Beint í efni

Skrímsli, sandkökur og samvera

Skrímsli, sandkökur og samvera
Höfundur
Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir
Útgefandi
Salka
Staður
Reykjavík
Ár
2024
Flokkur
Barnabækur
Skrímsli, sandkökur og samvera
Höfundar
Áslaug Jónsdóttir,
 Rakel Helmsdal,
 Kalle Güettler
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2024
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Kristín Lilja

Boðskapur er órjúfanlegur hluti af barnabókmenntum en til þess að skila honum á áhrifaríkan hátt þarf sagan að vera lifandi, skemmtileg og aðgengileg – annars hrífur sagan lesandann ekki og boðskapurinn fer fyrir ofan garð og neðan. Hér verður fjallað um tvær nýútkomnar barnabækur, Skrímslaveislu og Mömmu sandköku. Í báðum bókunum tekst höfundunum einstaklega vel að flétta saman frásagnargleði, hugmyndaauðgi og alvarlegri skilaboð í bæði texta og myndum. Lesendur fá að skyggnast inn í heima þar sem börn og skrímsli takast á við áskoranir tengdar vináttu, fjölskyldutengslum, samveru og afskiptaleysi.

Veisla fyrir alla – ekki bara útvalda

Skrímslaveisla er ellefta bókin í bókaflokknum um litla, stóra og loðna skrímslið eftir Áslaugu Jónsdóttur, Kalle Güettler og Rakel Helmsdal. Eins og áður skrifa höfundarnir söguna í sameiningu en Áslaug sér um myndskreytingarnar. Í bókaflokkinum hafa skrímslin skipst á að leika sögumanninn og að þessu sinni segir stóra skrímslið söguna.

Í sögunni ákveður litla skrímslið að skipuleggja veislu. Loðna skrímslið og stóra skrímslið verða spennt fyrir veislunni, en litla skrímslið er ráðríkt og vill aðeins bjóða merkilegum og frægum heiðursgestum. Það lítur ekki á loðna skrímslið og stóra skrímslið sem slíka gesti en leyfir þeim engu að síður að aðstoða á mjög ráðríkan hátt.

Sagan fylgir þekktri uppbyggingu bókaflokksins, þar sem textinn byggir á endurtekningum með örlitlum tilbrigðum. Þetta stílbragð skapar skemmtilega hrynjandi og eykur áhuga lesenda. Í sögunni eru einnig upptalningar á ýmsum orðum í ákveðnum þemum sem stuðla að orðaforðauppbyggingu ungra lesenda.

Við söxum og skerum,
hýðum og hökkum,
myljum og steytum,
hrærum og þeytum,
kryddum og steikjum,
sjóðum og bökum.

Myndir Áslaugar eru, líkt og í fyrri bókum, teiknaðar í afar litríkum stíl og skapa glaðlega og líflega umgjörð utan um söguna.  Mín uppáhalds opna var þar sem við fáum að sjá allar þær kræsingar sem lagðar eru á borð fyrir veisluna. Myndirnar lyfta söguþræðinum upp og bókin er sjónrænt heillandi.

Þrátt fyrir alla undirbúningsvinnuna mæta heiðursgestirnir ekki, mögulega vegna þess að það gleymdist að bjóða þeim. Litla skrímslið verður vonsvikið, en skrímslin ákveða að bjóða öllum í veisluna í staðinn. Þetta leiðir til stórskemmtilegrar niðurstöðu þar sem boðskapurinn er sá að gleði og samvera með vinum er mikilvægari en frægð og merkilegheit.

Í Skrímslaveislu halda Áslaug, Kalle og Rakel áfram að töfra lesendur með sínum einstaka heimi og hlýlegum boðskap. Bókin er frábær viðbót í bókaflokkinn sem mun gleðja fjölmarga unga lesendur.

Foreldrabakaríið

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir hefur verið viðloðandi barnabókaútgáfu í fjölda ára, lengst af sem myndhöfundur, en fyrir nokkrum árum hóf hún að senda frá sér bækur þar sem hún gegnir bæði hlutverki rit- og myndhöfundar. Síðan þá hefur hún sent frá sér fjórar barnabækur, Grísafjörður (2020), Héragerði (2022), Mamma kaka (2022) og þá sem hér er til umfjöllunar, Mamma sandkaka.

