Beint í efni

Útsýni

Útsýni
Höfundur
Guðrún Eva Mínervudóttir
Útgefandi
Bjartur-Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Sigurlilja er ung kona „sem passar ekki inn í normið“, eins og móðir hennar segir, og gædd óvenjulegri gáfu sem einfaldar ekki líf hennar. Þegar Teresa frænka hennar á Bakkafirði deyr kemur í hennar hlut að fara þangað norður og ganga frá dánarbúinu. Þá kemur í ljós að allir hafa eitthvað að fela – og sýna.

Útsýni er saga um margvíslegt fólk sem hvert um sig glímir við tilvist sína.

Úr bókinni

   Áttu heima hérna nálægt? spurði hann.
   Já, sagði ég og benti. Tennurnar glömruðu uppi í mér en að öðru leyti var ég eins og ég átti að mér að vera, hélt ég. Ég hlýt að hafa gengið í svefni; kærastinn minn er sofandi, bætti ég við til að létta andrúmsloftið og losa hann undan þeirri kvöð að bera ábyrgð á himnalengju með ljósbláa fætur í stíl við náttbuxurnar sem náðu ekki nema niður á miðja kálfa. Það var engin lygi að kærastinn minn var líklega sofandi, en ekki heima hjá mér heldur í unglingasvítunni sinni í kjallara einbýlishúss foreldra hans í Breiðholti. Þar bjó hann á virkum dögum, en hjá mér um helgar.
   Má ég fylgja þér heim að dyrum? spurði hann.
   Ef þú vilt, glamraði ég og gekk af stað. Fætur mínir voru svo fullkomlega dofnir að það var eins og þeir tilheyrðu mér ekki. Þegar ég steig til jarðar fann ég að undir mér var fyrirstaða, að ég sökk ekki í jörðina heldur bar hún mig uppi, en ég fann enga áferð undir iljunum og ekki einu sinni kulda. Samt skalf ég og hristist innan í dúnúlpunni.
   Maðurinn leit nokkrum sinnum ringlaður upp á mig en ég hafði ekkert að segja sem gæti látið honum líða betur. Ég var of upptekin við að skjálfa. Og ganga án þess að misstíga mig á þessum tilfinningalausu staurfótum. Mig langaði að biðja hann afsökunar en ég var einmitt í miðju átaki sem gekk út á að vera ekki sífellt að biðjast afsökunar.
   Devananda vill meina að vissar manngerðir biðjist gjarnan afsökunar þegar það sem þær raunverulega meina er: Þakka þér fyrir. Fyrir utan nú að það er betra að segja það sem maður raunverulega meinar, þá hefur orðasambandið "þakka þér fyrir" mun hærri tíðni en "afsakið" eða "fyrirgefðu", segir Devananda.
   Þakka þér fyrir, sagði ég við manninn sem gekk þegjandi við hlið mér og hvert orð hjó sér leið út um munninn á mér með raunverulegum herkjum. Kulda-munnherkjum sem ég hafði aldrei upplifað fyrr.
   Verður örugglega í lagi með þig? spurði hann. Ætlarðu ekki að vekja kærastann þinn og biðja hann að hjálpa þér?
   Og þá fann ég það í fyrsta sinn. Breytinguna sem ég vissi ekki enn að væri varanleg. Ég snarstoppaði vegna þess að ég gat ekki annað og starblíndi í augun á þessum ókunnuga, slompaða manni í sparifrakka.
   Hvað? sagði hann.
   Andlit hans var í móðu vegna þess að augun í mér voru full af tárum, en ég sá samt að munnurinn var hálfopinn umlukinn vel snyrtu skegginu. Hann var með öðrum orðum gapandi yfir því hvað ég var skrítin, en mér var næstum sama. Ég hristi höfuðið vegna þess að ég átti erfitt með að koma orðum að því hugarástandi sem átti síðan eftir að einkenna líf mitt.
   Næstu dagar leiddu betur í ljós breytinguna. Vitneskjan um að ég yrði ekki langlíf hafði tekið sér bólfestu. Og hún skerpti skilningarvitin, eins og ég væri alltaf á veiðum. En hlutskipti annars fólks var orðið mín eina nautn og mitt eina áhugamál. Ég varð svindlari sem upplifði án þess að greiða áföllin og fórnirnar fullu verði. Ég varð vefari sem tekur lifandi þræði og gerir úr þeim mynstur. Ég varð samfélag stolinna sálna, eða eitthvað slíkt. Ég var ekki lengur bara ég og ég saknaði þess ekkert.
   En ég get ekki miðlað því sem enginn mun trúa. Ég sit ein uppi með allt þetta fólk - andsetin af kakófóníunni. Eins og þau eru kannski andsetin af mér á meðan ég er í þeim. Hvort sem nærvera mín þjónar einhverjum tilgangi eða ekki. Það gildir einu. Þetta er það sem ég geri. Þetta er það sem ég er.

(s. 35-37)

Fleira eftir sama höfund

Allt með kossi vekur

Lesa meira

Rencontres

Lesa meira

Les pieds de la libraire

Lesa meira

Il circo dell arte e del dolore

Lesa meira

The Creator

Lesa meira

Essay on Happiness (brot)

Lesa meira

Skaparinn

Lesa meira

Haraldur gastrósóf og Margrét

Lesa meira