Steinunn Sigurðardóttir segir í nýútkomnu verki, Skálds saga: 74 kaflar úr höfundarlífinu, að skáldsaga hennar, Síðasta orðið, hafi einkennst af útúrdúrum „en um þá hlið skáldsögunnar er ég áhugamanneskja. Nema það sé svo ekki nein hlið – nema skáldsagan sé einn útúrdúr, sem slík! Útúrdúr útúr útúrdúr?“ (90) Þetta er heillandi sýn á skáldsöguna, en saga Braga Ólafssonar, Innanríkið: Alexíus, sýnir að þetta má einnig heimfæra upp á sjálfsævisöguna (hann er þó alls ekki viss um að hann sé að skrifa sjálfsævisögu), því þar fæðir hver útúrdúrinn af sér annan og þannig koll af kolli þar til erfitt reynist að finna leiðina heim. Í Móðurást: Draumþing annarri bók Kristínar Ómarsdóttur sem hún skrifar í orðastað langömmu sinnar, Oddnýjar Þorleifsdóttur, gerir sögukonan athugasemd við textann: „Yngri og nýrri aldir krefjast færri útúrdúra en gamli tíminn; útúrdúrar hægja á atburðarás“ (25). Hún ætlar þó að leyfa sér þann munað, enda er hún 19. aldar manneskja og hefur tíma til að beygja aðeins af leið. Ef nútíminn krefst því frekar að koma sér hratt og örugglega að efninu, þá hlýðir Bragi því ekki heldur hægir á tímanum í verkinu, snýr honum við og á hvolf og skoppar fram og til baka og leiðist það nú ekki sjálfum, því eins og segir eftir enn einn útúrdúrinn: „En fyrst ég er lentur úti í skurði ætla ég að leyfa mér að dvelja þar um stund“ (169). Einkunnarorð þeirrar bókar gætu verið „varð mér hugsað til“ (sjá t.d. 89) – því lesandinn fær að elta sögumanninn um rangala hugsunar sem stöðugt sér nýjar og nýjar tengingar við alls konar fyrirbæri, sögur, tímabil, fólk og svo mætti áfram telja.
Rit Steinunnar er blanda af tvenns konar undirgreinum bókmenntanna, þ.e. „hvernig-varð-ég-rithöfundur“-tegundin annars vegar og heilræði til skrifandi fólks hins vegar, en þessar tvær gerðir fara auðvitað oft saman. Fæðing rithöfundarins er þema margra sagna í gegnum tíðina og áberandi hérlendis undanfarna áratugi og mætti þar nefna Ósjálfrátt (2012) eftir Auði Jónsdóttur, 1983 (2013) eftir Eirík Guðmundsson, Jarðnæði (2011) eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur, Skriftir (2016) eftir Pétur Gunnarsson, auk þess ritgerðasafnið Skáldreka (2023) þar sem höfundar af erlendum uppruna ræða um sín skrif og skilyrði til þeirra skrifa. Það er ljómandi að Steinunn skuli bætast í þennan hóp enda margt fróðlegt í hennar kringumstæðum. Mér þóttu þó sumir kaflarnir halla óþarflega mikið í átt að kennslubók þegar ég hefði þegið meiri umfjöllun um sögurnar á bakvið verkin, en Steinunn er auðvitað mikill viskubrunnur og margt er þarna fróðlegt og skemmtilegt til umhugsunar enda hefur hún skrifað alls konar texta, skáldsögur, ljóð, ævisögur, svo ekki sé minnst á fréttatexta og viðtöl. Það er því athyglisvert að skoða hvað hún segir um muninn á sannsögu og skáldskap: „Eitt af því sem er bæði heillandi og óþolandi við að skrifa sannsögu er að söguhetjan skreppur undan, miklu meira en skáldsagnapersóna gerir. Alveg sama þótt engu sé logið. Hvort þetta er til marks um að lífið sjálft sé svona miklu flóknara en skáldsögulífið veit ég ekki“ (77).
