Æviágrip
Bragi Ólafsson fæddist í Reykjavík 11. ágúst 1962. Hann nam spænsku við Háskóla Íslands í einn vetur og við Háskólann í Granada á Spáni 1985 - 1986. Hann hefur unnið ýmis störf í Reykjavík, á póstinum, í banka og plötubúð og var um árabil liðsmaður ýmissa hljómsveita, meðal annars Sykurmolanna og ferðaðist með sveitinni víða um lönd.
Fyrsta bók hans, ljóðabókin Dragsúgur, kom út árið 1986 og síðan hefur hann sent frá sér ljóðabækur, smásögur, leikrit og skáldsögur. Fyrsta skáldsaga hans, Hvíldardagar, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 1999 og sú næsta, Gæludýrin, einnig árið 2001. Bragi hlaut Menningarverðlaun DV í bókmenntum 2004 fyrir skáldsöguna Samkvæmisleikir. Sendiherrann var bæði tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Bragi er einn af stofnendum útgáfufélagsins Smekkleysu sem gefið hefur út texta og tónlist og staðið fyrir uppákomum af ýmsu tagi. Bragi hefur þýtt ljóð og skáldsöguna Glerborgin eftir Paul Auster. Verk hans hafa birst í erlendum þýðingum.
Mynd af höfundi: Ljósmyndasafn Reykjavíkur.
Frá höfundi
Frá Braga Ólafssyni
Belgíski rithöfundurinn Georges Simenon sagði eitthvað á þessa leið: „Allar tilfinningar og öll þau mótandi áhrif sem við varðveitum og byggjum á sem fullorðið fólk hafa safnast fyrir í okkur á sautjánda árinu, eða, í síðasta lagi á því átjánda.“
Ég er sammála þessu með átjánda árið. Á þeim aldri var ég kominn með dellu fyrir því sem ég hef aðallega fengist við síðan, það er að segja tónlist og skáldskap, þótt ég spili ekki lengur á hljóðfæri. Með því að kynnast textum ákveðinna ljóðskálda og leikrita- og skáldsagnahöfunda varð síðan skáldskapardellan að ástríðu. Ég held að ljóðskáldin – þá aðallega suður- og miðevrópsk, og einstaka íslenskt skáld – hafi haft mest áhrif á hvernig ég hugsa um skáldskap og hvernig ég reyni að orða þær myndir og þá atburði sem verða til í höfðinu. Það á ekki síður við núna þegar ég eyði meiri tíma í prósaskrif en yrkingar.
Ég er alveg viss um að mikill lestur og upplifun á ljóðlist sé nánast nauðsynleg undirstaða fyrir hvaða skáldskaparskrif sem er. Það að geta miðlað hugmyndum á ferskan og áhugaverðan hátt lærist ekki eftir einhverjum skynsamlegum og rökréttum leiðum; það verður að neita því staðfastlega að tveir plús tveir séu fjórir (sem þeir eru reyndar ekki, skilst mér), og taka því sem sjálfsögðum hlut að það hafi verið hönd Guðs sem skoraði fyrir Argentínumenn gegn Englendingum árið 1986. Ég er ekki að tala um að það þurfi að brengla skilningarvitin heldur að þjálfa þau til að heyra og sjá að hlutirnir eru ekki það sem þeir líta út fyrir að vera.
Einn hættulegasti óvinur mannskepnunnar eru leiðindi. Það að fólki leiðist leiðir til botnlausrar ógæfu. Eitt öflugasta meðalið við leiðindum er gott ímyndunarafl og ein besta leiðin til að koma sér upp einu slíku eru bein eða óbein afskipti af skáldskap. Mér hefur að minnsta kosti ekki leiðst mikið síðan ég var sautján eða átján.
Það er einginn vandi að yrkja
þegar maður kann það.
Það er bara að raða orðunum
rétt saman!
(Dagur Sigurðarson: Bragfræði)
Bragi Ólafsson, 2001.
Um höfund
Hér má finna þrjár greinar um verk Braga Ólafssonar. Fyrstu tvær eru eftir Eirík Guðmundsson, frá árinu 2001. Sú þriðja er eftir Úlfhildi Dagsdóttur og er skrifuð 2020.
Um verk Braga Ólafssonar
Eiríkur Guðmundsson:
Viðkvæmur liðþjálfi í herdeild hinna hugumstóru
Um ljóðlist Braga Ólafssonar
og
Bros lífsins
Um sagnagerð Braga Ólafssonar
____________________________
Viðkvæmur liðþjálfi í herdeild hinna hugumstóru
„Drengurinn yðar er skáld herra!“
Max Jacob
Í Margbrotnu hefti Bjarts og frú Emilíu frá árinu 1993 er að finna umfjöllun Braga Ólafssonar um franska skáldið Max Jacob en með henni fylgir hann úr hlaði þýðingum sínum á níu ljóðum eftir skáldið. Líklega er óhætt að taka undir með Braga að þetta séu ljóð eftir mann „með mikla trúarþörf“ en um leið ljóð þess „sem trúir ekki á neitt heldur fylgist bara með og undrast yfir öllu sem hann sér“ – að þau spyrði saman „annars vegar fáránleika, kaldhæðni og grín og hins vegar meðaumkun með því sem lifir“. Sitthvað í þessari umfjöllun er raunar prýðileg lýsing á skáldskap Braga sjálfs en þetta væri annars ekki í frásögur færandi ef í textanum væri ekki að finna eina af þessum dásamlegu prentvillum sem fá mann til að trúa á lífið og skáldskapinn og þar að auki til að sannfærast um að hér sé skáld að fjalla um annað skáld. Bragi segir frá því að Jacob hafi verið mikill gleðimaður þann tíma sem hann bjó í París, en um leið að hann hafi alla tíð lifað við mikla fátækt. Um miðbik þessarar stuttu greinar segir að árið 1821 hafi hann yfirgefið „borgina til að setjast að í þorpinu Saint Benoit-sur-Loire þar sem hann dvaldi þangað til hann hvarf endanlega í fyrrnefnt klaustur“. Max Jacob fæddist árið 1876 og hann lést árið 1944 en nafn hans er oft nefnt í sömu andrá og nöfn áhrifamikilla evrópskra ljóðskálda á þessari öld, ekki síst súrrealískra.
Vikum saman, eða frá því að bókaforlagið Bjartur fól mér það verkefni að fylgja ljóðmælum Braga Ólafssonar úr hlaði, hefur mér liðið eins og að minnsta kosti tveimur skeggjuðum mönnum sem standa á horni Bayswater Road og Lækjargötu í upphafi ljóðsins Blue Hawaii og finna alls ekki orð sem hæfa tíðarandanum. Þannig hef ég dvalið eins og bókstafur í þessu súrrealíska ljóði – sem minnir reyndar ekkert á Max Jacob – og ekki fundið orð sem hæfa skáldskap Braga og því síður verið aflögufær með hringlaga sannfæringu af nokkru tagi, svo aftur sé vitnað í ljóðið Blue Hawaii þar sem viðkvæmur liðþjálfi í fjórðu herdeild hinna hugumstóru játar vanmátt sinn andspænis konu. Ljóðið birtist í fyrstu ljóðabók Braga, Dragsúgi, sem kom út hjá Smekkleysu árið 1986 og er án efa ein af eftirminnilegri ljóðabókum sem út komu hér á landi á níunda áratugnum, ekki síst í huga þeirrar kynslóðar sem undirritaður tilheyrir – sé þá kynslóð einhvers staðar að finna og sé yfir höfuð ástæða til að nota orðið kynslóð í því samhengi.
Bragi Ólafsson mun hafa lýst því yfir fyrir margt löngu að hann væri rómantíker á tímum sem leyfa enga rómantík en hann er einnig síðbúinn súrrealisti sem hugsanlega – en aðeins hugsanlega – er uppi á kolröngum tíma. Rómantíkina má til sanns vegar færa enda fela ljóð hans í sér drög að fíngerðu algleymi sem vel má kalla rómantík í anda okkar tíma þótt að baki búi ekki þrútið sjálf eða ljóðræn þörf fyrir að blunda í bárum hafsins: eitthvað smávægilegt gerist og það verður til þess að við erum ekki lengur þar sem við héldum okkur vera, við verðum „fyrir svolítilli uppljómun á miðri Grettisgötunni“ og erum skyndilega stödd á smábæjartorgi sunnarlega í álfunni (Hringekjan), ljós kviknar líklega fyrir tilviljun og sjálfur Jesús er ekki lengur gestkomandi í norskri nítjándualdarborðstofu (Kom Jesus vær vor gæst) – suðurgluggi snýr skyndilega í austur, sama hve stíft er horft (Suðurglugginn): skáldið Max Jacob yfirgefur Parísarborg árið 1821. Þessar smávægilegu uppljómanir eru því ekki aðeins á horni Bayswater Road og Lækjargötu og þær heilla okkur án þess að við getum gætt þær skotheldri merkingu. Í þessu tilfelli er það ótvíræður kostur, að ég segi ekki léttir – ljóðin búa yfir þekkingu „sem svo dásamlegt er að nýta sér / ekki á nokkurn hátt“, svo vitnað sé í ljóðabálkinn Spiladósina. Þau halda okkur í óvissu og það er hún sem vekur með okkur fögnuð. Þannig getur hinn póstmóderníski skáldskapur verkað á okkur: hann gerir ekkert tilkall til hins forna samræmis heimsins enda yrkir Bragi ekki ljóð sín á neinni Edenstungu – sífellt er verið að hringla með merkingar orðanna og orða hlutina uppá nýtt og þannig er það staðfest enn einu sinni að tungumálið fellur ekki eins vel að heiminum og okkur kann að dreyma um: orðin eru ef til vill ekki annað en lítil skrín sem við getum opnað og lokað að vild. Með tilvísunum til annarra tungumála í ljóðum Braga er eins og hinn póstmóderníski svimi ágerist enn frekar: sá sem vaktar spjátrungshöllina í Telc lætur sig „dreyma um leiðsögumanninn stúlkuna“ og „Honum finnst hún ljómandi falleg og einna helst á því tungumáli sem hann skilur ekki“, svo vitnað sé í ljóðið Svefn. Þetta tungumál hlýtur að vera einfaldara en við eigum að venjast: við sem finnum ekki orð sem hæfa tíðarandanum og getum kallað hvað sem er ólíkum nöfnum og leikið okkur með þessar sömu nafngiftir alla leið fram í rauðan eða öllu heldur beiskan dauðann: „Hefði ég spurt móður mína, sem þekkti þessar hreyfingar úr æsku, hefði svar hennar orðið af erlendum toga og ekki varpað ljósi á þær nætur sem komu í kjölfarið“ (Af einfaldri ástæðu). Það er því borin von að við getum tekið utan um þá kæru Susan sem hinn viðkvæmi liðþjálfi beinir orðum sínum til í ljóðinu Blue Hawai af nokkurri hringlaga sannfæringu.
Af einhverjum ástæðum hefur mér fundist ljóðabókin Dragsúgur kristallast í fyrrnefndu ljóði, Blue Hawaii, sem hefur fylgt undirrituðum eins og úrsérgengin þula eða bassalínan í dægurlaginu Blue Eyed Pop sem umræddur „Orfeus rafmagnsbassisti í innheimum“ ber einnig ábyrgð á. Ekki aðeins vegna þess að í upphafslínum þess greinir frá tveimur skeggjuðum mönnum sem gengur illa að finna orð sem hæfa tíðarandanum (sem enginn getur lýst nema með aðstoð hlálegra orðaleppa úr smiðju póstmódernismans: allt virkar og gengur og öllu ægir saman: allt er ódýrt) heldur vegna hinna dásamlegu fjarstæðna sem taka á sig mynd(ir) og magnast eftir því sem líður á ljóðið: „Sviti elskendanna í úthverfi Zurich / sprettur út á hannyrðakonu í Laos“ – í næstu línum deyr „málmblástursmaður í subbulegum / N-Noregskjallara / […] beiskum dauða í rör sitt“. Við ferðumst frá einu sviði til annars í hverju ljóðinu á fætur öðru: engin miðja er sýnileg og við vitum ekki almennilega hver það er sem mælir ljóðin fram. Þótt Bragi hafi með ljóðagerð sinni sem betur fer ekki fundið orð sem hæfa tíðarandanum, þá virðast þessar línur – og hér er ástæða til að vera nákvæmur – hafa hitt í mark að minnsta kosti ef tekið er tillit til þeirra ófáu kvöldstunda sem fóru í það að rifja þær upp eftir að skyggja tók og jafnvel birta á ný á seinni hluta níunda áratugarins. Og ef til vill segir sú staðreynd meira um tíðarandann en mörg orð.
