“Ég man ekki eitthvað um napalm, afbrigði bensínsprengju sem var notað í stríðinu gegn kommúnismanum í Víetnam til að hindra að HRYÐUVERKAMENN nei KOMMÚNISTAR hreiðruðu um sig alls staðar (varúð varúð, allir hræddir núna :)).” (31)
Svohljóðandi er fyrirsögnin á sjötta kafla bókarinnar Litli kall strikes again eftir Steinar Braga Guðmundsson. Þó er bókin ekki merkt honum, heldur Tinnu Timian, sem einnig er kölluð (kallaður?) Tinni Tímgun. Þessi tvöföldun nafnsins með tilheyrandi kynjaruglingi fellur vel að stíl bókarinnar sem vísar til bloggs (eins og ljóst má vera), en bókin er byggð upp sem röð bloggfærslna sem lýsa ferðum bloggarans. En það er ekki bara kynið sem er óljóst því annað einkenni textans eru mótsagnir:
“Einn meðlimur Íslands, látum nafnið liggja milli hluta ;), er víst að skrifa um það að Arabía samanstandi af sveimhugum og árásargjörnum uppskafningum. Mér finnst þetta stór fullyrðing hjá honum, sérstaklega þar sem hann rökstyður hana ekki. En kemur kannski ekki á óvart þar sem Arabar þrá bara eitt og það er að drepa og komast í fjölmiðla.” (9)
Mótsagnir af þessu tagi - fyrst gagnrýni á óábyrg og órökstudd ummæli sem síðan eru tekin upp af bloggaranum - gera það að verkum að sá pólitíski tónn sem einkennir allan textann verður mun sterkari en ef um einfaldari sýn hefði verið að ræða. Með þversögnum og mótsagnakenndum röddum skapast sterk spenna í textanum sem hefur ríkan og áhrifamikinn pólitískan slagkraft, án þess að hverfast nokkru sinni yfir í áróður. Hér kemur bloggformið Steinari að góðum notum en það einkennist af hröðum persónulegum texta sem oftar en ekki er hlaðinn slettum, upphrópunum og greinarmerkja-táknmyndum. Hraðinn sem er innbyggður í bloggtexta býður svo auðveldlega uppá mótsagnir af þessu tagi, bloggarinn massar hugsanir sínar næsta óhugsaðar inná netið, yfirlestur eða yfirlega á þar ekki heima heldur ráða tilfinningar og skynhrif ríkjum. Svo er allavega mýtan um bloggið, en auðvitað er þetta ekki endilega svo og hinn hreini hugarflæðis stíll oftar en ekki tilbúinn, samfara tiltekinni persónusköpun, og því miður getur þetta allt orðið voða tilgerðarlegt og leiðinlegt. Ekki þó í höndum Steinars Braga sem enn á ný sannar að hann hefur alla burði til að verða meiriháttar rithöfundur. Hann hefur fullt vald á þessu vandasama verkefni, að skapa ferskan skáldskap úr þeim nýja textaheimi sem netvæðingin hefur opnað fyrir og nýtir sér möguleika þessa forms á kraftmikinn og krefjandi hátt. Að auki er bókin bráðskemmtileg!!! :)
Bók Steinars Braga er ein af fimm nýjum bókum sem grasrótarforlagið Nýhil sendi frá sér nú í vor, en þessi syrpa kemur í kjölfar fjögurra bóka í bókaflokknum Norrænar bókmenntir. Fyrri hlutinn var gefinn út fyrir jólin og um þær fjallaði Ingi Björn Guðnason hér á bókmenntavefnum. Uppskeran að þessu sinni er þó mun ríkulegri en frá fyrra hollinu, en að mínu mati náði bók Örvars Þóreyjarsonar Smárasonar þar ein máli. Af þessum fimm er hinsvegar aðeins ein sem ekki getur talist vel heppnuð, en það er bók Ófeigs Sigurðssonar, Roði. Eitt einkenni þessara ljóðabóka er að þær hafa allar yfir sér ákveðið heildaryfirbragð sem virðist mjög móðins, en er hinsvegar nokkuð vandasamt viðfangs. Ófeigur og Þórdís Björnsdóttir, sem eru með hvað hefðbundnustu ljóðabækurnar, bjóða bæði uppá metnaðarfulla ljóðabálka, sem hvorugur nær þó raunverulegu flugi. Ofhlaðinn texti Ófeigs um horguðinn líður fyrir tilgerð, þrátt fyrir að inn á milli leynist áhugaverðar myndir, og öllu látlausari stíll Þórdísar í bókinni Og svo kom nóttin verður of ógagnsær á stundum, en þessi ljóðabálkur hennar um mannfuglinn nýtur hinsvegar þess að vera afar skemmtilega myndlýstur sem gerir gæfumuninn. Eins og í fyrri bók hennar einkennist myndmálið af ferskleika, t.d. í erindi 20 þar sem ljóðmælandi yfirgefur fallegt land: “sný aftur inní / niðdimma nóttina / og skelli í lás”. Einfaldar myndir af þessu tagi gera sig best og af þeim er nóg.
Eins og áður sagði eru bækur þeirra Ófeigs og Þórdísar hvað hefðbundnastar í formi, en þó bókasyrpan Norrænar bókmenntir flokkist undir ljóð, þá leggja höfundar töluvert á sig til að teygja það form og toga. Í pistlum sínum um bókaflokkinn, sem fluttir voru í Víðsjá í sumar, tengir Benedikt Hjartarson bókmenntafræðingur bækurnar við framúrstefnu og ræðir útfrá nýbreytni og endurvinnslu. Niðurstaða hans er sú að þrátt fyrir að fátt sé endilega spánnýtt í þessum bókum þá þýði það ekki endilega að allt þeirra starf sé dautt og ómerkt, því í endurvinnslunni felist sköpunarkraftur.