Kristín í sínum skrifum um langömmu sína hefur þó frelsi tímans sem liðið hefur, enda segir hún í aðfaraorðum fyrri bókarinnar, Móðurást: Oddný (2023), að þetta sé skálduð saga. Kristín sviðsetur fyrir okkur eitt ár eða svo í lífi stúlku á fimmtánda ári á síðari hluta 19. aldar í Biskupstungum. Oddný er við það að verða fullorðin, hún er þó ekki sérlega hrifin af ýmsu því sem þroskanum fylgir og heitir því til dæmis að aldrei dansa eða „kyssa kalla. Það er sóðaskapur. Ekki njóta ástabragða, sömuleiðis sóðaskapur“ (92). Stúlkan er með ríkt innra líf og horfir á heiminn frá sínu sérstaka sjónarhorni, virðir fyrir sér sveitina og fólkið sem þar býr, en með sterka tilfinningu fyrir einhvers konar hliðarheim sem er framandi, skáldlegur og vís. Við fáum að kynnast fólkinu í kringum hana, systkinum, þeim sem lifðu, en einnig þeim sem dóu. Auðbjörg systir Oddnýjar sem dó ung fylgir henni og frá henni streymir annars heims sýn og viska. Þessi sýn á tilveruna virðist liggja í ættum eða eins og ein kerlingin í sveitinni segir við Oddnýju: „Þið krakkarnir Þorleifs og Þuríðar eru sérlunduð, barnaleg og ábyrgðarlaus og eigið ekki langt að sækja álfaruglið til frænku ykkar en foreldrar ykkar eru jarðbundin. Kannski las Þuríður í ykkur órana og skildi ekki hættuna sem lestur hefur á börn“ (144). Því er þetta einnig upprunasaga skálds, hér er póetísk arfleifð höfundarins – það liggur í ættinni skáldskaparæð, annars konar hugsun sem passar ekki endilega í sinn tíma. Minningar um hina látnu eru ekki alltaf auðveldar eða eins og Setselja frænka segir: „Stundum er gleymskan eitur, stundum mildismyrsl, stundum hvort tveggja, eitur og unaður, sagði vitra frænka mín og talaði enn í þessum gátum sem hljómuðu vísulega og vísindalega einsog mamma og Auðbjörg systir áttu til“ (98). Þannig tengist skáldskapurinn við sýnir, afstöðu, að halda tengslum við einhvern horfinn heim og gæða hann aftur lífi.
Steinunn gefur lítið fyrir hugmyndir um hugljómun eða aðra slíka upphafna sýn á skáldskapinn og segir: „Skrifin eru einfaldlega minn hversdagur, mín hátíð og ég er hvergi til nema á pappír“ (102). En þó er ýmislegt sem skreppur undan skilgreiningum. Á stundum getur hún ekki endilega útskýrt hvernig hún gerir hlutina (99) og tengsl skáldskapar og veruleika verða allt að því yfirskilvitleg þegar hún lýsir djúpstæðri lestrarreynslu ungdómsáranna (54). Lestur hefur ófyrirséðar afleiðingar í öllum verkunum, „órar“ voru „lesnir“ inn í Oddnýju, Ólafur Kárason ljósvíkingur var hinn „ósýnilegi leikfélagi“ sem Steinunn spjallaði við sem barn og sögumaður Innanríkisins speglar sig í Baudelaire við skrifin (162).
Frásagnirnar eru því oftar en ekki tengdar einhvers konar tímaflakki – litið er til fortíðar og hún mátuð við samtíðina á ýmsan hátt, tímasviðum er blandað saman, litið er um öxl – og þá geta vaknað upp draugar. Dauðinn er nálægur í sögu Kristínar sem birtist til dæmis þegar stúlkan vitnar til systur sinnar og Alexíus í verki Braga er einkar lunkinn draugur, sem best er að hafa sem fæst orð um. 19. öldin getur stundum virst helst til fyrirferðarmikil, yfirþyrmandi jafnvel, í bókmenntunum, pólitíkinni o.s.frv., enda má segja að hin langa 19. öld nái alveg til okkar tíma. Í meðförum Kristínar nær hún hins vegar miklu flugi svo eiginlega lýsir af textanum. Og í Innanríkinu gengur 19. öldin nokkuð óvænt aftur, þræðir hennar leynast víða í textanum, ekki bara í Alexíusi og Parísardepurð Baudelaires, heldur einnig í lífsháttum fólksins í Knarrarnesi.