Það hljómar ef til vill kindarlega en einhvern veginn finnst mér ekki fara illa á því að á okkar tímum skuli vera á dögum skáld sem í ljóðum sínum er í senn nálægt og óralangt í burtu: eina stundina síðbúinn og uppdiktaður „flanör“ sem lýkur upp einni borginni á fætur annarri og gengur síðan fram á rjúkandi hlandpoll í Fischersundi, þá næstu með öllu fjarverandi og engin ummerki önnur sjáanleg en svartur jakki á heiðbláum stól, þar sem „axlirnar bera við hvítan vegg / eins og kirkjuturnar reistir af vanefnum“ svo vitnað sé í ljóðið Jakki á stól. Í verkum Braga renna saman þessar hefðir sem liggja samsíða í ljóðlist 19. og 20. aldar: annars vegar gegndarlaus upphafning skáldsins sem gengur um í svörtum jakka, sviptur framtíð, og hins vegar bleksvartur dauði þessa sama skálds, fjarvist þess og nótt sem fer um heiminn eins og „ólæs vindur“. Það þarf ekki að taka það fram að Dragsúgur var frábær frumraun hjá 24ra ára gömlu skáldi enda er bókin fyrir löngu að þrotum komin hjá forlagi sínu og gengur þessi misserin á milli manna í óhrjálegum ljósritum og ekki óalgengt að utan á rifrildunum standi: „… vantar sárlega í Blóðkrána, Danskvæði með öllu horfið…“
…eins og ólæs vindur. Dragsúgur er bók dauðans og hinna framliðnu: hún er í senn skelfileg og heillandi – „[…] eitthvað svakalegt beið fyrir utan. Í nýsnyrtu grasi“ (Á jarðhæð). Titill bókarinnar vísar óneitanlega til draugagangs, vindinn lægir ekki: Dauðinn er „Ókomin kona / með rauðar varir / að næturlagi“ eins og segir í ljóðinu Komutími. Á öðrum stað er ort um kalda fætur „undan hvítu laki“ (Undir súð): mörkin milli lifenda og dauðra eru með öllu óljós og það sem betra er – þessi mörk eru tilgerðarlaus og eiga sér stað án þess að skáldið setji upp helgisvip, líkt og Braga hafi tekist að tengja sig við allt aðra tíma en þá sem við kennum okkur við. Ljóðin virðast ort í miðri reynslu næturinnar fyrir daga sjónvarpsins eða þar sem dagskráin er úti og hinir dauðu fara á stjá. Engu að síður er yfir þeim einhver unaðsleg léttúð sem mín vegna má kalla póstmóderníska og sú léttúð ágerist í seinni bókum Braga; í síðustu ljóðabók Braga, Klinki (1995), er til að mynda vitnað á sömu blaðsíðu í fagurkerann Rainer Maria Rilke og The Cambridge Music Guide og það með góðum árangri. Við erum að tala um léttúð aldarlokanna sem leysir af hólmi eymdarlíf sjálfsverunnar eins og því er lýst í annarri hverri ljóðabók sem út kemur um þessar mundir en óhætt er að segja að skáldinu hafi tekist að segja skilið við eigið sjálf í Dragsúgi, ef fáein ljóð bókarinnar eru undanskilin. Það er til að mynda með öllu óljóst hver það er sem hlustar á brestina í fjöllunum og bindur hest sinn við myrkrið á Hólsfjöllum í einhverju magnaðasta ljóði bókarinnar, Á Hólsfjöllum, og einkunnarorð fyrsta hluta hennar undirstrika þessa fjarvist en þau eru tekin úr ljóði eftir Þór Eldon og hljóma svo: „og það er einhver að dansa við mig“ – það skiptir ekki máli hver.
Í einu sterkasta ljóði bókarinnar, Níutíu kílómetrar á sextíu mínútum, er ort um „einhverja hræðilega gleymsku“ og það má segja að í þessari hræðilegu gleymsku sé fólginn einn af sterkustu undirtónum Dragsúgs – jafnvel þótt hinir dauðu gleymist ekki og blóðslettan á enni þínu líði manni illa úr minni. Ljóð bókarinnar vísa ekki til heimsins og reynslunnar enda gerast þau flest í annarlegu rými gleymskunnar þar sem vindinn lægir ekki og þar sem hver ljóðlína skeytir ekkert um þær sem á undan eru komnar. Þau eiga sér stað í Bakportinu, þar er „einhver“ sem mælir þau fram – „Og sumpart vegna dragsúgs hafa þeir lokað hurðinni á eilífðina en opnað gluggann út í nóttina“ (Bakportið). Út í þessa nótt rýnir Bragi í fyrstu bók sinni og sér fallegu konuna „sem hefur beðið eftir manni sínum / lengur en aðrir menn muna“ og undrast „hvíta fegurð sína / í augum fólksins sem gengur hjá“ (Þessi fallega kona). Þessi kona er látin og orð skáldsins strjúkast við hana og hvert við annað í draugslegri endurtekningu þar sem „Konan mín – ef ég ætti konu –“ leggur „hvítan dúk á borð“ (Dagsetning) og „Maðurinn er maðurinn í tunglinu / konan konan hans“ (Þessi fallega kona). Sumpart vegna dragsúgs…
Fyrrnefnd gleymska á ekkert skylt við svefn eða doða heldur miklu fremur vakt – í þessu tilfelli draugavakt – og hún á sér stað eins og fyrr segir „Eftir seinni kvöldfréttir“ (Jakki á stól). Gleymskan á rætur sínar að rekja til módernískra hugmynda um bókmenntir sem gengið hafa í endurnýjun lífdaga á síðustu árum en samkvæmt þeim lýsir ljóðlistin hvarfi guðanna eftir að hafa öldum saman verið tungumál þessara sömu guða. Þetta hvarf er fyrir löngu horfið og eftir er gleymskan ein (sem verður reyndar að algleymi í ljóðum Braga), orð sem fallbeygjast ótal sinnum og oftar en við kærum okkur um; lýsingarorð sem stigbreytast, skáld sem fylgjast „með hljóðbreytingum tungumálsins, afbökun táknanna“, og taka „þátt í hinum ástríðufullu umræðum um merkingar orða“, svo vitnað sé í módernískt háhýsi, kvæðabálkinn Útlegð eftir franska skáldið Saint-John Perse sem Sigfús Daðason þýddi (Hið íslenska bókmenntafélag, 1992, bls. 37 og 39). Einkunnarorð bóka sinna sækir Bragi meðal annars til skálda sem ortu um þetta hvarf (þar á meðal til Rilkes eins og fram er komið) en þessi sömu skáld geta ekki horfið úr hans eigin tungumáli, öfugt við guðina forðum. Því má segja að Bragi sjálfur hafi engu gleymt og að fyrrnefnd gleymska feli einnig í sér minningar um hina látnu eða öllu heldur það óminni sem fær ömmuna sem er hætt að borða meðölin sín til að stíga dans við ímyndað fólk inní stofu: það er varla tilviljun að í upphafsljóði þriðju ljóðabókarinnar (Ytri höfnin 1993) skuli mælandinn (vera) staðinn að verki þar sem hann stendur við bókaskápinn í lesstofunni og hefur verið að rugla sundur bókum sem óteljandi síðdegi hafa farið í að raða: „Trakl fær ekki lengur að standa við hlið Rilke“ (Merkileg iðja). Þetta er í sjálfu sér ekki merkileg iðja eins og fram kemur í þessu ljóði en ef til vill nákvæmlega það sem hið póstmóderníska skáld nýtur þess að yrkja um: athafnasvið þess er takmarkað, kirkjuturnar þess eru reistir af vanefnum.
Dragsúgur hefur algjöra sérstöðu í höfundarverki Braga Ólafssonar, og raunar í íslenskri ljóðagerð níunda áratugarins. Bragi var á þeim tíma ásamt Sjón í fararbroddi þeirra skálda sem ruddu einhvers konar súrrealisma síðbúna braut hér á landi, án þess þó að hann væri um of brennimerktur þeirri stefnu. Einhverjir myndu eflaust vilja tala um tímaskekkju í þessu samhengi en því má ekki gleyma að súrrealisminn er skæður draugur sem getur skotið upp sínum græna kolli hvar og hvenær sem er og valdið þar skæðum dragsúgi og fengið „Ókyrr rykkorn á marmaragólfi“ (Komutími) til að ókyrrast enn frekar, logana frá kertunum til að vera „á endalausu flökti allt kvöldið einsog tvö svefnlaus augu“ (Dagsetning). Ástæðan er ekki síst sú að súrrealisminn er skyldari hugarástandi en ákveðnum skóla í bókmenntum, eins og haldið hefur verið fram, og þetta hugarástand kemur greinilegast fram í Dragsúgi af öllum ljóðabókum Braga. Hinn hæverski ljóðstíll hefur engu að síður haldið velli með öllum sínum þérunum og ekki síður lítillæti sem er í senn bókmenntalegt minni og fullkomlega ástæðulaust því enginn hefur „stælt“ (ljóð)stíl módernistanna hér á landi betur en hann: „Gluggar eru ferhyrndir og andlit fólks / ekki ólík eggjum að lögun“ (Veisla). Kannski felst list Braga í því að hafa blásið nýju lífi í þennan vind og breytt honum í annað form fyrir okkur, og þá á við unaðslegan dragsúg.
Munurinn á fyrstu tveimur bókunum, Dragsúgi og Ansjósum (1991), er því munur nætur og dags: við göngum út af blóðkránni – (þangað sem við áttum ekki annað erindi en njóta þess að horfa á orðið „lausakonur“ og lesa þessa setningu: „Og leikföng handa börnunum, séu þau enn á lífi“) og erum skyndilega sest upp í strætisvagn ásamt ókunnri stúlku sem skilur eftir heilt hverfi. Kolsýrð og gargandi kápumynd Einars Arnar Benediktssonar gefur tóninn, hugsanlega eru óstöðvandi hátíðarhöld yfirvofandi – þau sem ort er um á þeim regnvota flóamarkaði sem ljóðið Spiladósin óneitanlega er. Bókin er á undarlegan hátt óður til þess lífernis sem ljóðstíll Dragsúgs bauð upp á: hins frjálsa borgarlífernis þar sem orðin ganga kaupum og sölum og enginn er neitt í líkingu við það sem til stóð og allra síst sá sem við höfum valið okkur sem vitorðsmann. Ég vel orðatiltækið „kaupum og sölum“ ekki af handahófi eins og lesendur Braga ættu að þekkja: í ljóðum hans eru fjölmargar tilvísanir til verslana og viðskipta enda hefur verknaður skrifanna um aldir verið nátengdur skuldaviðurkenningu. Í Ansjósum er draugagangurinn að baki og við stöndum frammi fyrir því að orða það sem miður fer á nýjan hátt en einnig súrrealískri upprisu þeirrar sjálfsveru sem var sundurtætt (og jafnvel höfuðlaus) í Dragsúgi en spígsporar í Ansjósum um kirkjugarða og hafnir, líkt og nú sé lýsinga á martröðinni ekki þörf, svo vísað sé óbeint til ljóðsins Námskeið í Lissabon. Helstu nýmæli bókarinnar eru án efa allnokkur prósaljóð sem hafa yfir sér hátíðlegan blæ líkt og þau hafi verið þýdd úr annarlegu tungumáli en þau staðfesta um leið að frá Dragsúgi var engin leið til dagsins önnur en í gegnum sjálfsveruna sem nú kveður sér hljóðs til að lýsa smávægilegum en heillandi augnablikum á veitingastöðum, í fatabúðum og á bar í Amsterdam, svo dæmi séu tekin. Bragi lýsir því eigin skáldskap þegar hann segir um Max Jacob að verki hans sé „púslað saman af manni með mikla trúarþörf en um leið manni sem trúir ekki á neitt heldur fylgist bara með og undrast yfir öllu sem hann sér“ (sjá fyrrnefnt Margbrotið hefti Bjarts og frú Emilíu, bls. 25). Hann lýkur hér „upp einni borginni á fætur annarri“ (Gönguferð) og þær eru íbúðarhæfar. Ljóðin einkennast enn öðru fremur af því skjálfandi samhengi sem ort er um í ljóðinu um fortíðina en bókin er þó á einhvern hátt „rökréttari“ en Dragsúgur, jafnvel þótt skellirnir í nöðru mótorhjólapóstsins séu „jafnháir hlíðinni / sem ferð þeirra liggur um“ (Gluggapóstur).
