Beint í efni

Opnun kryppunnar og Mynd af ósýnilegum manni

Opnun kryppunnar og Mynd af ósýnilegum manni
Höfundur
Oddný Eir Ævarsdóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Skáldsögur
Opnun kryppunnar og Mynd af ósýnilegum manni
Höfundur
Paul Auster
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Þessi pistill átti upphaflega að heita "Dúkkuheimili", því mér eru minnistæðastar tvær senur úr þessum tveimur sjálfsævisögulegu bókum, sem báðar komu út í bókaflokknum "Svarta línan" hjá Bjarti. Annarsvegar lýsingin á húsi föður Austers, sem er komið í algera niðurníðslu eftir að kallinn hefur búið þar einn í áratugi, og virkaði á mig einsog dúkkuhús sem finnst uppi á háalofti.

Hinsvegar sé ég greinilega fyrir mér herbergi Oddnýjar Eir í París, fullt af strengjabrúðum. Þegar nánar var að gáð, sá ég að ég gat ekki notað þennan titil, því þessi tvö dúkkuheimili eru bara til í mínu hugskoti, en ekki í bókunum. Missýn af þessu tagi er auðvitað algeng, jafnt hjá gagnrýnendum sem lesendum, um leið og við lesum búum við okkur mynd af því sem lýst er, og oftar en ekki er sú mynd allólík þeirri sem dregin er upp, því orð og hlutir leiða okkur afvega, kalla fram mismunandi hugrenningatengsl hjá ólíkum lesendum. (Þannig var ég lengi að átta mig á að Oddný var að tala um kryppur, en ekki krybbur og þurfti töluvert átak til að hætta að sjá fyrir mér uppáhalds-disney-skordýrið mitt, lukku-krybbuna í Mulan.) Slíkt hugrenningaflæði er einmitt sá frásagnarháttur sem Oddný notar í sjálfsævisögulegum skrifum sínum, sem fjalla um hana sjálfa, sjálfsmynd(un) hennar og átök við orðin og skrifin. Orð eða minningar leiða til óvæntra tengsla og útúrdúra og áður en veit er lesandi búin að tapa þræði: hvar var ég og hvar er ég? Þannig flakkar Oddný fram og til baka í tíma og rúmi, er ýmist heima á Íslandi, sannfærð um að hún sé íslenskur bóndadrengur, eða hér og þar í Evrópu að velta sér upp úr brúðuleikhúsum, heimspeki og svo auðvitað alltaf orðum. Minningar streyma fram og myndlíkingar kippa lesenda milli heima, eða gefa honum eitt andartak innsýn inn í fjölbreyttan reynslu og hugarheim höfunar.

Þetta gerir bókina ekkert endilega mjög auðvelda aflestrar, eða allavega fann ég að stundum var ég orðin svo ringluð (sjálfsagt bara af eigin sjálfskaparvíti, þörfinni fyrir að geta fylgt hverri einustu lykkju eftir í stað þess að bara sveiflast með) að ég varð að leggja bókina til hliðar. Annað sem truflaði mig var hin stöðuga nærvera Gosa, sem einskonar annars sjálfs höfundar, en á stundum fannst mér hann vera of ágengur og bara ekki nógu skemmtilegur karakter! Það skemmtilega við þennan texta fannst mér hinsvegar vera inngrip fantasíunnar í heim sem í huga flestra er raunsæisheimur – heimur æviskrifa fjallar um raunverulegt fólk og dregur fram raunsanna mynd af sögu og tíma – og þar kemur Gosi einmitt inn aftur, á skemmtilegan hátt, með öllum sínum leikbrúðutengingum. Ég hef aldrei verið mikið gefin fyrir ævisöguleg skrif, það játa ég fúslega hér og nú, en hinsvegar finnast mér skrif af þessu tagi, sem teygja og toga mörkin milli skáldsögunnar og hins 'hefðbundna' heims ævisögunnar afskaplega skemmtileg. Í yfirlitsgrein um slík verk, sem út komu á Íslandi í fyrra og á þessu ári, ræðir Gunnþórunn Guðmundsdóttir álíka útgáfu erlendis, en verk af þessu tagi hafa sett mark sitt á evrópskar og bandarískar bókmenntir á undanförnum áratugum. Gunnþórunn tengir þetta sérstaklega hugmyndum um sjálfið eða sjálfsveruna og mótun hennar og í annari grein um æviskrif bendir hún á hvernig mörg þessara verka eru skrifuð af rithöfundum, sem nota þau til einskonar sjálfskönnunar – eða kannski frekar til að skapa sér sjálfsmynd, móta sjálfsverund sína sem rithöfundar. Þetta er greinilega það sem er að gerast í bók Oddnýjar.

Einn af þeim erlendu höfundum sem hafa stundað skrif á þessum mörkum er Paul Auster, en í bók sem nefnist Mynd af ósýnilegum manni segir hann sögu föður síns. Enn er það rithöfundarsjálfið sem er til umræðu, en þó á mun hæglátari hátt en hjá Oddnýju. Auster veltir fyrir sér hversu ólíkur hann er föðurnum og hversu fjarri hann stendur heimsmynd föðurins í lífsstíl og ævistarfi. Allt hefst þetta á því að faðirinn deyr og Auster þarf að ganga frá heimili hans (rykuga dúkkuhúsinu) á örfáum dögum. Þetta kallar á mikið minningaflæði og vangaveltur um líf og heim föðurins, sem í lýsingu Auster er maður sem er í raun fjarverandi í eigin lífi. Minningar um föðurinn reka svo Auster til að rifja upp söguna af foreldrum sínum, en hún er allsérstök. Stíll Austers er gerólíkur Oddnýjar, hreinni og beinni og það tímaflakk sem er óhjákvæmilegur hluti slíkra 'minningabóka' er mun hefðbundnara. Hér sjáum við mun raunsærri hlið á sjálfsævisögulegum skrifum, án þess þó að um sé að ræða 'hefðbundin' æviskrif, því hér er ljóslega verið að færa ævisögulegt efni í skáldskaparform – eða beita stílbrögðum skáldskapar á sjálfsævisöguleg skrif, enda fjallar Auster einnig um þá upplifun að skrifa þessa sögu. Hinn einfaldi stíll virkar þannig að lesandi sogast inn í þennan heim minninga og upplifana, söknuðar og sorgar og saknar þess helst að fá ekki meira – því undir lok bókarinnar segir höfundur ítrekað að honum finnist hann rétt vera að byrja að skrifa. Samkvæmt grein fyrrnefndrar Gunnþórunnar um bók Austers er þetta aðeins fyrri bókin af tveimur, svo það er ljóst að Auster hefur haldið áfram. Við verðum bara að bíða og vona að hinni bókinni skoli líka upp í íslenska fjöru.

Úlfhildur Dagsdóttir, september 2004

Greinar Gunnþórunnar Guðmundsdóttur birtust í Lesbók Morgunblaðsins 7. ágúst 2004 og 24. apríl 2004, og í Skírni, vor 2003.