Kossar og ólífur (Vaka-Helgafell, 2007) er önnur unglingabók Jónínu Leósdóttur en sú fyrri, Sundur og saman, kom út fyrir fjórtán árum, 1993. Í Kossum og ólífum segir frá Önnu sem býr austur í Vík og er að ljúka 10. bekk. Hún á enskan föður og sumarið eftir 10. bekk fer hún til Englands að vinna hjá frænku sinni sem rekur gistiheimili í Brighton. Í upphafi finnst Önnu eins og foreldrar hennar séu að senda hana í útlegð, sérstaklega til að skilja hana frá kærastanum sem hún er nýbyrjuð með og mjög upptekin af.
Í Brighton kynnist Anna hins vegar nýju fóki, meðal annars lesbíunni Moiru, sambýliskonu hennar og vinum en einnig Lindu, stúlku frá Southampton sem hún hafði áður kynnst í gegnum spjall á netinu, en hittir nú í eigin persónu. Linda glímir við þunglyndi og anorexíu eftir erfiðan skilnað foreldra sinna. Þessir nýju vinir verða til þess að Anna þarf að horfast í augu við eigin fordóma og vinna bug á þeim. Hún kyssir stelpu og fer að efast tilfinningar sínar og kynhneigð. Í sumarlok snýr hún heim aftur og hefur þá ýmislegt lært, enda samfélagið í Brighton ólíkt því sem hún hafði áður þekkt.
Uppbygging sögunnar er klassísk og vel þekkt í bókum fyrir börn og unglinga. Sögupersónan fer að heiman í upphafi en kemur í sögulok til baka, þroskaðri og reynslunni ríkari. Þetta er vel skrifuð bók sem veitir innsýn í líf lifandi og skemmtilegra persóna jafnframt því sem að lesendur fræðast um borgina Brighton og nánasta umhverfi hennar.
Strákarnir með strípurnar (Sögur, 2007) er fyrsta bók mæðgnanna Ingibjargar Reynisdóttur og Lovísu Rósar Þórðardóttur. Þar segir frá Gabríel sem er í 10. bekk grunnskóla og vinum hans. Sagan er fyrstu persónu frásögn Gabríels og lesendur kynnast vinum hans og umhverfi jafnóðum og hann segir frá. Strax í upphafi kynnir Gabríel sig sem strákinn sem á fleiri vinkonur en vini og segir lesendum frá því að einhverra hluta vegna velji stelpur hann alltaf sem trúnaðarvin. Hann gefur þannig tóninn fyrir það sem á eftir kemur, en Gabríel hefur átt í ástarævintýri með öðrum strák, sumarið áður. Sagan er sögð á einlægan hátt á tungumáli sem unglingar tala, með öllum þeim slettum og slangi sem því fylgir. Í því liggur líka veikleiki hennar því slíkar sögur eru oft forgengilegar, fátt er jafn hallærislegt og unglingaslettur fyrri ára.
Báðar þessar bækur fjalla um svipað efni, 16 ára unglinga sem eru að átta sig á sjálfum sér, tilfinningum sínum og kynhneigð. Lesendur fá einnig innsýn í vandamál vina þeirra, en til dæmis eiga þau bæði vinkonu sem er með anorexíu. Báðar söguhetjurnar taka út ákveðinn þroska, önnur fer í ferðalag, hin neyðist til að rifja upp atburði liðins sumars og sætta sig við þá, og þar með sjálfa sig.
Það sem mér finnst ánægjulegt við þessar bækur er að þarna eru það aðalpersónurnar sjálfar sem eru að átta sig á því að þær eru samkynhneigðar, ekki vinirnir eða kunningjarnir. Sögurnar eru sagðar út frá sjónarhornum þessara krakka og lesendur ganga í gegnum erfiðleikana með þeim en horfa ekki á þá utnafrá með augum aðalhetjunnar, eins og algengara er.
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir, desember 2007