Hið skjálfandi samhengi heldur áfram að setja mark sitt á ljóðin í seinni bókunum tveimur, Ytri höfninni (1993) og Klinki, um leið og sú endurnýjun á ljóðstíl módernismans sem fram fer í ljóðum Braga verður enn augljósari: segja má að þessar bækur séu bornar uppi af ljóðstílnum einum saman – að nánast sé ort um „ekki neitt“ – og því engin furða þótt skáldinu bregði þegar allt í einu blasir við því „búðarskiltið Nesval“ úti á Seltjarnarnesi í ljóði sem beint er til tékkneska skáldsins Vitezslav Nezvals. Svo nálægur er arfur módernismans að vart verður við kafkaískt föðurvald í nokkrum ljóðum, þar á meðal fyrrnefndu upphafsljóði Ytri hafnarinnar, Merkileg iðja, þar sem minnst er á líf lifað í stöðugum ótta við refsingu. Hið takmarkaða athafnafrelsi er reyndar eitt af leiðarstefunum í ljóðum Braga og kemur meðal annars fram í heiftarlegri naumhyggju þegar kemur að yrkisefnum og ekki síður í fyrrnefndu lítillæti: allnokkrum skírskotunum til „skáldsins“ sem er„ekki lengur nokkuð / í líkingu við það sem til stóð“ (Spiladósin), líkt og ljóðin séu ort „svo athyglin megi beinast eitthvað annað“ (Frjálsar hendur). Það er hefðin sem takmarkar athafnafrelsi skáldsins fremur en ættingjarnir þótt þeir séu nálægir í bókum Braga frá fyrstu tíð, þeir sömu og vekja með honum ungan hroll í lokaljóði Ytri hafnarinnar, Úr höfn, og skera sundur framtíð hans nokkur þögul augnablik í Dragsúgi (Kvöldjakki mannsins hennar).
Í vissum skilningi má segja að Bragi yrki ekki um neitt annað en fyrrgreinda arfleifð módernismans – um guðina sem geta ekki horfið úr tungumáli hans – enda finnur hann ljóðum sínum stað á hinni póstmódernísku ytri höfn en ekki þeirri innri: á þeirri höfn sem er í vissum skilningi ekki til og fjarri umsvifum innri hafnarinnar: „Við Tryggvagötuna / lágu næstum því skip“ segir í ljóðinu Metnaður. Af einhverri ástæðu er það „frumútgáfa fyrstu bókar“ athafnaskáldsins Einars Benediktssonar sem „liggur í polli af / rauðu Faustino“ að samkvæminu loknu í ljóðinu Að utan. Sem fyrr veltur allt á því hvernig tekið er til orða – merkingaruppsprettan er hvergi annars staðar en í tungumálinu sjálfu enda hefur skáldið líkt dauðanum við það „þegar lýsingarorðið er tekið af manni / síðan sögnin og svo nafnorðið / og maður stendur við vatn / og starir fram fyrir sig / á það sem maður veit ekki að er til“ (Til). Þess má geta að Ansjósum lýkur með því að „skáldið“ hættir að leita „að orðinu sem ég finn ekki / yfir það sem maður hristir og þá fer að snjóa / á neðansjávarmannvirkin frægu“ (Snjókoma). Það eru því ekki yrkisefnin sjálf sem heilla í síðari bókum Braga, jafnvel þótt gerðar séu athyglisverðar atlögur að stóru orðunum – dauða og guði – heldur hinn háttvísi stíll, hinn póstmóderníski kansellísstíll – hæverska þess sem pantar sér drykk á veitingahúsi og á allt undir því komið að pöntunin komist óbreytt til skila.
Ef til vill verður ljóðunum í síðustu ljóðabók Braga ekki lýst nema með þeirra eigin orðum enda er sem fyrr ort um nafngiftir, hluti sem koma á óvart. Á vegi okkar verður önnur yndisleg ritvilla: á saurblaði bókarinnar er tekið fram að hana megi ekki afrita „án skriflegs leyfis þýðanda og útgefanda“ (skáletrun mín): Bragi er þýðandi, ljóð hans eru þýðingar, hugsanlega úr því tungumáli sem minnst var á fyrr í þessum formála og er ekki esperanto þrátt fyrir að eitt besta ljóð Braga sé (ekki) skrifað á heimþingi esperantista. Sem fyrr verða smávægilegustu atvik „tilefni stórra lýsingarorða“ (Nafngiftir): kveðja sem berst inn um bréfalúguna og„beyglast í mjórri rifunni“ breytist í segl sem sjómaðurinn sléttir úr „eftir að hann velur sér ákvörðunarstað“ (Frá heimsþingi esperantista): þreyttir landkönnuðir „halla sér aftur / eins og hnígandi sólir“ (Landkönnuðirnir). Líklega þráum við það heitast að ljóðin búi yfir ákveðnum kjarna sem endurnýjar sig frá einni bók til annarrar, frá einu ljóði til annars, en sú krafa er í senn smekklaus og ótímabær og hlýtur að setja strik í þann reikning sem hér hefur verið færður fram enda fjalla ljóð síðustu bókarinnar ekki síst á undarlegan hátt um merkingarleysi, líkt og ort sé um ekki neitt eða því sem næst. Við getum slegið því föstu að heimur ljóðanna sé sjálfum sér nógur með alla sína töfra og að hann hafi lítið sem ekkert við aðra heima að gera („Nú vil ég ekki vita / af öðrum heimum“ segir í ljóðinu Snjór). Það er einnig við hæfi að halda því fram í þessu samhengi – jafnvel að slá því föstu, jafnankannanlega og það nú annars hljómar – að merkingu ljóðanna sé sífellt skotið á frest – „að framtíðin feli í sér óvænta símhringingu“ eins og ort er á ytri höfninni (Úr höfn) – enda eru slíkar fullyrðingar í tísku: merkingin er einhvers staðar allt annars staðar, við komum ekki orðum yfir hana og hugsanlega verður hún ekki orðuð nema á öðru máli í ófyrirsjáanlegri framtíð símhringingarinnar: það er jú ekki fyrr en á morgun sem krónurnar koma undan snjónum, svo vitnað sé í einkunnarorð Klinks sem sótt eru til Dags Sigurðarsonar. En hvað sem slíkri merkingarfrestun líður þá staðfestir Klink það sjálf sem stöðugt er í bígerð og er sjálf hins viðkvæma liðþjálfa úr herbúðum póstmódernismans sem getur ekki gleymt (lái honum hver sem vill) herdeild hinna „hugumstóru“ módernista – Jacobs, Sigfúsar, Rilkes og Trakls – og gott ef einhver þeirra hefur ekki rétt honum glas, ég fæ að minnsta kosti ekki betur séð, og líklega fyrir tilviljun: „Ég ætlaði að afþakka en ákvað svo að þiggja því fyrr um daginn hafði ég að mér fannst unnið einn lítinn en óneitanlega persónulegan sigur“ (Sigrar). Þessi sigur er ekki nánar útlistaður í ljóðinu en hann er sigur Braga Ólafssonar og honum fylgir óneitanlega allnokkur dragsúgur.
„Drengurinn yðar er skáld, herra“ segir í þýðingu Braga á ljóðinu Bókmenntir og ljóðlist eftir Max Jacob og þau orð skulu áréttuð hér, enda höfðu hlykkjóttir stígarnir milli trjánna þerraðir af hafinu vakið hjá honum drauma um göturnar í Napólí – grænn kopar kirkjuþaks við ónefnt smábæjartorg sunnarlega í álfunni verður eftir á bláum himni og við erum aftur stödd á Grettisgötunni.
Guð almáttugur fyrirgefi mér fari ég með rangt mál.
Eiríkur Guðmundsson
(úr Ljóðaúrvali Braga Ólafssonar, Bjartur, 1999)
____________________________
Bros lífsins
Um sagnagerð Braga Ólafssonar
Íslenskri skáldsagnagerð á 20. öld lauk í helli, ekki í fjarlægum fjöllum Afganistans heldur uppi í Heiðmörk, saklausu svæði útivistarfólks og morðingja. Síðasta söguhetja aldarinnar komst þangað með leigubíl eftir tíu mínútna akstur frá Reykjavík. Það þurfti vasaljós úr hanskahólfi bílsins til að finna hellismunnann, sem reyndist ekki vera nema ofurlítið gat, „eins og gægjugat ofan í jörðina“ (Hvíldardagar, 191). Að loknum fáeinum hvíldardögum kom hún sér fyrir í helli – sem blasir við manni sem lesanda sem einhvers konar bros lífsins – þar sem hún virtist hafa í hyggju að geispa golunni eftir vikulangt ráf um Reykjavíkurborg, ankannalegan ótta og uppburðarleysi sem væri fáheyrt ef við hefðum ekki lesið jafn margar skáldsögur og raun ber vitni, og hefðum ekki lifað lífi okkar með þeim hætti sem við höfum gert. Skáldsagan lagðist til svefns í formi manns sem virtist í senn aðframkominn og nægilega einfaldur til þess að verða alls ekki aðframkominn; manns sem virðist hafa ratað inn í íslenska skáldsögu um óteljandi krókaleiðir evrópskra skáldsagna á 19. og 20. öld. Eða minnir ekki söguhetjan í Hvíldardögum Braga Ólafssonar á fjölmargar bleyður úr heimsbókmenntunum, menn sem lifa í stöðugum ótta undir augnarráði annarra, eru sjúklega háðir áliti annarra og maður veigrar sér við að kalla bleyður því þær eru eins og við? Koma þeir ekki við sögu í Tvífara Dostójevskís, í Réttarhöldum Franz Kafka, og í þarsíðustu skáldsögu portúgalska rithöfundarins Jose Saramagos, Öll nöfnin, svo fáein dæmi séu nefnd, og algerlega af handahófi því þau eru svo miklu miklu fleiri. Og er ekki eitthvað ómótstæðilegt við þessar persónur, eitthvað hvað sem tengist bókmenntunum og bókmenntunum aðeins – jafnvel staffírugstu athafnamenn og hrókar alls fagnaðar á mannamótum hafa lýst því yfir að þeir samsami sig slíkum sögupersónum – ég hef heyrt það sjálfur – uppburðarleysið virðist ná til allra, heilla þá, eins og innst inni sé kjarninn til staðar, sú hugsun sem einkennir verk Braga Ólafssonar og einhverjir myndu vilja kenna við stílbragð af ódýrara taginu, og orða má til dæmis svona: það má ekkert út af bregða og þá er ég farinn í hundana, búinn að koma mér fyrir í helli á meðan tifandi gjaldmælir leigubílstjórans breytir síðustu augnablikunum í krónur. Þetta er lamandi óttinn við að hrökkva upp af standinum af minnsta tilefni, óttinn við að tilveran breytist í einu vetfangi í eitt allsherjar samsæri, smávægilegustu viðvik tútna út og verða að óyfirstíganlegum vandamálum, síminn hringir og það er eins og allur heimurinn sé á línunni, heimurinn sem guð skapaði á sex dögum. Hann hvíldi sig á þeim sjöunda á meðan allir okkar dagar eru hvíldardagar. Bleyðurnar heilla, vegna þess að þær eru eins og við og þær bíða eftir brosi lífsins sem hugsanlega bíður okkar – ef ekki í nýsnyrtu grasi, þá í helli uppi í Heiðmörk.
Hið brothætta ástand sem bókmenntirnar fjalla um er með öðrum orðum eitt helsta einkennið á verkum Braga Ólafssonar – það gefur í raun og veru auga leið, annars væri hann ekki skáld. Það lúrir undir yfirborði ljóðanna – eitthvað svakalegt bíður fyrir utan, framtíðin liggur sundurskorin í loftinu, rigningin leitar til hliðar – og stefið ágerist í prósaverkunum: „Hún er botnlaus þessi ógæfa sem fólk lendir í. Þó það versta sé ekki að deyja. Ekki endilega. Fjárhagsleg óreiða er til dæmis mun alvarlegri hlutur því hana er ekki hægt að grafa í jörðu“, segir í smásögunni Söguhetjur eða Herbergi með útsýni í sagnasafninu Nöfnin á útidyrahurðinni sem kom út árið 1996. Það hangir allt á bláþræði, það má ekkert bregða út af, við þekkjum þetta svo vel – í sömu sögu er þetta:
„Verðurðu aldrei hrædd þegar þú hugsar um blóðið sem rennur um líkama þinn? Ég fer oft að hugsa um það þegar eitthvað minnir mig á að ég er bara venjulegur maður, byggður upp á sama hátt og annað fólk, sem maður veit, að minnsta kosti grunar, að er samsett af kjöti, blóði og öðrum hlutum sem ég kæri mig ekki um að nefna. Ég verð allur máttlaus og hræddur við sjálfan mig þegar ég hugsa um þetta; ekki á þann hátt að ég óttist að ég muni sjálfur valda mér skaða heldur fæ ég á tilfinninguna að þessi mekanismi sem er að störfum inni í manni sé svo brothættur að ekkert megi út af bera án þess að maður hreinlega hrökkvi upp af. Ég verð svo viðkvæmur að næsta hugsun getur hæglega gengið af mér dauðum. Þetta er svona svipað því þegar maður stendur á ystu brún hengiflugsins við Reykjanesvita og hreinlega getur ekki ákveðið hvað maður á að gera við sig“ (Nöfnin á útidyrahurðinni, 145).
