingum, væri það ekki hagkvæmt að hafa greitt háar upphæðir í kosningasjóð frambjóðanda eða stjórnmálaflokks án þess að fá nokkuð í staðinn og til þess að þetta fyrirkomulag geti virst lýðræðislegt, eins og í andstöðu við óréttlátt, og fallið að vilja þeirra sem kusu þennan sama frambjóðanda verður að ganga út frá því að hagsmunir þessa stóra fyrirtækis fari saman við hagsmuni atkvæðanna.
Þetta er différance lýðræðis eins og það er í dag; hinn almenni kjósandi – meðallaun, millistétt – almenningur – kýs sér ákveðna framsetningu á frambjóðanda í kosningabaráttu – hann höfðar til mín, hann endurspeglar best mínar áherslur og hagsmuni. Frambjóðandinn er aftur almennt orðuð framsetning – sbr. „guð“, „ást“ og „þjóð“, límið í „fjölmenningarlegu samfélagi“ Bandaríkjanna – valdahópa með nákvæmari þarfir sem hugmyndalega byggjast svo aftur á grunni allra orðræðna, mótsögninni, en þangað sækir ofangreint différance réttlætingu sína – til hugmyndanna um einstaklinginn, frelsi og lýðræði.
Markmið allra, fyrirtækja og einstaklinga, er að bæta hag sinn; fyrirtækið, sem styður frambjóðanda gegn því að hann launi greiðann með skýrt afmarkaðri og mælanlegri uppfyllingu, stefnir á að auka með þessu móti hag sinn – að greiða á einhvern hátt fyrir því að skilyrði í rekstri fyrirtækis verði með því móti að fyrirtækið skili auknum hagnaði; „hagnaður“ þýðir að peningalegt gildi vörunnar – efnislegrar, s.s. sykur, tóbak eða kvikmyndir, til dæmis – sem fer frá þeim má aldrei vera meira en það sem fengið er fyrir hana, fyrirtækið hagnast en almenningur – eða neyslueiningarnar sem nýta sér vöruna – fær þá minna; mótsögnin felst svo í því að þessi hugmynd um hagnað eins umfram annan felur – undir sjónarhorni ríkjandi frjálshyggju – ekki á sama tíma í sér óréttlæti, heldur þvert á móti hagkvæmni – og í kjölfarið réttlæti – þar sem hagnaður eins umfram annan leiðir á endanum til þess að báðir hagnist meira og lýðræðið sigrar – þetta er með öðrum orðum, hagkvæmasta fyrirkomulag allra fyrirkomulaga og þess vegna er það ekki ólýðræðislegt að hinir fáu geti fyrir peninga sína haft beinni afskipti af valdi heldur en hinir féminni.
En burtséð frá því hvort slíkt getur staðist – að A græði meira en B, ergo: A og B græða meira – stendur eftir að því meiri peninga sem þú átt því nákvæmari getur stýring þín orðið á valdi.
VII
Á sama tíma og vald í lýðræðisríkjum Vesturlanda hefur gengið í gegnum ákveðna samþjöppun eða hagkvæmningu, hafa byggingarnar – þessar efnislegu skeljar valdsins – fjarlægst jörðina, jarðhæðina, og byggt á hagkvæmninni stöðugt ofar mót himni og fjarlægst þannig það sem grundvallar tilveru þess: „almenning“ eða „hið almenna“.
Því almennara sem útsýni einstaklings er innan stórborgarinnar – því meiri sem yfirsýn hans er – því almennari getur framsetning hans orðið og því sértækar getur hann skilgreint ramma hinnar ríkjandi orðræðu eða „anda tímanna“ – rammann um gluggann sem horft er út um, eða vatnið sem hinn almenni fiskur svamlar um í.
Þetta vald – og sú yfirsýn sem nærir valdið, um leið og hún er skilgreind af því – er raungert í háhýsinu, þessum kassalaga og speglandi minnisvarða hagkvæmninnar. Meðan hinn almenni borgari lifir og hrærist í sínum þrönga veruleika niðri við jörðina – án yfirsýnar gengur hann gljúfrin rýnandi í angist sinni uppávið til flugvéla og háhýsa – situr upphafið og næstum ójarðneskt valdið „af guðs náð“ bakvið speglandi gler sín, öruggt í þeim forrétindum sínum að sjá en verða ekki séð. Sú yfirsýn sem fylgir valdi þessarar guðlegu hagkvæmni hefur, hins vegar, andstöðu sína í óreiðukenndum straumi þeirra sem ganga göturnar niðrifyrir: lífið í „neðra“ einkennist af tregðu, skilningsleysi og brotum, einstaklingnum utan alls samhengis – hinu einstaka utan hins almenna.