Þó ég hafi ekki fundið nægilega mikinn sköpunarkraft í fyrri syrpunni, eins og áður sagði, þá er ljóst að með þessari fimm bóka útgáfu hafa orðið nokkur bókmenntaleg tíðindi. Eins og áður sagði er bók Steinars Braga sérlega áhugavert verk og Þórdís Björnsdóttir sýnir að í henni búa miklir möguleikar. En hvorugt kom svosem á óvart, ég er góðu vön frá þessu fólki. Hinsvegar kom Eðalog: Drög að vísindaljóðlist 21. aldar eftir Val Brynjar Antonsson mér ánægjulega á óvart, því ég hafði áður gert ítrekaðar tilraunir til að lesa bók hans Ofurmennisþrá, án árangurs. Konsept Vals Brynjars höfðar kannski sérlega til vísindaskáldskapar-nörda eins og mín, en í einskonar inngangi að bókinni lýsir hann framtíðarsamfélagi þarsem jörðin er orðin næsta óbyggileg og tölvur eða netið virðist hafa öðlast sjálfstætt líf. Jarðarbúar flykkjast til annarra stjarna á loftbelgjum fullum af eðalgösum. Bókin er síðan uppbyggð á prósum sem bera nöfn gastegunda og er ekkert sérstaklega vísindaskáldskaparleg eftir þetta, þó vissulega bregði slíku fyrir eins og í “Argon”, en þar reynir ljóðmælandi “að festa ankeri í snjóinn og kveikja í seglum, allt til að hægja ferðina; geimurinn var fjallið, höfuð mitt Satúrnus og hárið hringirnir.” Myndmálið er almennt hressilegt og smart og bókin í heild vel heppnuð með nokkuð skemmtilegum leik með uppsetningu þarsem stakar línur úr textunum eru teknar út og þeim aðeins breytt á síðum milli prósanna.
Kristín Eiríksdóttir á minnsta kverið af þessum fimm en bætir það sem hana vantar í magni upp með gæðum, en að þeim Steinari Braga og Vali Brynjari ólöstuðum þá skarar hennar bók framúr. Húðlit auðnin er röð samtengdra prósa líkt og birtust í Kjötbænum, fyrstu bók Kristínar sem kom út árið 2004. Áhrif súrrealismans eru jafnvel enn meira áberandi hér, en í bókinni er sögð einskonar saga af konu sem virðist búa í stóru húsi fjarri mannabyggðum. Allavega þarf maðurinn hennar að ferðast með þyrlu til og frá húsinu, en þó virðist súpermarkaðurinn ekki svo fjarri - en það er kannski bara blákaldur veruleiki að súpermarkaður sé aldrei fjarri. Ýmis minni birtast, húsið er kallað höll og íbúarnir bera húðlitar kórónur. Í kjölfar þessa ævintýrayfirbragðs kemur snertur af spennusögu þegar ljóðmælandi dregur upp “mjög nákvæma innbrotsáætlun fyrir demantsþjóf”. Hrollvekjan er einnig nærri og sömuleiðis er nóg af erótík. Draumkennt yfirbragð og síendurtekin stef skapa sterka nærveru. Eitt þessara stefja er hiti og eldur, en húsið eða höllin virðist staðsett í eyðimörk:
“Við sitjum á plaststólum með sinn hvorn kokteilinn og horfum á höllina skreytta með eldi. Á himninum skín sólin skær í miðjunni. Niður líkama þinn lekur efsta lag húðarinnar og svo lag fyrir lag. Þú ert að bráðna. Á endanum er ekkert eftir nema beinhvít undirstaða þín, þá sting ég fingrum mínum á milli gagnaugabeinanna og þukla innviði höfuðs þíns. Finn agnarsmáan holdsveikan indjána sem ég sleppi lausum.” (25)
Við fyrstu sýn mætti ætla að höllin væri að brenna, en svo er ekki því hún er enn standandi tveimur síðum síðar. Sömuleiðis er bráðnunin ekki varanleg, en á næstu síðu fer maðurinn með konuna í súpermarkaðinn. Hann setur á hana hálsól og hún getur ekki stillt sig um að spangóla. Þannig birtist líkamleg sundrung stöðugt sem tilfallandi og afturkræf. Það er eitthvað sérlega heillandi við þessa prósaröð Kristínar, hún skapar í knöppu máli heilan heim sem lesandi sogast auðveldlega inní og gleymir ekki.
Kristín á einnig þátt í vel heppnuðu útliti bókaflokksins en hún gerir kápumyndir í félagi við Örvar Þóreyjarson Smárason. Bók hennar er þó ekki að öðru leyti myndskreytt. Hinsvegar leika myndir mikilvægt hlutverk í bókum Þórdísar, eins og áður sagði, og ljósmyndir, og ekki síst myndatextar, bæta miklu við blogg-stíl Steinars Braga. Uppsetning er mikilvægur þáttur í vísindaljóðum Vals Brynjars Antonssonar og í heildina séð má því segja að hér sé ekki síður lögð áhersla á ytra byrði verkanna. Þetta er vel heppnað og gerir mikið til að gefa bókunum ferskt yfirbragð og gera þær forvitnilegar og áhugaverðar aflestrar.
Úlfhildur Dagsdóttir, ágúst 2006