Ekkert má út af bera, rigningin leitar til hliðar... Að vissu leyti einkennast prósaverk Braga Ólafssonar af tilhliðrun, veruleikinn skekkist, en þó ekki nægilega mikið til þess að hann verði óþekkjanlegur, eða var hann ekki skakkur fyrir? Hvers vegna ákveður söguhetjan í Hvíldardögum að flýja af hólmi, koma sér burt? Enginn veit svarið en allir skilja manninn þó fullkomlega.
Rangur staður á réttum tíma
Prósaverk Braga einkennast að vissu leyti af anakronisma eða tímaskekkju, líkt og þegar Shakespeare lætur klukku slá í leikritinu um Júlíus Sesar eða þegar skotið er úr fallbyssum í Jóhanni konungi, svo vitnað sé til þekktra atriða úr heimsbókmenntunum sem hljóma svo vel í uppflettiritum. Þessi anakronismi slær mann ævinlega út af laginu og tengist þörfinni fyrir einhvers konar annarleika í samtímanum, þeirri þörf sem Bragi hefur fullnægt með súrrealískri slagsíðu í ljóðum sínum. En hann tengist líka jarðfræðilegum umrótum, plötuskilum í hugarheimi samtíma sem hugsanlega er liðinn. Líkt og í ljóðum sínum hefur Bragi í prósaverkunum sótt efni til orðræðunnar um nútímamanninn, sem ýmist ráfar hnarreistur um götur borganna, líklega svartklæddur, og rýnir í allt sem fyrir augu ber, nú eða nær hreinlega ekki fótfestu, veit ekki hvað hann á að gera við sig – framundan svimandi hengiflugið sem hvergi er þverhníptara en innra með honum sjálfum. Hjá Braga tvinnast saman annars vegar módernísk fagurfræði, nútímaleg vitund sem er kunnugleg úr bókmenntum 20. aldar og hins vegar póstmódernísk fjarlægð sem hlýtur að heilla því við þráum svo heitt að lifa lífinu laus við allan íþyngjandi farangur. Leitin að afgerandi augnablikum sem setti mark sitt á skáldsögur módernísku frumherjanna í upphafi aldarinnar, heldur áfram, bæði í ljóðum og sögum, en algleymið er orðað á nýjan hátt, á þann hátt að það hvarflar ekki að manni að leita þau uppi í veruleikanum, textinn verður að duga: „Meginatriðið verður þó alltaf að finna rétta augnablikið, rétt eins og þegar Elvin Jones, árið nítjánhundruð sextíu og eitt, sleppir einu höggi á snerilinn, bara til að koma öðru höggi á hann á röngum stað á nákvæmlega réttum tíma“ (Söguhetjur eða Herbergi með útsýni, Nöfnin á útidyrahurðinni, 148). Nútíminn er til staðar – herdeild hinna hugumstóru er enn á ferli – en hann er líka liðinn -
„Ég fór að hugsa um, í ljósi þess hvernig Bjarni orðaði athugasemd sína – sem var náttúrlega sett fram í gríni – hver sé nútímamaður og hver ekki. Ég held að ég hafi komist að þeirri niðurstöðu að ég sé það ekki. Og þegar ég leiði hugann að þessum atburðum sem ég sagði þér frá hér á undan er ég helst á þeirri skoðun að til þess að geta talist algerlega moderne þurfi maður að vera nýfæddur, svona eins til fimm daga gamall, sem sagt ekki kominn inn á heimili foreldranna. Eftir það er maður orðinn hluti af fortíðinni. Það er nú bara svo einfalt. Eða flókið. Eða eins og perluvinur minn og póstkortaskríbent, Heinz, myndi segja: Warum einfachen wenn mann komplizieren kann?“ (Nafnarnir, Nöfnin á útidyrahurðinni, 42).
Margar nótur en ekkert lag
Nöfnin á útidyrahurðinni kom út hjá bókaforlaginu Bjarti árið 1996 og hefur að geyma safn texta, sögur og jafnvel ljóð. Einhverjir myndu líklega halda því fram að í þessu verki fælist draumur um annað verk, hugsanlega óhjákvæmilega skáldsögu, og þá ef til vill minnugir orða sem persóna í einni sögunni lætur falla um hljóðfæraleik: „Ég held að ég hafi aldrei heyrt eða séð nokkurn mann spila jafnmargar nótur án þess að úr yrði lag“ (La fete continue, 69-70). Ef til vill hefur mönnum fundist sem nöfnin á hurðinni væru full mörg, en smám saman hafa þeir lært að sætta sig við bókina á hennar eigin forsendum, rétt eins og þeir sætta sig við húsnúmeraplötu sem þeir kaupa drukknir en er nú tekin að veðrast fyrir ofan dyrnar (samanber söguna/ljóðið Veður, 90). Allt hjal um Nöfnin á útidyrahurðinni sem einhvers konar millibilsverk á ferli Braga Ólafssonar, mitt á milli fjögurra ljóðabóka og einnar skáldsögu, er þó dæmt til þess að leiða mann á villigötur, og getur hæglega komið í veg fyrir að maður reki augun í klausu á borð við þessa hér – klausu sem virðist í fljótu bragði fletta ofan af sagnahöfundinum Braga: „En Nada. Þvílík snilld! Var hægt að tjá sig betur um það sem á daga mína hafði drifið? Hvers vegna hefur ekki eitthvað af svona geigvænlegu kaliberi ratað inn í bækur mínar? Nada. Ekkert. Bækur mínar eru fullar af einhverju öðru; einhverju sem skiptir ekki nokkru máli“ (Nafnarnir, 39). Segja má að verk Braga Ólafssonar sameini þetta tvennt – geigvænlegt kaliberið rennur saman við eitthvað sem skiptir alls ekki nokkru máli, en um leið öllu máli, því þau leiða okkur áður en yfir lýkur „inn í dimma hvelfinguna“ þar sem við virðum fyrir okkur „einkennilegt hellisloftið með hjálp ljóssins“ (Hvíldardagar, 191).
… geigvænlegt kaliberið, eitthvað sem skiptir ekki nokkru máli. Segja má að skáldsagan Hvíldardagar fjalli á vissan hátt um nákvæmlega það, en það er líka freistandi að segja eins og bókmenntafræðingur að hún leyni um leið á sér á einhvern undarlegan hátt, að það sé líkt og eitthvað sé ósagt og bíði þess að rísa úr djúpinu, eins og hún sé full „af einhverju öðru“. En hverju? Á sama tíma vinnur sagan gegn túlkunum sem stefna í þá átt að gera hana flóknari en hún er: að vissu leyti er sagan meiri einstæðingur en söguhetjan – á flótta sínum undan öðru fólki – vill vera, og jafnvel enn meiri einstæðingur en Nöfnin á útidyrahurðinni, sem engum hefur mér vitað tekist að koma í hús, neinstaðar, ekki einu sinni yfir eina nótt. Eitt er víst að Hvíldardagar eru í senn evrópskari og nútímalegri en flestar þær skáldsögur sem komið hafa út hér á landi á undanförnum árum: ekki endilega póstmódernískari – og þó – heldur stendur hún eins og fyrr segir nálægt ýmsum módernískum verkum sem fjalla um svipað efni. Franski rithöfundurinn Gustave Flaubert talaði einu sinni um þann draum sinn að skrifa skáldsögu um ekki neitt, Madame Bovary átti að vera slík saga, og löngu síðar skrifuðu menn í Evrópu sögur um ekki neitt, gerðu sjálfsveruna brottræka úr skáldskapnum og létu tungumálið og dragsúg þess tala eitt. Bragi gengur ekki svo langt að leysa upp hina heildstæðu vitund í Hvíldardögum, í þetta sinn er aðeins eitt nafn á útidyrahurðinni (við vitum reyndar ekki hvaða nafn það er), en um leið fær maður ekki varist þeirri hugsun að Hvíldardagar séu á sinn hátt (evrópsk) saga um ekki neitt, og því á undarlegan hátt trú módernískum uppruna sínum, sem í þessu tilfelli er ekkert sérlega hugumstór – engin herdeild hér á ferð, nei við erum stödd innan um hina uppburðarlausu og kunnum bara prýðilega við okkur. Sagan segir frá „viðburðasnauðri“ viku í lífi rúmlega þrítugs lagermanns – og fjallar að því leyti um eitthvað sem skiptir ekki nokkru máli – en það eru ekki atburðirnir sem skipta máli í þessari sögu heldur sú rödd og sú skynjun sem heldur skáldsögunni á floti, skynjun sem minnir á eitthvað brothætt, einkennist af næmni, undarlegri hamingju, sem hvorki á sér rætur í glímu við guð né djöful. Sagan rúmar einfaldlega ekki slík orð, sá farangur varð eftir einhvers staðar, guði sé lof.
Náungar af þeirri manngerð sem birtist okkur í Hvíldardögum hafa ráfað um síður evrópskra skáldsagna eins og ljóslausar hetjur í ríflega hundrað ár: þetta er „starfsmaðurinn“, sem Fjodor Dostojevskí skrifaði um í Tvífaranum, þetta er borgarbúinn sem birtist okkur í skáldsögum ítalska rithöfundarins Antonios Tabucchis, kófsveittur í Lissabon á leið til fundar við framliðið skáld. Sagan hefur þannig víðtæka skírskotun án þess að hún þykist vera flóknari en hún er. Og sem fyrr á Bragi erfitt með að gleyma módernistunum. Í Hvíldardögum er vísað í skáldsögu Guðbergs Bergssonar, Hjartað býr enn í helli sínum, þótt í litlu sé: undir lok sögunnar man söguhetjan eftir íslenskri skáldsögu sem hann hefur fengið á bókasafni fyrir mörgum árum og „sagði frá fráskildum manni sem einhverra hluta vegna eyddi nokkrum dögum á Hlemmi. Ég man að steingrá kápan sýndi mann á hlaupum“ (Hvíldardagar, 184).
Hvíldardagar kallast raunar óneitanlega á við sögu Guðbergs – báðar fjalla þær um mann sem flosnar upp og þvælist um borgina. Báðir eru þeir í þeirri lífshættu sem slíku ráfi fylgir – eða segir ekki sagan að skáldið Nerval hafi ráfað um göturnar, sviptur sjálfum sér, daginn sem hann hengdi sig! (102). Slugsið er þráðbein ávísun á andlát. Annar þeirra er í suddalegri tilvistarkrísu, til þess að gera nýskilinn og líf hans í einni óreiðu, hinn glímir hins vegar að því er séð verður ekki við nokkurn skapaðan hlut, en hefur engu að síður á tilfinningunni að hann „sé á einhvern hátt að tapa fyrir ágangi ófyrirséðra atburða og skuldbindinga“ (123), eins og segir í sögunni. Maðurinn í sögu Guðbergs situr niðurbrotinn á kolli í upphafi sögunnar, og hann langar mest til að gráta úr sér augun. Hann hefur flutt sex sinnum á því tæpa ári sem liðið er frá skilnaðinum, og er nýfluttur í enn eitt forstofuherbergið, dótið hans í hrúgu á gólfinu, endurspeglun á hans eigin sálarlífi geri ég ráð fyrir. Guðbergur er eins og svo oft í sínu höfundarverki á djúpmiðum í þessari bók: hann er í hellinum allan tímann, viðfangsefni hans er sálarlíf í nokkuð aldraðri merkingu þess orðs, maðurinn í sögunni rís úr því djúpi sem fylgt hefur sjálfsverunni allt frá því á 19. öld: fólkið sem sést sveima langt inni í helli sögunnar, líkt og lifandi skuggar, á „frummynd sína og hugarfar leynt og grafið í öðrum tíma, á öðru sviði, langt aftur í forneskju“ – þess vegna æðir það um „einmana, ruglað og sjálfu sér verst“, segir í sögu Guðbergs. Maðurinn hrekst á milli athvarfa, hann á sér felustaði víðs vegar um borgina, ömurlega og kalda – „sumar voru holur fyrir utan borgina, fjarri endastöðvum strætisvagnanna“, og það minnir okkur auðvitað á Maríuhelli, en öfugt við söguhetju Hvíldardaga vill maðurinn í sögu Guðbergs ekki hverfa sporlaust, eða eins og þar segir: „Lífið er verst af öllu og verra en dauðinn, og því vel ég það sem er verst en þó best fyrir mig. Ég leita ekki út fyrir borgina um hávetur eins og þeir sem hverfa og vilja ekki að þeir finnist aftur, hljóðir hverfa þeir sporlaust aftur til jarðarinnar. Nei, ég flý ekki í felustað dauðans af því að þar gæti ég gleymt Dóru“ (Hjartað býr enn í helli sínum, 60-61).