Þetta svæði, þessi hæð, er í dag vettvangur trúmannsins, lista- og menntamannsins og vald þeirra er í ákveðnum skilningi glatað – þ.e. þeim er um megn að móta „anda tímanna“. Listamaðurinn getur að vísu, í eliotskum skilningi, orðið einskonar hvati sem leiðir saman, finnur samnefnara og tekst – í besta falli – að „birta“ anda tímanna með næmi sínu en þetta er passíf iðja – frumkvæðið, hin raunverulega sköpun heimsins liggur annarsstaðar. Og þá kemur opinberunin: listamaðurinn er í humátt-á-eftir, hlýðinn og auðmjúkur í leit að „samnefnaranum“ sínum; athafnamaðurinn, hins vegar, er sjáandi nútímans – hann er annar. Eftir að auðsöfnun borganna og íbúa þeirra tók stórt stökk með byltingunni, það er, iðnbyltingunni, færðist valdið frá konungi, aðli, kirkju og málpípum þeirra – prestum, mennta- og listamönnum – til hins sjálfsupphafna borgaralega athafnamanns með tilheyrandi áherslum hans á hagkvæmni, málpípurnar urðu fjölmiðlar og fjölmiðlamenn eða blaðamenn sem hvorki eru lista- eða menntamenn heldur sitt lítið af hvoru á hátt sem er almennari en hvor þessara stétta fyrir sig getur státað af, og dómkirkjurnar urðu að háhýsum.
Það er svo með hugtakinu athafnaskáld, sem allt þetta er fangað. Athafnaskáldið er ofurmenni samtímans; það spannar andstæður heimsins, nær utan um allt það sem strangt tiltekið er talið ósamrýmanlegt og mótsagnakennt en er það, almennt séð – þ.e. í almennri framsetningu – ekki: frá hinu einstaka í gljúfrum stórborganna hefur það sig til hins almenna á efstu hæð háhýsanna hvaðan það stýrir hinni almennu framsetningu á því sem hinni sértækt-þjökuðu jarðhæð „vantar“ – í afþreyingu heillegri draumar með rúnnaðri, til dæmis, „ást“ með upphafi, miðju, endi og í stjórnmálum uppfylltar væntingar um betri framtíð í framsetningu flokks eða persónu stjórnmálamanns. Þannig stýrir athafnaskáldið, hið andlegasta af mönnum, almennri vöntun í átt að því einstaka og viðheldur þannig þörfinni (í spennu hins ósamrýmanlega) fyrir viðvarandi svölun á þann hátt sem hentar athafnaskáldinu sértækt, afmarkað og mælanlega; þannig er lausnin um leið uppruni vandans og þetta, eins mótsagnakennt og það er, gengur af sömu ástæðum upp og gæti aldrei orðið öðruvísi af þeirri einföldu ástæðu að „andinn“ í „anda tímanna“ er mótsögnin sjálf – mismunandi hugtekin á mismunandi tímum – og þeir sem gangast henni á hönd, frjálsir undan takmörkunum hugmyndafræðilegrar afstöðu, þ.e. takmörkun, og íheldni, verða miklir og skínandi, eins og þrútnar, gular sólir, vúmbed af merkingu.
