Beint í efni

Freyja Dís, Knúsbókin og Skrímslakisi

Freyja Dís, Knúsbókin og Skrímslakisi
Höfundar
Áslaug Jónsdóttir,
 Rakel Helmsdal,
 Kalle Güettler
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Barnabækur
Freyja Dís, Knúsbókin og Skrímslakisi
Höfundur
Birgitta Sif
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Barnabækur
Freyja Dís, Knúsbókin og Skrímslakisi
Höfundar
Jóna Valborg Árnadóttir,
 Elsa Nielsen
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Myndabækur ætlaðar yngstu lesendunum þurfa bæði að hafa áhugaverðan söguþráð og myndskreytingar sem grípa ekki bara augað heldur líka hugann. Samspil mynda og texta mynda heild sem er lesin saman og oft færa sögurnar lesendum boðskap. Þegar vel tekst til fær ímyndunarafl lesandans þannig að njóta sín út frá söguþræði og myndskreytingum á sama tíma og hann lærir sitthvað um lífið og tilveruna. Myndabækurnar Freyja Dís sem vildi BARA dansa og dansa, Knúsbókin og Skrímslakisi eru mjög ólíkar bækur þar sem vel tekst til bæði við að virkja ímyndunarafl lesandans og vekja áhuga hans.

Freyja Dís sem vildi BARA dansa og dansa eftir Birgittu Sif kom fyrst út á ensku undir titlinum Frances Dean Who Loved to Dance and Dance. Eins og titillinn gefur til kynna fjallar bókin um Freyju Dís sem vill helst bara dansa. Hún nýtir hvert tækifæri til þess og þegar hún er ekki að dansa þá lætur hún sig dreyma um það. En Freyja Dís er óörugg og vill ekki að aðrir sjái hana þegar hún dansar. Það veldur henni áhyggjum og vanlíðan að geta ekki dansað óhikað en þegar hún hittir litla stelpu sem syngur ófeimin fyrir framan alla ákveður hún að taka á sig rögg og gera eitthvað í málunum. Hún æfir sig vel og safnar kjarki þangað til hún þorir að dansa fyrir framan alla.

Sagan af Freyju Dís fjallar um að þora að njóta lífsins og að vera maður sjálfur, að gera það sem mann langar helst af öllu að gera og að ögra sjálfum sér. Myndirnar í bókinni sýna Freyju Dís dansa úti, þar sem hún er frjáls; hún talar við fugla og dýr og samband hennar við umhverfi sitt er einstakt og einlægt. Myndskreytingarnar í bókinni eru í djúpum fallegum litum og skapa heillandi, alltumlykjandi heim sem auðvelt er að detta inn í. Lesandinn getur sökkt sér í smáatriði, litríka fugla, alls konar fólk og áhugavert umhverfi. Myndirnar gefa söguþræðinum aukna dýpt og má til dæmis glögglega má sjá á þeim hvernig Freyja Dís fer frá því að vera hikandi og óörugg og yfir í að öðlast sjálfstraustið sem þarf til að dansa fyrir framan alla án þess að vera feimin eða áhyggjufull.

Knúsbókin eftir Jónu Valborgu Árnadóttur og Elsu Nielsen fjallar einnig um litla stelpu en nú eru það samskipti og forgangsröðun sem eru til umfjöllunar. Mamma Sólu er alltaf að flýta sér og Sólu finnst leiðinlegt hvað hún hefur lítinn tíma fyrir hana. Dag einn fær Sóla að heimsækja ömmu sína sem er flutt langt burt, ferðin tekur langan tíma en þegar þangað er komið hefur mamma Sólu varla tíma til að kveðja áður en hún brunar aftur heim. Sóla heyrir furðuleg hljóð berast úr garðinum hennar ömmu og þegar hún fer og kannar málið finnur hún ekki bara ömmu heldur heilan hóp af mjúkum og fallegum dýrum. Hún knúsar alla sem hún sér og allir vilja knúsa hana. Sóla gistir hjá ömmu sinni og þær skemmta sér saman og knúsast mikið. Þegar heim er komið er mamma Sólu enn á stöðugum þönum en þegar Sóla segir henni frá heimsókninni áttar hún sig á því að stundum er gott að staldra við og njóta þess að vera saman.

Sagan af Sólu er hugljúf en hún er líka afar umhugsunarverð. Mamma Sólu sem er á stöðugum þönum og gefur sér ekki tíma til að njóta samverustunda með fjölskyldunni. Sóla knúsar ömmu sína og öll dýrin og faðmlögin eru áminning um að sýna þeim sem eru í kringum okkur væntumþykju og umhyggju, að gleyma okkur ekki í asanum sem einkennir hversdagsleikan. Sagan er myndskreytt með teikningum, útklipptum myndum og mynstrum og er því öllu blandað saman á hugmyndaríkan hátt. Hárið á mömmu Sólu er til dæmis klippt út úr ljósmynd af hári og sömuleiðis er ísinn sem Sóla borðar útklippt mynd af ís. Efnisbútar, prjónles og fleira er klippt til og fær nýtt hlutverk sem himinn eða trjákrónur þannig úr verða einstaklega lifandi myndir.

Skrímslakisi eftir Áslaugu Jónsdóttur, Kalle Güettler og Rakel Helmsdal er áttunda bókin um skrímslavinina litla skrímslið og stóra skrímslið. Bækurnar um skrímslin fjalla um vináttu skrímslanna tveggja, ýmis vandamál sem geta komið upp í samskiptum vina og hvernig er hægt að leysa þau. Í þetta sinn hefur litla skrímslið eignast kettling sem það hugsar mjög vel um en stóra skrímslið er svolítið sorgmætt því litla skrímslið hefur engan tíma til að leika við það og hugsar bara um kisa. Allir virðast eiga gæludýr nema stóra skrímslið og því finnst það vera afskipt og útundan. Þegar kisi hverfur óvænt hjálpar stóra skrímslið litla skrímslinu að leita en kisi virðist algerlega vera horfinn og litla skrímslið er mjög sorgmætt. Þegar kisi finnst að lokum heima hjá stóra skrímslinu er litla skrímslið svo fegið að finna hann að það verður ekki reitt heldur finnur aðra kisu sem stóra skrímslið getur haft sem gæludýr.

Samskipti geta verið vandasöm, sérstaklega þegar tveir vinir eru mjög ólíkir. Stóra skrímslið er óöruggt og því finnst eins og litla skrímslið hafi ekki tíma til að leika við sig; litla skrímslið er svolítið upptekið af sjálfu sér og gleymir alveg að hugsa um vin sinn. Skrímslakisinn sem kemur upp á milli þeirra verður til þess að skrímslin tvö læra meðal annars að taka tillit til annarra, að hjálpast að og hugsa vel um vini sína. Myndirnar eru líkt og í fyrri skrímslabókunum skemmtilegar og litríkar og má lesa töluvert meira úr þeim en kemur fram í textanum, bæði um persónuleika skrímslanna tveggja og um samskiptin þeirra á milli. Svipbrigði skrímslanna eru einstaklega lýsandi og auðvelt að fá samúð með þeim báðum í sögunni. Skrímslakisi er líka voðalega sætur þó hann sé með vígalegar tennur og ekki erfitt að sjá af hverju allir vilja hafa hann sem gæludýr.

María Bjarkadóttir, nóvember 2014