Hugsanir söguhetjunnar í Hvíldardögum eru ekki skýrðar í ljósi löngu liðins tíma, þær eru ekki umluktar því skammdegi sem nútíminn hefur hjúpað persónurnar í skáldsögu Guðbergs, hugarfar hennar er hvorki leynt né grafið í öðrum tíma. Maðurinn í Hvíldardögum er vissulega hundeltur af fortíð sinni, í upphafi sögunnar hlustar hann á úvarpsviðtal við gamlan skólafélaga sinn sem klífur fjöll á meðan okkar maður kippist við í hvert sinn sem síminn hringir og getur ekki ákveðið hvort hann eigi að fara útí bakarí eða vitja bílsins á Hringbrautinni, fara uppí Öskjuhlíð eða leggjast upp í sófa með endurminningar doktors Li(s). Okkur líkar þetta, við heillumst af bleyðunni. Hann hefur á tilfinningunni að hann megi ekki hreyfa sig án þess að rekast á gamlan skólafélaga, og svo rammt kveður að þessari fortíðarásókn að gamlar bekkjarsystur hans úr gagnfræðaskóla fá hann til þess að rifja upp og setja á svið atvik frá unglingsárunum, atvik sem hann man ekki einu sinni sjálfur: „Maður er aldrei öruggur. Á meðan allt virðist ætla að ganga samkvæmt því sem maður hefur ákveðið í ró og næði, er stöðugt einhver óróleg ógn sem bíður handan við hornið“ (158), – sem fyrr er ýjað að einhverju skelfilegu sem bíður fyrir utan, „Ég verð svo viðkvæmur að næsta hugsun getur hæglega gengið af mér dauðum“ (samanber fyrr). Það er hins vegar ekki fyrr en í blálok sögunnar sem Bragi hleypir okkur inn í hellinn sem þá er orðinn öðrum stöðum ákjósanlegri – hann bíður okkar eins og bros á jörðinni.
Túlkun Hvíldardaga veltur nokkuð á því hvernig við skiljum lokakafla sögunnar, eða öllu heldur, blálokin sjálf: för söguhetjunnar í leigubíl uppí Heiðmörk og hugsanlega endalok hennar í Maríuhellinum sjálfum, á meðan gjaldmælirinn tifar, og leigubílstjórinn strýkur yfirvaraskeggið með þykkum vísifingrinum. Sagan fjallar mögulega um síðustu vikuna í lífi söguhetjunnar – og sá möguleiki gefur okkur enn fremur tækifæri til að bera hana saman við skáldsögu Guðbergs sem fjallar jú um síðasta sólarhringinn í lífi hins fráskilda manns, dauðagöngu hans um borgina og lýkur með afgerandi atburði: morði!
Hvíldardögum lýkur hugsanlega með dauða, eða öllu heldur: með hugmynd um dauða. Dauði söguhetjunnar í sögulok er hugmynd hennar um dauða og er það í anda þessarar persónu sem sífellt er að velta fyrir sér ýmsum tilbrigðum við veruleikann, ekki síst tilbrigðum sem tengjast dauða og hvarfi, ekki aðeins hvarfi annars fólks heldur einnig hans sjálfs. Hann horfir á sjálfan sig deyja en deyr hugsanlega ekki – dauðinn er því fjarlægur í sögunni, á stundum er eins og söguhetjunni sé ekki alvara. Manni verður enn og aftur hugsað til orða í Nöfnunum á útidyrahurðinni: „Við sögðum ekki neitt hvert við annað og ég held að við höfum ekki minnst einu orði á dauða Hannesar fyrr en tveimur dögum seinna þegar Lydia sagði eitthvað í þá veru að hún gæti vel hugsað sér fyrir sig persónulega að deyja án þess að verða vör við það sjálf“ (La fete continue, 73). Og nú er svo komið að manni finnst sem það séu nákvæmlega Nöfnin á útidyrahurðinni sem geymi þegar upp er staðið svörin við öllum þeim spurningum sem kvikna frammi fyrir höfundarverki Braga Ólafssonar, jafnvel þótt en um leið kannski einmitt vegna þess að þau (nöfnin) gefa ekkert upp – við vitum ekkert hvað leynist bak við dyrnar, en það má búast við því að það sé eitthvað svakalegt, nýsnyrt gras hugsanlega, „í svefni undir afklæddri fjallshlíð“ (Á jarðhæð/Risið, Dragsúgur, Ljóðaúrval, 30/31).
Næsta hugsun getur hæglega gengið af mér dauðum
Hvíldardagar fjalla mögulega um þann dauða sem fer um tungumálið eins og eldur í sinu, þann dauða sem felur í sér frelsi og áhættu, þann dauða sem ljóðskáldin yrkja um þegar þau óska sér yfirdrifinna endaloka, blóðugra örlaga, líkt og þau hefðu dauðann á valdi sínu. Sagan fjallar um þann dauða sem er mögulegur – og hugsanlega getum við gengið svo langt að segja að sagan eigi uppruna sinn í slíkum dauða – fjölmargar skírskotanir til hverfulleikans benda til þess, hugleiðingar söguhetjunnar um það hvað menn skilja eftir sig að jarðlífinu loknu, það hversu varnarlaus manneskjan er – „úr fjarlægð er hún eins og maur að dunda sér við eitthvað smávægilegt og á næstu sekúndu er hún kannski dottin niður dauð; í stað þess að stigið sé ofan á hana, hrapar hún ofan af þaki eða hjartað í henni hættir skyndilega að slá“, segir á einum stað í sögunni (153). Dauðinn sjálfur er hins vegar fjarlægur, enda lýkur sögunni ekki á raunverulegum dauða heldur aðeins mögulegum – söguhetjan hefur ímyndunarafl en hún getur ekki dáið. Hún stendur á ystu brún hengiflugsins, en getur ekki ákveðið hvað hún á að gera við sig. Deyr maðurinn kannski án þess að verða var við það sjálfur? Hann getur lesið nöfnin á útidyrahurðinni – þau skelfa hann – en hann getur ekki lokið dyrunum upp – á bak við þær er stórkostlegt rými og það stækkar með hverri nýrri bók eftir Braga Ólafsson.
© Október 2001, Eiríkur Guðmundsson
‚Hetjur‘ : Handritið að innkaupalista fyrir samkvæmisleiki sendiherra í mátunarklefa fjarverandi gæludýra
Fjarlægðir eru eitt af einkennum verka Braga Ólafssonar, eða réttara sagt, það að fella fjarlægðir saman svo fínlega að textarnir kalla iðulega á endurlestur: hvernig endaði ég hér? Þrátt fyrir þetta ríkir mikil kyrrð í skrifum hans – en samt er allt á iði.
Þetta birtist vel í prósaljóðinu „Veggfóðrið úr bók Broyards“, í ljóðabókinni Öfugsnáði (2017). Þar er lýst báráttunni við það verkefni að skrifa erindi um stríð og frið fyrir hátíð í Noregi meðan veggfóður sem ljóðmælandi las um í bandarískri bók kveikir hjá honum hugmynd að smásögu. Nema ekkert gerist, hvorki smásagan né erindið fæðast, flækjum fjölgar og loks er ljóðmælandi í vanda staddur:
Þegar ég reyni sjálfur að laumast burt úr textanum (sem upphaflega átti að fjalla um stríð og frið, og gerir það núna), er einfaldlega eins og ég rekist á vegg. Og þegar ég reyni að losa sjálfan textann – þessa þröngu vistarveru sem ég hef lokað mig inni í – við lillabláar og túrkisgrænar rendurnar í pappírsáklæði Broyards, er eins og rendurnar límist enn fastar við orðin, og þeim mun fastar eftir því sem orðin verða fleiri.
Héðan verður augljóslega ekki aftur snúið.
Fjarverandi ferðalangar
Fyrsta skáldsaga Braga Ólafssonar, Hvíldardagar (1999) var dásamlegt innlegg í íslensku skáldsöguna og setti um margt tóninn fyrir þau verk sem trítluðu fram á sjónarsviðið í kjölfarið, bæði hans eigin og annarra. Henni fylgdi hann eftir með Gæludýrunum (2001), en þar byrjar höfundur að byggja upp sundurleitan sagnaheim. Bókin hefst á því að sögumaður, Emil, er að koma fljúgandi frá London, en þangað fór hann til að fagna happadrættisvinningi. Hann verður fyrir þeim kunnuglega óskunda að fá úthlutað sæti við hliðina á leiðinlegum málvísindamanni sem vill endilega halda uppi samræðum við áhugalausan Emil, en sem uppbót þá sér hann útundan sér stúlku sem hann hafði dáðst að í fjarlægð allt frá unglingsárum. Honum tekst að taka stúlkuna tali og það verður úr að hún ætlar að heimsækja hann um kvöldið. Inni á milli þeirra kafla sem lýsa flugi og heimkomu Emils eru þriðjupersónukaflar af dularfullum manni, Hávarði, sem þvælist um borgina með plastpoka. Í plastpokanum er líkan af skipi og bók. Þessi maður virðist á allan hátt hinn varhugaverðasti og það er greinilegt að hann ætlar sér að hitta Emil.
Hér er á ferðinni mjög klassísk uppbygging spennu, kunn úr glæpasögum: lesandi fylgist annarsvegar með grandvaralausu fórnarlambi og hinsvegar ógnvaldi og veit að þegar þessir tveir hittast á eitthvað vont eftir að gerast. En þegar þeim slær svo loks saman, fórnarlambinu Emil og ógnvaldinum Hávarði þá tekur atburðarásin óvænta vendingu. Eða réttara sagt, þegar þeim slær ekki saman því Emil er, líkt og sögumaður Hvíldardaga, ekki maður átaka. Hann er í raun afar átakafælinn og þykist ekki vera heima þegar Hávarður bankar uppá. Hávarður gefst ekki upp og skríður inn um eldhúsgluggann en þá bregður Emil á það ráð að fela sig undir rúmi í von um að Hávarður gefist upp og fari. Sem hann gerir auðvitað ekki. Þannig er formúlan brotin upp og fórnarlambið hittir aldrei ógnvaldinn, sem kemur ekki í veg fyrir að hann sé því skaðlegur.
Sagan er því sögð undan rúmi, en þar liggur Emil og fylgist með því sem fram fer í íbúðinni, en Hávarður býður þangað ýmsu fólki, auk þess sem vinir Emils rekast inn og stúlkan úr flugvélinni. Og hægt og hægt eykst ringulreiðin í íbúð og lífi Emils.
Undir rúminu rifjar Emil upp kynni sín af Hávarði en þeir dvöldu eitt sinn saman í London í húsi kunningja Emils og pössuðu þar hóp gæludýra, þar á meðal albínóamarsvínið Moby, kvenkanínuna Dick, og ígúanaeðluna Ahab – en örlög þeirra eru öll hin sorglegustu, líkt og örlög fyrirmyndanna.
Ármann Valur er prófarkalesari og alkóhólisti sem vaknar upp í byrjun skáldsögunnar Fjarveran (2012) og veit ekki vel hvar hann er. En mikið rétt, það rifjast upp fyrir honum að hann hafði endað í einskonar partýi kvöldið áður, eftir að hafa komið heim frá London, en þar hafði hann hitt ungan mann sem af einhverjum ástæðum tók gleraugu Ármanns heim með sér. Sá hafði svo ekki verið heima þegar Ármann Val bar að garði, en í staðinn var þar fyrir annað fólk sem hélt uppi stuði. Ármann Valur var sessunautur Emils, söguhetju Gæludýranna, og er hér orðin aðalsöguhetja Fjarverunnar sem er að einhverju leyti einskonar framhald fyrrnefndu bókarinnar (en þó ekki).
Einnig er vísað til persóna tveggja annarra skáldsagna Braga, Sendiherrans (2006) og Handritsins að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenny Alexson (2010). Ármann Valur þekkir til persóna þar og í ljós kemur að hann var kennari Sturlu, aðalsöguhetju Sendiherrans, en sá er sonur Jóns Magnússonar, annarar, eða einnar, aðalsöguhetju Handritsins. Og enn kemur hann við sögu í Stöðu pundsins (2019), en þó ekki, heldur vinur hans, tónskáldið Markús Geirharður.