VIII
Þegar fjallað er um bókmenntir og þess háttar, hvort sem er á almennum eða nánar skilgreindum fræðilegum vettvangi, vill stundum brenna við að umfjallandinn taki stórt upp í sig, setji fram fullyrðingar sem af frekju sinni þykjast víðtækar og spanna, ef ekki „Bókmenntir“ eins og þær leggja sig, þá „Skáldsöguna“, „Ljóðið“ eða „Veruleikann“ en ná aldrei að hefja sig upp yfir að vera einhvers konar bókmenntalegt manifestó um persónulega krankleika viðkomandi. Þetta er nokkuð sem ég ætla að forðast; ég hef ákveðið að takmarka mig við eftirfarandi staðhæfingu:
að afmarka sjónarhorn þriðju persónu frásagnar í texta – að henda t.d. reiður á togstreitunni milli „persónu“, „sögumanns“, „höfundar“ og svo, í framhaldi, umfjöllun Blanchot um þetta sama, sbr. hina ópersónulegu þriðju persónu – og gæða það ákveðnum eiginleikum, eða miðju, lýtur sömu lögmálum og sams konar frestun áfangastaðar og helmingunarþverstæða Zenóns, vandamál Einars með útgáfu eða ekki-útgáfu, stöðug frestun altækrar raungervingar veru – merkingar – eins og þetta er myndgert í „korti“ Ecos, Borges og Prudentes – og ef „texti“ er skilinn eftir-nútímalegum skilningi sem „allt sem er“, þ.e. mismunafrestun, og Formið, viðfang hinnar Aristótelísku gagnrýni, er hvorttveggja skilið platónskum og örlítið en ekki mikið víðari bókmenntalegum skilningi, tel ég mögulegt, þó ekki röklega óhjákvæmilegt, til hægðarauka fyrir bókmenntaáhugafólk – lesendur hins nýja árþúsunds – að spyrða „manninn“ í „þriðja manns rökunum“ saman við „persónu“ „textans“ hér að ofan og þriðja manns rökin verða: „þriðju persónu rökin“ – jafnvel „fyrstu, annarrar og þriðju persónu rökin“ – glæný hugmynd – og samþykkt sem nægjanleg forsenda fyrir tilurð bókmenntalegs manifestós um stöðu bókmennta á nýju árþúsundi – upp að því marki sem þetta verður lesið.
Steinar Bragi, 2003
Um höfund
Öskrað inn í eilífðina: Um skáldskap Steinars Braga
1
Í fyrstu ljóðabók sinni, Svartholi, gagnrýnir Steinar Bragi oft fjölmiðlamenningu og þá skrumskældu mynd sem hún gefur okkur af lífinu. Seint verður sagt að um ádeiluljóð sé að ræða, að minnsta kosti ekki í hefðbundnum skilningi. Hinsvegar má segja að svartsýni ríki í garð samtímans sem endurspeglast til dæmis í heimsendahugmyndum sem fjallað verður um hér síðar. Svarthol sker sig að vísu nokkuð frá hinum tveimur ljóðabókum Steinars Braga. Hún er mun léttari, og greina má áhrif frá höfundum á borð við Einar Má Guðmundsson og Andra Snæ Magnason. Þannig má greina ákveðna glettni, þar sem ljóð sem virðast hefðbundin snúa á sig með óvæntum lokahnykk:
tvær manneskjur
með dreymin augu
hönd í hönd
á sjávarhömrum
Andspænis blásilfruðu ólgandi hafi
Hugsandi um fótanuddtæki(„Hlekkir“ úr ljóðabókinni Svarthol (1998))
Seinni ljóðabækurnar tvær, Augnkúluvökvi og Ljúgðu Gosi, ljúgðu eru allt annars eðlis. Þar hefur höfundurinn þróað með sér ákveðinn stíl, þar sem hrynjandi er í mótsögn við línuskiptingu og greinamerki eru ekki til staðar til að skipta textanum niður í setningar. Þessi kaótíska formnálgun endurspeglar umfjöllunarefnin sem eru til dæmis niðurbrot og hrörnun líkamans, upplausn tíma og árstíða, merkingarleysi tungumálsins, hugmyndir um kynlíf, trú, myrkur og dauða. Hér á sér stað sundrung rammans í fleiri en einum skilningi. Þétt myndmálið myndar mikla hreyfingu í ljóðunum sem er alltaf við það að sprengja formið utan af sér. Margar af þeim hugmyndum sem fram koma í ljóðum Steinars Braga endurspeglast í skáldsögum hans.