Í Móðurást: Draumþing eru tvær meginsenur, annars vegar þegar konurnar í sveitinni baða sig í heitum hver: „Konur og stelpur, stúlkur, snótir, núverandi og verðandi meyjar, núverandi og fyrrverandi yngismeyjar, kerlingar, kvinnur og píur stigu uppúr tjörninni“ (61) og hins vegar þegar veisla er haldin á Jónsmessu: „Í fyrsta sinn sá ég sítrónur, myndskreytta diska, hnífapör úr silfri, glös á fæti, munnþurrkur sem í var stunginn bekkur gulllitaðra mynstra“ (76). Báðar senur tengjast munaði, eins og útlenskri sápu, heitu vatni og líkamlegri nærveru kvennanna í lauginni og í veislunni gæðir stúlkan sér á áður óþekktum kræsingum, óvæntum samskiptum og dansandi ungmennum. Konurnar í kringum hana færa Oddnýju styrk og hlýju (og stundum gremju). En tengslin eru djúp og mikilvæg eins og Setselja frænka segir: „Útúr hverjum manni ganga taugaangar sem hengja sig í taugaanga annarra til að eflast að dáðum. En þeir lifa ekki án þess að tengjast“ (67). Í Innanríki Braga eru einnig slík tengsl taugaanga mikilvæg, ekki síst í sambandi feðganna sem víða kemur við sögu.
Að skrifa um slík tengsl, að setja sjálf sitt í samhengi við önnur sjálf, er ekki endilega einföld iðja. Steinunn lýsir því þegar hún „tók það loks fyrir að yrkja nokkur svolítið sjálfsævisöguleg ljóð. Gerði það feimin, enda hef ég verið því frá hverf að blanda minni persónu beint í skáldlegheitaskrif“ (157). Frekar vill hún strika út sjálfa sig þegar hún skrifar: „Þegar sest er til að skrifa gildir það helst að gleyma stað og stund, gleyma sjálfum sér, að maður hafi nokkurn tímann verið til, muni nokkurn tímann verða til“ (125). Eða eins og Paul Auster að skáldið þurfi að hegða sér til að taka inn umhverfið:
If a man is to be truly present among his surroundings, he must be thinking not of himself, but of what he sees. He must forget himself in order to be there. And from that forgetfulness arises the power of memory. It is a way of living one’s life so that nothing is ever lost. (The Invention of Solitude, 138)
Stundum er rætt um sjálfsævisögulegar bókmenntir á þann hátt að halda mætti að þær samanstæðu af ósjálfráðum skrifum sem ekki hafa form í sér eða skipulag og eru þar með sett skör lægra en önnur skrif. Þannig skrif geta einnig vakið kvíða og Bragi hefur af þessu nokkrar áhyggjur: „Og núna beinast þær að því að ég sé mögulega að stíga eitt stórt feilspor með því að skrifa bók sem er ekki beinlínis skáldskapur, að ég sé jafnvel að grafa mína eigin gröf sem höfundur – og þá á ég ekki við að grafa mína eigin gröf (þótt ég hafi nú þegar tekið nokkrar skóflustungur), heldur að gefa út texta sem reynir að sneiða hjá skáldskap, og byggja þeim mun meira á því sem mér datt ekki í hug sjálfum“ (6). Hér er ágætt dæmi um það sem Claire Boyle bendir á í bók sinni um franskar sjálfsævisögur þegar höfundarnir lýsa ótta og kvíða, eins konar sjálfsævisögulegri angist. Þeir óttast að tapa eignarhaldi á sögu sinni, óttast að ævi þeirra verði bráð viðbragða annarra og óttast þær hugmyndir sem aðrir muni gera sér um þau (Consuming Autobiographies: Reading and Writing the Self in Post-War France, 4).