Hér er því komin heilmikil flækja og það er ekki laust við að lesanda finnist höfundurinn skemmta sér ansi vel.
Fjarveran er skáldsaga í þremur hlutum, sá fyrsti gerist árið 2001 (eins og Gæludýrin), annar árið 2006 (eins og Sendiherrann og Handritið) og sá þriðji árið 2011. Sagan spannar tíu ár í lífi prófarkalesarans og fyrrum íslenskukennarans Ármanns Vals. Á þessum tíu árum gerist fátt markvert í lífi hans, en þó er nóg um uppákomur, til dæmis er nokkuð um dauðsföll, jafnvel voveifleg, sem í sjálfu sér þætti markvert í flestum greinum skáldskapar. Glæpasagan er reyndar eitt af viðfangsefnum sögunnar, líkt og hún kemur við sögu í Sendiherranum, þó ekki sem eiginlegur hluti af söguþræði eða plotti, heldur frekar sem viðfangsefni eða jafnvel einskonar stuðpúði. Því í upphafi sögunnar kemur fram að Ármann Valur býr yfir leyndarmáli. Árið 1974 hafði hann hlustað á samtal tveggja manna á skemmtistaðnum Klúbbnum, samtal sem hann taldi síðar að innihéldi mikilvægar upplýsingar sem vörðuðu hvarf Geirfinns nokkurs Einarssonar. Það er því ekkert minna en eitt frægasta sakamál Íslandssögunnar sem Bragi tekur fyrir – eða ekki.
Ármann fór aldrei til lögreglunnar með þessar upplýsingar en sagði hinsvegar vini sínum, tónskáldinu Markúsi Geirharði, frá samtalinu, en sá samdi síðan tónverk við það og var textinn lesinn þar, en Ármann hafði skrifað samtalið orðrétt upp. Líkt og í fleiri verkum Braga er hér fjallað um skáldskap og hlutverk listarinnar.
Í miðhlutanum koma Gæludýrin aftur við sögu, en þá vill svo til að Ármann fær það hlutverk að lesa yfir próförk sem er saga Emils, húsráðandans fjarverandi, sem þó var alls ekki fjarverandi, eins og lesendur muna, heldur undir rúmi. Emil hefur sem sagt skrifað bók um atburði þessa kvölds og Ármanni líst afar illa á þetta og ákveður að ráðleggja útgefandanum að hafna bókinni.
Líkt og í Gæludýrunum gengur því allt út á hluti sem gerast ekki. En eins og í ljóðinu sem vísað var til hér að ofan þá er svo margt að gerast að það hálfa hefði verið nóg, mitt í þeirri fullkomnu ördeyðu atburða sem einkenna alla ‚framvindu‘ verksins.
Sögur af skáldum og skáldaðar sögur (og jafnvel nokkur ljóð)
Þegar skáldsagan Sendiherrann, sem á titilsíðu ber undirtitilinn ljóð í óbundnu máli, kom út árið 2006 boðaði höfundur einskonar framhald þeirrar bókar, en þó var það ekki fyrr en fjórum árum síðar, 2010, sem það birtist. Á þessum árum sem liðu hefur mikið gengið á í íslensku samfélagi og því er kannski eðlilegt að verkin séu jafn ólík og raun ber vitni. En þegar grannt er skoðað má samt sjá ýmislegt í Sendiherranum sem einskonar fyrirboða þeirrar óreiðu sem magnast stöðugt í Handritinu að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenny Alexson og mögulega mætti, með góðum vilja, skoða sem afsteypu af þeirri óreiðu sem magnaðist í íslensku samfélagi þessi fjögur ár sem liðu milli sagna. Enda er eitt af þemum beggja verka það hvernig lífið hermir stöðugt eftir skáldskapnum, eða smeygir sér inn í skáldskapinn. Það líf sem birtist í skáldsögunum er auðvitað skáldað líf; og líf skálda, því aðalpersónur beggja verka eru höfundar af ýmsu tagi, ljóðskáld, rithöfundur og þýðandi, kvikmyndagerðarmaður og svo auðvitað höfundur Handritsins, sögukonan Jenný Alexson (sem reyndar er einnig glæpasagnahöfundur). Eða eins og segir um Örn í Handritinu: „það kemur honum síður en svo á óvart að hans eigið líf elti eitthvað í þeim skáldskap sem honum er efst í huga í augnablikinu; slíkt virðist fremur regla en undantekning - og í huga hans helsta notagildi skáldskaparins: að styðja við lífið í því verkefni að hanna atburðarás þess“ (58).
Umfjöllun um skáldskap er því meðal þess sem bindur skáldsögurnar tvær, ekki síður en sameiginlegt persónugallerí, en hluti persóna Handritsins hefur áður verið nefndur í Sendiherranum. Aðalpersóna Sendiherrans er ljóðskáldið Sturla Jón Jónsson, en hann er utan sviðs í Handritinu. Þar eru þeir faðir Sturlu Jóns, Jón Magnússon og félagi hans Örn Featherby aðalpersónurnar, auk þess sem sögukonan Jenný Alexson minnir í sífellu á sig.
Bragi hnýtir ofurlítið í gróðærið í Sendiherranum (meðal annars verða kaup ljóðskáldsins á rándýrum frakka í einni fínustu herrafataverslun bæjarins ákaflega táknræn í því samhengi) og heldur svo áfram að leika sér með þann þráð í Handritinu. Þetta kemur meðal annars fram í óvæntum áhuga lyfsalans nýríka Alfreðs Leó Thorarensen á að framleiða kvikmynd eftir tvo hálf útbrunna kalla sem engan feril eiga að baki á þessu sviði; sá áhugi á reyndar síðan eftir að fjara út.
Sendiherrann og Handritið eiga það sameiginlegt að vera skáldsögur sem fjalla um sköpun annars skáldskapar, nánar tiltekið ljóða- og kvikmyndahandrita. Sem slíkar eru þær því að einhverju leyti margfætlur og bera einkenni þessara forma. Handritið er mjög myndræn bók, bæði hvað varðar lýsingar á kvikmyndahandritinu sjálfu og þá sérstaklega það hvernig þeir félagar ímynda sér að hinn heimsfrægi aðalleikari kvikmyndarinnar sjái fyrir sér atburði í kvikmyndahandriti sem hann kemur aldrei til með að leika í, því kvikmyndahandritið fjallar um dauða hans eftir að hann lendir í uppnámi á veitingahúsi áður en kvikmyndunin hefst. Ennfremur ‚sér’ sögukonan Jenný Alexson ýmsa atburði ‚fyrir sér’ og þannig er hinn myndræni þáttur ítrekaður. Ljóðið er hinsvegar fyrst og fremst til umræðu í Sendiherranum. Einnig mætti hugsa sér að skáldsagan virki líkt og ljóð í óbundnu máli að því leyti að þar á sér stað stöðug frestun, en sagan segir í stuttu máli frá því hvernig Sturla Jón fer ekki á ljóðahátíðina sem hann hefur þó ferðast alla leið til Litháen til að sækja. Sömuleiðis forðast hann að takast á við ýmislegt sem kemur upp í þessari stuttu heimsókn til Litháen, svo sem að þegar frakka hans er stolið stelur hann bara öðrum frakka í staðinn og að það kemst upp að handritið að nýjustu ljóðabók hans er stolið. Loks forðast hann svo að koma heim.
Segja mætti því að skáldsagan Sendiherrann fjalli öðrum þræði um það hvernig ber að forðast söguþráð eða sögufléttu, með því að hörfa skipulega undan öllu því sem gefur til kynna rökrétta framvindu og ríghalda sér í það að standa í stað, jafnvel fara afturábak, sniðganga atburði sem kalla á átök og halla sér að flöskunni ef allt annað þrýtur.
Að þessu leyti minnir Sendiherrann á fyrri bækur Braga. Í þriðju skáldsögunni, Samkvæmisleikjum (2004), ber einnig nokkuð á þessari tilhneigingu aðalpersónunnar, en hún er þó orðin nokkuð ólík þeim fyrri, bæði meiri um sig og myrkari. Persónur Handritsins eru kannski ekki alveg jafn átakafælnar og Sturla Jón og aðrar fyrri persónur Braga, þótt vissulega forðist þær markvisst að takast á við aðsteðjandi verkefni, eins og það að gera upp föðurarfinn og skrifa kvikmyndahandritið. Hinsvegar hefur frestunin – eða hikið – heltekið textann, sjálfa frásögnina, sem skríður stöðugt undan öllum tilraunum til að ná taki á atburðum bókarinnar.
Sturla Jón hefur þó tekið mikilvæga ákvörðun í Sendiherranum. Hann ætlar að hætta að skrifa ljóð og snúa sér alfarið að prósaskrifum. Upphafsatriði bókarinnar vísar til þessarar ákvörðunar, en þar er ljóðskáldið fráfarandi að kaupa sér nýjan frakka. Sú athöfn verður ákaflega táknræn en í skáldskap má finna dæmi um það hvernig frakkinn er tákn eiganda síns, eða þeirrar persónu sem klæðist honum. Þekktust er líklega saga Gogols, „Kápan”, en á einum stað nefnir Sturla einmitt Pétursborgarsögur Gogols. Samt lætur Sturla Jón svo lítið að fara á ljóðahátíð sem honum er boðið á í litlu heilsulindarþorpi nærri Vilníus, höfuðborg Litháen. Inn í söguna blandast minningar Sturlu Jóns um látinn frænda sinn, Jónas Hallmundsson, en sá hafði fargað sér ungur að aldri og áfengissjúkur. Ástæðan fyrir þessum minningum um Jónas verður ljós þegar á líður söguna en þegar Sturla er kominn til Vilníus segir faðir hans, Jón Magnússon, syni sínum frá því að fram hafi komið ásakanir um að ljóðabók Sturlu Jóns, fullyrðingar, sé stolin, að mestu byggð á óútgefnu handriti Jónasar.
Miðað við fyrri skáldsögur Braga er Handritið óvenju innihaldsrík af söguþráðum og plottum, þó að ekkert þessa leiði sérstaklega til eins eða neins, enda sjálfsagt aldrei markmiðið.
Handritið er, eins og áður sagði, einskonar framhald af Sendiherranum. Í grunninn er sagan einföld, tveir tæplega sjötugir karlar sigla til Hull að sækja föðurarf annars og skrifa kvikmyndahandrit. Þó er ekkert einfalt við Handritið, eins og kemur strax í ljós í titlinum, því hér hefur sú list að forðast framvindu sem einkenndi Sendiherrann tekið á sig alveg nýja mynd í krafti sögukonunnar Jenný Alexson sem virðist ómögulegt að halda sig við efnið og fyllir söguna linnulausum útúrdúrum, sem stundum eru útúrdúrar úr útúrdúrum. Þar kemur saga hennar þónokkuð við sögu. Faðir hennar, sem var sendiherra (!), hafði átt nokkur samskipti við föður Arnar, Englendinginn Chas Featherby, og svo segir hún sögur af sér og drykkfelldum sambýlismanni sínum, Þorbirni Gesti.
Eitt af því sem gerir söguna ævintýralega er að það er ekki einu sinni alveg ljóst hver er höfundur hennar, eða réttara sagt, hver segir hana, hverjum og hversvegna. Þó eru í það minnsta tveir höfundar skrifaðir fyrir henni, Jenný Alexson og Bragi Ólafsson.
Þessar vangaveltur um skáldskap og listir eru í raun í tveimur lögum, bæði innan og utan sagnanna: hver er til dæmis staða Fjarverunnar í höfundarverki Braga? Þegar Handritið kom út lýsti hann því yfir að hún væri hluti af fjórleik. Er Fjarveran þá þriðja bókin í þeim fjórleik? Eða jafnvel sú fjórða, því kannski er Gæludýrin sú fyrsta, og Bragi hefur bara haldið því leyndu hingað til? Og hvernig er þetta yfirleitt með höfundarverk, taka þau á sig einskonar sjálfstætt líf þegar persónur ganga ljósum logum á milli þeirra?
‚Hetjur‘ og tilfinning fyrir efa
Líkt og í Handritinu er alveg svakalega mikið að gerast í skáldsögu Braga Ólafssonar, Staða pundsins. Þetta kemur hvað helst fram í því að í sögunni er framið morð, aðalpersónurnar lenda í hættulegum aðstæðum, ættingi deyr óvænt og það verða vatnaskil í lífi þeirra. Auk þessa má nefna að áður en sagan hefst hafa verið framin tvö sjálfsmorð og annað morð, einnig hefur mögulega átt sér stað kynferðisleg misnotkun á barni. Allt eru þetta þekktir dramatískir atburðir í skáldsögu, en líkt og í Fjarverunni verða þeir að hálfgerðum aukaatriðum, gerast ‚utan sviðsins‘, eru stundum bara nefndir í framhjáhlaupi og fá í það heila lítið rými í sögunni, miðað við, til dæmis, stöðu pundsins, sem er síbreytileg og birtist í kaflafyrirsögnum.