2
stundum á daginn svitna ég eins og í bjartsýniskasti
þegar sólin skín inn um gluggann og á kvöldin
þegar kólnar þéttist raki á veggjunum sem gljá þegar
sólin rís yfir fjallið upp úr miðnætti það er sumar
og nætur í reykjavík íslandi eru bjartar
og hljóðar það gljáir og vakir eins og dinglað í streng
í gluggunum um nætur horfandi stjarft
í grenjandi birtu á fólkið í hinum gluggunum í
herberginu við hliðina hengdi sig maður í gardínu ég
heyrði þegar small í hálsinum eða
stöng hrundi yfir andvaka mann í limbói(„limbóið“ úr Ljúgðu Gosi, ljúgðu (2001))
Árið 2000 kom Turninn, fyrsta skáldsaga Steinars Braga út en það má segja að sú skáldsaga hafi átt vel við á því herrans aldamótaári, þar sem sagt er frá falli og upprisu heimsins og þróun mannkyns á forsendum goðsögunnar. Turninn sker sig að mestu leyti frá öðrum verkum Steinars Braga, þar sem hann notar allt annan frásagnarmáta og stíl en í öðrum verkum sínum og efnistökin eru að sumu leyti frábrugðin. Turninn á það þó sameiginlegt með öðrum verkum hans að hugmyndin um endalok heimsins liggur því til grundvallar .
Sagan hefst í raun fyrir upphaf heimsins, á einhverjum óræðum tíma, áður en þróunarsagan hefst. Í þessum heimi byrjar lítill turn að vaxa í miðjum frumskóginum sem þekur jörðina. Himininn springur og heimurinn brennur til grunna – nema turnspíran sem heldur áfram að vaxa í lítilli laut fyrir tilstuðlan tára síðustu skjaldbökunnar. Í turnhúsinu eru lítil stúlka og lítill drengur. Turninn vex og vex og börnin sjá heiminn fyrir utan breytast og þróast. Með því að búa til tungumál sem túlkar þennan heim gera þau hann að sínum þó að þau komist ekki í snertingu við hann með áþreifanlegum hætti. Þau verða meðvituð um hreyfingu sína í gegnum heiminn og söguna, þessa meðvitund kalla þau guð. Því ofar sem turninn fer, því meiri fjarlægð myndast og því víðara verður sjónarhorn þeirra. Þannig eykst orðaforði þeirra en við það glata draumarnir töfrum sínum, orðin gleypa draumana.
Fyrir utan turninn þróast mannkynið og stórborgir verða til í kringum hann. Turninn hefur nú teygt sig svo langt upp að hann er orðinn ósýnilegur, nema manninum sem íhugar að nálgast guðdóminn með sjálfsmorði. Þannig hefur hugmyndin um guðdóminn fjarlægst mannkynið, heimur guðdómsins er annar heimur og leiðin milli þessara tveggja heima felst að einhverju leyti í sjálfsmorðinu. Til að komast milli tveggja heima þarf maðurinn að taka meðvitað stökk út í tómið.
Við lok sögunnar verður annað rof, himininn gliðnar í sundur og allt líf eyðist, nema auðvitað turninn, sem leggur eins og áður grunn að nýjum heimi. Í nýjustu skáldsögu Steinars Braga, Sólskinsfólkinu er einnig fjallað um skil tveggja heima, að einhverju leyti á forsendum sjálfsmorðsins, eins og í Turninum en á allt annan hátt. Þar má segja að aðalpersónurnar reyni á möguleika sjálfsmorðsins til að komast úr einum skáldskaparheimi í annan.
Í Sólskinsfólkinu segir frá Ara, sem er nýkominn til Íslands eftir að dvalið erlendis um árabil. Í raun er Ari útlendingur á Íslandi, margt hefur breyst og honum gengur ekki vel að aðlagast nýjum aðstæðum. Hann kennir heimspeki við Háskóla Íslands og kynnist þar nokkuð einum nemanda sínum, en þar með eru í raun upp talin samskipti hans við annað fólk þar til hann kynnist Heiðu, en það er önnur saga sem gerist í öðrum heimi. Heiða vinnur í grímubúningaleigu, hún er einhverskonar eilífðarstúdent og stundar djammið grimmt. Eiginmaður hennar, sem hún hafði að vísu sagt skilið við, liggur í dái á spítala, og telur hún það ástand vera á einhvern hátt sér að kenna. Ari og Heiða hittast svo eftir að þau hafa sitt í hvoru lagi sagt skilið við heiminn í einhverjum skilningi. Þegar þau hittast eru þau ein í heiminum eins og Palli í barnabókinni góðkunnu, ein í ankannalegri Reykjavík þar sem undarlegir hlutir taka að gerast og fantasían tekur völdin í frásögninni.
