Um bókina
Þórarinn Eldjárn er þjóðkunnur fyrir smásögur sínar. Hann er fundvís á forvitnileg sjónarhorn og fjallar af næmi og glöggskyggni um fólk og furður fyrr og nú. Sagnabrunnur hans er ætíð gjöfull og húmorinn aldrei langt undan.
Umfjöllun geymir átta sögur úr smiðju Þórarins Eldjárns. Sögurnar eru úr fortíð og samtíð, stuttar og langar, sögupersónur eru eftirminnilegar og umfjöllunarefnin fjölbreytt: Sagt er frá starfi eftirlaunaþega á þjóðháttasafni, afdrifaríkri sjóferð á átjándu öld, bobbspili og bílaþvotti, sjálftölurum og sviðstúlkun, Þórði malakoff og Ágústi Strindberg – og ljóstrað upp um eitt og annað sem legið hefur í þagnargildi.
Úr bókinni
Máttur skáldskaparins
Ég hafði rennt við hjá gömlum skólabróður og vini til að fá lánaða bók. Hann bauð mér kaffi. Eftir að hafa hellt í bollana bar hann fram hnetur og súkkulaðirúsínur í snoturri, nokkuð sérkennilegri, alldjúpri skál sem stóð á þremur kúlulaga silfurfótum. Ég virti hana fyrir mér, fannst hönnunin athyglisverð en við nánari skoðun var augljóst að sjálf skálin var höfuðskel úr manni.
- Merkileg skál, sagði ég, hvar komstu yfir þetta?
- Erfðagripur, svaraði vinur minn, og áreiðanlega enn merkilegri en þig grunar.
- Nú, kannski höfuðbein úr einhverjum forföður þínum?
- Ja, reyndar miklu merkilegri en svo.
Það fannst mér ótrúlegt að heyra því vinur minn er stórættaður og veit fátt merkilegra en forfeður sína.
- Hvernig má það vera? spurði ég.
- Ég skal segja þér það að þetta er nú bara hreinlega höfuðskel sjálfs Þórðar malakoffs.
(s. 103-104)