Undirtitillinn, Sjálfsævisaga, en ekki mín eigin, dregur strax athyglina að höfundinum sjálfum, Braga Ólafssyni, sem er þekktur fyrir að hafa spilað með hljómsveitunum Purrki Pillnikk og Sykurmolunum. Hann er fæddur árið 1962 og er því árið 1976 á sama aldri og ein aðalsöguhetja Stöðu pundsins, Sigurvin, það er; fjórtán ára.
Í viðtölum við Braga kom fram að skáldsagan hafi upphaflega átt að heita ‚Hetjur‘. Hetjurnar sem um ræðir eru tilvísun í samnefnda hljómplötu og lag eftir David Bowie, en tónlist hans ómar víða, auk þess sem annað tengt tónlist hans – og þá sérstaklega Berlínar-plötunum tveimur, „Heroes“ og Low – dúkkar reglulega upp í sögunni, sérstaklega í lokahlutanum. Hetjurnar eru svo auðvitað líka söguhetjurnar sem söguhetjunni sjálfri finnst ‚einkennileg smíð‘: „Furðulegt orð sem íslenskan hefur komið sér upp – orðið söguhetja. Einkennileg smíð, rétt eins og orðið sjálfsvíg“ (232). Söguhetjan heitir Mjaðveig en er alltaf kölluð Madda. Saga pundsins er að mestu leyti hennar saga, að hluta til byggð á dagbókarskrifum, að hluta til í upprifjunum, vangaveltum og ímynduðum samtölum sem ekki er alltaf auðvelt að átta sig á ‚hver‘ segir. Að þessu leyti minnir frásagnaraðferð Stöðu pundsins á Handritið, en þar er einnig ruglað í því hver segir hvaða sögu, og hvenær, jafnvel hvort, eins og kemur fram í endalausum inngripum Jenny Alexson. Madda er þó ‚vitundamiðja‘ bókarinnar, líkt og frú Ramsay í To the Lighthouse eftir Virginiu Woolf, sem Madda les, á ensku.
Staða pundsins gerist að mestu árin 1976 og 1977, og svo fjörutíu árum síðar, 2017. Önnur aðalpersóna – eða ‚hetja‘ – er sonur Möddu, Sigurvin. Mæðginin eru að jafna sig eftir fráfall Sigurvins eldri, sem er alltaf kallaður Eldri, en hann framdi (misheppnað) sjálfsmorð.
Sagan segir frá því að Sigurvin yngri fær í hendur innkaupalista yfir hljómplötur sem þau mæðginin leggjast yfir og leggja í kjölfarið í að panta plötur frá Bretlandi með aðstoð Tómasar frænda, eða ‚major Tom‘, sem vinnur í banka og hjálpar til með gjaldeyrinn – þess vegna er staða pundsins mikilvæg. Jafnframt þessu skipuleggja þau ferð til Bretlands að heimsækja gamlan vin Eldra sem rekur stjórnleysingjakommúnu á sveitabýli. Viðfangsefnið er því einskonar tónlistarleg vakning, ekki síður móðurinnar en sonarins, því hún hlustar á plöturnar þegar drengurinn er ekki heima. Umræður um tónlist, tónlistarmenn og ekki síst efnislegt form tónlistarinnar, kassettur, vínilplötur og umslög utanum þær, með tilheyrandi mynd- og lesefni, eru yfir og allt um kring. Inn í þetta blandast minningar og endurlit af ýmsu tagi, meðal annars margt sem tengist Eldra og gefur ekki af honum góða mynd.
Ættingjar og vinkonur koma víða við, auk nágranna. Meðal annars er vísað til persóna sem koma fyrir í öðrum sögum Braga og þá sérstaklega fyrrnefnds tónskálds Markúsar Geirharðs. Og loks er menningarlandslag áranna tveggja mikilvægt, þarna undir lok áttunda áratugarins þegar svo margt var að gerast og gerjast í menningu og listalífi - meðal annars í menningar- og listalífi Braga sjálfs.
Eitthvað krípí
Sá óhugnaður sem er undirliggjandi í Gæludýrunum og drepur víða niður fæti í öðrum verkum er mest áberandi í Samkvæmisleikjum (2004), þriðju skáldsögu Braga. Skert siðgæði sem einkennir sumar persónur hans – kannski sérstaklega ljóðaþjófinn Sturlu – er hér öllu harkalegra. Á ýmsan hátt virkar sagan einnig sem framhald af Gæludýrunum, því hún fjallar líka um partý, þó þar sé gestgjafinn reyndar til staðar, enda er hann að halda upp á þrítugsafmælið sitt. Friðbert býr við Hringbraut, nánar tiltekið í sömu íbúð og Þórbergur Þórðarson átti einu sinni heima í. Veislan er miðpunktur sögunnar en inn í frásagnir af henni blandast lýsingar sem ekki er alltaf gott að átta sig á – reyndar hefst sagan á einni slíkri sem setur tóninn: „Eins og allir aðrir hlutir – og allt fólk – kemur brúðan innan úr myrkrinu“ (5). Í framhaldi kemur lýsing á leikfangi sem er bæði sjúskað og upptrekkt og gefur til kynna saklausa heimsmynd sem er á einhvern hátt sködduð.
Friðbert leigir íbúðina af vinkonu sinni sem hafði áður verið óheppin með leigjendur. Hún er reyndar líka óheppin með vini, og í það heila gengur frásögnin út á að undir niðri er eitthvað rotið og spillt. Fyrrum leigjandinn ber illan hug til bæði leigusala síns og Friðberts, en fyrir tilviljun rekst sá síðarnefndi á félaga leigjandans sem ganga í skrokk á honum og drepa hann næstum. Fyrst halda þeir honum föngnum og yfirheyra hann í óhugnanlegum senum sem minna nokkuð á lýsinguna á upptrekkta leikfanginu. Öfugt við aðrar sögur Braga eru glæpirnir hér mun meira í forgrunni, ofbeldið er af ýmsu tagi og eykst stöðugt eins og fyrir einhvern ókennilegan veldisvöxt.
Líkt og í fyrri skáldsögunum tveimur einkennast Samkvæmisleikir af nákvæmum lýsingum, ekki síst á umhverfi og götum. Þessi miðbæjarlýsing er ítarleg og afar ruglandi. Götuheiti, horn, hægri og vinstri, skrefafjöldi, kennileiti, allt hjálpast þetta að við að teikna upp nákvæmt svið sem ekki er nokkur leið að rata um – svona dálítið eins og í ljóðinu „Vegfarendur“ (Klink 1995) þar sem ljóðmælandi hefur í „rúman stundarfjórðung“ reynt að lýsa „leiðinni frá Ingólfsstræti að Nönnugötu“. Eistneski ferðalangurinn sem hafði gert þau mistök að spyrja til vegar getur ekki orða bundist :„„Hvað þér skynjið umhverfið á skringilegan hátt““. Þessi umhverfisskynjun er ríkjandi í seinni sögum Braga og leikur æ mikilvægara hlutverk í verkum hans, ekki síst þar sem hann lýsir horfinni borgarmynd því það tímabil sem bækur hans ná yfir er jafnframt tími mikilla umbreytinga á reykvísku landslagi.
Samskonar flakk um götur borgarinnar einkennir Sögumann (2015), sem er líka óþægileg saga af óþægilegum manni, en hún lýsir einkennilegri eftirför um miðbæ Reykjavíkur. Bókin kallast á við ýmis önnur verk höfundar, aðalsöguhetjan G. er haldin þráhyggju gagnvart konu sem hann þekkir lítið, auk þess sem hann er stöðugt á leiðinni að fara að setja umslag með handriti í póst. Þetta handrit er að öllum (ó)líkindum handritið að Sögumanninum og minnir vafstrið með umslagið nokkuð á samspil Gæludýranna og Fjarverunnar. Líkt og í Samkvæmisleikjum er engu sakleysi fyrir að fara, sá sem er eltur er eiturlyfjasali og kemur við á vafasömum börum til að stunda viðskipti sín. Inni á milli á talar G. við móður sína sem og rekur erindi fyrir hana, en samband þeirra virðist ekki mjög heilbrigt heldur. Sögumaðurinn gerist í sama heimi og margar hinnar sagnanna, en G. rifjar upp atvik á veitingahúsi sem nefnt er í Sendiherranum og Handritinu.
Bækur Braga einkennast því af stöðugu samtali milli verka, en ekki síður af stöðugu samtali við önnur verk, aðallega þó bókmenntir og tónlist. Nafn G. vísar greinilega til sögupersónu Franz Kafka í Réttarhöldunum, K. Auk þess er kvikmyndin La Grande Bouffe (1973) fyrirferðarmikil, en Aron fer í bíó og G. á eftir honum. Tilvísanir og textatengsl Braga eru, líkt og leiðarlýsingar hans, dæmdar til að fara með lesendur í undarleg ferðalög sem ekki er endilega víst að endi á Nönnugötu.
Nokkrar línur og yfirskrift
Það eru ekki bara leiðarlýsingar sem afvegaleiða í verkum Braga, samskipti almennt eru oft og iðulega flókið mál. Leiðinlegir viðmælendur eru áberandi, að ekki sé talað um misvísandi upplýsingar og almennan misskilning. Þessi skortur á samskiptaleysi er kjörið viðfangsefni í leikrit. Húmor er eitt aðaleinkenni leikrita Braga, rugl og misskilningur hrúgast upp og fljótlega (jafnvel allt frá upphafi) veit enginn sitt rjúkandi ráð. Hér má nefna Augnrannsóknina, útvarpsleikrit frá 2001, sviðsverkin Belgíska Kongó og Hænuungana (2004 og 2010) og Maður að mínu skapi (2013), en þar má einnig finna samskonar undirtóna óhugnaðar og í mörgum fyrri verkum. Útvarpsleikritið Gestabókin (2013/2014) hangir saman við fyrrnefnda sögusamfellu, en þar tekur Þorbjörn Gestur, sambýlismaður Jennýar Axelson, sig til og skrifar í gestabókina fyrir hönd næstu gesta, sem eru samkennari hans og fjölskylda. Þorbjörn er strandaglópur eftir að Jenný hafði yfirgefið bústaðinn í fússi, en er sem betur fer ekki áfengislaus og bera skrifin því fagurt vitni.
Smásagnasafnið Við hinir einkennisklæddu (2003) sver sig mjög í ætt við ljóð Braga, en sögurnar eru margar stuttar og í ætt við prósaljóð hans. Hér má finna minningar, myndbrot og undarlegar uppákomur, að ekki sé talað um ævintýri og óminni.
Bragi hóf sinn rithöfundaferil sem ljóðskáld. Eftir að hafa hallað sér um stund að skáldsögunni fór hann að starfa meira í því að rugla í ljóðinu, fyrst með innkaupalista, Innkaupalisti fyrir Kaupmannahöfn (2004), sem var gefinn út í tilefni af sýningu um Smekkleysu þar sama ár. Seinna kom svo Innkaupalisti fyrir Kraká (2013).
Þessir innkaupalistar eru, eins og ætti ekki að koma á óvart, afar sundurleitir. Þar er farið vítt og breytt um sögu og slóðir borganna. Í Kaupmannahöfn kemur Friðrik níundi Danakonungur nokkuð við sögu, en höfundur ætlar sér að skrifa texta um hann. Vinnutitillinn er: „Friðrik níundi Danakonungur lagður í einelti, rúmlega þrjátíu árum eftir dauða hans“, þrátt fyrir að heimili konungs virðist þægilegt og ekkert bendi til þess „að aðrir fjölskyldumeðlimir eða starfsfólk í höllinni hafi verið að leggja hann sérstaklega mikið í einelti“. Líkt og í leikritunum nýtur húmor höfundar sín sérlega vel í þessum textum, enda er Braga einkar vel lagið að taka það sem er ómerkilegt og gera úr því veislu.