Lesandinn fær ekki að vita nákvæmlega hvernig þessi tilfærsla milli heima á sér stað en það má túlka sem svo að Ari og Heiða hafi bæði framið einhverskonar sjálfsmorð. Á ákveðnum tímapunkti keyrir Ari að Rauðhólum og lesandinn skilur við hann þar: „Hann pírði augun og gekk á milli hólanna, sólin var sterk og sandurinn í kringum hann ljómaði og var skærrauður og Ari fann hvernig rauðleikinn umlukti hann“ (bls. 102). Fyrr í bókinni kemur fram að Ari hefur lesið í blaði að Rauðhólar séu algengur staður fyrir sjálfsmorð. Næst þegar lesandinn hittir Ara fyrir er hann staddur í öðrum heimi. Hann er að vísu staddur í Reykjavík en þar er enginn, borgin er mannlaus. Hann er einn í heiminum þar til hann hittir Heiðu. Heiða hafði uppgötvað að ruslaopið í húsinu hennar virðist ekki hafa neinn merkjanlegan endapunkt. Í leit að merkingu ákveður hún að stinga sér niður um opið og út í óvissuna. Hún endar í hinni tómu Reykjavík án þess að muna nákvæmlega hvernig hún komst þangað. Þessi hliðarheimur er ekki bara tómur, það er líka eitthvað að gerast, hann er að rotna: „Þau...horfðu yfir sjóinn sem var þykk, dökkgræn leðja full af einhverskonar drasli og lyktin var rotnunar- og skítalykt“ (bls. 155). Lyktin er kæfandi og sjórinn er morandi af rottum. Undarlegar sjávarverur stíga á land úr rotnandi hafinu og þurfa Ari og Heiða að verjast þeim. Svipaða hugmynd má finna í ljóðinu „Þangmenn“ úr ljóðabókinni Ljúgðu Gosi, ljúgðu (2001): „ snjólaus vetur nótt og hvítan öll undir lokunum og myrkrið/gapir eins og illgjarn fáviti yfir því sem lifir og plokkar/svo af því lappirnar og hendurnar það klemmir sig í svefn og/þykist sofa meðan þangmenn síga í köðlum niður úr/ stjörnunum og bylgjast við strendurnar þegar birtir/skolar þeim fyrstu á land“ (brot úr ljóði). Nýjum heimi fylgir óbærilegt skilningsleysi. Endir bókarinnar er óræður en erfitt er að lesa hann öðruvísi en að þau kjósi bæði að yfirgefa heiminn að nýju, enda lítur út fyrir að heimsendir sé í nánd. Hér springur himininn ekki eins og í Turninum, þessi heimur verður rotnun að bráð.
Í skáldsögunni Áhyggjudúkkur frá árinu 2002 má einnig greina heimsendastemningu, sem er jafnframt með martraðarkenndu móti en birtist þó á allt annan hátt. Áhyggjudúkkur gerist, eins og Sólskinsfólkið, í Reykjavík og er borgin einnig í aðalhlutverki í þessari skáldsögu. Sjónarhornið er þó mun þrengra en sagan gerist í bókaverslun Máls og menningar við Laugaveg og í húsunum þar í kring. Í bókinni er fylgst með mörgum persónum, sem flestar tengjast á tilviljanakenndan hátt á einu óveðurskvöldi stuttu fyrir jól. Lesandinn flakkar á milli hugsana fólksins, sest að í höfði hvers og eins í skamman tíma, myndin af persónunni framkallast þannig innan frá. Sumar persónurnar byggja á raunverulegum fyrirmyndum, bæði nafngreindum og ónafngreindum. Yfir þessu kunnuglega sögusviði hvílir einhver illskilgreinanlegur óhugnaður sem magnast upp í stormi sem hefur áhrif á afdrif persónanna. Sögusviðið fyllist smám saman af hröfnum sem bera með sér feigð:
Á þakinu var svört fuglabreiða sem teygði sig eftir endilöngu þakinu.
Fuglarnir stóðu hreyfingarlausir, horfðu tómlega fram fyrir sig eins og þeir væru að bíða eftir einhverju og þegar flauturnar í lyftustokknum ofan við höfuðið á Evu byrjuðu að væla opnuðust holur inn í höfuðið á henni, fuglarnir lyftu sér til flugs og byrjuðu að hnita hringi, stöðugt víðari hringi eins og þykknandi ský yfir þaki byggingarinnar og ofan af öllum hæstu stöðum borgarinnar vældu sírenurnar út yfir borgina og skömmu síðar varð allt svart (bls. 225).
