Beint í efni

Fjórar þýddar fantasíur

Fjórar þýddar fantasíur
Höfundur
G.P. Taylor
Útgefandi
hljóðbók.is
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Fjórar þýddar fantasíur
Höfundur
Isabel Allende
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Fjórar þýddar fantasíur
Höfundur
Celia Rees
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Akranes
Ár
2006
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Fjórar þýddar fantasíur
Höfundur
Kenneth Oppel
Útgefandi
Græna húsið
Staður
Garðabær
Ár
2006
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Þegar kemur að svokölluðum tegundabókmenntum (genre), er viðkvæðið oft að þær séu allar eins, að þetta séu fyrirsjáanlegar formúlubókmenntir sem hafi það fyrst og fremst að markmiði sínu að bjóða lesanda uppá einskonar veruleikaflótta. Þessi hugmynd um veruleikaflóttann hefur sérstaklega loðað við fantasíur, á þeim forsendum að í fantasíunni sé fjallað um heima sem eiga fátt skylt með daglegum veruleika hins almenna lesanda. Á sama hátt er gert ráð fyrir að allar fantasíur séu álíkar, fjalli um ævintýri, hetjur, dreka, galdra og illvætti. Vissulega má finna marga þessara þátta í flestum fantasíum en það kemur þó ekki í veg fyrir að þær geti verið gerólíkar innbyrðis. Þær fjórar bækur sem hér eru til umfjöllunar eru gott dæmi um það hversu fantasíur geta verið margbreytilegar, svo að ef mér þætti ekki svona vænt um orðið fantasía þá þætti mér varasamt að flokka svo ólíkar bækur undir þeim eina þætti.

Skuggahirðir (Hljóðbókaútgáfan, 2006) breska prestsins G.P. Taylors gerist á átjándu öld á Englandi og segir frá því að prestur nokkur hefur snúið til hins illa. Hann heldur fólki í ánauð í námavinnu en gróðinn nægir honum ekki því hann dreymir um að kalla fram fullkomna illsku og láta myrkrið ríkja á jörðinni. Ungur drengur, Tómas, og vinkona hans Kata komast að því að ekki er allt með felldu hjá prestinum og í félagi við hinn dularfulla Rapha frá Afríku reyna þau að berjast gegn hinu illa. Við sögu kemur verndargripur nokkur, sem er illa prestinum nauðsynlegur til að fremja glæpi sína, auk þess að veita honum mikil völd. Einnig blandast sjóræningjar inní málið, en þeir reynast ekki allir þarsem þeir eru séðir. Bakgrunnur sögunnar er síðan dýpkaður með vísunum í ýmiskonar þjóðsagnir sem gera mikið til að auka á stemninguna í bókinni, sem er bæði spennandi og skemmtileg. Hér takast á raunsæisleg temu eins og þrælahaldið í námunum og yfirnáttúruleg öfl, og þó vissuleg hefði mátt gera þátt raunsæisins sterkari og þéttari, til dæmis með því að fylla betur útí tíðarandalýsingar, þá bætir Taylor það upp með greinargóðum lýsingum á staðarháttum, og svo því ævintýralega andrúmslofti sem hann skapar með vísunum í þjóðsagnir. Vissulega er ákveðinn kristniblær á sögunni - maðurinn er jú prestur - með tilheyrandi hreinni andstæðu góðs og ills, sem á stundum verður dálítið þreytandi. Á hinn bóginn er það virðingarvert framtak að staðsetja hinn góða kristna anda í Afríku, og gera evrópskan prest að höfuðillmenninu. Skuggahirðir mun vera fyrsta bókin í seríu.

Ríki gullna drekans (Mál og menning, 2006) eftir Isabel Allende er eins ólík Skuggahirðinum og hugsast getur. Saga Allende gerist í nútímanum og er sjálfstætt framhald bókarinnar Á slóð skepnunnar. Við hittum hér fyrir sömu söguhetjur, Alex og Nadíu, sem nú ferðast með ömmu Alexanders, Kate, til lítils ríkis í Asíu, en þar hefur nútímans lítt orðið vart. Ríki gullna drekans dregur nafn sitt af gullnum dreka sem er sérlegur ráðgjafi konungs í erfiðum málum, en að öðru leyti stjórnast ríki þetta af heimspeki búddismans. En það eru fleiri sem ágirnast þennan grip, næstríkasti maður heims þráir að verða sá ríkasti og álítur að drekinn muni redda því og hann sendir flugumenn sína á staðinn. Að sjálfsögðu lenda Alex og Nadía síðan í ævintýrum og hremmingum, tengdum þessu drekaráni. Sem fyrr fetar Allende fimlega línu milli raunsæis og fantasíu. Sagan er í raun raunsæissaga, en yfir henni er mikill ævintýrablær, svona ekki ólíkt því sem kallað hefur verið ''töfraraunsæi'' og ýmis ótrúleg ævintýri eiga sér stað, oft með yfirnáttúrulegum undirtónum. Sagan, líkt og í Á slóð skepnunnar, er bæði skemmtileg og fróðleg, þó mér finnist Allende á stundum of upptekin af fróðleiknum, og hún hefur það framyfir Skuggahirðinn að vera bráðfyndin á köflum, en hér er greinilega leikið með íróníska undirtóna, eins og sést best á hugmyndinni um sáran og öfundsjúkan ''næstríkasta'' mann í heimi.