Bragi vinnur á þessum áhyggjum á ýmsan hátt, ekki síst með stöðugri frestun frásagnarinnar, með því að gera ótal „hlé“ á henni með útúrdúrum, neðanmálsgreinum og fleira sem almennt telst ekki til „hefðbundinna“ sjálfsævisagna. Textinn sver sig hins vegar í ætt við aðrar tilraunakenndar sjálfsævisögur þar sem neðanmálsgreinar, leiðréttingar og viðbætur eru áberandi – og má þar nefna Mary McCarthy og hennar bók Memories of a Catholic Girlhood (1957) og A Heartbreaking Work of Staggering Genius (2000) eftir Dave Eggers. Þetta vakl á milli bókmenntategunda, frásagna, tímaskeiða er skemmtilega svimagjarnt og riðlar flokkunum ekki einungis í huga lesandans, heldur er sögumaðurinn orðinn nokkuð óviss um hvert hann sé kominn: „Ég fullyrti á fyrstu blaðsíðu, númer fimm, að þetta væri ekki skáldsaga, en nú er ég ekki viss. Það er allt eins hægt að kalla þetta smásagnasafn. Og kannski er kominn tími til að gera smá hlé, til að hlífa lesandanum við ágangi höfundarins, þótt hann blandi sér inn í og beri vissulega ábyrgð á þessu“ (170). Þetta er bók sem aldrei verður, sem verður stöðugt annað en lagt var upp með svo minnir á bók Italos Calvino um ferðalanginn, Se una notte d‘inverno un viaggiatore (1979; Ef að vetrarnóttu ferðalangur 2015), sem mætti kalla safn útúrdúra sem ratar aldrei heim aftur. Spurningin er hvort þetta sé freudísk eða derrídaísk frestun eða, það sem nærtækara er, sígild bragísk frestun á frásögninni.
Þessi þrjú verk sem hér eru til umræðu stunda öll kortlagningu á einhvern máta. Steinunn kortleggur feril sinn, skrifin, líf rithöfundarins og ýmiss konar baráttu við ytri og innri öfl, en hún leggur líka áherslu á hve mikilvægt sögusviðið er og hvers vegna Reykjavík verður svo oft fyrir valinu í hennar verkum: „Það er skrifað af meiri innileika og ákefð um staðinn þar sem ræturnar eru heldur en um aðra staði, og sá innileiki, sú ákefð, sú sýn á staðinn smitar frá sér útum söguna alla, persónur, reynslu og atburði“ (81).
Kristín kortleggur líf ungrar stúlku á 19. öld, fjölskyldu hennar og tengsl við aðra (aftast fylgja líka uppdrættir af þeim tengslum), en hún kortleggur líka Biskupstungurnar, bæina, árstíðirnar, og ekki síst árnar og hvernig þær setja fólkinu skorður, hindra för þeirra, og stuðla að innilokun sem Oddný er þó ekki mótfallin enda kann flakk „að skila fáu öðru en ábyrgðarlausri fjarveru að heiman“ (7).
Bragi fer á einum stað að kíta við endurminningar Sigurðar Pálssonar um hve margar hæðir séu á ákveðnu húsi í Vesturbænum, en Sigurður dró einmitt Vesturbæinn upp með orðum í minningabók sinni eins og hann lærði á hann sem sveitadrengur nýkominn á mölina. Hagatorg og allt það umhverfi er eins tært og skýrt og á korti frá Landmælingum í lýsingum Sigurðar. Ferðir Braga um borgina og kortlagning á henni í Innanríkinu minnir hins vegar meira á kort sem dregið er upp af ferð kattar með staðsetningartæki. Útúrdúrar og stökk hingað og þangað, og alls ekki ljóst hvert skal haldið, nema yfirleitt er það aldrei á þann stað sem lagt var upp með. Ég nefndi hér fyrr að með því að blanda saman tímasviðum mæti draugar til leiks, en minni okkar tengist rými einnig sterkum böndum eins og sögumaður upplifir á eigin skrokki þegar hann kemur í íbúð ömmu sinnar og afa sem verið er að gera upp. Hann er „fortíðartúristi“ (103) og þar er „eins og allt hefði verið strokað út“, að „tíminn hafi verið skrapaður innan úr rýminu“ (100). Sögumaður fyllir hins vegar upp í þetta auða rými með sögum so það fyllist af fólki (mörgu löngu dánu).
Steinunn ræðir í sinni bók um mikilvægi þess að finna verki rétt form og að það „sé stærsti höfuðverkurinn þegar skáldsaga er skrifuð“ (99). Í báðum bindum af sögu Oddnýjar hefur Kristínu tekist að finna henni form sem fléttar listilega saman ytra og innra líf persónanna, samtöl, umhverfislýsingar, draugagang og ferjumenn. Sögumaður Innanríkisins viðurkennir að það sé vissulega flókið mál að henda reiður á hans frásögn, kallar hana „lausriðið net“ og „regluleysi og óreglu“ (235). En óreiðan er einmitt það sem dregur hana áfram og tilfinning lesandans í lokin er sú að verkið sé í raun endalaust, því alltaf getur sprottið upp nýr útúrdúr útúr útúrdúr útúr útúrdúr.
Gunnþórunn Guðmundsdóttir, desember 2024