Svona enda Áhyggjudúkkur. Eva er ungur blaðamaður sem hefur eitt kvöldinu með hótelstarfsmanninum Níelsi sem bankar hjá henni fyrr um kvöldið á þeim fölsku forsendum að hann þurfi að lesa af rafmagnsmælinum hennar. Þau heyra undarlega dynki og sjá að það eru hrafnar í stigaganginum, sumir dauðir, sumir særðir og sumir lifandi. Þau fikra sig upp eftir stiganum, en í ljós kemur að Eva hefur aldrei farið á efri hæðir hússins, og á leiðinni finna þau nágranna Evu örendan. Dyrnar út á þakið eru opnar og Eva stígur út.
Áhugavert er að bera þessi endalok saman við það síðasta sem sagt er um Heiðu í Sólskinsfólkinu, en hún er stödd í Hallgrímskirkjuturni:
Himininn fyrir ofan hana var blár. Hún stakk höfðinu út úr turnhúsinu og horfði upp í himininn og svo fór að dimma. Borgin varð dimm og hvarf og í kirkjunni fyrir neðan hana varð dimmt. Stjörnurnar birtust og lýstu upp himininn. Hún leitaði að stjörnunni sem hann gaf henni og bar nafnið hennar en fann hana ekki (bls. 185).
Hér er aftur komið minnið um stökkið inn í eilífðina sem Steinar Bragi notar mikið.
Í báðum tilvikum hverfur borgin í myrkur eilífðarinnar, lagskiptrar eilífðar með ótal birtingarmyndir. Tilveran er margskipt og hver heimur endurspeglar annan.
3
Blekkingarmöguleikar skáldskaparins eru ofarlega á baugi í skáldskap Steinars Braga. Sólskinsfólkið hefst á öskri. Öskri sem sker sig í gegnum óræðan og ókennilegan veruleika bókarinnar. Öskri sem ryðst í gegnum lagskiptingu heimsins og rýfur blekkingu skáldskaparins. Eins og fram hefur komið skiptist Sólskinsfólkið í tvo hluta, fyrri hlutinn byggist á einhverri hugmynd um reykvískan raunveruleika en seinni hlutinn er fantasía. Í fyrri hluta bókarinnar verður borgin bæði áþreifanleg og ankannaleg, bæði kunnugleg og framandi. Þessi hugsun minnir nokkuð á skáldsögur Braga Ólafssonar, en hann fetar einmitt oft þetta þverhnípi milli kunnugleika og framandleika. Þessa hugmynd má líka finna í Áhyggjudúkkum en sá heimur sem birtist þar er afmarkaður og auðþekkjanlegur en jafnframt ný birtingarmynd af þeirri Reykjavík sem við þekkjum, nokkurskonar hliðarheimur. Bókaverslun Máls og menningar við Laugaveg er svo sannarlega mikið völundarhús sem leynir á sér og í þessari sögu virðist hún vera skel utan um einhverskonar handanveruleika sem beinlínis glittir í handan við bókahillurnar. Ein sögupersónan kemst að því að bak við bókahillurnar er óskilgreint, upplýst tómarúm sem á sér enga skýringu í veruleika verksins. Þannig verður bókaverslun Máls og menningar og umhverfi hennar tilbúin leikmynd fyrir sviðsetningu höfundar á úrkynjuðu og úrsérgengnu lífinu í borginni og það er ljóst að sýningunni er um það bil að ljúka.
Í Áhyggjudúkkum glittir í annan heim, en eins og fram hefur komið er skrefið stigið til fulls í Sólskinsfólkinu. Þar tekur fantasían völdin, heimurinn er mannlaus og tómið og rotnunin yfirtaka borgina og söguna smám saman. Heimurinn er í stöðugri upplausn, hugmyndin um rökrétta framvindu er sífellt brotin niður af tómleika, eyðum og fjarverum, þetta er heimurs skugga án hluta (um slíka greiningu á fantasíum, sjá t.d. Fantasy: The Art of Subversion eftir Rosemary Jackson). Glíman við formið endurspeglast í þessum átökum milli ólíkra heima. Þessi glíma er eitt af því sem einkennir skáldskap Steinars Braga og sá grunur læðist að manni að þeirri glímu hans sé hvergi nærri lokið.