Í Mömmu Sandköku birtast sömu persónur og í Mömmu köku en að þessu sinni er það Dalía sem segir söguna. Hún er stödd á Tenerife ásamt pabba sínum og Viggó er fyrir tilviljun líka þar í fríi með mömmu sinni. Foreldrar þeirra hafa engan tíma fyrir þau frekar en í fyrri bókinni. Pabbi Dalíu er svo uppgefinn að hann sefur bara á ströndinni saman hvað hún reynir að vekja hann og mamma Viggós situr föst við tölvuna, upptekin við að klára skattaskýrsluna. Krakkana langar í sundlaugagarð en þangað mega þau ekki fara nema í fylgd með fullorðnum. Þau bregða því á það ráð að búa sér til nýtt foreldri.

Þannig verður mamma sandkaka til. Líkt og mamma kaka var búin til úr alls kyns hráefnum í eldhúsinu hans Viggós er mamma sandkaka búin til úr því sem finna má á ströndinni. Meðal þess sem fer í mömmuna er vatn, hörpudiskar, sandur, rusl og „vaknipillur“. Uppátækið virðist ætla að heppnast fullkomlega þegar börnin komast inn í sundlaugagarðinn í fylgd mömmu sandköku en fljótlega fer allt í háaloft og foreldrar þeirra verða alveg bálreiðir þegar þau átta sig á því hvað börnin hafa verið að gera í fylgd með þessu tilbúna foreldri. En auðvitað eru það þau sjálf sem lesendur sjá ekkert í sérlega jákvæðu ljósi. Þau eru algjörlega afskiptalaus um börnin sín en verða svo hrikalega reið þegar börnin taka málin í sínar eigin hendur. Að lokum sættast allir og biðjast afsökunar og mamma sandkaka getur fengið frið til þess að leggja sig á hafsbotni. Skilaboðin eru því skýr – foreldrar dagsins í dag eru alltaf uppteknir og uppgefnir og börnin líða fyrir það.

Þennan boðskap setur Lóa þó í ákaflega skoplegan búning og eins og oft áður í  verkum hennar sýnir hún hvernig hún hefur einstakt lag á því að taka hversdagslega atburði og gera þá sprenghlægilega með hnyttnum og snörpum texta í samblandi við sínar auðþekkjanlegu myndir. Myndirnar spanna allar síðurnar og Lóa fléttar textanum inn í þær líkt og í myndasögu. Textinn er stuttur og hnitmiðaður, en þó fjölbreyttur og næstum hver einasta setning kitlar hláturtaugar lesenda, bæði barna og fullorðinna. Lóa fléttar inn mörgum orðum sem gætu verið framandi fyrir barnunga lesendur og aftast í bókinni er því að finna orðskýringar þar sem lesendur fá útskýringar á bæði spænskum, arabískum og skandinavískum orðum en einnig á íslenskum orðum eins og „skattaskýrsla“ og „jórturleður“.

Mamma sandkaka gefur Mömmu köku ekkert eftir og börnin mín vilja lesa sögurnar um þessar óvenjulegu mæður aftur og aftur. Vonandi bætir Lóa við þetta ört vaxandi foreldrabakarí því lesendur eru sólgnir í meira.              

Skrímslaveisla og Mamma sandkaka eru virkilega skemmtilegar viðbætur við fyrri verk höfunda þeirra um sömu persónur. Skrímslin minna lesendur á gildi vináttu, samvinnu og að það þarf enga heiðursgesti til þess að halda almennilega veislu. Krakkarnir í Mömmu sandköku sýna útsjónarsemi og redda sér þrátt fyrir afskiptaleysi foreldra sinna. Bækurnar eru báðar fullar af frásagnargleði, stórskemmtilegum myndum og frumlegum texta sem eflir orðaforða og kveikir forvitni hjá lesendum.
 

Kristín Lilja, desember 2024