Næsta tilraun nefnist Fjórar línur og titill (2006) og henni var fylgt eftir með Mátunarklefanum og öðrum myndum (2007). Fjórar línur og titil má skoða sem einskonar tilbrigði við stökur og hækur, en allt á forsendum Braga. Hér nýtur sín vel hin sérstæða sýn skáldsins á hversdaginn, til að mynda í óvæntum fundi við önd á göngustíg við Hljómskálann: „Við göngum saman stundarkorn / og eitt andartak upplifi ég sjálfan mig sem ljóðskáld.” Mögulega er þetta vegna áhrifa frá „Jónasi Hallgrímssyni, standmynd” sem trónir nærri stígnum, en sá er titill fjórlínunnar. Í Mátunarklefanum eru prósaljóð eða einskonar örsögur – áherslan er á hið myndræna, enda er bókin samstarfsverkefni Braga og vinar hans og samstarfsmanns til margra áratuga, Einars Arnar Benediktssonar. Bragi bregður upp myndum úr borgarlífinu, bæði í nútíð og fortíð, meðal annars af „Bögglapóststofunni, Tryggvagötu“. Þar voru stórir gluggar og „gat hver sá sem kom inn af götunni, Geirsgötumegin, fylgst með“ starfsmönnum. „Hann gat horft á Óskar H. Hjálmarssonar með koníakspela í útréttri annari hendinni, sígarettu í hinni, Þórarin Völundarson og Bjarna Ingason á spjalli um Heinrich Böll, Cæsar Jón Þorvarðarson rétta mér hinn koníakspelann sem Bjarni hafði keypt, og mig sjálfan á sama augnabliki stinga norskri reykjarpípu ofan í skrjáfandi umslag með Sweet Dublin-tóbaki.“
Þessi myndræna sýn, þar sem augnablikið er ekki aðeins fangað, heldur tekur það á sig sjálfstætt líf er einkenni ljóða Braga og eitt af því sem gerir þau svo ævintýraleg, skáldið leikur sér að því að afvegaleiða lesandann, jafnvel í einföldustu myndum.
Í ljóðabókinni Rómantískt andrúmsloft (2012) er Bragi sem fyrr fundvís á þau augnablik lífsins sem eru í senn bæði ómerkileg og gagnslaus. Myndmálið gerir það að verkum að við leggjum stöðugt lykkjur á leið okkar og erum iðulega skyndilega stödd einhversstaðar allt annarsstaðar en þar sem við lögðum upp í ferðina. „Æskuminning“ er einmitt eitt af þannig ljóðum, en það hefst með orðunum: „Við að keyra inn á tvöfalda stæðið / norðanmegin við húsið, / eftir tveggja klukkustunda fjarveru frá heimilinu, / kemur minningin upp í hugann.“ Minningin fer með okkur inn í annan bíl, að morgunlagi í janúar, en ljóðmælandi er greinilega unglingur á leið í skólann, foreldrar hans keyra hann. Ljóðmælanda er kalt, hann er ekki „klæddur fyrir þann vetur / sem geisar í minningu um gamlan tíma.“ En svo skipast veður skjótt í lofti, „En nú er sumar. Nú er sumarið liðið. / Það er komið haust. Og það er hlýtt.“ Árstíðirnar líða hratt framhjá en samt virðumst við enn stödd á bílastæðinu. Í ljós kemur að ljóðmælandi „man ekki neitt, enda búinn að vera / í heimsókn hjá hálfníræðri konu / tvær síðustu klukkustundirnar – konu / sem allt man.“ Og með það erum við aftur komin í æskuminninguna um „þennan löngu liðna vetrardag“ og ljóðmælandi er klæddur í flauelsjakka af frænda sínum, „þeim sem ég veit að var aldrei til, // sem var aðeins hugarburður foreldra minna.“ Minningin hefur breyst í hugarburð sem, eftir viðkomu á bílastæðinu á ný, verður enn meira knýjandi, því „Ég er / hugarburður foreldra minna. Ég sit // í aftursæti appelsínugula fjölskyldubílsins, / þessa bíls sem einnig er ímyndun pabba og mömmu; / þau eru á leiðinni í einhverja vinnu / sem þau vita – jafn vel og ég, sem veit // að ekki ber að hafa orð á því - / að hefur enga merkingu í raunveruleikanum.“ Við erum aftur komin á bílastæðið, en inni á milli hugarburða er ljóðmælandi kominn inn í húsið, horfir út um glugga og sér að „tréð yfir bílastæðinu hefur fengið lögun manns / í djúpum efnahagsþrengingum.“ Það er ennþá haust, bara svona svo það sé á hreinu. Svo „líða fjörutíu til fimmtíu ár. / Kínverska sendiráðið flytur í stærra húsnæði, / og það er í minningunni, hinum eina áþreifanlega / raunveruleika raunverulegs manns, // sem foreldrar mínir sitja í framsætinu, og ég / fyrir aftan þau: í aftursætinu. Kínamennirnir / ekki enn búnir að fylla upp í það pláss / sem er ónýtt.“
Á þennan hátt byggir Bragi upp fjölmörg lög andstæðra merkinga sem takast á og hlaðast upp án röklegs samhengis annars en þess sem myndmálið kallar fram, og þá ekki alltaf einu sinni með skipulegum hætti. Yfirlýsingin um að minningin sé eini áþreifanlegi raunveruleikinn vísar væntanlega til þess að allt sé þetta hugarburður og að auki er allsendis óljóst hvernig sagan hófst, þar sem tímasetningum, að ekki sé talað um árstíðunum, ber ekki saman.
Ljóðabókin Öfugsnáði (2017) er á sama hátt stef við tíma og rúm, eins og fram kom hér að ofan. Eins og áður segir er eitt helsta einkenni verka Braga að smíða heilmiklar og flóknar byggingar úr engu – og í engu. Það þýðir þó ekki að verkin fjalli ekki um neitt, þó þau geri það reyndar að vissu leyti, heldur fela þau í sér stöðuga frestun, höfnun á söguþræði eða plotti, atburðarás og sérstaklega endum, lokun, eða því sem nefnt hefur verið ‚að hnýta saman enda‘. Jafnframt þessu eru söguþræðir bókstaflega úti um allt og atburðarásirnar svo víðfemar að þær ná yfir upphaf og endi heimsins, eins og birtist í ljóðinu „Við Suðurgötu“. Þar situr ljóðmælandi úti í garði og sólin skín. Á borðinu er blað sem vatnskanna ver gegn vindum. Nema þegar hann fær sér vatn grípur golan blaðið „til að lesa“:
Ég horfi á eftir henni fara með það burt,
en næ að lesa nokkur orð
yfir axlirnar á henni
áður en himinninn hverfur
bakvið þéttskrifaðar síðurnar
Hann gluggar í nokkrar fréttir en átti eftir að lesa „Fréttina um endalok heimsins“, því hún var aðeins innar í blaðinu. En hann þarf ekki að lesa hana, því hann „veit um hvað hún fjallaði: // hún fjallaði um endalok heimsins.“
Bjart skin sólarinnar „lýsir upp allt // sem er framundan“ og gefur þannig til kynna mögulegar og stórfenglegar hamfarir og golan líkamnast og blaðið fyllir út í heiminn með sínum stanslausu fréttum af hörmungum. En allt byrjar þetta með ljúfri kyrramynd við Suðurgötuna, „Til að blaðið fjúki ekki / af borðinu úti í garði /set ég hálffulla vatnskönnuna ofan á það.“
Þannig blæs andartakið út og fyllir út í allkonar form, hið efnislega verður gagnsætt og hið óáþreifanlega límir sig fastar og fastar.
úlfhildur dagsdóttir, október 2020
Greinar
Viðtöl
Auður Aðalsteinsdóttir: „Boðskapurinn er ekki uppbyggilegur“ (viðtal)
Spássían 2013, 4. árg., vor/sumar, bls. 27-31.
Um einstök verk
Ansjósur
Silja Aðalsteinsdóttir: „Hið skjálfandi samhengi“
Tímarit Máls og menningar, 53. árg. ; 2.tbl. 1992, s. 105-107
Fjarveran
Auður Aðalsteinsdóttir: „Daufir karlar með sölnaða ritvélarborða“
Spássían 2013, 4. árg., vor/sumar, bls. 16-22.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Fögnuður prófarkanna“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Fjórar línur og titill
Guðbergur Bergsson: „Umsagnir um bækur“
Stína, 2007; 2 (1): s. 155-157
Úlfhildur Dagsdóttir: „Bragi Ólafsson: Fjórar línur og titill og Óskar Árni Óskarsson: Ráð við hversdagslegum uppákomum“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Glerborgin (þýðing)
Brynja Þorgeirsdóttir: „Rýnt í íslensku þýðinguna á The New York Trilogy“
Jón á Bægisá, 5. hefti 2005, s. 5-12
Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson
Úlfhildur Dagsdóttir: „Óreiðan magnast“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Hvíldardagar
Árni Óskarsson: „Launstafir einmanaleikans“
Tímarit Máls og menningar, 61. árg. ; 2. tbl. 2000, s. 106-109
Mátunarklefinn og aðrar myndir
Úlfhildur Dagsdóttir: „Sjónvilltar myndir“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Rómantískt andrúmsloft
Kormákur Bragason: „Bókmenntaspjall : Kormákur Bragason fjallar um bækur“ (ritdómur)
Stína 2013, 8. árg., 1. tbl. bls. 164-172.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Lykkjur á leiðinni“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Samkvæmisleikir
Davíð Stefánsson: „Reimleikar í völundarhúsi“
Tímarit Máls og menningar, 66. árg,, 1. tbl. 2005, s. 107-110
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Viðburðir í Vesturbænum“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Sendiherrann
Þorgerður E. Sigurðardóttir: „Skáldskapurinn og lygin“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Ása Helga Hjörleifsdóttir: „Skáldsaga í forgarði sköpunar“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 68. árg., 2. tbl. 2007, s. 123-127
Sendiherrann og Handritið að kvikmynd ...
Úlfhildur Dagsdóttir: „Sögur af skáldum og skáldaðar sögur“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2011, 72. árg., 2. tbl. bls. 117-126.
Sjónvillur
Úlfhildur Dagsdóttir: „Sjónvilltar myndir“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Sögumaður
Már Másson Maack: „Sögumaður“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Við hinir einkennisklæddu
Jón Ólafsson: „Sjónhverfingar, syndir og hverfull veruleiki: um bækur Svörtu línunnar
Ritið, tímarit Hugvísindastofnunnar. 3. hefti 2003, s. 135-151
Öfugsnáði
Úlfhildur Dagsdóttir: „Endalok heimsins og annað smálegt“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Greinar og viðtöl við Braga Ólafsson hafa einnig birst í dagblöðum, sjá t.d. Gagnasafn Morgunblaðsins
Verðlaun
2006 – Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana: Sendiherrann (sem besta skáldsaga ársins)
2005 – Viðurkenning Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins
2005 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Samkvæmisleikir
2004 – Leikritasamkeppni á vegum Leikfélags Reykjavíkur: Belgíska Kongó
1995 – Fyrstu verðlaun í leikritasamkeppni RÚV, Leikskáldafélagsins og Rithöfundasambands Íslands: Útvarpsleikritið Sumardagurinn fyrsti
Tilnefningar
2019 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Staða pundsins
2017 – Íslensku þýðingaverðlaunin: Neyðarútgangur eftir Ewu Lipsku (ásamt Áslaugu Agnarsdóttur, Magnúsi Sigurðssyni, Olgu Hołowniu og Óskari Árna Óskarssyni)
2010 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson
2008 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Sendiherrann
2006 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Sendiherrann
2001 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Gæludýrin
1999 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Hvíldardagar
1999 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Hvíldardagar
Innanríkið - Alexíus
Lesa meiraÞótt ég færi mig núna aftur yfir á Skólavörðustíg verður svolítil bið á því að hávaxni maðurinn í dyragættinni stígi aftur inn í frásögnina. Mér finnst líka rétt að láta vita - til að kalla ekki á of miklar væntingar - að maðurinn mun ekki "stíga inn" í svefnherbergið, ekki í þeim skilningi að fætur hans taki skrefið.Út úr mátunarklefanum
Lesa meiraMeð Út úr mátunarklefanum má segja að höfundarnir séu endanlega komnir út úr klefanum, eftir að hafa tekið sér góðan tíma til að velja sér viðeigandi búning.Gegn gangi leiksins
Lesa meiraSjö ár eru liðin frá því ljóðskáldið Svanur Bergmundsson losnaði úr klefa sínum á Litla-Hrauni, eftir að hafa afplánað dóm fyrir manndráp.Staða pundsins
Lesa meiraLífsgæðin
Lesa meiraNarrator
Lesa meiraÖfugsnáði
Lesa meiraSögumaður
Lesa meiraAmbasadorot
Lesa meira
Neyðarútgangur: ljóðaúrval 1967-2015
Lesa meiraMax Jacob
Lesa meiraGlerborgin
Lesa meira