© Þorgerður E. Sigurðardóttir, 2004.
Greinar
Almenn umfjöllun
Auður Aðalsteinsdóttir: „Góðir lesendur dáleiðast sem hænur“ (viðtal)
Spássían, 3. árg., 1. tbl. 2012, s. 19-25.
Kristján B. Jónasson: „Allt sem ég sé. Um samtímaljóðlist“
Tímarit Máls og menningar, 64. árg., 3-4 tbl. 2003, s. 38-41
Um einstök verk
Hálendið
Davíð Kjartan Gestsson: „Sumu tekur maður bara eftir í myrkrinu“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Kormákur Bragason: „Bókmenntaspjall: Kormákur Bragason fjallar um bækur“ (ritdómar)
Stína 2011, 6. árg., 3. tbl. bls. 124-9.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Hryllilegar hremmingar á hálendinu“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2012, 73. árg., 4. tbl. bls. 112-7.
Hið stórfenglega leyndarmál Heimsins
Kári Páll Óskarsson: „Heimur án samlíðunar“
Tímarit Máls og menningar, 68. árg., 3. tbl. 2007, s. 108-112
Þorgerður E. Sigurðardóttir: „Steinar Bragi: Hið stórfenglega leyndarmál Heimsins“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Himinninn yfir Þingvöllum
Björn Unnar Valsson: „Himinninn yfir Þingvöllum“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Björn Þór Vilhjálmsson: „Skrif við núllpunkt: um steingervinga, sæborgir og endalok í Himninum yfir Þingvöllum“
Ritið 2011, 11. árg., 1. tbl. bls. 137-57.
Kata
Björn Unnar Valsson: „Í stuttu máli“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Hildur Lillendahl Viggósdóttir: „Akta! - Kata! - Hata!“ (ritdómur)
Ritið, 14. árg. 3. tbl. 2014
Kormákur Bragason (skáldanafn): „Bókmenntaspjall“ (ritdómur)
Stína, 10. árg., 1. tbl. 2015, s. 137-139
Konur
Dagný Kristjánsdóttir: „Listin að pína konur“
Tímarit Máls og menningar 2009, 70. árg., 4. tbl. bls. 109-113.
Kormákur Bragason: „Bókmenntaspjall“
Stína 2009, 4. árg., 1. tbl. bls. 85-98.
Soffía Auður Birgisdóttir: „Kynferðislegt ofbeldi: krabbamein á þjóðarlíkama“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 76. árg., 4. tbl. 2015, s. 132-136
Úlfhildur Dagsdóttir: „Speglandi“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Viðar Þorsteinsson: „Fjármálavæðing og mótun tímans í Konum“
Ritið, 15. árg., 3. tbl. 2015
Litli kall strikes again
Úlfhildur Dagsdóttir: „Norrænar bókmenntir“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Reimleikar í Reykjavík
Vera Knútsdóttir: „Reimleikar í Reykjavík: menningarlegt rými og borgarrými“
Ritið, 16. árg., 3. tbl. 2016, s. 99-119
Sólskinsfólkið
Haukur Már Helgason: „Að hitta gatið á höfuðið“
Tímarit Máls og menningar, 66. árg., 4. tbl. 2005
Úlfhildur Dagsdóttir: „Skin og skúrir“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Útgönguleiðir
Úlfhildur Dagsdóttir: „Amen“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Greinar um verk Steinars Braga og viðtöl við hann hafa einnig birst í dagblöðum, sjá t.d. greinasafn Morgunblaðsins
Verðlaun
2014 - Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Kata
2008 - Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Konur
2007 - Blóðdropinn, íslensku glæpasagnaverðlaunin: Hið stórfenglega leyndarmál Heimsins
Tilnefningar
2016 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Allt fer
Dáin heimsveldi
Lesa meiraÍ þessari skáldsögu fer höfundur með lesendur til upphafs 22. aldar þegar ríkasti hluti mannkyns hefur flúið óbyggilega Jörð og komið sér fyrir í geimnum.Truflunin
Lesa meiraΠαγωμένη Γη
Lesa meiraKata
Lesa meiraAllt fer
Lesa meiraHochland
Lesa meiraPles u tami
Lesa meiraEl silencio de las tierras altas
Lesa meiraØdemarken
Lesa meira