Báðar líða þessar bækur þó nokkuð fyrir óþarflega hroðvirknislegar þýðingar, sem hefði auðveldlega mátt lagfæra með góðum yfirlestri. Þetta er synd, því sögur eins og þessar eru hreinlega háðar því að renna hratt og ljúflega niður, lesandi þarf að geta lifað sig inní ævintýrin án þess að reka í vörðurnar og vakna til óþarflega mikillar vitundar um stíl og tungutak. Þetta vandamál verður enn meira áberandi í samanburði við hinar tvær ævintýrabækurnar sem hér eru til umfjöllunar, Galdrastelpuna (Uppheimar, 2006) og Sólvæng (Græna húsið, 2006), en þar er ekkert sem truflar innlifunina - nema kannski helst hvað margar þýðingalausnirnar eru góðar!

Galdrastelpan eftir breska höfundinn Celiu Rees er á yfirborðinu raunsæislegasta sagan af þessum fjórum. Hún gerist á sautjándu öld, sem oft hefur verið nefnd galdraöldin, og lýsir ferð ungrar munaðarlausrar stúlku, Maríu, til Ameríku. Stúlkan er alin upp á Englandi en neyðist til að flýja heimili sitt þegar fóstra hennar er sökuð um að vera norn og tekin af lífi. María slæst í hóp með öðru flóttafólki, púrítönum, sem einnig þurfa að þola ofsóknir, en fljótlega kemur í ljós að hún á illa heima meðal þeirra, hún er nefnilega norn sjálf. Hluti sögunnar gerist á skipinu og hluti í nýja landinu, en þar kynnist María innfæddum dreng og kemst í tengsl við töframátt hinna innfæddu. Inní þessa sögu af galdrastelpunni fléttast því bæði ferðasaga og einskonar landnemasaga og er þetta sérlega fimlega gert. Ekki síður heillaði mig ramminn, en fremst í bókinni er því lýst hvernig handritið að sögu Maríu, sem er í raun dagbók hennar, hafi fundist inni í bútasaumsteppi. Sögur sem þessar af fundnum handritum og dagbókum hafa sérlega skemmtilegan ævintýrablæ yfir sér, og ég persónulega finn mig alltaf knúna til að trúa ofurlítið á þetta, bara af því það væri svo gaman ef slík handrit raunverulega fyndust. Galdrastelpan er áhrifamesta bókin af þessum fjórum, þó stíllinn sé knappur og ævintýrið fremur agað þá er sagan svo sterk að atburðir hennar standa ljóslifandi fyrir hugskotsjónum lengi eftir að lestri líkur.

Hafandi sagt að Galdrastelpan sé áhrifaríkust, þá verður að játast að mér fannst Sólvængur Kenneth Oppels skemmtilegastur. Sagan er framhald Silfurvængs sem kom út í fyrra og segir frá litlu leðurblökunni Skugga sem er afskaplega forvitinn og ævintýragjarn og tekst með uppátækjum sínum að æsa til allskyns atburða. Sólvængur er að mörgu leyti dramatískari og alvarlegri en Silfurvængur, atburðarásin er enn æsingslegri eins og vera ber í framhaldsbókum, en auk þess tekur höfundur hlut Mannanna hér sterkari tökum. Í fyrri bókinni trúa margar leðurblakanna því að mennirnir séu þeim vinveittir en í ljós kemur hér að svo er ekki, því mennirnir eru að nýta sér leðurblökurnar í stríði. Það stríð speglar svo annað stríð, aldagamalt hatur milli leðurblaka og uglna. Á þennan hátt tekst höfundur á við alvarleg málefni og færir í form fantasíunnar, með því að notast við elsta trikkið í bókinni, dýr sem persónur. Og það er engin tilviljun að þetta trikk hefur lifað, það er bæði áhrifamikið og skemmtilegt og Oppel nær akkúrat að fanga milliveg húmors og alvarlegra vangaveltna, samhliða því að halda áfram að fræða lesanda um heim leðurblakanna. Enn á ný fékk ég að upplifa hvernig minn smái loðni kroppur svífur á þunnum leðurvængjum meðan ég skynja heiminn í samspili hljóða og mynda, því næmni höfundar er svo mikil að það er ekki annað hægt en að lifa sig gersamlega inní söguna. Stíllinn er iðandi af lífi og gæddur fjölmörgum smáatriðum sem auka á skemmtigildið og þannig verður þetta litla hógværa ævintýri um litlu þrjósku leðurblökuna að hreinum gleðigjafa.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2006