Beint í efni

Við viljum jólin í júlí

Við viljum jólin í júlí
Höfundur
Yrsa Sigurðardóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1999
Flokkur
Barnabækur

Úr Við viljum jólin í júlí:

Í greininni stendur að vúdú-galdrar séu frá Haítí.  Þeir urðu til þegar þrælar á eyjunni blönduðu saman kristinni trú og galdratrú sem þeir fluttu með sér frá Afiríku.  Þetta er nú bara nokkuð merkilegt sé ég þegar ég les áfram.  Vúdú-galdramenn geta gert ýmislegt nytsamlegt ef eitthvað er að marka þessa grein.  Til að komast í vísindatímarit hlýtur þetta að þurfa að vera rétt.  Þetta getur allavega ekki verið algert bull hugsa ég með mér.
Ég les hratt yfir sögu galdranna en það sem vekur mestan áhuga minn er uppskrift sem fylgir með greininni og er birt í sér ramma neðst á opnunni.  Uppskriftina á að nota vilji maður gera einhvern ástfanginn.  Maður á að safna nokkrum hlutum sem taldir eru upp, mylja þá og búa til áburð sem er svo borinn á þann sem maður elskar.  Fyrsta andlit sem ber fyrir augu þess sem kremið er sett á er andlit þess sem hann mun elska brennheitt að eilífu.  Þetta er nú eitthvað fyrir mig.  Ef mér tækist að  búa til þetta krem gæti ég loksins gert Dúdda ástfanginn af mér.
Ég er búin að vera hrifin af Dúdda síðan að ég sá hann fyrst í sex ára bekk.  Við vorum þá nýflutt í hverfið og ég þekkti engan á þessum fyrsta skóladegi mínum nema Teit sem þóttist ekki þekkja mig.  Þegar fyrsti tíminn byrjaði settist ég við eitt af tveggja manna borðunum sem fylltu stofuna og vonaði að einhver settist við hliðina á mér.  Helst hefði ég viljað að það væri einhver skemmtileg stelpa en þegar allir nema ég höfðu fengið sessunaut var ég farin að draga úr kröfunum.  Það mátti alveg vera leiðinleg stelpa eða einhver strákur, jafnvel kennarinn sjálfur, bara að ég þyrfti ekki að sitja ein.  En enginn settist hjá mér.
Ég var mjög döpur þegar kennslan byrjaði og það leit ekki vel út með nýja bekkinn minn.  Þá var bankað á hurðina og Dúddi gekk inn ásamt mömmu sinni.  Mamma hans afsakaði hvað Dúddi væri seinn og kvaddi meðan Dúddi stóð og skimaði eftir sæti.  Eina lausa sætið var þetta við hliðina á mér.  Dúddi setti upp ólundarsvip og hunskaðist í sætið eins og kennarinn sagði honum að gera.
Allan fyrsta tímann gat ég ekki hætt að gjóa augunum á Dúdda.  Hann var ljóshærður og sólbrúnn og ef hann hefði ekki verið hálftannlaus eins og raunar við öll hin í bekknum hefði hann verið eins og engill.  Ég varð yfir mig ástfangin af honum og eftir þetta hef ég ekki efast um ást við fyrstu sín.
Í frímínútunum bauð ég Dúdda svo að finna lyktina af strokleðrinu mínu í von um að hann vildi vera vinur minn.  Toppurinn á okkar kynnum í öll þessi sjö ár var augnablikið þegar ég rétti honum ilmandi strokleðrið, augnablikið rétt áður en hann afþakkaði og hljóp til vina sinna.  Einhvern tímann í þessum frímínútum hef ég sennilega brotið spegilinn því þegar kennslan hófst aftur sat einhver allt annar strákur í sætinu hans Dúdda, við hliðina á mér.  Ég komst að því síðar að Dúddi borgaði þeim strák fimmtíukall til að skipta við sig um sæti.  Sá boraði í sífellu í nefið og flutti sem betur fer úr hverfinu áður en skólaárið var á enda.

(s. 19-20)
______________

Fleira eftir sama höfund

Brakið

Lesa meira

Ég man þig

Lesa meira

Ultimes rituels

Lesa meira

Brakið

Lesa meira

Ég man þig

Lesa meira

Þar lágu Danir í því

Lesa meira

Kolmas Märk

Lesa meira

Cinza e Poeira

Lesa meira